Kona eignast indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu

Lengi vel var þetta indverska sjal uppi í sumarbústað, en ég tók það í bæinn fyrir haustið og stend mig að því að njóta þess að horfa á það. Mínir litir og þeir eru fallegir fyrir þá sem kunna að meta þá. 

2023-10-20_21-35-44Sjalið á sér sögu. Þegar ég var að vinna í Hamborg, ásamt fólki af ýmsu þjóðerni (33 mismunandi) voru tveir Danir meðal vinnufélaga minna, en svo fór Natalie heim til Danmerkur og Anders var einn eftir af Dönunum. Við unnum svolítið saman, nógu mikið til að vera búin að átta okkur á því að við áttum sama afmælisdag og skakkaði varla nema hálfri ævi á okkur hvað fæðingarárið varðaði. Einhvern tíma eftir að Natalie fór og áður en við áttum afmæli dó mamma hans Anders frekar óvænt og hann var heldur miður sín, skiljanlega. Þegar hann kom til baka til Hamborgar var enn í ýmis horn að líta og hann frekar upptekinn, en einn daginn kom hann að máli við mig og spurði hvort ég kynni ekki dönsku? Jú, ég hélt ég gæti haldið því fram. Þá vantaði hann nefnilega vott að því að hann hefði sjálfur útfyllt smá eyðublað sem varðaði skipti arfs milli hans og systur hans, ef ég man það rétt. Anders var ekkert að grípa næsta mann í verkið, heldur stálheiðarlegur fann hann til dönskulesandi manneskju, mig, og ég vottaði að sjálfsögðu allt hans verk, ekki var það erfitt. Nema hvað, daginn eftir kom hann með þetta fallega sjal í vinnuna og sagði mér frá því þegar hann bjó ásamt móður sinni og systur á Indlandi, en þaðan er sjalið. Tvennt togaðist á í mér, að afþakka sjalið af því það var einfaldlega allt of mikið fyrir svona létt og lítið verk, eða þiggja það af því það er svo fallegt. Og þannig eignaðist kona indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu. 

 


Það er hægt að eltast við fleira en drauma

Ekki misskilja mig, mér finnst æðislegt að eltast við drauma, en almennt séð finnst mér bara fyrst og fremst gaman að eltast við eitthvað skynsamlegt og óskynsamlegt, þegar sá gállinn er á mér. Þannig hef ég farið til baka með lest frá Bexhill í Englandi til að eltast við bleikt hús, sem ég sá út um lestargluggann. Sú ferð bar mig á slóðir stórs golfvallar og þegar ég var að fara til baka eftir stíg á golfvallarsvæðinu brast á þetta ferðlega þrumuveður svo ég reyndi að rifja upp hvað væri rétt að gera, ekki fara undir tré, alls ekki vera hæsti punkturinn á vellinum, en til baka komst ég alla, einni mynd af bleiku húsi ríkari, ég á nokkur hundruð og hef meira að segja fléttað þeim inn í eina af myndlistarsýningunum mínum.

i286260064373074369._szw1280h1280_

Sömuleiðis elti ég eitt sinn geisladisk. Innskot: Ef Moggabloggið á yngri lesendur en mig þá er rétt að geta þess að það er hvorki borðbúnaður né eitthvað geislavirkt, heldur er hægt að spila lög af þeim í geislaspilara. Innskoti lýkur. Sá þennan geisladisk með Robert Palmer og laginu Johnny and Mary í glugga plötubúðar í írska fjölþjóðlega hverfinu Kilburn í London einhvern tíma seint á síðustu öld. Keypti hann ekki, af því ég var ekki með pening á mér (og ekki kort) nema rétt nægilegan fyrir annað hvort lestinni niður í miðbæ, þar sem ég hélt til í Baker Street, eða fyrir geisladiskinum. Sá mig um hönd eftir að vera komin alllangt frá búðinni, fór og keypti diskinn og gekk svo niður í bæ, nokkuð sem ég hafði oft gert fyrr á öldinni, á blankheitaárunum þegar ég var bara unglingur í London. Það tekur ekki nema eitthvað um klukkutíma hvort sem var. Veggskreyting með úlfalda í Gran Tarajal, þorpi á Fuerteventura með frekar strjálum strætósamgöngum, blátt hús í Los Llanos á La Palma, næstum klukkutíma strætóferð hvora leið, svartir svanir og kengúrur í Canberra í Ástralíu, þær síðarnefndu útheimtu að ég vaknaði klukkan fimm að morgni, aftur í strætó í útjaðar borgarinnar. 

55783924_10218921192879266_3551199958151462912_nMér dettur oft í hug hvort ég hafi erft þetta í einhverjum genum frá móðurömmu minni og -afa, sem iðkuðu það á millistríðsárunum að fara í sunnudagsbíltúr sem fólst í því að velja sér bíl sem var á leið upp Ártúnsbrekkuna og elta hann þangað sem hann fór. Eitt sinn enduðu þau í Vík í Mýrdal, mögulega hefur það verið í stríðinu eða eftir það, nenni ekki að tékka á hvenær varð almennilega bílfært til Víkur. En sumir túrarnir urðu á hinn bóginn snautlega stuttir. 

Eftir tíu daga ætla ég að skreppa í smá ferðalag og elta eina hugdettu. Aldrei að vita nema að ég segi ykkur nánar frá því. 

Því segi ég, eltið drauma ykkar og hvað annað sem ykkur dettur í hug! 


,,Mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið og sultukrukkan

Ein jafnleiðinlegasta tegund fólks sem ég hef fyrirhitt er ,,mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið. Blessunarlega tókst mér næstum því að komast á fullorðinsár án þess að verða vör við það, en vera má að það sé bara lélegri athyglisgáfu að kenna. Foreldrar mínir og aðrir uppalendur voru aldeilis ekki haldnir þessu kvilla og svei mér þá ef mér tókst ekki að komast í gegnum allt skólakerfið án þess að verða fyrir barðinu á svona mannskap. Fyrsta tilfellið í minni fjölskyldu af fórnarlambi þessa leiða eiginleika var líklega frænkan sem flutti til Noregs og lenti í því að það var hreinlega ráðist á hana fyrir að hafa ákveðið að kaupa tiltekna sultukrukku. Hún væri nefnilega of dýr! Þetta var í stórmarkaði og frænka mín, sælkeri mikill, stóð með krukkuna í höndunum þegar manneskjan vatt sér að henni, tók hana af henni og benti henni á að hún ætti að kaupa miklu ódýrari tegund (eins og þessi einstaklingur gerði). ,,Mér finnst að þú ættir ekki að kaupa svona dýra sultu," sagði blessuð skepnan og frænkan hrökklaðist út án þess að kaupa neitt. Mér finnst það algert einkamál alls fólks hvort það vill sóa litlum/miklum eigum sínum í sultukrukkur eða eitthvað annað. 

Fyrsta atvik (af furðu fáum) sem ég minnist persónulega er þegar mér voru borin skilaboð frá manneskju sem leit fremur stórt á sig. Þau voru eitthvað á þessa leið: ,,Mér finnst að hún ætti ekki að vera með lafandi eyrnalokka af því hún er með sítt hár!" 

Með aukinni samfélagsmiðlanotkun hef ég komist í tæri við nokkur svona eintök í viðbót fyrir alls konar léttvægar sakir.

Þetta er samt ekki endilega það versta. Náskylt þessu er ,,þú getur ekki verið þekkt fyrir"-fólkið, sem undir því yfirskini að það telji mig einhverja æðri veru eins og það sé sjálft, telur sig hafa fullt veiðileyfi á mig. Það er misskilningur. Flest þetta fólk er nú fyrrverandi Facebook-vinir mínir, skiljanlega. 


Konan sem þoldi ekki ,,þessar kvennakonur!"

Það verður varla undan því komist að verða hugsað til gamla ,,kvennafrídagsins" eins og umræðan er þessa dagana. Kvennaverkfall í uppsiglingu fyrir konur og kvár og nú á tímum samfélagsmiðla veit ég miklu meira um vangaveltur mikið fleiri kvenna (en engra karla) um þennan dag sem er framundan. Þannig hefur samfélagið breyst. Vangaveltur eflaust ekkert meiri en í upphafi þessara aðgerða, en birtast mér alla vega á allt annan hátt. Hvort það er gott eða vont hef ég ekki hugmynd um. 

Kvennafrídagurinn er mestmegnis góðar minningar í mínum huga og þar á ofan var hann auðvitað ótrúleg upplifun. Það var stórkostlegt í einu orði sagt að fá að taka þátt í þessum heimsviðburði, finna kraftinn í allri samstöðunni og sjá þessar tugþúsundir kvenna fylla allan miðbæinn. Við vorum tvær saman þennan dag, ég og tilvonandi mágkona mín og jafnaldra og ekki hægt að biðja um betri félagsskap. Allir í kringum mig, nema ein gömul frænka, voru þarna á víð og dreif um þvöguna og aldrei spurning, við vorum allar með. Mamma ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, vinkonur mínar og fjölskylda öll (nema frænkan) á einu máli um þessa aðgerð. Vissulega fannst okkur sumum að þetta hefði átt að vera kvennaverkfall, en ekki frídagur, en þessi varð niðurstaðan og hún virkaði svona vel.

Fyrirvarinn sem ég set að dagurinn hafi einungis verið mestmegnis góður kemur til út af einu atviki. Eftir að fundinum á Lækjartorgi var lokið slóst ég í för með nokkrum gömlum skólasystrum og kærasta einnar þeirra og við fórum heim til einnar úr hópnum. Þær voru á þeim tíma talsvert virkari en ég í kvennabaráttunni og tóku sjálfar þátt í ýmsum aðgerðum Rauðsokka mun oftar en ég, enda áttu þær mun borgaralegri og stilltari mæður en ég, vel hugsandi konur vissulega, bara stillari en mín mamma var. Svo þær vissu eflaust að þær yrði sjálfar að redda þessu öllu saman meðan ég hafði fulla trú á að mamma væri svona hér um bil búin að því, prívat og persónulega. Nema hvað, einhver kergja var á milli eina parsins í hópnum og gengu einhver brigslyrði þeirra á milli, ég reyndi að leiða þetta hjá mér, en fékk samt smá bakþanka - mun þetta einhvern tíma verða í lagi, samskipti kynjanna? Þau, þetta ofurmeðvitaða fólk hundóánægð á þessum dýrðardegi? Áhyggjur mínar reyndist að ég best veit gersamlega ástæðulausar hvað þessi tvö varðaði alla vega. Þau hafa staðið þétt saman, æ síðan, og verið fyrirmynd annars fólks að mörgu leyti og getið sér gott orð í sínum störfum og einkalífi að ég best veit. En þennan dag varð ég svolítið áhyggjufull fyrir þeirra hönd.

Það er af gömlu frænku minni að segja að ég efast ekki um að hún hefur staðið við orð sín og straujað skyrtur eiginmannsins tvisvar þennan eftirminnilega dag. Afkomendur hennar hafa aftur á móti fetað mikla kvenfrelsisbraut, en það veit hún ekki, nema forvitnin hafi rekið hana til að fylgjast með að handan. 

Tíu árum síðar var ögn annað andrúmsloft þegar ákveðið var að endurtaka leikinn með öðrum hætti og halda upp á tíu ára afmæli kvennafrídagsins með margvíslegri dagskrá, sýningum og öðrum uppákomum sem stóðu talsvert lengur en einungis þennan dag, þótt konur hyrfu ekki frá vinnu nema þá. Þá hafði ég hellt mér út í kvennabaráttuna og tók virkan þátt í undirbúningi og uppákomum dagsins og því sem á eftir fylgdi. Við vinkonur úr blaðamannastétt vorum allar á einu máli og einhvern veginn æxlaðist það þannig að okkur var falið að hafa samband við trúnaðarmann á vinnustað þar sem orðrómur hafði borist um að eigendur fyrirtækisins væru að reyna að koma í veg fyrir að konurnar sem unnu hjá þeim tækju þátt í dagskrá dagsins. Trúnaðarmaðurinn (kona) tók mér vægast sagt illa þegar ég bar upp erindið og við áttum fremur leiðinlegt samtal sem aðallega fólst í að hún mærði eigendur téðs fyrirtækis. Svo kvað hún upp úrskurð sinn í lok samtalsins og tilkynnti mér að hún þyldi ekki þessar ,,kvennakonur"! 

 


Alin upp við sannleiksást

Börnin mín eru alin upp við sannleiksást, ekki þessa sem notuð er sem skálkaskjól fyrir særandi ummæli (sjá eitthvert fyrra blogg)heldur alvöru sannleiksást. Var að rifjast upp fyrir mér í spjalli við góða vinkonu, þegar sonur minn, þá um það bil sjö ára, svaraði í heimilissímann og ég sá að símtalið var til mín því ég hristi höfuðið til merkis um að ég vildi alls ekki taka símtalið, enda á leið út um dyrnar. Það seinasta sem ég heyrði áður en ég sneri aftur inn og tók þetta símtal sneypt og í hræðilegu tímahraki var: ,,Já, en hún bara villllll ekki tala við þig!"


Eggið eða hænan

216230_1030681925746_6115_n

Hef ekki hugmynd um hvort kom á undan, eggið eða hænan. Hins vegar man ég að þegar ég var krakki fannst mér (eins og ennþá) gaman að skrifa sögur, en byrjaði alltaf á því að myndskreyta þær og setti svo textann í auða plássið á milli. Það var ágætis aðalæfing fyrir blaðamennsku þegar stundum þurfti að ,,skrifa í pláss" sem sagt fá skilgreinda lengd texta áður en hann var skrifaður. Var að vinna í vatnslitaútgáfu á mynd sem ég gerði fyrir mörgum árum þegar ég vann mest í grafík. Allt í einu rann það upp fyrir mér að vatnslitaútgáfan var miklu frekar í ætt við myndskreytingu (við óskrifaða barnasögu held ég bara) en eiginlega (virðulega) vatnslitamynd.

kottur1

 

Spurning hvort ég læt af því verða að skrifa þessa barnasögu einhvern tíma. Hef bara einu sinni skrifað barnasögu og það var einmitt á blaðamennskutímanum þegar einhvern tíma vantaði barnasögu í Vikuna og ég skrifaði sögu (í pláss) og teiknaði auðvitað mynd með, söguna um hana Bullukollu, sem mér finnst alltaf vænt um. 

2021-04-08_15-54-26

Skemmtilegasta dæmið um ,,vitlausa" röð er þó frá því að ég kláraði tölvunarfræðina og fór að vinna við hugbúnaðargerð. Tókst eftir nokkurra ára starf í faginu að koma mér að sem tæknihöfundi og lagði ríka áherslu á að vera með á öllum stigum ferlisins, frá þarfagreiningu og yfir í að forritun og prófunum var lokið og hugbúnaðurinn tilbúinn til notkunar. Eftir nokkra góða fundi með teyminu mínu taldi ég mig hafa nægar upplýsingar til að gera ,,manual" fyrir þennan hluta lausnarinnar okkar og dreif í að skrifa hann. Hafði ekki hugmynd um að dregist hafði að hefja forritun og gat ekki annað en hlegið þegar til mín kom einn reyndasti forritarinn hjá fyrirtækinu og tilkynnti mér að hann ætlaði að fara að byrja að forrita og mundi gera það eftir ,,manualnum" mínum. Gamli RTFM bolurinn minn (hef átt þá nokkra, þvottavélin ritskoðaði einn þeirra) hafði í þetta skiptið orðið að áhrínsorðum/-bol.

anna olafsdottir bjornsson (2)

Nú er ég reyndar farin að ganga í bol með áletrun eitthvað á þá leið að fólki eigi frekar að lesa bækur en boli, en það er önnur saga. 


Lélegur lygari en bærilegasti bullari

Rifjaðist upp fyrir mér í dag í spjalli í vinnunni (eins og svo margt) þegar mér blöskraði alveg hvernig mynd sumir Bretar höfðu af Íslendingum. Vinnufélagi hafði þurft að minna einhvern Englending á að þótt þeim fyndist að Ísland hlyti að vera óttalega frumstætt þá hefðum við þó tvöfalt gler í gluggum, ofn í hverju herbergi og alls ekki teppi á gólfum á klósettunum. Þetta er mildari útgáfa af því sem ég sagði við mína ensku félaga, þegar ég var orðin leið á að vera spurð hvort ég byggi ekki í snjóhúsi: - Jú, auðvitað, sagði ég. - Á 7. hæð í snjóhúsablokk, stigi upp (stundum sagði ég lyfta) og svo þessi fína rennibraut niður. Þann 15. október færu allir nema fjórir að sofa og svæfu fram á vor, en mættu vakna til að halda jól og páska. Þessir fjórir vökumenn sæju svo um grunnþarfir samfélagsins meðan hinir svæfu. Þetta sparaði auðvitað reiðinnar býsn í orkukostnaði og öðrum tilfallandi. Ef ég vildi leggja áherslu á orð mín benti ég á að ég héti Björnsson, og allir á Íslandi hétu bjarnarnöfnum, til að leggja áherslu á að við legðumst öll í híði. Verst var að ég grunaði suma um að íhuga sannleiksgildi orða minna. Hélt að þetta væri svo augljóst bull. 

Það tók sig líka upp gamall bullari um daginn þegar ég var spurð hvað ég sæi fyrir mér af skrifum í framtíðinni (þar sem ég er nú lögst í glæpasagnaskrif) og ég sagði hiklaust að ég stefndi að 50 glæpasögum. Svo fór ég nú að fá bakþanka en lék mér þó að því að skrá niður plott á hartnær 30 þeirra, svo hver veit? Ég er ekki nema 71 árs og enn í nánast fullri vinnu og að sinna myndlistinni af ögn meiri ákafa en ég þorði að vona. Hef örugglega fínan tíma næst þegar ég fer á eftirlaun.

Aftur á móti er ég alveg herfilegur lygari, sem betur fer. Lítið gefin fyrir þá tegund af bulli þótt ég sé alin upp af þeirri kynslóð sem leit nánast á svokallaðar ,,hvítar lygar" sem almenna kurteisi. Það er alltaf hægt að þegja eða segja eitthvað sem hægt er að standa við án þess að vera ókurteis. Sumir hafa reyndar þörf á að særa aðra í nafni sannleiksástar og það er litlu skárra en lygarnar. 

Ég á nokkra góða vini sem eru snillingar í bulli svo ég er ekki ein á þessum nótum, ekki lengur. 

 


Endurfundir við Hamborg í hita og fjöri

Hamborg hefur verið mér ofarlega í huga að undanförnu eins og glöggir blogg- og FB lesendur mínir hafa orðið varir við. Við því var bara eitt að gera, að drífa sig þangað, jafnvel örferð um helgi reyndist hin frábærasta hugmynd. Frá því ég flutti þaðan eftir mjög tæplega ársdvöl fór ég árlega að heilsa upp á borgina og framan af vini mína þar líka. Lenti í brjálæðislegu sjóarapartíi (fötin, ekki fólkið) fyrsta árið, fór út að borða með einum eða fleirum úr hópnum næstu árin og lenti meira að segja  á Townhall fundi með mannskapnum eitt árið. Svo var fyrirtækið flutt til Altona og þangað náði ég aldrei að fara, hitti seinast Mögdu vinkonu mína á uppáhalds TexMex staðnum okkar, hún var líka hætt. Dró Nínu systur, sem var ein fárra sem ekki náði að heimsækja mig Hamborgarárið góða, og seinast byrgði ég mig upp af Tschibo kaffihylkjum í smá covid-pásu en þá kom ég við á leið frá Kaupmannahöfn til Óla í Amsterdam.

377952766_251964097808486_1197482675362774247_na

 

Nú var enn einu sinni komin Hamborgaróeirð í mig, svo eitthvað varð að gera. Ekki spillti veðurspáin fyrir. Og ég á alltaf erindi til Hamborgar, þótt Balzac kaffihúsin séu hætt undir eigin nafni og fyrirtækið sem ég vann hjá í Hamborg komið á hausinn. Covid kennt um en ég hef aðrar hugmyndir um það. Tvennt hefur einkennt ferðirnar mínar, að skoða eitthvað nýtt og heimsækja gamlar slóðir. Þessi örferð var engin undantekning. Hótelið nálægt innra Alstervatni og ég mundi að ég hafði aldrei átt erindi að rölta kringum það, þótt efra Alster, sem var nálægt mínu Hamborgar-heimili, hafi verið skoðað og skrásett alveg rækilega. Ekki langur göngutúr, meira svona örgöngutúr, kringum það neðra, en nýr. Svo var það næsta verkefni, fornar slóðir. Um marga góða kosti að velja, en ég valdi Winterhude, nálægt gamla Hamborgarheimilinu mínu. Sé ekki eftir því. Tók strætó númer 17, sem er sá réttasti núna, einkum eftir að málglaði bílstjórinn tók upp á því að fara að syngja, þegar ég fór með Nínu systur síðla kvölds með sama vagni. Mér leist ekkert á blikuna þegar tilkynnt var að hjáleið yrði farin til að forðast það að aka Mühlenkamp, aðalgötuna framhjá ,,minni” götu. Hoppaði út þegar mér sýndist vagninn frekar vera að fjarlægjast en að snúa aftur að Goldbekplatz, það er mína stoppustöð.

377581570_251963977808498_803423794285757924_n

Eftir því sem ég nálgaðist Mühlenkamp fór ég að heyra tónlist, en sá ekki hvað var um að vera þótt ég væri komin á fyrsta áfangastaðinn, Elbgold kaffihúsið, það besta í Hamborg og bara á 2 stöðum þar held ég enn. Annað var nálægt mér meðan ég mjög þarna og er nú enn nær minni gömlu íbúð. Fékk mér fínasta latté-to-go, því sólin var rétt að hverfa frá útiborðunum. Þetta með tónlistina bara ágerðist eftir því sem ég fór nær götunni minni, búðinni minni og kaffihúsinu mínu (sem er ekki lengur Balzac heldur Espresso House). Gekk svo inn í fjörið, sem hafði verið innrammað af hjálparsveitarbílum og torkennilegum tjöldum. Rífandi partí alls staðar, líka fyrir utan Peter Marquard Strasse nr. 4. Það var sem sagt hverfishátíð allan liðlangan Mühlenkamp. Alls konar tónlist og mikið fjör, veitingabásar, smálegt af sölubásum, fullt af DJ-um og lifandi tónlist hér og þar. Endaði á Elvis-svæði, ekki vegna aðdáunar minnar á tónlistinni, heldur af því þar var sól og vænlegt veitingahús fyrir síbrotlega vatnslitakonu. Ábreiðuhljómsveitin var alveg skítsæmileg og ekki eins væmin og kóngurinn sjálfur. 

377949386_251963941141835_8733650609722754538_na

Segi ekki að þessi ferð hafi læknað mig af Hamborgarnostalgíunni, en hún gerði hana mun skemmtilegri, enda var það meiningin. 

Ferðaðist afskaplega létt í þessari stuttu ferð, en pikkaði þessa upprifjun þó upp á litla töfralyklaborðinu mínu sem passar við símann minn og það á leiðinni heim frá Hamborg, á meðan þetta var mér allt svo ofarlega í huga. 




Happdrætti DAS ist DAS

Af hreinni tilviljun er ég alin upp við ótalda (alla vega einn) DAS-brandara. Hrafnistubyggingin í Laugarásnum er vegleg og var enn mikilfenglegri þegar færri stórar byggingar voru í grenndinni og ég lítil stelpa. Eitt það fyrsta sem ég lærði í þýsku var brandari um þýskan mann sem benti á Hrafnistu þegar hann átti þar leið um og sagði: - Was ist das? - Das ist DAS, sögðu íslensku gestgjafar hans umyrðalaust. Enda gerðust happdrættin varla veglegri en happdrætti DAS í þá daga, með hús og bíla í verðlaun. Mikið þrekvirki sem gert var í búsetumálum aldraðra fyrir afraksturinn.

Þegar móðursystir Ólafs fóstra mín fluttist að vestan og í bæinn fékk hún inni á Hrafnistu í stóru kvistherbergi sem hún deildi með annarri konu. Hún sagði þegar hún kom fyrst á þetta framtíðarheimili sitt, - Almáttugur, eru karlmenn hérna? - Já, frænka mín, sagði fóstri minn, þetta er nú dvalarheimili aldraðra sjómanna. Frænkan hafði verið einhleyp alla tíð, en ekki leið á löngu þar til hún eignaðist hinn indælasta kærasta. Því miður entist þeim ekki aldur lengi saman því hann féll frá eftir allt of skamman tíma. Hún eignaðist annan kærasta en sá var víst eitthvað svikull og átti kærustu uppi á Akranesi sem hann heimsótti með Akraborginni. Á þeim tíma var fólk á Hrafnistu vel rólfært margt hvert. 

Held að foreldrar mínir hafi átt happdrættismiða hjá DAS lengi vel, ég átti slíkan miða um tíma, en hef dregið verulega úr öllu fjárhættuspili í seinni tíð, enda var ég aldrei liðtæk í því. Hins vegar vildi svo til í dag að fyrsta íslenska símanúmerið sem ég neyddist til að blokkera er símanúmer skráð á happdrætti DAS. Augljóslega er sölufólkið þar á bæ að sirka út okkur með kennitölur sem benda til (stundum ranglega) að við séum komin á eftirlaun. Þá er hringt af miklum móð um miðja vinnudaga með tilheyrandi truflunum. Eftir fyrsta áhlaupið í þessari lotu (fleiri en eitt símtal, bæði ósvöruð og frávísað) skrifaði ég vingjarnlegan en ákveðinn tölvupóst til aðstandenda happdrættisins og frábað mér frekari hringingar. Það dugði í smá tíma en þegar ég fékk aftur símtal á miðjum vinnudegi í dag blokkeraði ég símanúmerið. 

Þetta breytir áreiðanlega engu í lífi mínu, sölumanneskjunnar né happdrættisins, enda allt frjálsir aðilar sem mega gera það sem þeir vilja. 

Við þetta má svo bæta að nánast engum sem þekkir mig raunverulega dettur í hug að hringja í mig, nema lífið liggi við (eða með fyrirfram gefnu leyfi gegnum óáreitnari miðla). Ég hata símtöl, einkum þau óþörfu og óvæntu. 

Eina aukaverkanin á þessu öllu saman er að ég hef verið með gamla - Das ist DAS! brandarann á heilanum síðan í dag. Vona að ég sé hér með að skrifa hann frá mér. Og þar sem ég tel ólíklegt að öðrum finnist hann jafn urrandi fyndinn og mér forðum, þá er ég nokkuð viss um að þið munuð ekki fá hann á heilann. 


Frúin í Hamborg

Árið 2015 var Hamborgarárið mitt. Lungann úr árinu bjó ég og starfaði í þessari fallegu borg. Það er stundum gott að vera bæði skrifglöð, skrifvön og með MSc í tölvunarfræði. Alla vega fékk ég góða vinnu í borginni og hefði dvalið þar lengur ef stemning hefði verið fyrir því að leyfa mér að vinna alla vega helminginn af vinnutímanum heiman frá Íslandi. Þá hefði ég getað verið með fjölskyldunni minni, því einhvern veginn tókst mér ekki að lokka þau nema í heimsóknir til mín. Það þurfti covid til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur, en covid setti líka fyrirtækið sem ég vann hjá þar á hausinn og gerði suma góða vini mína atvinnulausa, en fleiri höfðu fært sig um set eins og altítt er í hugbúnaðarbransanum. Einhvern tíma rifja ég kannski upp með ykkur sögu þessarar yndislegu borgar. Nú nú læt ég duga hafa heimþrána til Hamborgar að leiðarljósi. Fyrstu vikurnar var vinnustaðurinn minn í Hafencity, rétt hjá Elbe-fílharmóníunni sem þá var í byggingu. Síðan fluttum við okkur til Neustadt, og þá var sú fallega bygging hreinlega alltaf fyrir augum okkar þegar við fórum upp á svalirnar á 8. hæðinni, sem var oft. Gönguleiðir voru hreint framúrskarandi þessa dvalartíð mína í Hamborg, oft gekk ég heim úr vinnunni, svona klukkutímaleið til Winterhude sem er eitt fallegasta íbúðahverfi borgarinnar. Tók mig reyndar ögn lengri tíma því ég var alltaf að taka myndir á leiðinni. Vinnutíminn var furðulegur, ca. 10 til 19, en við fengum langt hádegishlé, yfirleitt hálfan annan tíma, og fórum þá saman nokkur í senn á nálæg veitingahús, sem voru bæði fjölbreytt og gríðarlega góð. 

34340934_10216510228926674_6207606770819399680_n

Rifjaðist upp fyrir mér í spjalli við vinnufélagana í dag að áður en ég flutti til Winterhude og fór að leigja sjálf, borgaði vinnan mín mánaðarleigu fyrir mig í íbúð á sjöttu hæð nálægt Burgenstrasse. Mér fannst mamma furðu fálát þegar ég var að montast/kvarta undan staðsetningu íbúðarinnar, það er hæð frá götu, en það var ekki fyrr en hún heyrði að þetta væri í lyftulausu húsi að hún fór að hafa samúð með mér. Íbúðin mín í Winterhude var ,,bara" á fjórðu hæð, það var létt. Ég hefði reyndar getað fengið íbúð í lyftuhúsi, en þar sem það var á jarðhæð í mun minna spennandi hverfi, þá tók ég þessa í Winterhude, rétt hjá Alstervatni,  og sé sannarlega ekki eftir því.

20170613_210909

Hef sjaldan gengið eins mikið og skoðað eins margt og einmitt í Hamborg, þreytist ekki að segja fólki að þar séu fleiri brýr en í Feneyjum og Amsterdam samanlagt. Og titillinn á þessu bloggi vísar til Facebooksíðu sem ég hélt úti fyrir vini og vandamenn. Eða á ég að segja að vandamenn hafi notað hana til að vanda um fyrir mér, eins og þegar mér varð á að segja heim til Hamborgar og einn í fjölskyldunni (ekki nánustu þó) sagði: Er Hamborg nú orðin heim! Meira um Hamborg seinna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband