Færsluflokkur: Menning og listir
Allt finnst þetta um síðir - sumt í skrýtnum búningum
27.11.2015 | 21:26
Í seinasta bloggi frá í sumar var ég að kvarta undan því að hafa ekki fundið ,,réttu" útgáfuna mína af Ungverskri rapsódíu nr. 2 eftir Liszt, með hljómsveitarútgáfu undir stjórn Stanley Black. Þessi útgáfa er ögn myrkari en flestar aðrar sem ég hef heyrt en mér finnst hún svo góð, og gamla vinyl-platan mín er orðin skaðlega rispuð. Af og til hef ég tékkað á hvort þessi útgáfa væri komin inn einhvers staðar og já, loksins. Myndefnið sem fylgir er að vísu óskaplega furðulegt, en þessi útgáfa hefur einhvern sjarma sem ég ekki ætla að reyna að skilgreina frekar. Þannig að hlustið, en ekki endilega að horfa.
https://www.youtube.com/watch?v=qf9qSHx3aRM
Tvær ólíkar svipmyndir frá Prag og Varsjá
19.12.2011 | 17:31
Skrýtið hvað það er sem vekur ljóslifandi svipmyndir í huganum. Tvennt gerólíkt hefur verið að skjóta upp kollinum þessa dagana. Annars vegar fornbókaverslanirnar í Prag anno 1974, hins vegar anarkistaball í Varsjá kringum árið 2000. Það sem kom mér svo á óvart í Prag á sínum tíma var fjöldi þeirra bóka sem ég rakst á eftir íslenska höfunda á tékknesku í fornbókaverslunum í þessari fallegu borg. Og þar voru margir ólíkir höfundar í hillum, en mest var af Kristmanni Guðmundssyni og Gunnari Gunnarssyni, sem báðir skrifuðu á skandinavískum málum, en þarna voru fjölmargir aðrir, Laxness auðvitað og fjölmargir fleiri. Þessi minning skaut upp kollinum nú þegar Vigdís er að rifja upp að Václav Havel las íslenska bók í fangelsinu. Hún hélt, eftir lýsingu hans, að þetta hefði verið Gunnar Gunnarsson, en það reyndist vera Kristmann, einmitt höfundarnir sem ég sá mest af í Prag forðum.
Hin minningin er gerólík og vakin af allt öðru, þótt sömu helgi sé. Ég hef þegar getið um snilldarflutning Sigtryggs Baldurssonar á Rudolf á Baggalútstónleikunum á laugardagskvöldið. Í framhaldi hef ég verið að hlusta á alls konar trommutónlist, Bongo song með dönsku strákunum Safri Duo og L'Ombilico del Mondo með Jovanotti, ítölskum hipphoppara, friðarsinna með meiru (var meira að segja með Pavarotti á góðgerðartónleikum minnir mig). Og þá mundi ég allt í einu eftir anarkistaballi í Varsjá fyrir um það bil áratug, sem ég lenti á fyrir algera tilviljun, var eitthvað í bland við umhverfisverndarsinna og ESB-andstæðinga og fleira hugsjónafólk á slabbkenndum dögum í Varsjá. Í eldgömlu leikhúsi, sem minnti á ögn ofvaxið Gamla bíó var þetta frábærlega skemmtilega ball, þar sem heilu fjölskyldurnar voru mættar. Allt í einu fóru einn eða fleiri trommarar af stað og fengu með sér halarófu upp og niður breiða leikhússtigana og um alla ganga og svalir, strollan var ótrúlega löng og hress og þarna einhvers staðar vorum við Helen, sænsk vinkona mín sem á íslenskumælandi kærastann Jónas (vonandi enn, þar sem þau hafa síðan eignast son og kannski meir). Liggur við að ég heyri trommutaktinn enn!
Rudolf í alveg nýju ljósi
18.12.2011 | 01:52
Þá mega jólin koma fyrir mér ...
17.12.2011 | 19:07
Þegar jólalögin hljóma eða dynja yfir, eftir því á hvaða útvarpsstöð er stillt, er alveg lygilegt hversu ólík lög rúmast innan þessarar skilgreiningar. Mér finnst Baggalútur og Sigurður Guðmundsson bera höfuð og herðar yfir annað sem flutt er fyrir þessi jól líkt og undanfarin jól. Nokkur klassísk lög eru ágæt, Ertha Kitt þar fremst með Santa Baby en í rauninni eru það Baggalútslögin - aðallega aðventulögin - sem hafa gert þennan flokk tónlistar bærilegan á ný. Eða hvort vill fólk heldur hlusta á í röð:
1: Jólahjól (sem var víst kjörið aðaljólalagið, úff), Nei, nei, ekki um jólin, Here comes Santa Claus ...
eða
2: Þá mega jólin koma fyrir mér, Það koma vonandi jól og Saddur?
Engin spurning, ég er sátt við valkost nr. 2.
Menning og listir | Breytt 18.12.2011 kl. 01:17 | Slóð | Facebook
Örlaga- og ævintýrasagan um Elfu Gísladóttur: Eru fordómar gagnvart (meintri) fegurð skárri en aðrir fordómar?
14.12.2009 | 23:02
Sérkennilegt að verða vitni að því að Elfa Gísla verður enn fyrir fordómum vegna þess að hún hefur verið talin mjög falleg kona. Ein birtingarmyndin er var umsögn um bókarkápuna (!) á ævisögunni hennar, sem ég tel mig hafa verið hundheppna að fá að skrifa. Þar var kápunni aðallega fundið það til foráttu að vera Hófíar-leg og ekki hægt að misskilja það að slíkt var hið versta mál. Fyrir ykkur sem ekki áttið ykkur á því til hvaða Hófíar er verið að vísa er rétt að taka fram að Hófi var Ungfrú alheimur fyrir allmörgum árum og þótti falleg. Elfa var þekkt andlit á upphafsárum Stöðvar 2 og því ekkert óeðlilegt að hafa andlitið hennar á kápu bókar um hana, jafnvel þótt hún þyki eflaust fallegri en Steingrímur Hermannsson eða Einar Benediktsson, sem ég man ekki betur en að hafi prýtt viðlíka kápusíður án þess að undan væri kvartað. Sjálf er ég hrifin af þessari bókarkápu og finnst hún vel lukkuð, en það er ávallt smekksatriði og reyndar bara einn gagnrýnandi sem taldi hana slæma og það af því að hún væri Hófíar-leg!
Ævisaga Elfu Gísladótturer saga um ótrúlega ævi og aðeins smáhluti hennar fjallar um fordómana sem hún mætti vegna þess að hún þótti falleg. Fáránlega fordóma, alla vega eins og þeir komu fram í lífi hennar, þar sem fyrirfram var ákveðið að hún væri heimsk vegna þess að hún væri falleg. Á þeim tíma (hvernig er það núna?) þótti nefnilega af og frá að kona gæti verið hvort tveggja samtímis. Þetta birtist reyndar í mjög fyndinni mynd í bókinni um Elfu, enda er henni gefið að sjá jafnvel dramatíska hluti í meinfyndnu ljósi. Ævi hennar er þó fyrst og fremst merkileg vegferð konu sem er leitandi, frá því hún var þriggja ára að leita sér að nýjum foreldrum þegar ástandið á heimilinu var erfitt, gegnum þá lífsreyslu að verða ekkja aðeins 26 ára, reyna að fela lesblindu (sem leggst mér vitanlega ekki þyngra á fólk sem er talið fallegt en það sem er talið ljótt) - og vera samt afkastamikil leikkona, lenda í sviðsljósi kjaftasagna og loks að byggja upp menningarmiðstöð á svæði þar sem yfirvöld hafa jafnvel bannað byggingu menningarmannvirkja!
Indælis útgáfuhóf og endurfundir vinkvenna - við Elfa áritum bókina í Kringlunni á morgun, sunnudag kl. 15
13.12.2009 | 00:20
Tíminn hefur liðið hratt meðan Elfa er á landinu og styttist í dvöl hennar hér að sinni. Í dag var loks tími til að halda upp á útgáfuna á bókinni Elfa Gísla og hinar sögurnar í IÐU. Elfa hefur verið í sjónvarpsupptöku og líka haft smá tíma til að hitta ættingja og vini. Á morgun verðum við Elfa í Kringlunni að árita, en í dag, á undan útgáfupartíinu vorum við í Smáralind. Elfa hefur líka haft smá tíma til að hitta ættingja og vini og það er alltaf gott.
Kaffi Rót: Síkvik sýning ICESAVE-myndinni hefur verið breytt og Írlandi bætt inn á hana
11.12.2009 | 17:11
Þegar ég opnaði sýninguna mína: Kaffi og landakort, á Kaffi Rót fyrir um það bil tveimur vikum fékk ég yndislega kvörtun frá Írum sem þar voru staddir. Þeir sögðu: Hvers eigum við að gjalda, af hverju er Írland ekki á ICESAVE-myndinni? Ég er nú búin að bæta úr því með því að setja Írland inn á myndina - með mikilli ánægju.
Með svona ævi væri hægt að skrifa leiðinlega bók, en þessi er skemmtileg!
10.12.2009 | 00:43
Mér þótti sérstaklega vænt um þessa athugasemd, sem ég fékk þegar ég var að lesa upp úr bókinni um Elfu Gísladóttur í dag. Fólk var búið að vera að spyrja út í ótrúlega viðburðaríka og oft erfiða ævi Elfu og síðan fékk ég þessa athugasemd, sem er yfirskrift þessa pistils og mér finnst ótrúlega vænt um:
,,Með svona ævi væri hægt að skrifa leiðinlega bók, en þessi er skemmtileg!"
Myndin hér að neðan er frá erfiðum degi í lífi Elfu, en hins vegar segir hún þannig frá að það er húmor í harminum.
Kaffi og landafræði - myndlistarsýningin mín á Café Rót
28.11.2009 | 23:26
Í dag var ég að hengja upp fjórðu einkasýninguna mína á árinu, á Café Rót í Hafnarstræti. Á morgun milli kl. 14 og 16 verður þó aðeins þriðja opnunin mín því skvass- og tennismyndirnar mínar í Veggsporti eru aðeins óformlegri sýning en hinar. Síðustu fimmtán mánuði hef ég málað meira en alla ævina fram til þessa, það var eins og einhver stífla brysti þegar ég byrjaði aftur í september í fyrra. Þá hafði liðið óvenjulangt á milli þess að ég sinnti myndlistinni almennilega og greinilega eitthvað sem safnast hafði upp og ekkert lát á því. Þessi sýning er með smá enduróm af fyrstu sýningunni minni í sumar, litlu kaffibollamyndirnar mínar halda áfram að fæðast. En hins vegar er meginþema sýningarinnar yfirstærð af aðeins leiðréttum landakortum. Hálfgerðar gátur. Það er gaman að hengja myndir upp á Café Rót, sem er flottur staður með alls konar húsgögnum og mjög dýnamísku mannlífi, þar hef ég rekist á byltingarsinna og broddborgara, farið á fundi en því miður ekki enn að dansa tangó eða Lindýhopp, því það kann ég hreinlega ekki. Mergjuð hljómsveit að æfa í morgun þegar ég var að hengja upp, því þarna er líka samastaður mjög framsækinna rokkhljómsveita. Sem sagt fjölbreytt umgjörð fyrir myndirnar mínar. Lýsingin er engin sýningarlýsing, en ég hef svo sannarlega gaman af því að glíma við umhverfið þarna, þetta er miklu líkara því sem gerist þegar myndirnar komast í eigu annarra en mín og á veggi alls konar íbúða. Sýningarhúsnæði er stundum einum of sterilt, þetta er það svo sannarlega ekki. En sem sagt skrýtin landakort og kaffibollar fyrir alla á Café Rót í Hafnarstræti (húsið við hliðina á Rammagerðinni og ská á móti Heimssýnarskrifstofunni þar sem ég hef verið löngum stundum undanfarnar 5-6 vikur).Og þið eruð auðvitað öll velkomin á morgun milli 14 og 16 eða á öðrum tíma í desember, en sýningin er opin út mánuðinn.