Færsluflokkur: Menning og listir
Vatnslitafélagið - árleg sýning og ævintýri
15.11.2024 | 15:16
Árleg sýning Vatnslitafélagsins er alltaf ákveðið ævintýri, bæði fyrir okkur sýnendurna og gestina. Sýningin, sem var opnuð í gær og stendur til 7. desember, er að margra mati sú besta sem félagið hefur haldið, eða svo var að heyra á gestunum í gær, og ekki bara af því þeir eru svona kurteisir. Alltaf spennandi að senda inn myndir, af 172 innsendum myndum komust 62 myndir eftir 45 manns gegnum síu dómnefndarinnar sem að vanda var skipuð góðum íslenskum og erlendum listamönnum. Þótt myndirnar séu gríðarlega fjölbreyttar eru yfirbragð sýningarinnar furðu heildstætt. Þemað í ár eru árstíðir og ég get aldrei varist því að hugsa til þess sem landamæravörður í Singapore sagði eitt sinn við mig: Iceland, do you have seasons there? Mogginn fjallaði myndarlega um sýninguna í gær á baksíðu. Þá umfjöllun (smellið á myndina til að fá hana skýrari) og smá svipmyndir af sýningunni og uppsetningu hennar set ég hér með þessum litla pistli.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook
Gallerý Grásteinn á Skólavörðustíg 4 setur skemmtilegan svip á bæinn. Skólavörðustígurinn er falleg gata og sem betur fer eru listagallerí enn áberandi hluti af götumyndinni og fallegasta húsið við götuna (að mínu mati) hýsir einmitt téð úrvalsgallerí, ennþá. Því miður virðist það vera að breytast og önnur starfsemi væntanleg í húsið. Góðu fréttirnar eru að galleríið heldur áfram í húsnæði skáhallt á móti núverandi húsnæði. Vondu fréttirnar eru að þar verður ekki sýningarsalur, eins og í núverandi húsnæði.
Eftir ófáar ferðir á sýningar í sal Grásteins og reglubundið snuðr í búðinni góðu var ég orðin nokkuð vel kunnug þessu listamannarekna galleríi. Var staðráðin í að fá einhvern tima að sýna í salnum góða á efri hæðinni, því fallegri sýningarsal gat ég ekki hugsað mér. Eins og ein gallerískvenna orðar það svo skemmtilega: ,,Salurinn tekur svo vel utan um sýningarnar." Af einhverri rælni hafði ég samband við forsvarsfólk gallerísins á vormánuðum og hafði þá í huga að tryggja mér salinn einhvern tíma á næsta ári, því yfirleitt líða svona 18 mánuðir milli sýninganna minna, þegar ég er á annað borð að sýna. Fann strax á loðnum svörum að áhöld voru um sýningarhald á næsta ári og þegar mér var boðið að fá septembermánuð fyrir sýninguna mína stökk ég strax á það og sé ekki eftir því. Snemmsumars voru enn viðræður um framhaldið en þeim lyktaði þannig að þessari öflugu listastarfsemi í húsinu lýkur senn. Og þar með langri sögu lista og menningar í húsinu. Mín sýning verður líklega sú næstseinasta í þessu húsi.
Myndirnar með þessari færslu eru frá sýnikennslu Íslandsvinarins Vicente Garcia fyrr í sumar, en galleríið er hans heimahöfn á Íslandi. Aðrar eru frá yfirstandandi sýningu minni í galleríinu og sýna vel hvað salurinn er fallegur, og svo ein af ytra byrði hússins.
Vissulega er ég glöð yfir því glópaláni að detta í hug að hafa samband einmitt á réttum tíma. Mér finnst samt afleitt að geta ekki haldið áfram að koma á góðar sýningar í þessu fína húsi, en óska auðvitað gallerísfólkinu allrar velgengni á nýja staðnum. Það er svo sannarlega ekki því að kenna að svona fór, því ekki stóð á því að teygja sig eftir þörfum til móts við kröfur leigusala. Sé sá orðrómur réttur, sem ég hef heyrt um hvað á að koma í staðinn í þetta hús, líst mér afleitlega á það. En tíminn mun leiða í ljós hvað er að gerast, en kannski ekki hvers vegna.
Hef ekki áhyggjur af því að götumyndin neðst á Skólavörðustíg breytist ýkja mikið, ef ný starfsemi fer að lögum varðandi friðun hússins, sem hér má skoða: https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/skolavordustigur-4 en hvað með sálina? Hún hefur sannarlega verið nærð með listum og listiðnaði sem hefur átt skjól í húsinu. En ekki meir, ekki meir.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook
Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!
16.11.2023 | 23:33
Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"
Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.
Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini.
Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook
Mér var nær að kalla sýninguna mína: Þekkt og ,,óþekkt"
4.11.2023 | 00:44
Þegar ég vakna í fyrramálið, laugardagsmorgun 4.11. 2023, nálægt hádegi, bruna ég á bókasafnið í Garðabæ til að festa örfáar óþekkar myndir. Þessar snælduvitlausustu, sem láta sér ekki nægja kennaratyggjó til að tryggja að þær verði ekki of hornskakkar á sýningunni minni. Sýningaropnun er alltaf spennandi, munu jarðskjálftar næturinnar ná að fella myndir af veggjum í nótt? Síga einhverjar hengjur niður eftir girninu og niður á gólf? Mér er það reyndar enn í fersku minni þegar fyrsta (og versta) jarðskjálftahrinan í okkar 200 ára Reykjaneseldum sem eru nýhafnir, hófst. Þá var nefnilega nýbúið að setja upp, í Hönnunarsafninu á Garðatorgi, gullfallega keramiksýningu sem spannaði upphaf og þróun keramiklistar. En þessi snillingar þar létu það ekki slá sig út af laginu. Leirnum var haganlega komið fyrir á beði í fallegum kössum.
En ég var að kvarta undan óþekku myndunum mínum, samt er eitt af þremur þemum hennar einmitt ÓÞEKKT, það er að segja að vera óþekk(ur). Hin tvö eru hversdagslegri, eitthvað sem við þekkjum (sem sagt þekkt) og eitthvað sem við þekkjum ekki (sem sagt óþekkt). Óþekktin í heiti sýningarinnar er margs konar, ég er nefnilega gjörn á að brjóta ýmsar reglur og það teygir sig yfir í myndlistina, hvort sem um er að ræða meðferð vatnslita (sem annarra lita), myndbyggingu, pensilskrift, upphengingu eða eitthvað annað. Stefni reyndar að því að herða mig enn á því sviði. Svolítil mis-falin óþekkt er í sumum náttúrumyndunum mínum (get bent þeim sem kíkja á sýninguna á dæmi) en hinn helmingur myndanna, sem er helgaður konum, er samt aðal óþekktin. Eflaust hafa einhverjar þeirra verið einstaklega ,,þægar og góðar" en miklu fleiri sem ég veit að hafa og treysti til að hafa sýnt af sér frábæra óþekkt. Segi ekki meira en að ein þeirra er draugur og önnur útilegukona.
Kláraði að setja upp sýninguna í kvöld, mæti með níðsterkt límband til að leysa linkulegt kennaratyggjó af hólmi þar sem það á við, einhverjar veitingar í töskunni og ef ykkur langar að skreppa á sýningu á bókasafnið í Garðabæ milli kl. 13:30 og 15 þá býst ég við að taka vel á móti ykkur, svo lengi sem þið ekki sýnið neina óþekkt. Hún er frátekin fyrir sýninguna sjálfa.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook
Sjö konur af 42 og ein alveg sérstök
21.10.2023 | 22:21
Það er alltaf gaman að undirbúningi sýninga. Síðustu árin hef ég verið nokkuð dugleg við að halda einkasýningar og er ég lít til baka sé ég að ég hef haldið alls konar myndlistarsýningar með furðu litlum hléum frá því ég hélt þá fyrstu í Gallerí Lækjartorgi haustið 1984. Það sem helst heldur mér við efnið, fyrir utan að ég hef verið merkilega iðin við að mála frá því Vatnslitafélagið var stofnað, er að ,,hitt" myndlistarfélagið mitt, Gróska í Garðabæ, býður félögum sínum á hverju ári uppá að vera ,,Listamaður mánaðarins" á bókasafninu á Garðatorgi. Nú er ég að fara að þiggja þetta ágæta boð í þriðja skiptið, telst til að ég geri það um það bil á 18 mánaða fresti.
En af hverju sjö konur af 42? Jú, ég er yfirleitt með tvö meginþemu á hverri sýningu og sú næsta verður engin undantekning. Þar verð ég með meginþemað sem tengist náttúru og manngerðum veruleika, byggð og bátum aðallega. Það er í takt við það sem ég hef verið að fást mest við að undanförnu. Konurnar sjö ákváðu eiginlega sjálfar að þær ætluðu að vera með. Uppi í hillu á ég möppu sem að stofni til er þriggja ára, myndskreytingarverkefni sem ég tók að mér og vissi að var upp á von og óvon. Ástæða þess að ég sló til var einfaldlega sú að mér fannst viðfangsefnið áhugavert, konur í ýmsum hlutverkum, þekktar og óþekktar (eða óþekkar kannski?). Eins og mig grunaði hef ég enn ekki verið krafin um afraksturinn, fengið smá styrk út á vinnuna sem ég hef þegar innt af hendi, en ef til þess kemur að þetta verkefni verði að veruleika, þá mun ég eflaust endurgera flestar eða allar myndirnar, 42 að tölu, nema kannski þessar sjö sem ákváðu að þær ætluðu á sýningu. Nú er sjö engin heilög tala (ykkur er velkomið að mótmæla því) og vera má að kvennamyndirnar á sýningunni verði einni fleiri eða færri. Sumir munu eflaust átta sig á að 42 er líka merkileg tala, en það er ósennilegt að lokatölur mynda fyrir verkefnið góða verði nema svona rétt uppúr 30.
Og nú er eins gott að fara að bretta upp ermar og koma þeim myndum í ramma sem ég ekki þarf að leita með til innrömmunarfyrirtækja. Sýningin verður opnuð annan laugardag, 4. nóvember, á dánarafmæli pabba míns. Þannig að eftir opnunina, einhvern tíma uppúr klukkan þrjú, þegar ég verð búin að taka saman sælgæti, glös og freyðivín, fer ég væntanlega í Fossvogskirkjugarð eins og ég geri á hverju ári og kveiki á kerti á leiðinu hans og hennar Dolindu, konunnar hans seinustu æviárin hans, en hún féll frá ári á undan honum. Bæði dóu í blóma lífsins, þótt blómið hans hafi verið farið að visna svolítið af sorg. Og það merkilega er að annars staðar á Garðatorgi, í Hönnunarsafninu, stendur nú yfir yndisleg sýning á verkum hennar, en hún var svissnesk listakona með merkilegan feril. Ég man hana fyrst og fremst við rennibekkinn sinn á Seyðisfirði, þar sem hún tók mér opnum örmum og leiddi mig í gegnum fyrsta og eina leirmótunarskeið á minni ævi, þá var ég í kringum tíu ára aldurinn. Það er einskær tilviljun að þessar tvær sýningar verða þarna samtímis, en falleg er sú tilviljun.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook
Íslandsvinir - ekki bara popparar og kokkar
31.7.2023 | 18:47
Það eru ekki bara popparar og kokkar sem eru Íslandsvinir. Nokkur fjöldi erlendra vatnslitamálara hefur tekið ástfóstri við landið og á nýlegri sýningu eins þeirra heyrði ég rótgróna vatnslitakonu dæsa og segja að hann málaði eiginlega ,,íslenskari" myndir en flestir þeir Íslendingar sem hún þekkti.
Mig langar að geta þeirra sem ég þekki til og birta Íslandsmyndir nokkurra þeirra, með tilurð sumra þeirra sem aukabónus. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið hér á ferðinni síðustu árin, kennt og verið með sýnikennslu hér, en bregða líka fyrir sig Íslandsmótívum í sýnikennslu út um allan heim. Myndirnar eru flestar teknar af litla símanum mínum og skellt hér fram í belg og biðu, en þær eru eftir Vicente Garcia, Keith Hornblower, Ann Larsson-Dahlin, Michael Solovlev og Alvaro Castagnet.
Menning og listir | Breytt 1.8.2023 kl. 01:01 | Slóð | Facebook
Sólarlagið sem varð að eldgosi
19.7.2023 | 00:40
Vinur minn spurði um daginn hvort ég ætlaði ekkert að fara að vatnslita eldgosið. Ég hélt nú ekki, enda á ég afrit af tugum slíkra vatnslitamynda eftir félaga mína í Vatnslitafélaginu, flestar frá í fyrra held ég, átti nú ekki annað eftir en að gera eins og allir hinir, hmmm. Svo fann ég skissubókina sem ég ætlaði að hafa með mér til Amsterdam og ákvað að vígja hana. Fletti í símanum mínum og fann nokkrar ,,silhouette" myndir af fallegu sólarlagi héðan og þaðan af Álftanesinu. Ákvað að vinna út frá þeim litla skissu en svei mér þá ef hún endaði ekki í eldgosi.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook
Að morgni 71 árs afmælisdagsins, þegar ég loks komst á áttræðisaldurinn skv. sumum (hef nú reyndar verið á þeim eðla aldri í ár að eigin mati) var prufuútgáfa af appinu Krimmi (kringum.is/krimmi) sett í loftið. Nú í vikunni kom síðan endanlega útgáfa út og nánari kynningar er að vænta í næstu viku, hlakka til þegar þetta mál verður (loks) upplýst með því að opna aðgang að mörgum óupplýstum gátum.
Af algerri tilviljun hafði ég samband við útgefandann einmitt þennan tiltekna afmælisdag í fyrsta sinn síðan í febrúar til að spyrja fregna. Jú, komið í loftið, verður svo í prófunum um sinn. En um leið og þetta fer í opinbera útgáfu má láta vita. Það er sem sagt núna! Kíkið hingað: https://kringum.is/krimmi/
Minn krimmi heitir Morðið á horninu, í miðið hægra megin á óskýru símaskjáskotinu. Það þarf að fara í Vesturbæinn til að byrja að spreyta sig á morgátunni.
Komið í App-Store alla vega fyrir okkur eigendur iPhone og þarna er fullt af sögum sem birtast lesanda þegar komið er á svæðið. Leiðbeiningar fylgja líka. Útgefandinn hefur áður gefið út mjög vel lukkað app, kringum.is
Þegar útgefandinn hafði samband við mig í vetur var ég með verkefni upp fyrir haus, en það var aldrei spurning, í þessu ætlaði ég sko að taka þátt, og gerði það. Nú verður spennandi að fylgjast með hvernig þetta virkar og ég verð eflaust notandi ekkert síður en höfundur.
Mér finnst virkilega gaman að vera með í þessu ferli og hver veit nema ég láti til mín taka á þessum vettvangi áfram.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook
Kranar, málmur og fleira - ekki í ljósi kranavísitölunnar
14.5.2023 | 02:35
Svo vill til að í kringum mig er óvenju mikið af krönum, þessum stóru og ógnvænlegu sem saman mynda hinar illræmdu kranavísitölur. Stundum fæ ég óbeinar skammir þegar ég birti mína daglegu Esjumynd (þegar skyggni leyfir). Það er þá af því að í forgrunni eru kranarnir á byggingasvæðinu fyrir framan vinnuna mína í Kópavogi. Þessum skömmum er reyndar oftast beint að samfélaginu, stjórnmálamönnunum, verktökunum, hruninu, minningunum um hrunið, framkvæmdum almennt og auðvitað er smá uggur í ljósi sam-íslensku reynslunnar. Sama umræða er hafin af fullum krafti varðandi miðbæjarsvæðið sem nú er komið í uppbyggingu hér á Álftanesi.
Hrunið kom illa við mig beint og persónulega, eins og flesta Íslendinga. Slapp samt mjög vel miðað við marga aðra efnaminni sem máttu við litlu og ég tali ekki um þessa vellauðugu sem ,,töpuðu" svo háum fjárhæðum að ég kann ekki enn að telja núllin. Vorkenni síðarnefnda hópnum auðvitað ekki neitt. Samt finnst mér stundum að ég megi ekki taka myndir þar sem krönum bregður fyrir.
Það var þess vegna mjög hressandi þegar náfrænka mín (sem ég þekki allt of lítið) búsett erlendis alla sína tíð, setti komment við Esju-kranamynd og sagðist hreinlega vera hrifin af krönum, og sama segði systir hennar. Það rann upp fyrir mér ljós. Mér finnast kranar nefnilega líka heillandi á sinn hátt.
Hef bara alls ekki viljað viðurkenna það. Þegar ég reyni, af mannúðarástæðum, að hafa ekki of mikið af krönum á Esju-myndunum mínum og taka ekki of mikið af kranamyndum í erlendum borgum, þá er það aðallega vegna félagslegs þrýstings.
Til að bíta hausinn af skömminni, þá get ég hér upplýst að ung heillaðist ég mjög af tröllafjölskyldunum sem ganga um umhverfi Ljósafossvirkjunar rétt hjá Kvenskátaskólanum á Úlfljótsvatni, þar sem ég var nokkur sumur. Það er að segja hinum fordæmdu háspennumöstrum. Nú má ekki misskilja mig svo að ég vilji ekki leggja línur í jörð á viðkvæmum stöðum, auðvitað vil ég það, en það breytir því ekki að þessi form heilla mig. Svo mjög reyndar að á einni sýningunni minni stillti ég einu slíku upp eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Verð að viðurkenna að ég fékk smá skömm í hattinn fyrir það. Tek skýrt fram að ég hefði engin áform um að drita háspennumöstrum eftir öllum skýjabreiðum sem ég sé, þótt ég hefði það vald. Það er hins vegar ekki vel tekið í það þegar ég dett í bernskunostalgíu á 2. holu á Urriðavelli, þar sem möstrin blasa við. Og talandi um bernskubrek, Hegrinn, Kolakraninn við rætur Arnarhóls, var heillandi strúktúr í mínu barnsminni. https://timarit.is/page/1390469#page/n10/mode/2up
Ekki nóg með það, í glæpasögunni minni nr. 2, Óvissu, gerist hluti af lokaköflunum við háskalegar aðstæður í byggingakrana í miðbæ Reykjavíkur.
Elsku besta Hamborgin mín, hvað einkennir hafnarsvæðið þar? Kranar, auðvitað. Skemmtisiglingar um hafnarsvæði grunsamlega margar undanfarin ár, Rotterdam, Amsterdam, Hamborg, Seattle, London ...
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 03:06 | Slóð | Facebook
Í framhaldi af blogginu um hvíslandi vatnslitamyndir, lofaði öskrandi
29.4.2023 | 15:45
Bloggaði seinast um hvíslandi vatnslitamyndir og nefndi Emil Nolde sem andstæðu þeirra. Það var hann sem sannfærði mig um að vatnslitamyndir gætu öskrað. Mæli með að þið kíkið á sem flestar af ,,ómáluðu" myndunum hans, sem eru vatnslitamyndir sem tóku lítið pláss og hægt var að fela fyrir nasistunum á stríðstímanum. Þótt Nolde hefði sjálfur verið orðaður við þá stjórnmálastefnu, með réttu eða röngu, var þeim list hans ekki þóknanleg en hann bara ,,varð" að fá að halda áfram að skapa og gerði það á heimili sínu skammt frá landamærum Þýskalands og Danmerkur. Heimsókn í það hús opnaði fyrir mér nýjan heim. Það er svolítið úrleiðis, en vel heimsóknarinnar virði. Hér er hins vegar tengill á fróðleik til að byrja með:
Eftir að ég fór seinast að sinna vatnslit af römmustu alvöru, fyrir 3-4 árum, hef ég verið að vinna úr áhrifum úr ýmsum áttum og prófa mig áfram. Hér eru nokkrar myndir sem ég flokka undir meira öskrandi en hvíslandi:
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook