Góða helgi öll, annríki og mögulegt bloggfrí

Er í banastuði í ýmsum verkefnum. Þetta kemur niður á mannlegum samskiptum og bloggi. Góða helgi öll!

Ný skoðanakönnun sem ábyggilega verður umdeildari en könnunin um haustið

Mér sýndist áhuginn á haustinu vera að dvína, þannig að ég bjó til nýja skoðanakönnun um mun eldfimara efni, það er krónuna og efnahagsmálin. Fróðlegt að vita hvernig lesendurnir mínir skiptast og hvort valkostirnir sem ég býð uppá duga, annars er athugaemdakerfið opið fyrir öllum greindarlegum athugaemdnum.

Dollarinn í 95 krónur ...

Þessa fyrirsögn sá ég fyrir nokkrum vikum í Mogganum. Fannst hún ekki þægileg, einkum þar sem ég ætla að skreppa til Ameríku eftir tvær vikur. En huggaði mig við það að blaðið sem ég var að skoða var frá því á vordögum 2001. Þegar ég var að lesa þetta núna í sumar var gengi dollars í 81 krónu minnir mig, og mér fannst það ansi mikið. En svona sveiflast þetta, í millitíðinni (síðan 2001) hefur dollarinn farið niður í og jafnvel niður fyrir fimmtíukallinn, en kannski verður þessi fyrirsögn rétt í fyrramálið.

19 stiga hiti í dag á Tjörnesi - enn er von!

Haustið er greinilega ekki skollið á um allt land. Í dag var sem sagt skínandi sól og 19 stiga hiti á Tjörnesi og reyndar nánast sama veður á Akureyri, til hamingju með það nafna og Malla! Það gerir mig reyndar undarlega glaða. Einhvern veginn ekki alveg sátt við þetta haustlega veður sem hefur verið að berja á okkur, þótt ég fagni þeim hlýindum sem hafa verið, lítið þol fyrir hálku og garra hérna megin. En sem sagt, þótt eitthvað hafi smávegis blásið á Tjörnesinu og nærsveitum, þá er þetta góða haust norðaustanlands bara gott og eflaust sárabót eftir rakara sumar þar en hér suðvestanlands.

... víxlarnir falla og blöðin detta

Það er mikil hauststemmning í fréttum og á fjármálamörkuðum. Eftir að sólin hefur skinið á þessum mörkuðum um allnokkurt skeið þá er eins og haustgarrinn sé alveg tekinn yfir. Sumt af þessu var fyrirsjáanlegt, annað ekki. Hér heima var varað við harðri lendingu þegar stóriðjufylleríinu lyki, erlendis mátti víða heyra viðvörunarraddir líka, mestmegnis fyrir daufum eyrum. Þessar djúpu haustlægðir í fjármálaheiminum eru, eins og hauslægðirnar Gústav, Ike og afgangar þeirra hér norðar, vísbending um að of mikill belgingur, þenslan margumtalaða, getur valdið eyðileggingu.

Einhvern tíma í vor vitnaði ég í Tómas Guðmundsson, Reykjavíkurskáldið sem menn vilja endilega að sláist í hóp með ,,styttum bæjarins, sem enginn nennir að horfa á". Í vor var hægt að segja:

Í nótt hefur vorið verið á ferli

og vorið það er ekk' af baki dottið

því áður en fólk kom á fætur í morgun

var fyrsta grasið úr jörðunni sprottið.

Þá hélt ég framhaldinu vísvitandi leyndu, þótt ég viti svo sem að margir þekkja það jafn vel og ég. En það hljómar svona (það er niðurlag ljóðsins - eftir minni):

En sumir halda að hausti aftur

þá hætta víst telpur og grös að spretta

og mennirnir verða vondir að nýju

því víxlarnir falla og blöðin detta.


mbl.is Hlutabréf lækka á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsjónir og mænuskaði

Samtök sem berjast fyrir bættum hag fólks með mænuskaða eru að fara í mikla fjáröflun á næstunni og ég ætla rétt að vona að allir verði tilbúnir að leggja þessum málstað lið. Elfa vinkona mín Gísladóttir (sumir muna best eftir henni sem Beggu frænku á Stöð 2) var hér í sumar og langaði að vera með í einhverju slíku átaki, eins og því kraftaverkaátaki sem gert var í þessum málaflokki fyrir 20 árum að mig minnir. Ragnheiður Davíðsdóttir hefur auðvitað verið pottur og panna í þessu máli og ég gleðst því innilega yfir því að hún keyrir málið áfram núna þótt Elfa hafi ekki náð að vera með í þessu átaki á meðan hún var á landinu (hún er leikhússtýra með meiru í Washington-fylki í Bandaríkjunum núna en bjó áður í Kanada). Og nú er allt á fullri ferð í málinu. Það er svo margt hægt að gera með samstilltu átaki.


Daginn eftir kvöldið á undan ... (og ein viðbót um magnaðan seið)

Veit einhver hvaðan setningin ,,the day after the night before" er komin? Google vinur minn tengir þetta við timburmenn og fleira óskemmtilegt, en líka ýmislegt hvert úr sinni áttinni, þannig að ég er aldrei þessu vant litlu nær. Mér finnst þetta alltaf svo flott setning, en vil gjarnan að hún eigi sér skemmtilegri skírskotun. Dagurinn í dag hefur verið svona dagur, án timburmanna þó. Hef sem sagt verið talsvert í símanum að endurlifa gærkvöldið og spennuna í Útsvarinu gegnum lífsreynslu annarra. Svo var ég reyndar sofnuð í sófanum þegar Ari setti endursýninguna á Útsvari á og þá fyrst gerði ég mér grein fyrir hversu erfiður þessi þáttur hefur verið fyrir þá sem héldu með okkur Álftnesingunum. Reyndar fínt að horfa á hann þegar maður veit hvernig fór. Ara fannst það líka ;-)

Ég verð eiginlega að upplýsa það að Álftnesingurinn Margrét Pála Ólafsdóttir, sem var gestur í Kastljósi, og þar af leiðandi í sminkinu líka, sagðist hafa magnað seið okkur til handa, miðað við gang þáttarins þá virkaði hann, takk! Margrét Pála er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur lengi verið og ég fékk það skemmtilega hlutverk fyrr á árinu að taka viðtal við hana, sem var auðvitað púra ánægja. Óska henni velfarnaðar með allt hennar skólastarf og frumkvöðlahlutverk.

En það er ýmislegt fleira verið að gera núna, ég er að undirbúa ágætis lotu í tilverunni, koma Sandgerðissögu í prentun og leggja lokahönd á enskan texta sem ég er að skrifa fyrir Álftanes. Og svo styttist í Ameríkuferðina og ég var að heyra í Nínu systur, sem er alltaf gaman, eftir að hafa verið að kjafta við Elísabetu systur lengi vel í dag. Miklar pælingar í gangi eins og alltaf.

Svo er ég búin að fá að vita að fyrsta vikan í skólanum hjá Hönnu þessa önnina var bara alveg ágæt, sem er ákveðinn léttir, því ég veit að sennilega er þetta strembnasta önnin á skólaferlinum hjá henni. Þar sem ég var rétt búin að átta mig á því að Óli er búinn að bóka ansi stíft á sína önn, þá var þetta auðvitað að bera í bakkafullan lækinn, en mér finnst samt aðeins auðveldara að vera innan seilingar fyrir hann, ég meina, ég get alla vega lesið yfir ritgerðir, en minna gagn að senda á mig einhverjar læknisfræðiglósur. Ég var lengi að átta mig á því hvað er skrýtið, það er að ég er ekki byrjuð í skólanum (reyndar einn myndlistarskúrs framundan).

Sem sagt, dagurinn eftir kvöldið áður er að kvöldi kominn og ég get ekki hreykt mér af miklum afköstum (kannski er fullt eftir að deginum samt, en að mér læðist syfja og það allt of snemma).

 


Ótrúlega afslöppuð eða útúrstressuð á leið í spurningakeppnina Útsvar í kvöld með Guðmund Andra og Hilmar Örn mér við hlið

Eiginlega hef ég ekki hugmynd um hvort ég er ótrúlega afslöppuð eða útúrstressuð yfir því að vera að fara í spurningakeppnina Útsvar í kvöld, fyrir hönd Álftnesinga. Með mér í liði eru reynsluboltarnir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði, tónskáld og tónlistarmaður, og fullkomin leynd hvílir yfir undirbúningi. Það skal þó upplýst að bensínafgreiðslumaður í Garðabæ hefur áhyggjur af leikhæfileikum okkar og giskgetu (og örugglega margir fleiri), námsmaður í Ungverjalandi þurfti að senda fyrirspurn um hvort Útsvar yrði nú örugglega sent út á neitinu (svo er sagt) og ekkert okkar, að ég held, hefur boðið ættingjum sínum að vera við, þó hefur frést að einhverjir hafi sjálfir útvegað sér miða. Guðmundur Andri hefur skirfað mjög spaklega grein í héraðsfréttablaðið okkar, alftanes.is um hvað maður sé miklu gáfaðri í sófanum heima en við spurningaborðið, tek undir hvert einasta borð, hef nefnilega einu sinni áður látið véla mig í spurningakeppni í sjónvarpi. Frést hefur að Fjarðabyggð, sem við etjum kappi við, hafi skipt út öllu sínu liði frá því í fyrra.

Kvenfélagið á Álftanesi mun, ásamt Lions, gera grín að okkur á komandi þorrablóti, hvort sem við vinnum eða töpum, ef marka má reynsluna frá í fyrra, en þá var ég reyndar ekki með í liðinu. Hef samt orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera skotspónn á þorrablóti, endur fyrir löngu, ásamt fleirum reyndar, og fannst það miklu skemmtilegra en sumum hefur þótt, nefni engin nöfn ;-)

Þannig að þetta verður yndislega sveitó hjá okkur, eins og það á einmitt að vera. Bara gaman!


Velkomnir, nýir Íslendingar og skynsamleg stefna í vali flóttamanna

Fylgist með mikilli athygli með frásögninni hennar Gurríar af komu nýju Íslendinganna til Akraness. Það er ákveðin skynsemi sem ég kann vel að meta í vali á flóttamönnum sem hingað koma. Þegar Júgóslavarnir komu var lagt upp með þá hugsun að fá hingað fólk sem ætti erfitt uppdráttar í heimalandinu, ekki síst vegna þess að hjónaböndin voru þvert á þær víglínur sem sköpuðust í stríðinu þar. Þannig komu allmörg hjón sem voru annað hvort serbnesk/króatísk eða blönduð á annan hátt. Það er líka skynsamlegt að bjóða hingað einstæðum mæðrum, því hér á landi hefur blessunarlega lítið verið um fordóma í þeirra garð miðað við margar aðrar Evrópuþjóðir til dæmis, þannig að þetta umhverfi ætti að vera gott fyrir þessar stríðshrjáðu fjölskyldur sem hingað eru komnar. En endilega fylgist með Gurrí.

Þá er að rjúfa þögnina (mína) um Söruh Palin

Ég hef ekki sagt stakt orð um Söruh Palin, þótt mér séu forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hugstæðar, enda mikilvægt að koma Bush frá. Okkur feministum er oft legið (ranglega) á hálsi fyrir að vilja fá konur í allt ,,bara af því að þær eru konur" eins og oft er sagt. Það er mikill misskilningur. Það var Hannes Hólmsteinn, en ekki feministar, sem hyllti Margréti Thatcher á sínum tíma. Og ég held að hann hafi ekki verið að hylla hana ,,bara af því hún er kona" enda ekki grunaður um neinn umtalsverðan feminisma. Mér finnst reyndar komment í viðtali sem ég tók við ofurskemmtilegan, enskan feministaleikhóp, Clapperclaw, segja allt sem segja þurfti um Margréti Thatcher: She MAY be a woman but she is not a sister!

Og þá er það Sarah. Ég ákvað að gefa henni sjans þegar ég heyrði fyrst af henni. Vissi ekkert um konuna og var tilbúin að bíta í það súra epli að McCain hefði verið sá slyngi refur að finna ómótstæðilegt varaforsetaefni. Það hefðir verið slæmt fyrir okkur sem viljum ekki framhald á veldi repúplikana. En nú hef ég heyrt smávegis frá Söruh sjálfri, hún er vel máli farin, sem er ekkert furðulegt, merkilegra hversu langt sumir (mið)aldraðir, hvítir karlar komast án þess að vera kjaftfærir. Hins vegar eru þau gildi sem hún stendur fyrir ekki fýsileg að mínu mati, á móti valfrelsi kvenna þegar kemur að fóstureyðingum, hlynnt byssueign og á móti spillingu annarra en ekki endilega í eigin ranni, ef marka má fréttir. Þannig að þótt hún sé kona, mjög frambærileg og án efa mjög hæf, þá er ég ekki sátt við að skoðanir hennar nái brautargengi. Mér er hins vegar slétt sama um óléttu dóttur hennar, mér kemur það bara ekkert við hvort hún ætlar að giftast barnsföður sínum eða ekki. Vona samt að ef hún gerir það verði það af réttum ástæðum, ekki vegna einhvers óeðlilegs þrýstins íhaldssamra repúplikana.

Þannig að sorrí, ég verð að halda með framboði karlanna tveggja, vissulega held ég að demókratar væru betur settir núna ef Hillary væri í fararbroddi, en ég er afskaplega sátt við Obama og vil hann endilega sem næsta forseta Bandaríkjanna, það væri svo sannarlega heillaspor. Og ég vona innilega að hann muni að vera ötull talsmaður fyrir feminisma, ekki veitir af og ég veit að það er fullt af góðu fólki í kringum hann sem mun halda honum við efnið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband