,,Mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið og sultukrukkan

Ein jafnleiðinlegasta tegund fólks sem ég hef fyrirhitt er ,,mér finnst að þú ættir ekki"-fólkið. Blessunarlega tókst mér næstum því að komast á fullorðinsár án þess að verða vör við það, en vera má að það sé bara lélegri athyglisgáfu að kenna. Foreldrar mínir og aðrir uppalendur voru aldeilis ekki haldnir þessu kvilla og svei mér þá ef mér tókst ekki að komast í gegnum allt skólakerfið án þess að verða fyrir barðinu á svona mannskap. Fyrsta tilfellið í minni fjölskyldu af fórnarlambi þessa leiða eiginleika var líklega frænkan sem flutti til Noregs og lenti í því að það var hreinlega ráðist á hana fyrir að hafa ákveðið að kaupa tiltekna sultukrukku. Hún væri nefnilega of dýr! Þetta var í stórmarkaði og frænka mín, sælkeri mikill, stóð með krukkuna í höndunum þegar manneskjan vatt sér að henni, tók hana af henni og benti henni á að hún ætti að kaupa miklu ódýrari tegund (eins og þessi einstaklingur gerði). ,,Mér finnst að þú ættir ekki að kaupa svona dýra sultu," sagði blessuð skepnan og frænkan hrökklaðist út án þess að kaupa neitt. Mér finnst það algert einkamál alls fólks hvort það vill sóa litlum/miklum eigum sínum í sultukrukkur eða eitthvað annað. 

Fyrsta atvik (af furðu fáum) sem ég minnist persónulega er þegar mér voru borin skilaboð frá manneskju sem leit fremur stórt á sig. Þau voru eitthvað á þessa leið: ,,Mér finnst að hún ætti ekki að vera með lafandi eyrnalokka af því hún er með sítt hár!" 

Með aukinni samfélagsmiðlanotkun hef ég komist í tæri við nokkur svona eintök í viðbót fyrir alls konar léttvægar sakir.

Þetta er samt ekki endilega það versta. Náskylt þessu er ,,þú getur ekki verið þekkt fyrir"-fólkið, sem undir því yfirskini að það telji mig einhverja æðri veru eins og það sé sjálft, telur sig hafa fullt veiðileyfi á mig. Það er misskilningur. Flest þetta fólk er nú fyrrverandi Facebook-vinir mínir, skiljanlega. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband