Hvar er Dorrit?

Missti ég af einhverju eða hvar er Dorrit í dag? Einhver hlýtur að vita það. Og ég vænti þess að á því sé skýring sem aðrir en ég þekkja ef hún hefur verið jafn fjarverandi í dag og mér hefur sýnst. Þessi spurning mín er ekki gildishlaðin, hef ekkert verið að skipta mér af umræðunni um hvort hún hafi verið nógu ,,forsetafrúarleg" eða ekki. Það er vel ljóst að hver einasti forseti og þeir makar, sem að hafa komið, hafa verið í því hlutverki að móta þetta frekar unga þjóðhöfðingjahlutverk landsins, rétt eins og gerist í öðrum löndum sem eru með stjórnskipun sem sækir ekki rætur langt aftur í aldir. Og þannig á það að vera, þjóðin kýs og þjóðhöfðinginn hverju sinni mótar hlutverkið ásamt maka sínum. Sé ég bara svona illa eða var Dorrit fjarri góðu gamni í dag?

Og enn og aftur, innilega til hamingju, strákarnir okkar!


Fleiri bros og meiri gleði

Stórkostlegt að sjá útsendinguna þar sem mannfjöldi fylgir bifreið landsliðsmannanna og bros á hverri vör. Þetta er sannkölluð þjóðhátíð!

Smá Höfða-stíll yfir útsendingunni

Bogi, gamli bekkjarbróðir minn, malar í míkrafóninn eins og Ingvi Hrafn gerði víst af snilld fyrir framan Höfða þegar leiðtogafundurinn var haldinn þar, 1986. Ekki heyrði ég í Ingva Hrafni á sínum tíma þar sem ég var að vinna fyrir ABC sjónvarpsstöðina, þar sem Peter Jennings og fleiri fóru hamförum. Útsendingarstjórinn hjá ABC sagðist reyndar aldrei vilja sjá dyrnar á Höfða aftur, eftir að hafa starað á hana í einn dag, tilbúinn að skipta ,,live" út til Bandaríkjanna. Núna er eitthvert uppfyllingarefni tilbúið, blessunarlega, en annars bíða bara allir sælir og glaðir. Fulltrúi fjölskyldunnar á vettvangi er Hanna, dóttirin á heimilinu. 

Bein SILFUR-útsending fyrir okkur í pestinni

Líst vel á þessa beinu útsendingu á móttöku handboltalandsliðsins, sem er að byrja núna. Greinilega vel að móttökunni staðið, og við sem liggjum í hinum aðskiljanlegu pestum getum fylgst glöð og hress með. Ætli krónan styrkist ekki enn meira núna.

Eftir lestur ævisögu Clapton

Eftir lestur á sjálfsævisögu Clapton er margt sem fer um hugann. Búin að heyra ýmislegt um bókina og einkum hversu óvæginn hann sé við sjálfan sig og dragi ekki fallega mynd upp af sjálfum sér. Það sem mér finnst standa uppúr eru lýsingar hans á áhrifavöldum og tónlistarpælingum, einkum á yngri árum (þrátt fyrir sukkið er tónlistin þá ennþá númer eitt). Tímabilin sem hann gekk í gegnum, Mynd004sem gítarleikari í ýmsum hljómsveitum, stemmningin, afstaða hans til ýmissa tónlistarmanna og tilurð einstakra laga, þetta eru silfurmolarnir í frásögninni (silfur er aðal málmurinn í dag ;-). Og mismunandi þol, ánægja, snobb, virðingu og annað sem ræður afstöðu hans til tónlistar hverju sinni er mjög skemmtileg pæling sem skilar sér vel í bókinni.

Hitt sem mér finnst magnað er bataferlið hjá honum og að það skuli yfir höfuð hafa tekist að rífa hann upp úr móðunni sem hann var að hverfa inn í. Ég segi ,,það skuli hafa tekist" en ekki að honum hafi tekist það upp á eigum spýtur, þrátt fyrir að ég viti að ef hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að vilja snúa við blaðinu hefði þetta auðvitað ekki tekist. En hann skilar því líka vel hversu mikla hjálp hann þurfti og fékk. Á köflum finnst mér of mikið um upptalningar án efnis, en þetta eykur reyndar heimildagildi bókarinnar, sem ég held að hljóti að vera ótvírætt.

Þá er það sukkið, jú, lýsingarnar eru óvægnar og nöturlegar, en bæta kannski ekki svo miklu við það sem fjölmiðlar hafa verið ólatir að segja okkur. Reyndar fannst mér svolítið merkilegt hvernig hann lýsir einangruninni og að því virðist hrútleiðinlegu lífi heróínfíkilsins, sem hann var. Á hinn bóginn virtist hann skemmta sér mun betur sem fyllibytta, en með ömurlegum afleiðingum.

Las einhvers staðar að þýðingin væri stirð og þar sem ég las bókina í þýðingu og hef ákveðnar skoðanir á svoleiðis löguðu, þá verð ég að bera blak af þýðandanum, hún er auðlæsileg en svolítið flöt. Þó ég hafi ekki borið hana saman við frumtextann, þá hallast ég að því að þessi flatneskja (upptalningarnar sem ég nefndi) sé á ábyrgð frumtexta. Þetta er ekkert bókmenntaverk. Hnaut um örfáar leiðinilegar enskuskotnar setningar sem ég skrifa á hraða þýðanda. Þar stakk mig helst orðalag eins og ,,hans gítar" (eða hvaða hlutur það var nú) þar sem íslenskan ætlast til þess að skrifað sé ,,gítarinn hans". En þetta er sparðatíningur, bókin er auðlesin.

Clapton galopnar ekki inn á sig í þessari sögu, þrátt fyrir óvægnu hreinskilnina, nema þegar kemur að tónlistinni og afstöðu til hennar. Og það finnst mér kostur. Fjölskyldan hans er flókin, en það gerist nú á fleiri bæjum, hann skýrir ýmislegt í lífi sínu með þeim grunni sem hann byggir á, en það vekur engan ofboðslegan áhuga minn. Hins vegar finnst mér gaman að heyra um ,,menningarlega árekstrar" eins og mismunandi húmor Breta og Ameríkana. Þar datt ég gersamlega inn í frásögnina, þótt hún væri knöpp.

En sem sagt, góð bók fyrir Clapton aðdáendur og blúsáhugafólk.


Spennandi haust (?)

Ég held að haustið framundan eigi eftir að vera spennandi. Fyrstar skal nefna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, sem að vísu virðast ætla að verða óþarflega spennandi. Gjarnan vildi ég að við hefðum betri tryggingu fyrir batnandi tíð, það er lok repúblikana-tímabilsins, en í staðinn fáum við spennu. Ennfremur eru mörg álitaefni varðandi þróun borgarmála og erfitt að henda reiður á hvernig til dæmis varðveislu húsa verður háttað undir þessum nýja meirihluta, aðeins skýrara (og verra) er þó að svo virðist sem Birtuvirkjun sé ekki alveg úr myndinni. Annað sem er ákaflega spennandi er þetta hálfkreppuskeið sem nú er skollið á, bæði alþjóðlegt og innlent. Mér finnst almennt á fólki að það ,,nenni" ekki kreppu og langi að rífa sjálft sig og samfélagið upp úr þessu ástandi, en því miður dettur mörgum ekki annað í hug en það sem upphaflega olli hluta af kreppunni, það er meiri þensla.

Hef eflaust nefnt það hér áður á blogginu, sem ég heyrði reyndar á enskri tungu fyrst, það er að setningin: May you live in interesting time, væri í rauninni kínversk bölbæn. Hvað til er í því veit ég ekki, hef ekki einu sinni googlað þetta, því það er hugsunin sem mér finnst allrar athygli verð, hvenær verða viðburðir svo markverðir að þeir geti varla verið góðir? Ja, alla vega er viðburður morgundagsins, móttaka handboltalandsliðsins, sem pestin mun kannski hindra mig í að taka þátt í, jákvæður viðburður og býsna stór.


Heimkomur

Heimkoma Paul Rames í nótt er mikið fagnaðarefni og vonandi verður framhald málsins jafn ánægjulegt. Vona að það vefjist ekki fyrir neinum að hér á þessi ágæta fjölskylda heima.

Á morgun verður annarri heimkomu fagnað þegar landsliðið kemur heim með sigursilfrið sitt. Smáþjóðarhjartað í mér gleðst einlæglega.

Enn eitt ,,heimkomu"-dæmi er oftarlega í huganum núna. Mér, eins og fleirum, finnst að Bandaríkjamenn hafi verið heillum horfnir undir Bush-stjórninni. Eina leiðin til nýrrar ,,heimkomu" sé að kjósa Obama í nóvember sem forseta Bandaríkjanna. Nú er hvatt til einingar en mjótt er á mununum í könnunum og það er auðvitað svolítið kvíðvænlegt, en ég held þó að þetta fari allt vel að lokum.

 


Síðsumarpestin, veðrið og lýsi eftir þriðju ljóðlínunni, takk!

Mér heyrist á vinum og ættingjum að önnur hver manneskja sem með þessa hálfvolgu haustpest, sem ég leyfi mér að kalla síðsumarpest, vegna þess að ég er ekki aldeilis tilbúin í haustið strax. Veðrið er hins vegar aðeins að daðra við hlýtt haust, en það er fullkomlega ótímabært. Mér finnst eiginlega að þessi blessuð pest, sem stoppar mig svo sem ekki af í mörgu, þótt ég hafi guggnað á einu afmæli á laugardaginn, sé eins og vísan góða um veðrið sem mér finnst alltaf skemmtileg (vísan, ekki veðrið). En nú sé ég reyndar að ég er búin að gleyma þriðju ljóðlínunni en treysti á ykkur bloggsamherjar að bjarga mér um hana og fylla inn í punktalínurnar:

Veðrið er hvorki vont né gott

ekki kalt og ekki heitt

.... (né heldur) ....

það er svo sem ekki neitt.

 

Smá viðbót, Sæa, tengdamamma mín hringdi inn hvernig hana minnir að vísan sé:

Veðrið er hvorki vont né gott

ekki kalt og ekki heitt

það er hvorki þurrt né vott,

það er svo sem ekki neitt.

 

Mér líst ágætlega á þessa tillögu og býð alla vega ekki betur í bili.

Í athugasemdakerfinu kom smá bragarbót á upprunalegu línurnar sem ég setti fram en með þriðju línunni eins og Sæa lagði til. Þessi breyting er ágætlega rökstudd og er frá Hlyni. Hér er sú útgáfa og nánari útlistun í athugasemdakerfinu:

Veðrið er hvorki vont né gott,

varla kalt og ekki heitt.

Það er hvorki þurrt né vott,

það er svo sem ekki neitt.


Skínandi silfur og það sem best er: Strákarnir okkar farnir að brosa aftur! Til hamingju öll!

Við vissum alltaf að þessi leikur yrði erfiður og hann varð það. Eina sem mögulega hefði getað skyggt á daginn var ef við hefðum ekki fengið að sjá strákana okkar brosa í dag. En brosið kom á verðlaunaathendingunni og líklega er að renna upp fyrir þeim hvaða afrek þeir hafa unnið. Glæsilegur árangur og ekkert annað um það að segja. Ekkert skrýtið að þessi árangur veki heimsathygli og ánægjulegt að það sem mesta athygli vekur sé hugarfarið og liðsheildin.


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menning og þýðingarvilla, ættingjar og pest

Lítið fer fyrir menningu hér á bæ á þessari menningarnótt (sem er reyndar þýðingarvilla úr skandinavísku, efitr því sem ég best veit og byrjaði rosalega vel á því að allt var opið og skemmtilegt fram til fjögur eða fimm að morgni, eða þar til einhver áttaði sig á því að kulturnat er menningarKVÖLD).

flugeldarÉg er sem sagt lögst í pestina sem ég hélt að ég hefði sofið úr mér í gær. Það var smá misskilningur. Í dag var ég þó svo brött að ég skrapp á ættarmót í ausandi rigningu á Þórisstöðum í Svínadal í Hvalfjarðarsveit býst ég við. Sem betur fór höfðum við aðstöðu inni, því mæting var rosalega góð. En þegar leið að afmæli sem við Ari ætluðum í var ég orðin æði framlág og ákvað að dreifa eymd minni ekkert frekar heldur kúra og reyna enn að koma þessari ,,bíp" pest af mér.

En ég ætla, eins og allir aðrir á Íslandi, að vakna í fyrramálið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband