Frúin í Hamborg
5.9.2023 | 00:13
Árið 2015 var Hamborgarárið mitt. Lungann úr árinu bjó ég og starfaði í þessari fallegu borg. Það er stundum gott að vera bæði skrifglöð, skrifvön og með MSc í tölvunarfræði. Alla vega fékk ég góða vinnu í borginni og hefði dvalið þar lengur ef stemning hefði verið fyrir því að leyfa mér að vinna alla vega helminginn af vinnutímanum heiman frá Íslandi. Þá hefði ég getað verið með fjölskyldunni minni, því einhvern veginn tókst mér ekki að lokka þau nema í heimsóknir til mín. Það þurfti covid til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur, en covid setti líka fyrirtækið sem ég vann hjá þar á hausinn og gerði suma góða vini mína atvinnulausa, en fleiri höfðu fært sig um set eins og altítt er í hugbúnaðarbransanum. Einhvern tíma rifja ég kannski upp með ykkur sögu þessarar yndislegu borgar. Nú nú læt ég duga hafa heimþrána til Hamborgar að leiðarljósi. Fyrstu vikurnar var vinnustaðurinn minn í Hafencity, rétt hjá Elbe-fílharmóníunni sem þá var í byggingu. Síðan fluttum við okkur til Neustadt, og þá var sú fallega bygging hreinlega alltaf fyrir augum okkar þegar við fórum upp á svalirnar á 8. hæðinni, sem var oft. Gönguleiðir voru hreint framúrskarandi þessa dvalartíð mína í Hamborg, oft gekk ég heim úr vinnunni, svona klukkutímaleið til Winterhude sem er eitt fallegasta íbúðahverfi borgarinnar. Tók mig reyndar ögn lengri tíma því ég var alltaf að taka myndir á leiðinni. Vinnutíminn var furðulegur, ca. 10 til 19, en við fengum langt hádegishlé, yfirleitt hálfan annan tíma, og fórum þá saman nokkur í senn á nálæg veitingahús, sem voru bæði fjölbreytt og gríðarlega góð.
Rifjaðist upp fyrir mér í spjalli við vinnufélagana í dag að áður en ég flutti til Winterhude og fór að leigja sjálf, borgaði vinnan mín mánaðarleigu fyrir mig í íbúð á sjöttu hæð nálægt Burgenstrasse. Mér fannst mamma furðu fálát þegar ég var að montast/kvarta undan staðsetningu íbúðarinnar, það er hæð frá götu, en það var ekki fyrr en hún heyrði að þetta væri í lyftulausu húsi að hún fór að hafa samúð með mér. Íbúðin mín í Winterhude var ,,bara" á fjórðu hæð, það var létt. Ég hefði reyndar getað fengið íbúð í lyftuhúsi, en þar sem það var á jarðhæð í mun minna spennandi hverfi, þá tók ég þessa í Winterhude, rétt hjá Alstervatni, og sé sannarlega ekki eftir því.
Hef sjaldan gengið eins mikið og skoðað eins margt og einmitt í Hamborg, þreytist ekki að segja fólki að þar séu fleiri brýr en í Feneyjum og Amsterdam samanlagt. Og titillinn á þessu bloggi vísar til Facebooksíðu sem ég hélt úti fyrir vini og vandamenn. Eða á ég að segja að vandamenn hafi notað hana til að vanda um fyrir mér, eins og þegar mér varð á að segja heim til Hamborgar og einn í fjölskyldunni (ekki nánustu þó) sagði: Er Hamborg nú orðin heim! Meira um Hamborg seinna.
Vatn - björtu hliðarnar
2.9.2023 | 22:21
Vatn er máttugt, sem náttúrafl, óvissuþáttur í framtíðarsýn okkar jarðlinganna, en svo ótal margt fleira. Allt frá því ég hætti að vera einrænn krakki í turníbúð í gömlu húsi í miðbænum og flutti í blokk fulla af krökkum, hef ég notið alls konar vatnsævintýra. Fimm ára var það helst að uppgötva hvað það var gaman að sulla í pollum og af þeim var nóg í kringum blokkina okkar, þá fyrstu á Kaplaskjólsveginum. Man tilfinninguna þegar ég fann extra djúpan poll og vatnið var nógu mikið til að þrýsta stígvélunum að ökklanum og upp á legg. Það var sport. Pabbi tók mig stundum niður að höfn, fyrst í Reykjavík og löngu seinna á Seyðisfirði. Hann hafði fengist við skútusiglingar á yngri árum í Danmörku. Sport sem við fjölskyldan heilluðumst af þegar við kynntumst því gegnum vini okkar og komust í ferðasukk með þeim og víðar. Pabbi leyfði mér að klifra upp í vitann við Reykjavíkurhöfn þegar hann vann í Fiskifélaginu en eftir að hann flutti tímabundið á Seyðisfjörð sendi hann mig umsvifalaust á sundnámskeið þar, þótt ég teldi mig nokkuð vel menntaða í þeim fræðum eftir að Veturbæjarlaug var opnuð við hliðina á blokkinni minni.
Þegar ég var sex ára fór ég í fyrstu sjóferðina mína, með mömmu og ömmu, á saltfisksflutningaskipinu Öskju til Gíbraltar. Sem betur fór var ég sjóhraust eins og amma, sem ferðaðist eins mikið og hún gat sjóleiðina, en hún var mjög ferðaglöð eins og við fleiri í fjölskyldunni. Hálfa árið okkar á Spáni var nálægt strönd og það var buslað í sjónum nánast á hverjum degi.
Nokkrar ferðir með Gullfossi, meðan hans naut við og svo ferjur alltaf þegar ég gat, einhverjar bátsferðir. Guðmundur í Vesturbæ leyfði okkur tveimur að koma með í einn aflalítinn veiðitúr á mjög litlum báti og eiginlega hef ég sótt í allar þær bátsferðir sem í boði hafa verið. Við Ari höfum siglt smálega á suðrænum slóðum og svo í sænska skerjagarðinum eftir því sem boðist hefur. Allt er þetta heillandi, þótt ég játi á mig algeran skort á því að langa í siglingu á skemmtiferðaskipi. Mér skilst að það geti elst af mér.
Sjósund við Ísland prófaði ég fyrst hérna í fjörunni á Álftanesi þegar ég var svona 13-14 ára, og eitthvað buslaði ég í Bessastaðatjörn, en hún var skemmtilegri sem skautasvell, það verð ég að viðurkenna.
Það er því kannski engin furða að ég leiti í vatn og sjó þegar ég vel mér myndefni, bæði í vatnslit og áður í olíu og jafnvel grafík. Liggur bara svo beint við. Og ég get lofað ykkur að það er ekkert auðveldara að mála og/eða þrykkja sjó, vötn eða drullupolla, en synda í sjó eða sulla í pollum.
Næst þegar ég fer á eftirlaun ...
1.9.2023 | 21:17
Heyrði eitt sinn dæmisögu af manni sem átti svo rosalega annríkt. Hann fór til viturs manns og bar upp vandamál sitt. - Fáðu þér kú, sagði sá vitri. Maðurinn gerði það, alltaf var jafn mikið að gera, svo hann fór aftur til vitra mannsins. - Fáðu þér 10 geitur! Maðurinn gerði það, en ekkert virkaði. Aftur reyndi hann. - Fáðu þér tvo uxa, sagði sá vitri. Enn hlýddi maðurinn og leitaði til þess vitra eftir nokkurn tíma. - Fáðu þér 40 kindur!
Manninum var ekki skemmt. Hann hafði aldrei á ævi sinni haft jafn mikið að gera. Samt gaf hann vitra manninum eitt tækifæri enn til að hjálpa honum. - Seldu nú kúna, geiturnar, uxana og kindurnar, sagði sá vitri. - Og þá muntu hafa endalausan tíma.
Mömmu fannst þessi saga reyndar bera vott um tillitsleysi gagnvart dýrunum. En allt um það, ég held að ég sé svolítið að feta í fótspor þessa manns. En þegar hún dóttir mín kom askvaðandi fyrir næstum tveimur árum, þegar ég var búin að vera á eftirlaunum í hartnær fjögur ár, var hún í rauninni í sömu sporum og vitri maðurinn, í annað sinn alla vega (í hitt skiptið kom hún mér uppá að hekla veðurteppi). Fann hvað önnum köfnu móður hennar vantaði. Fleiri verkefni. ,,Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér," sagði hún og ég var komin í fulla vinnu eftir þrjár vikur. Ég er nokkuð viss um að næst þegar ég fer á eftirlaun mun ég hafa nóg af tíma, svona fyrst í stað alla vega.
Er húmorsleysi glæpsamlegt?
18.8.2023 | 00:13
Þegar ég var 16-17 ára og skrapp að heilsa upp á gamlan uppáhaldskennara á kennarastofu gamla gaggans míns (þetta orðalag skilur fólk á mínum aldri) lenti ég í orðaskaki við annan kennara í fjarveru þess rétta. Efnið var hvort húmorsleysi væri hættulegt eða jafnvel glæpsamlegt, eða ekki. Auðvitað gáleysistal ungs beturvitrungs sem var að reyna að slá næstum miðaldra kennara út af laginu. Ég var sem sagt sú sem hélt því fram að húmorsleysi væri hættulegt ef ekki glæpsamlegt. Hann reyndi að tala um fyrir þessari harðbrjósta unglingsstelpu. Seinna kom reyndar í ljós að þessi maður var ekki sérlega vandaður pappír, en það vissi ég ekki þarna. Húmorslaus eða -lítill hefur hann þó alla tíð verið.
Datt þetta í hug út af dálitlu í kvöld og þá rifjaðst líka upp fyrir mér alveg yndisleg ritdeila sem ég lenti í í norskum hannyrðahópi á samfélagsmiðli fyrir nokkrum misserum. Þessi hópur gaf sig út fyrir að hafa auga fyrir húmor í hannyrðum og það fannst mér spennandi. En þarna, af öllum stöðum, lenti ég sem sagt algerlega óvart í harðri ritdeilu við sjálfskipaðan hrútskýrara um óleysta stærðfræðiþraut (ekki handavinnuna), en ég hafði vogað mér að sauma útsaumsverk út frá ferli þessarar stærðfræðiþrautar, sem byggð er á glæru skólabróður míns úr tölvunarfræðinni. Og mér fannst það náttúrulega mjög fyndið.
Henti mér auðvitað í snatri út úr þessum hópi og átti ekki orð yfir fáránleika málsins. Þetta var hannyrðahópur! Á ekki ýkja skarpa mynd af útsaumsverkinu og frummyndin er geymd á góðum stað svo ég birti bara mynd af tveimur gleðigjöfum á pöbb í Englandi í staðinn.
Því miður henti ég mér út úr hópnum áður en ég var búin að finna réttu greinina sem sýndi svo ekki var um villst að þar að auki hafði ég rétt fyrir mér varðandi þrautina og hann alrangt. Sá smá eftir því að hafa verið svona bráðlát ... en veit ekki hvort hinir Norðmennirnir í hópnum hefðu haft húmor fyrir því. Aftur á móti voru mínir vænu FB-vinir ábyggilega sammála mér ef ég hef haft rænu á að segja þessa furðusögu þar, sem mér þykir líklegt.
Skil svo þessa spurningu eftir hjá ykkur, kæru blogglesendur mínir, og efast ekki um að þið eruð bæði mildari og mun síður dómhörð en ég.
Emmmmm Errrrrrr
12.8.2023 | 00:06
Er að fara í gegnum bókasafnið okkar Ara míns og reyndar líka hluta safns foreldra minna. Grisja, henda í endurvinnslu, gefa þær sem hægt er. Hef ekki numið staðar við margar bækur til þessa, enda gengi þá hægt, en í kvöld fletti ég í fyrsta sinn í fjórða bindinu af sögu Menntaskólans í Reykjavík, skólans míns. Kom mér á óvart hversu margar myndir voru kunnuglegar, m.a. fær minn bekkur, nýmáladeildin, tvær myndir af sér, sem er stórmerkilegt miðað við hversu stór árgangurinn var (meira en 300 sálir sem útskrifuðust). Það var samt ekki bekkjarmynd sem greip athyglina heldur mynd frá skemmtilegum dögum milli jóla og nýárs þegar við vorum að skreyta Laugardalshöllina fyrir áttadagsgleðina.
Þetta var eftirminnilegur desembermánuður í lífi mínu, 1970. Rétt fyrir jól kom ég heim eftir hálfs árs dvöl í Englandi, 18 ára unglingurinn, og fékk náðarsamlegast að setjast aftur á skólabekk í MR, meira að segja hjá Guðna kjafti, sem talinn var strangur. Það var ekkert sjálfgefið að ég yfir höfuð kæmi heim frá Englandi, þar voru að opnast ýmis tækifæri. Mér bauðst til að mynda að gerast gluggaskreytingamanneskja í tískuvörukeðjunni Gypsy, sem þá var með fjölda búða í London, og æ síðan hef ég flakkað á milli þeirrar hugsunar að þetta hefði verið frábært skref í mínu lífi og yfir í að spyrja sjálfa mig hvað ég hefði verið að hugsa. Kathy hin írska, sem ég leigði hjá, vildi ólm koma mér í au-pair starf í úthverfi Lundúna, mikið held ég að það hefði verið ömurlegt, lítið kaup og ekkert frí. Ég gerði henni það til geðs að hitta fjölskylduna og mikið rosalega hljómaði starfslýsingin eins og þrælahald, þótt fólkið virtist pent og prútt. Vinur minn (sem hélt hann væri kærasti minn) vildi senda mér lestarmiða til borgarinnar sinnar við Miðjarðarhafið fyrir jólin og ég held að meiningin hafi verið að ég færi ekki til baka. Hef alltaf haft vonda samvisku yfir að hafa ekki svarað bréfunum hans. Of seint núna, ítarlegt gúggl löngu seinna sagði mér að hann hefði dáið árið 1983, þá orðinn háskólakennari og með dómararéttindi. Þess í stað þáði ég flugmiðann sem mamma sendi mér fyrir jól. Hún hafði heimsótt mig í október og séð að ég var ekkert í neinu rugli, annars hefði ég eflaust verið sótt fyrr, ef það hefði verið hægt.
Það var ótrúlegt að koma aftur í áhyggjuleysi menntaskólaáranna og allt fjörið í MR. Vissulega tók ég ekki þátt í öllu sem þar fór fram, datt ekki í hug að sækjast eftir því að komast á fiðluböllin frægu, sem byrjuðu um þetta leyti og kannski segir það mest um minn ,,stíl" að ég var yfirleitt spurð hvort ég væri ekki í Hamrahlíð, þar sem hippalegri nemendur héldu sig. MR leyndi samt á sér. Þar var frábært starf á vegum Listafélagsins, miðvikudagskvöldin þegar Sverrir Haraldsson leiðbeindi okkur myndlistaráhugafólkinu, upp á kók og prinspóló. Hann var gefandi kennari. Ég tók þátt í öllu sem viðkom myndlist, þess vegna var ég rétt nýkomin til landsins farin að skreyta Laugardalshöllina, rétt eins og um vorið áður en ég fór til Englands og við í Herranótt höfðum Háskólabíó til umráða vikum saman (fram að bíósýningum dag hvern). Ég vann í leikmyndinni og var meira að segja dregin í að sminka aukaleikara fyrir sýningar. Lærði textann í Lýsiströtu næstum utanbókar, þótt ég væri ekki (og vildi ekki vera) í hópi leikaranna.
Í einu orði sagt, MR var ævintýraheimur okkar ótal margra sem vorum í námi þar á þessum árum. Þótt hálfa árið mitt í Englandi hafi verið mun lærdómsríkara en árin þrjú og hálft í menntó, þá var bara svoooo gaman að vera menntaskólanemi sem þurfti enga ábyrgð að taka (nema að ná prófum á milli ára).
Þegar sólin sest í jökulinn og önnur sólarlög
10.8.2023 | 07:00
Tvisvar á hverju ári bíðum við Álftnesingar spenntir eftir að sjá sólina setjast í Snæfellsjökul. Ekki efa ég að þetta sé tilhlökkunarefni fleira fólks á Suðvesturlandi. Við þykjumst samt eiga sérlega mikið í þessum viðburði, þar sem einstakt útsýni er af nesinu til jökulsins, ef skyggni leyfir. Það er auðvelt fyrir mig að muna hvenær ég á að eltast við þennan viðburð. Að vori kringum afmæli dóttur minnar og síðsumars nálægt afmæli eiginmannsins.Þetta árið hef ég ekki gripið augnablikið, hvort sem skýjafari var um að kenna eða öðru, en meðfylgjandi mynd er frá nýliðnu ári eða því næsta á undan.
Það er ekki þar með sagt að við njótum ekki sérlega fallegs sólseturs alla jafna. Síminn minn finnur 1136 slíkar myndir í svipinn og flestar eru einmitt útsýnið af Álftanesi. Í gær var eitt slíkt kvöld og ,,ófært" heim vegna fegurðar, nokkur myndatökustopp áður en ég komst í áfangastað, heim.
Búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór
9.8.2023 | 00:08
Það eina sem ég hef engan húmor fyrir og tek gríðarlega alvarlega, af því sem ég hef fengist við, er myndlistin. Hún er ekki hobbí, heldur lífið sjálft. Mundi til dæmis aldrei spyrja heittrúaða manneskju hvort það væri nú ekki gaman að hafa trúna sem hobbí. Legg þetta svona á vissan hátt að jöfnu. Samt hef ég bæði valið að verða ekki myndlistarkona (þá var ég 22 ára) og jafnframt sinnt þessari köllun af miklum móð og talsverðri elju.
Þetta merkir sannarlega ekki að ég sinni ekki öðru af mikilli ánægju. Flest störf sem ég hef fengist við (meira að segja uppvask í þremur löndum) hafa verið mjög skemmtileg. Seinustu tvo áratugina hef ég verið í ýmsum hlutverkum í hugbúnaðargerð og nýt þess í botn, einkum félagsskaparins við þá vinnufélaga mína sem ég get flokkað sem sam-nörda. Datt inn í pólitík um hríð og fannst ég gera gagn. Skriftir hafa alltaf verið mín ástríða, hvort sem er umfjöllum um þing meltingarlækna, snobb, Grýlurnar eða sögu Álftaness. Glæpasagnaskrif seinustu ára (tvær bækur og ein gáta í glæpa-appi komnar út nú þegar) eru nákvæmlega það sem mig dreymdi um að gera þegar ég færi á eftirlaun, sem ég gerði um stund og mun gera aftur. EN - nú er ég búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór. Taka til baka ákvörðunina sem ég tók þegar ég var 22 ára og gerast myndlistarkona.
Eitt skrefið á þeirri leið er að ég er að byrja að setja myndirnar mínar í vefgalleri Apollo Art og líst mjög vel á þann vettvang. Eldri málverk og nýrri myndir, aðallega vatnslitir, í bland, nú þegar eru sex myndir komnar inn og undir lok mánaðarins verða þær orðnar 14. Það fer svo eftir undirtektum hvort ég bæti við myndum og þá hvers konar. Lífsverkið fram til þessa er æði stórt og bætist hratt við. Fleiri nýlegar vatnslitamyndir byrja að koma inn í lok vikunnar og enn fleiri fyrir mánaðarmótin. Svo eftir enn eina einkasýningu í nóvember set ég ef til vill eitthvað óselt af þeirri sýningu inn. Allt fer þetta eftir áhuga þeirra sem skoða, en á þessum vef er fjöldi góðra verka og ég bæði í góðum félagsskap og harðri samkeppni. Það er bara gott.
https://apolloart.is/collections/anna-olafsdottir-bjornsson
Íslandsvinir - ekki bara popparar og kokkar
31.7.2023 | 18:47
Það eru ekki bara popparar og kokkar sem eru Íslandsvinir. Nokkur fjöldi erlendra vatnslitamálara hefur tekið ástfóstri við landið og á nýlegri sýningu eins þeirra heyrði ég rótgróna vatnslitakonu dæsa og segja að hann málaði eiginlega ,,íslenskari" myndir en flestir þeir Íslendingar sem hún þekkti.
Mig langar að geta þeirra sem ég þekki til og birta Íslandsmyndir nokkurra þeirra, með tilurð sumra þeirra sem aukabónus. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið hér á ferðinni síðustu árin, kennt og verið með sýnikennslu hér, en bregða líka fyrir sig Íslandsmótívum í sýnikennslu út um allan heim. Myndirnar eru flestar teknar af litla símanum mínum og skellt hér fram í belg og biðu, en þær eru eftir Vicente Garcia, Keith Hornblower, Ann Larsson-Dahlin, Michael Solovlev og Alvaro Castagnet.
Menning og listir | Breytt 1.8.2023 kl. 01:01 | Slóð | Facebook
Heimsins eðlilegustu kúvendingar og alvöru áhrifavaldar
30.7.2023 | 01:33
Man það svo vel þegar ég heyrði á unglingsárum sagt frá því með samblandi af furðu og lotingu að einn af forvígismönnum Náttúrulækningafélagsins, Björn L. Jónsson, hefði kúvent og hætt að vera veðurfræðingur og farið í læknisfræði um fimmtugt og lokið því námi samhliða vinnu á sex árum. Þetta var um það leyti sem ég fæddist og á fyrstu æviárunum. Gerbreyting hefur orðið á bæði náms- og starfsframboði og hugsunarhætti. Það vekur ekki lengur furðu þótt einhverjar kúvendingar verði á starfsferli fólks og lífsstefnu, eða hvað? Man reyndar eftir, en síðan eru einhverjir áratugir, að það þótti í frásögur færandi að þeir Kristinn Sigmundsson menntaskólakennari og Kristján Jóhannsson plötusmiður og díselstillingamaður ákváðu að helga sig listinni og gerast óperusöngvarar á fullorðinsárum.
Ég á vini sem hafa söðlað um og farið út á nýjar brautir á miðri ævi og endrum og sinnum les ég viðtöl við fólk sem hefur gert það sama svo það þykir frásagnarvert. Mín kúvending á miðjum aldri, þegar ég hvarf að mestu frá blaðamennsku og sagnfræðiskrifum í heim hugbúnaðargerðar (og til þess þarf miðaldra kona að lágmarki mastersgráðu til að gera sig gildandi) er greinilega líka nógu dramatísk til að vekja nokkra athygli. Það er ekki eini viðsnúningurinn í mínum starfsferli um ævina, en engum þykir óvenjulegt ef fólk ,,lendir í" pólitík um lengri eða skemmri tíma eða reynir að þóknast myndlistargyðjunni samhliða öðrum störfum. Þar er ég bara ein af mörgum.
Kem ég þá að alvöru áhrifavöldum, kennurunum sem við kynnumst á lífsleiðinni, ég hef áður fjallað um hvað ég tel þá hafa sannari áhrif í tilveru fólks en þau sem helga líf sitt hárgeli og öðru sem ég upplifi sem hégóma, eflaust í fordild minni.
Í barnaskóla var ég í Sigríðarbekk og hún lagði gríðarlega áherslu á íslenskukennslu en var líka ágætur stærðfræðikennari (myndin af Sigríði með bekkinn sinn er reyndar frá því áður en ég fæddist, en Sigríður er þetta, ögn yngri en þegar hún kenndi okkur).
Í Hagaskóla hafði ég ólíka en góða íslenskukennara, annan sem barði í okkur stafsetningarreglur, lét okkur þylja aftur og aftur: Hinn góði maður, maðurinn, tvö n, hinn góði maður o.s.frv. en í landsprófi var áherslan hjá Finni Torfa að kenna okkur að meta skáldskap og tjá okkur, veganesti sem ég met mikils. En við höfðum líka afburða stærðfræðikennara þar, Harald Steinþórsson og ómetanlegan teiknikennara, hann Guðmund Magnússon. Til þessa fólks get ég rakið flest það sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina. Hef sannarlega ekki gleymt öllum hinum áhrifavöldunum (kennurunum) í lífi mínu. Og auðvitað nýt ég þess að hafa átt móður sem var frábær myndlistarkennari, föður sem var gangandi alfræðiorðabók, fóstra sem bæði elskaði íslenska tungu og var vel fróður um hana og stjúpmóður sem iðkaði bæði myndlist og tónlist svo unun var að fylgjast með.
Og enn sækist ég eftir að komast í tæri við slíka áhrifavalda. Eftirminnilegir vinnufélagar í öllu mínu brölti á starfsævinni hafa jafnframt haft gríðarleg áhrif á mig, enda á ég og hef átt marga góða. Og eins og flest annað myndlistarfólk sækist ég eftir að komast í nám hjá þeim allra bestu á mínu sviði og alltaf jafn lukkuleg þegar það tekst, sem er furðu oft (greip tvo þeirra á sömu mynd frá í fyrra). Efast um að meiri símenntun eigi sér stað í mörgum fögum eins og gerist í listum, en þar miða ég við þau starfssvið sem ég hef komið nálægt. Held að við séum flest í mínum myndlistarhópum að skipuleggja kynni við næstu (alvöru) áhrifavaldana í tilverunni.
Ár útimálunar
26.7.2023 | 02:53
Árið bara rétt liðlega hálfnað og mér telst til að ég hafi málað að minnsta kosti eitthvað á þriðja tug vatnslitamynda útivið þetta árið. Held að það sé persónulegt met. Útimálun er allt annað dæmi en að mála uppúr sér, fantasíur, minningar og svoleiðis eða styðjast við ljósmyndir (ekki mála eftir þeim, heldur nýta þær til að skapa eitthvað allt annað). Það á þó við um útimálun eins og aðra vatnslitun að markmiðið er ekki endurgerð þess veruleika sem við sjáum, heldur túlkun og svo er allt leyfilegt, viðbætur, tilfærslur og fjarstæðukenndustu hagræðingar.
Stundum þarf að grípa augnablikið og vinna hratt, aðrar myndir er hægt að kljást við svo klukkustundum skiptir, ef veður leyfir. Þeir hörðustu, til dæmis tveir vinir mínir fyrir norðan, láta veður ekki á sig bíta og mála úti árið um kring. Ég í mesta lagi dáist að seiglunni en öfunda þá ekki af lífsstílnum.