Endurfundir við Hamborg í hita og fjöri

Hamborg hefur verið mér ofarlega í huga að undanförnu eins og glöggir blogg- og FB lesendur mínir hafa orðið varir við. Við því var bara eitt að gera, að drífa sig þangað, jafnvel örferð um helgi reyndist hin frábærasta hugmynd. Frá því ég flutti þaðan eftir mjög tæplega ársdvöl fór ég árlega að heilsa upp á borgina og framan af vini mína þar líka. Lenti í brjálæðislegu sjóarapartíi (fötin, ekki fólkið) fyrsta árið, fór út að borða með einum eða fleirum úr hópnum næstu árin og lenti meira að segja  á Townhall fundi með mannskapnum eitt árið. Svo var fyrirtækið flutt til Altona og þangað náði ég aldrei að fara, hitti seinast Mögdu vinkonu mína á uppáhalds TexMex staðnum okkar, hún var líka hætt. Dró Nínu systur, sem var ein fárra sem ekki náði að heimsækja mig Hamborgarárið góða, og seinast byrgði ég mig upp af Tschibo kaffihylkjum í smá covid-pásu en þá kom ég við á leið frá Kaupmannahöfn til Óla í Amsterdam.

377952766_251964097808486_1197482675362774247_na

 

Nú var enn einu sinni komin Hamborgaróeirð í mig, svo eitthvað varð að gera. Ekki spillti veðurspáin fyrir. Og ég á alltaf erindi til Hamborgar, þótt Balzac kaffihúsin séu hætt undir eigin nafni og fyrirtækið sem ég vann hjá í Hamborg komið á hausinn. Covid kennt um en ég hef aðrar hugmyndir um það. Tvennt hefur einkennt ferðirnar mínar, að skoða eitthvað nýtt og heimsækja gamlar slóðir. Þessi örferð var engin undantekning. Hótelið nálægt innra Alstervatni og ég mundi að ég hafði aldrei átt erindi að rölta kringum það, þótt efra Alster, sem var nálægt mínu Hamborgar-heimili, hafi verið skoðað og skrásett alveg rækilega. Ekki langur göngutúr, meira svona örgöngutúr, kringum það neðra, en nýr. Svo var það næsta verkefni, fornar slóðir. Um marga góða kosti að velja, en ég valdi Winterhude, nálægt gamla Hamborgarheimilinu mínu. Sé ekki eftir því. Tók strætó númer 17, sem er sá réttasti núna, einkum eftir að málglaði bílstjórinn tók upp á því að fara að syngja, þegar ég fór með Nínu systur síðla kvölds með sama vagni. Mér leist ekkert á blikuna þegar tilkynnt var að hjáleið yrði farin til að forðast það að aka Mühlenkamp, aðalgötuna framhjá ,,minni” götu. Hoppaði út þegar mér sýndist vagninn frekar vera að fjarlægjast en að snúa aftur að Goldbekplatz, það er mína stoppustöð.

377581570_251963977808498_803423794285757924_n

Eftir því sem ég nálgaðist Mühlenkamp fór ég að heyra tónlist, en sá ekki hvað var um að vera þótt ég væri komin á fyrsta áfangastaðinn, Elbgold kaffihúsið, það besta í Hamborg og bara á 2 stöðum þar held ég enn. Annað var nálægt mér meðan ég mjög þarna og er nú enn nær minni gömlu íbúð. Fékk mér fínasta latté-to-go, því sólin var rétt að hverfa frá útiborðunum. Þetta með tónlistina bara ágerðist eftir því sem ég fór nær götunni minni, búðinni minni og kaffihúsinu mínu (sem er ekki lengur Balzac heldur Espresso House). Gekk svo inn í fjörið, sem hafði verið innrammað af hjálparsveitarbílum og torkennilegum tjöldum. Rífandi partí alls staðar, líka fyrir utan Peter Marquard Strasse nr. 4. Það var sem sagt hverfishátíð allan liðlangan Mühlenkamp. Alls konar tónlist og mikið fjör, veitingabásar, smálegt af sölubásum, fullt af DJ-um og lifandi tónlist hér og þar. Endaði á Elvis-svæði, ekki vegna aðdáunar minnar á tónlistinni, heldur af því þar var sól og vænlegt veitingahús fyrir síbrotlega vatnslitakonu. Ábreiðuhljómsveitin var alveg skítsæmileg og ekki eins væmin og kóngurinn sjálfur. 

377949386_251963941141835_8733650609722754538_na

Segi ekki að þessi ferð hafi læknað mig af Hamborgarnostalgíunni, en hún gerði hana mun skemmtilegri, enda var það meiningin. 

Ferðaðist afskaplega létt í þessari stuttu ferð, en pikkaði þessa upprifjun þó upp á litla töfralyklaborðinu mínu sem passar við símann minn og það á leiðinni heim frá Hamborg, á meðan þetta var mér allt svo ofarlega í huga. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband