Mannbætandi umhverfi, myndlistin aftur í forgang og ,,bíb

Hef ekkert komist upp í sumarbústað að undanförnu vegna annríkis og pestar. En í dag var ég að vinna í skjölum uppi á Skaga og þá var auðvitað svo stutt í Borgarfjörðinn að það var tilvalið að skjótast aðeins um kvöldmatarleytið og taka salatið, sem ég var viss um að væri farið að skemmast, úr ísskápnum. Það var sem betur fer ekki farið að valda neinni mengun í skápnum, ekki einu sinni smá lykt, en gott að henda því áður en til þess kom, ásamt öðrum útrunnum matarleifum, sem betur fór ekki miklum. Um leið og ég kom uppeftir fann eg hvað ég var farin að sakna þessa ótrúlega umhverfis. Það er eins og hellist yfir mig friður og vinnugleði í þessu umhverfi og náttúrufegurðin var ótrúleg, en það sem ég fann líka, var hvað við erum búin að koma okkur þægilega fyrir þarna í paradísinni okkar. Timburlyktin í bústaðnum er svo ljómandi góð og minnir á góða daga uppi í bústað hjá Betu frænku og skemmtilega tíma á Úlfljótsvatni í skátasumarbúðunum forðum daga. Mikið lán að hafa rekist á þennan stað og haft bolmagn til að útbúa sér svolítið hreiður þarna.

Thingvellir1Eftirreitur pestarinnar og tilheyrandi orkuleysi hvarf eins og dögg fyrir sólu og batteríin hlóðust í þessari stuttu heimsókn í paradísina okkar. Náttúrufegurðin báðar leiðir var alveg ólýsanleg, allt frá sólríkri aðkomunni til sólarlagsins sem tók á móti mér þegar ég renndi út á Álftanesið, sem líka er alveg yndislegt. Tíminn hér í bæjarjaðrinum hefur hins vegar tilhneigingu til að vera tættari vegna ýmissa anna sem hlaðast á svoleiðis daga, en ég segi bara ,,bíb" við því öllu.

Og svo er það myndlistin. Ég hef verið að væflast með það hvernig ég kem mér aftur í gang eftir óvenju langa pásu. Gerði það sem ég geri stundum, skráði mig á námskeið í myndlistarskóla, ég hef alltaf gagn af tilsögn, það er engin spurning, en fyrst og fremst er gott að taka frá ákveðinn tíma í viku sem fer ekki í annað. Að þessu sinni fer ég í Myndlistarskóla Kópavogs, þangað eru svo margir af vinum mínum úr Myndlistarskólanum í Reykjavík komnir og svo er heldur styttra þangað en lengst vestur í bæ. Tók kúrs sem er mjög frjáls og gefur möguleika á aukamætingu og talsvert af sjálfstæðri vinnu. Hlakka ekkert smá til að fara að glíma á ný við myndlistina. Við hæfi að setja haustlitamynd með þessum orðum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf María Brynjarsdóttir

Já frænka Borgarfjörðurinn er stórkostlegur. Frábært að fleiri finni það en bara við sem hér búum og viljum að sjálfsögðu ekki vera nein staðar annarsstaðar . Gaman að heyra að þú ætlir að fara að bauka aftur í myndlistinni enda hefur þú svo sannarlega góða hæfileika fengið í vöggugjöf.
Skilaðu svo kveðju á liðið þitt frá okkur bakkaliðinu
kv. Olla
P.s. fór að hitta ömmu Stínu í gær með smá fang úr netinu alltaf gaman að sjá hvað sú "gamla" er ótrúlega ern og skemmtileg.

Ólöf María Brynjarsdóttir, 4.9.2008 kl. 10:32

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Borgarfjörðurinn er hreinasta paradís og ég tel mig hundheppna aðhafa getað eytt svona miklum tíma þar núna í sumar. Og amma í Borgarnesi, sammála um hana. Hún er ótrúleg manneskja, ein sú allra besta sem ég hef kynnst.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 4.9.2008 kl. 11:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband