Frúin í Hamborg

Árið 2015 var Hamborgarárið mitt. Lungann úr árinu bjó ég og starfaði í þessari fallegu borg. Það er stundum gott að vera bæði skrifglöð, skrifvön og með MSc í tölvunarfræði. Alla vega fékk ég góða vinnu í borginni og hefði dvalið þar lengur ef stemning hefði verið fyrir því að leyfa mér að vinna alla vega helminginn af vinnutímanum heiman frá Íslandi. Þá hefði ég getað verið með fjölskyldunni minni, því einhvern veginn tókst mér ekki að lokka þau nema í heimsóknir til mín. Það þurfti covid til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur, en covid setti líka fyrirtækið sem ég vann hjá þar á hausinn og gerði suma góða vini mína atvinnulausa, en fleiri höfðu fært sig um set eins og altítt er í hugbúnaðarbransanum. Einhvern tíma rifja ég kannski upp með ykkur sögu þessarar yndislegu borgar. Nú nú læt ég duga hafa heimþrána til Hamborgar að leiðarljósi. Fyrstu vikurnar var vinnustaðurinn minn í Hafencity, rétt hjá Elbe-fílharmóníunni sem þá var í byggingu. Síðan fluttum við okkur til Neustadt, og þá var sú fallega bygging hreinlega alltaf fyrir augum okkar þegar við fórum upp á svalirnar á 8. hæðinni, sem var oft. Gönguleiðir voru hreint framúrskarandi þessa dvalartíð mína í Hamborg, oft gekk ég heim úr vinnunni, svona klukkutímaleið til Winterhude sem er eitt fallegasta íbúðahverfi borgarinnar. Tók mig reyndar ögn lengri tíma því ég var alltaf að taka myndir á leiðinni. Vinnutíminn var furðulegur, ca. 10 til 19, en við fengum langt hádegishlé, yfirleitt hálfan annan tíma, og fórum þá saman nokkur í senn á nálæg veitingahús, sem voru bæði fjölbreytt og gríðarlega góð. 

34340934_10216510228926674_6207606770819399680_n

Rifjaðist upp fyrir mér í spjalli við vinnufélagana í dag að áður en ég flutti til Winterhude og fór að leigja sjálf, borgaði vinnan mín mánaðarleigu fyrir mig í íbúð á sjöttu hæð nálægt Burgenstrasse. Mér fannst mamma furðu fálát þegar ég var að montast/kvarta undan staðsetningu íbúðarinnar, það er hæð frá götu, en það var ekki fyrr en hún heyrði að þetta væri í lyftulausu húsi að hún fór að hafa samúð með mér. Íbúðin mín í Winterhude var ,,bara" á fjórðu hæð, það var létt. Ég hefði reyndar getað fengið íbúð í lyftuhúsi, en þar sem það var á jarðhæð í mun minna spennandi hverfi, þá tók ég þessa í Winterhude, rétt hjá Alstervatni,  og sé sannarlega ekki eftir því.

20170613_210909

Hef sjaldan gengið eins mikið og skoðað eins margt og einmitt í Hamborg, þreytist ekki að segja fólki að þar séu fleiri brýr en í Feneyjum og Amsterdam samanlagt. Og titillinn á þessu bloggi vísar til Facebooksíðu sem ég hélt úti fyrir vini og vandamenn. Eða á ég að segja að vandamenn hafi notað hana til að vanda um fyrir mér, eins og þegar mér varð á að segja heim til Hamborgar og einn í fjölskyldunni (ekki nánustu þó) sagði: Er Hamborg nú orðin heim! Meira um Hamborg seinna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband