Ufsilonið

Úpps, ég fann ufsilon (sem sumir kalla ypsilon) á snarvitlausum stað. Það æpti á mig eins og slasaður maður á götu, eitthvað sem maður vill ekki sjá. Um leið og ég sá það (ekki um leið og ég skrifaði það) þá fór hrollur um mig. Þetta var nefnilega í næstu færslu á undan (búin að laga það). Man eftir einu öðru tilviki af sama tagi, ufsiloni sem átti ekki að vera þar sem það var og það í mínum eigin texta (sá það þegar ég las hann, ekki þegar ég skrifaði hann), og þótt hátt í fimmtán ár séu síðan er mér enn hálf bumbult út af því. Þetta hlýtur að vera einhvers konar skilyrðing, ufsiloni ofaukið (í eigin texta) og þá ,,á" ég að kveljast. Mér er slétt sama um skort eða ofgnótt af þessum kvikindum í annarra texta, vil bara hafa þetta á réttum stað hjá sjálfri mér. Þrátt fyrir að ég hafi reynt og reynt að segja sjálfri mér og öðrum að blogg sé talað ritmál og ég taki það sko ekkert alvarlega, þá get ég ekki varist því að vera alveg miður mín út af þessu bulli sem var á síðunni minni hátt í sólarhring. Úff! Ég lifi góðu lífi með þeim innsláttarvillum sem slysast inn í textann minn, enda sjálfmenntuð að mestu á ,,ritvélar" - hins vegar finnst mér ufsilonvilla vera meira svona ,,viljandi" og því óafsakanlegri.

Og ég sem hélt að ég væri svo afslöppuð!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...eins og slasaður maður á götu

alva 4.9.2008 kl. 23:31

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er nefnilega nákvæmlega þannig, eins og slasaður maður á götu.  Eða klámfengin saga í miðjum biblíusögunum.

Einn frómur maður á þessu bloggi skrifaði eitt sinn um helv... femýniystana, ég er enn í sjokki.  Fagurfræðilegum sko.

Jenný Anna Baldursdóttir, 5.9.2008 kl. 00:09

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Reyndar hef ég ótrúlegt þol fyrir stafsetningarvillum annarra og lít mínar eigin mis-alvarlegum augum, augljóslega, ef ég sé þær ekki (og vona auðvitað að það merki að þær séu ekki til staðar). En ufsilon á röngum stað í mínum texta, þótt það líti meinleysislega út, jafnvel sannfærandi, það er bara særandi :-(

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.9.2008 kl. 00:59

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nota Púkann, elskurnar mínar! Hann er þarna einmitt til að koma í veg fyrir svona mistök - og mikið skil ég þig, Anna. Ég er nákvæmlega svona líka.

Lára Hanna Einarsdóttir, 5.9.2008 kl. 01:12

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gleymi alltaf þessum púka, nota svoleiðis mikið í enskri réttritun, en ég ætlast til þess af sjálfri mér að ég geri ekki villur ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.9.2008 kl. 01:46

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Eða kannski er þetta bara spennufíkn, setja textann út á vefinn og vona að hann sé réttur ... |:=]

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.9.2008 kl. 01:48

7 Smámynd: Linda litla

Ég var alltaf leiðréttandi alla ef að þeir skrifuðu vitlaust einu sinni. En ekki lengur, hausinn á mér hefur versnað svo síðustu ár að ég þarf oft að hugsa áður en ég skrifa, þar sem að ég er farin að skrifa svo vitlaust. Það er alveg óþolandi, vildi að mér hrakaði ekki svona í höfðinu.

En þið eruð að tala um púka..... er það eitthvað til að yfirfara textann sem við skrifum ?? Ég hef oft verið að pæla í hvað þetta "púki" væri, en aldrei prófað að ýta á "púkann".

Eigðu góðan dag Anna mín.

Linda litla, 5.9.2008 kl. 08:20

8 identicon

Slátturvillur og réttritunarvillur eru sitthvað, en það má verjast þeim báðum með því að búa til gott auto-correct. Hvernig? -Jú, slá inn í vinstri dálkinn þau orð sem manni hættir ítrekað til að slá rangt inn (hvort sem ástæðan er of mikill hraði á puttunum á lyklaborðinu eða fákunnátta í stafsetningu) og síðan eins og á að skrifa orðið í hægri dálkinn. Í auto-correct er hægt að slá inn orðasambönd og þess vegna er ekkert vandamál að nota auto-correct líka á þau orð sem hafa ólíka merkingu eftir því hvort í þeim er y eða i, s.s. kyrtill og kirtill. Auto-correct, stelpur er svarið við því þegar puttarnir lenda á röngum tökkum þrátt fyrir afburðaþekkingu á stafsetningu. Muna að velja alltaf það tungumál sem textinn er á vegna þess að auto-correct er aðskilið eftir tungumálum, þ.e.a.s. hægt er að hafa auto-correct fyrir hvert tungumál sem vélritarinn skrifar á.

Helga 5.9.2008 kl. 13:47

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég er reyndar mikill vinur auto-correct í ritvinnsluforritum og átti einmitt sérstaklega skemmtilegt einkasafn í tölvunni minni hjá Læknablaðinu. Reyndar átti sjálfvirka leiðréttingin mín til að of-leiðrétta ef orðaröð kom fyrir inni í orði, það gat verið fyndið og fáránlegt. F-puttinn má mér er nefnilega sneggri í snúningum en A-puttinn þannig að af varð mjög oft að fa, en þetta auto-correct var tilbúið að víxla þessum stöfum fyrir mig hvar og hvenær sem var og ég gat ekki reddað því með því að slá inn bil fyrir aftan, eins og til dæmis þegar ég nota Find og replace. Þá varð ég afhuga gripnum í bili, en eflaust hefur það lagast síðan um árþúsundamótin.

Girða og gyrða eru annað skemmtilegt dæmi um mismunandi merkingar orða með og án ufsilons. Svo eru auðvitað orð sem eru bæði til með og án ufsilons og hvort tveggja talið rétt. Tippi og typpi til dæmis, mér er sagt að karlmenn skrifi ufsilon en konur síður ... En kannski að ég gefi auto-correct annan sjans. Eitthvert ritvinnsluforritið á einhverri tölvu heimilisins er í sjálfboðavinnu að lagfæra enska textann minn, mjög vel þegið. 

Í blogginu reyni ég hins vegar að hafa þetta afslappað og hefur tekist það blessunarlega vel án púka og annarra tóla, alla vega þar til ég rakst á þetta skaðræðisufsilon sem fékk hjartað til að missa úr slag.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.9.2008 kl. 14:57

10 Smámynd: Einar Indriðason

Svo er það þýða og þíða.  List og lyst.

En svo geturðu gert þetta að svona smá leik, svona eftir á að hyggja... lesið ufsilonin (ég kalla þau raunar yfsilon í töluðu máli) upp á einhverja mállýskuna.  T.d. östfirskuna.  ("Ef þú getur ekki sagt sker, segðu þá bekar" (skyr og bikar....))

Hmm... asnalegt dæmi.  Ojæja...  Þá skulum við bara kalla þetta ... Innlitskvitt :-)

Einar Indriðason, 5.9.2008 kl. 21:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband