Komin heim frá Córdoba; hreppti 2. verðlaun á alþjóðlegu vatnslitahátíðinni þar

Seinsta bloggið mitt fjallaði um alþjóðlegu vatnslitahátíðina sem ég var á leið á í Córdoba á Spáni. Hún var á vegum IWS - International Watercolor Society. Leit fyrst og fremst á hana sem sýningu og tækifæri til að kynnast öðru listafólki sem fæst við vatnslitamálun. Gaf því lítinn gaum að þetta var líka alþjóðleg vatnslitasamkeppni, enn síður átti ég von á að hreppa verlaun, en var í öðru sæti þegar upp var staðið. Mætti á verðlaunaafhendinguna af því ég mætti einfaldlega á alla viðburði sem ég komst á. Viðurkenni suð fyrir eyrum og hálfgert að hafa dottið úr sambandi þegar ég heyrði kynninn bögglast á litla, sæta, íslenska nafninu mínu og sá myndina mína og nafnið (óbrenglað en stytt) uppi á skjánum.

335419064_1434667080405999_1409831614014337760_n

 

Það var ekki um að villast, þetta var veruleiki. Þetta var mjög metnaðarfull hátíð og ég var búin að sjá gríðarlega sterk og góð verk þarna, en sýnendur voru 212 frá 42 löndum. Þannig að þetta kom mér einfaldlega alveg í opna skjöldu. Tókst þó að halda skammlausa þakkarræðu sem var jafnóðum þýdd á spönsku eins og allt efni hátíðarinnar, sem stóð í heila viku (hátíðin, ekki ræðan) og þar af með virkri og efnismikilli dagskrá síðustu fjóra dagana. Vönduð sýningarskrá var býsna þung í farangri á heimleiðinni en verður skoðuð í þaula og sýnir breidd og gæði sýningarinnar. Enginn efi á því að ég mun fjalla meira um þetta ævintýri á blogginu mínu, en mér finnst ég vera nýlent, kom heim í nótt um Madrid. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband