Haustið og House

Mér finnst komið haust í sjónvarpsdagskrána, House er byrjaður. Venjulega er það þannig á sumrin að jafnvel fólk sem er að reyna að rækta upp sjónvarpsáhuga, eins og ég er farin að gera eftir að houseég uppgötvaði hvílík hvíld svona heilalaust sjónvarpsgláp getur verið, gleymir tilvist þess langtímum saman. Helst að ég rumski þegar ég heyri af Monk á sumarkvöldi. En með haustinu koma þessir þættir einn af öðrum, House og haustlaufin, Greys Anatomy og vetrarstormarnir og loks American Idol og jólakreditkortareikningurinn. Mér finnst full fljótt að House sé kominn, fá lauf fallin og flest græn ennþá nema rauða röndin meðfram einhverri akbrautinni sem ég brunaði framhjá. Hitastigið framundan segir mér að House eigi ekki að vera byrjaður. En House er kominn á kreik og minnir á óhjákvæmilega komu vetrarins, einn góðan veðurdag.

Ferðir og ferðalög

Einhvern tíma voru upplesnar ,,millifyrirsagnir" í auglýsingum í ríkisútvarpinu. Ein þeirra var ,,ferðir og ferðalög". Ég er mjög ferðaglöð manneskja og var búin að ákveða það strax í sumar að nota vildapunktana mína, sem margir hverjir renna út um næstu áramót, til þess að skreppa til Ameríku að heimsækja Nínu systur sem er í eins vetrar ,,útlegð" í Ameríku núna. Nema ef McCain verður kosinn forseti, þá á ég allt eins von á að hún komi heim fyrr ;-) en við skulum nú rétt vona að til þess komi ekki. Þorði ekki annað en fara að bóka þessa ferð, allar helstu óvissubreytur úr sögunni, meðal annars held ég að ég sleppi smá millihoppi sem ég var að hugsa um að taka, nema ég heyri í vinkonu minni á vesturströndinni alveg ákafri að ég komi við hjá henni. Kemur allt í ljós. Seinasta ár var mikið ferðaár, fór í sex mismunandi ferðir til útlanda, en núna verð ég rólegri í tíðinni (nema eitthvað breytist skyndilega) en bæti það upp með því að vera lengur í hverri ferð. Það er líka ágætt ;-)

Suðurnes

Mér hefur alltaf fundist eitthvað svo heillandi við Suðurnesin. Ákveðin dýnamikk sem maður finnur ekki alls staðar á landinu. Ég er reyndar Innnesingur og Álftanesið mitt, sem er auðvitað næstum fullkomið, telst ekki til Suðurnesja. Þegar ég var sex ára fór ég til Keflavíkur þar um borð í skip sem bar okkur, þrjá ættliði í kvenlegg, til Spánar þar sem við vorum næsta hálfa árið. Mér fannst alveg Asandgerdistjorneins spennandi að hafa farið til Keflavíkur eins og til Gibraltar, þar sem við tókum land, en svo festist Spánardvölin auðvitað betur í minni og yfirskyggði annað. Á unglingsárum gerðu sumar vinkonur mínar sér ferð til Keflavíkur til þess að kaupa flottustu skóna á landinu, þeir fengust ekki annars staðar. Og svo var ég ekki nema fimmtán ára þegar ég fór á ball í Stapanum, það var toppurinn. Jónsí vinkona mín úr skátunum og Sirrý, sem ég flæktist með í Köben þegar ég var fimmtán, voru tveir töffarar úr Keflavík. Og svo voru Hljómar auðvitað þaðan, og gott ef ekki Óðmenn líka. Seinna kynntist ég svæðinu mjög vel, þegar ég var í þingmennsku í sex ár fyrir svæðið. En það sem mér finnst einkenna Suðurnesin er að þar eru hlutirnir ekkert svo mikið mál, fólk er mjög sveigjanlegt, hörkuduglegt og frekar kátt. Mikið um aðkomufólk, fólk að koma að fara, sumir ílendast, aðrir ekki, og þannig hefur þetta lengi verið, enda margar góðar verstöðvar. Ekki spillir að þetta er hliðið til útlanda og heim aftur.

Vinna sem ég innti af hendi við ritum sögu Sandgerðis á árunum 1999-2001 og aftur núna síðastliðinn vetur og fram á sumar að hluta, hefur enn styrkt mig í þessari skoðun minni á svæðinu og ég nýt þess alltaf að fara þangað. Og svo finnst mér hreinlega fallegt á Suðurnesjum! Hafið þið farið að (og inní) Hvalsneskirkju? Eða siglt út frá Keflavík og undir fallegu fuglabjörgin? Ekið frá Garði og yfir í Sandgerði og komið að Sandgerðistjörn og öllu því fuglalífi sem þar er. Eða út á Reykjanes? Í Ögmundarhraun? -  þar sem Björn Þorsteinsson dró okkur sagnfræðinemana oftar en einu sinni niður að merkilegum rústum sem þar eru. Og hvergi er fallegra að horfa á Snæfellsjökul en á smá spotta á Miðnesheiði, þar sem ekið er beint á móts við jökulinn og hann er svo ótrúlega stór. Suðurnesin eru spes.


Ufsilonið

Úpps, ég fann ufsilon (sem sumir kalla ypsilon) á snarvitlausum stað. Það æpti á mig eins og slasaður maður á götu, eitthvað sem maður vill ekki sjá. Um leið og ég sá það (ekki um leið og ég skrifaði það) þá fór hrollur um mig. Þetta var nefnilega í næstu færslu á undan (búin að laga það). Man eftir einu öðru tilviki af sama tagi, ufsiloni sem átti ekki að vera þar sem það var og það í mínum eigin texta (sá það þegar ég las hann, ekki þegar ég skrifaði hann), og þótt hátt í fimmtán ár séu síðan er mér enn hálf bumbult út af því. Þetta hlýtur að vera einhvers konar skilyrðing, ufsiloni ofaukið (í eigin texta) og þá ,,á" ég að kveljast. Mér er slétt sama um skort eða ofgnótt af þessum kvikindum í annarra texta, vil bara hafa þetta á réttum stað hjá sjálfri mér. Þrátt fyrir að ég hafi reynt og reynt að segja sjálfri mér og öðrum að blogg sé talað ritmál og ég taki það sko ekkert alvarlega, þá get ég ekki varist því að vera alveg miður mín út af þessu bulli sem var á síðunni minni hátt í sólarhring. Úff! Ég lifi góðu lífi með þeim innsláttarvillum sem slysast inn í textann minn, enda sjálfmenntuð að mestu á ,,ritvélar" - hins vegar finnst mér ufsilonvilla vera meira svona ,,viljandi" og því óafsakanlegri.

Og ég sem hélt að ég væri svo afslöppuð!


Mannbætandi umhverfi, myndlistin aftur í forgang og ,,bíb

Hef ekkert komist upp í sumarbústað að undanförnu vegna annríkis og pestar. En í dag var ég að vinna í skjölum uppi á Skaga og þá var auðvitað svo stutt í Borgarfjörðinn að það var tilvalið að skjótast aðeins um kvöldmatarleytið og taka salatið, sem ég var viss um að væri farið að skemmast, úr ísskápnum. Það var sem betur fer ekki farið að valda neinni mengun í skápnum, ekki einu sinni smá lykt, en gott að henda því áður en til þess kom, ásamt öðrum útrunnum matarleifum, sem betur fór ekki miklum. Um leið og ég kom uppeftir fann eg hvað ég var farin að sakna þessa ótrúlega umhverfis. Það er eins og hellist yfir mig friður og vinnugleði í þessu umhverfi og náttúrufegurðin var ótrúleg, en það sem ég fann líka, var hvað við erum búin að koma okkur þægilega fyrir þarna í paradísinni okkar. Timburlyktin í bústaðnum er svo ljómandi góð og minnir á góða daga uppi í bústað hjá Betu frænku og skemmtilega tíma á Úlfljótsvatni í skátasumarbúðunum forðum daga. Mikið lán að hafa rekist á þennan stað og haft bolmagn til að útbúa sér svolítið hreiður þarna.

Thingvellir1Eftirreitur pestarinnar og tilheyrandi orkuleysi hvarf eins og dögg fyrir sólu og batteríin hlóðust í þessari stuttu heimsókn í paradísina okkar. Náttúrufegurðin báðar leiðir var alveg ólýsanleg, allt frá sólríkri aðkomunni til sólarlagsins sem tók á móti mér þegar ég renndi út á Álftanesið, sem líka er alveg yndislegt. Tíminn hér í bæjarjaðrinum hefur hins vegar tilhneigingu til að vera tættari vegna ýmissa anna sem hlaðast á svoleiðis daga, en ég segi bara ,,bíb" við því öllu.

Og svo er það myndlistin. Ég hef verið að væflast með það hvernig ég kem mér aftur í gang eftir óvenju langa pásu. Gerði það sem ég geri stundum, skráði mig á námskeið í myndlistarskóla, ég hef alltaf gagn af tilsögn, það er engin spurning, en fyrst og fremst er gott að taka frá ákveðinn tíma í viku sem fer ekki í annað. Að þessu sinni fer ég í Myndlistarskóla Kópavogs, þangað eru svo margir af vinum mínum úr Myndlistarskólanum í Reykjavík komnir og svo er heldur styttra þangað en lengst vestur í bæ. Tók kúrs sem er mjög frjáls og gefur möguleika á aukamætingu og talsvert af sjálfstæðri vinnu. Hlakka ekkert smá til að fara að glíma á ný við myndlistina. Við hæfi að setja haustlitamynd með þessum orðum.

 


Tími til kominn að meta störf ljósmæðra að verðleikum

Einhvern veginn held ég að það yrði þjóðarsátt ef kjör ljósmæðra yrðu leiðrétt til samræmis við kjör annarra stétta sem hafa jafn mikið nám að baki og ábyrgð í starfi. Eru ekki allir orðnir frekar leiðir á því að ábyrgð á peningum sé margfalt meira metin en ábyrgð á mannslífum, til dæmis ábyrgð á því að nýfæddir einstaklingar komist klakklaust í heiminn og móðirin upplfii góða fæðingu?

Á síðastliðnu sumri fór fram kosning um fegursta orð íslenskrar tungu og orðið ljósmóðir sigraði með nokkrum yfirburðum. Orðið er vissulega fallegt, en ég held að inntak orðsins, starfið sem að baki býr, hafi átt meiri þátt í sigrinum. Hvernig væri að láta reyna á það hvort þjóðin er ekki tilbúin að gera myndarlegt átak í að laga kjör ljósmæðra?


mbl.is Vilji ljósmæðra að semja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær Fjörudagur á Álftanesi

Fjörudagurinn á Álftanesi var haldinn í dag og tókst alveg glimrandi vel. Krakkarnir busluðu í sjónum, sólin var duglega að láta sjá sig og fiskisúpan var himnesk. Kajakar, gönguferð í Hrakhólmana (sem ekki á að fara í nema undir leiðsögn kunnugra, Hrakhólmar eru réttnefni og þetta eru flæðisker) og fleira gott var á dagskránni sem var frá 11 í morgun og til fjögur í dag. Ég held að við séum búin að finna okkar bæjarhátíðisdag.

Stórafmæli skátafélagsins Svana á Álftanesi og Fjörudagurinn á morgun

Skátafélagið Svanir á Álftanesi er 25 ára í ár og haldið var veglega upp á það í í dag. Veðurguðirnir eru greinilega í skátahreyfingunni því þeir skrúfuðu fyrir rigninguna, hækkuðu hitann og drógu skýin frá sólinni, enda eiga Svanirnir ekkert annað skilið. Mér hlýnaði heldur betur um hjartarætur þegar ég áttaði mig á því að hún Jóhanna dóttir mín, sem hefur verið á fullu starfandi fyrir skátana á Álftanesi í sumar, setti hátíðina. Vel var mætt, gamlir og nýjir skátar, foreldrar, bæjarstjórnin, íþrótta- og tómstundaráðsfólk og formenn hinna félaganna á nesinu. Yndislegur dagur og hoppukastalinn var hærri en Skátakot, þótt þar sé nú ekki í kot vísað.

skata

Og nú er Fjörudagurinn okkar á morgun og þá verður 130 ára afmælis Álftaness fagnað og allt mögulegt á döfinni, sjá www.alftanes.is.


Betware beauties og fleiri dísir

Er í merkilegum félagsskap sem kallast Betware Beauties, sem eru konur sem vinna hjá Betware eða hafa unnið þar, aðallega um 2004-5. Við hittumst í rokinu í dag uppi á 19. hæð í nýbyggða turninum í Kópavogi. Þrátt fyrir takmarkað útsýni var gaman að koma þangað og enn meira gaman að hitta gömlu vinnufélagana sem eru einstakar manneskjur, allar saman. Það næst auðvitað aldrei full mæting, ég missti af endurfundi í fyrra af því ég var í Cambridge að hitta enn aðra gamla vinkonu frá Betware, sem er sest þar að, alla vega í bili. Sumir vinnustaðir eru þannig, alla vega á sumum tímabilum, að þeir verða sérstaklega minnisstæðir og Betware árin mín (næstum fimm) í aldarbyrjun voru einmitt svoleiðis tími, yndislegir félagar og gaman að fá fréttir af gömlu vinunum, sem eru sem óðast að festa sitt ráð og fjölga mannkyninu.

Svo hitti ég enn aðra vinkonu mína seinna í dag, við reynum að hittast helst ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði, en raunin er líklega svona á fimm til sex vikna fresti, sem er mikið skárra en ekki neitt. Vinahóparnir okkar skarast lítið og þess vegna er bara að skipuleggja það að hittast, og mér finnst það alltaf jafn æðislegt.


Ótímabær haustlægð

Við höfum átt mikillar veðurblíðu að fagna í sumar, lengst af hér suðvestanlands en að undanförnu hafa Norðlendingar og Austfirðingar fengið sýnishorn af góða veðrinu líka. Þess vegna kemur svona snemmbúin haustlægð í opna skjöldu. Hlustaði á Einar Sveinbjörnsson í morgunútvarpinu og las svo fróðlegan pistil á veðurblogginu hans þannig að skýringarnar liggja fyrir. Enn el ég þó þá von í brjósti að við fáum smá sumarauka af því tagi sem oft er kallað ,,indian summer" og sting uppá september í því samabandi. Það er svo gaman að fá smá framlengingu á góðu sumri og ég er sannfærð um að skólabörnin, sem nú eru komin í skólana, hefði mjög gott af því að geta leikið sér úti í blíðunni í svolítinn tíma, farið í vettvangsferðir og eitt og annað þess háttar. Þeir sem stunda útisport af einhverju tagi þurfa líka ábyggilega að trappa sig niður og mér skilst meira að segja að regnsæknir veiðimenn hafi ekkert þurft að kvarta undan tíðarfarinu það sem af er sumri, þrátt fyrir blíðuna.
mbl.is Fólk hvatt til að gera óveðursráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband