Galdrafólkið kennarar

Hvað sem segja má um íslenska skólakerfið, og það er auðvitað ýmislegt, þá efast ég ekki andartak um að þar má nú finna frábæra kennara, rétt eins og þegar ég var í skóla (sem hefur verið furðu oft). Það er svo margt sem ég hef haft með mér út í lífið, sem ég get rakið til góðra kennara og annarra sem höfðu varanleg áhrif á mig til góðs eða jafnvel ekki. Man helst þetta góða. Sleppi því að nefna nöfn, en vinir mínir og gamlir skólafélagar geta eflaust giskað. Í barnaskóla var ég mestmegnis heppin með kennara, fékk mjög góða undirstöðu, einkum í íslensku, og afskaplega jákvæð skilaboð út í lífið. Bekkjarkennarinn okkar lagði mikla áherslu á að við væru góð hvert við annað og ég man að hún sendi eitt sinn einn nemandann, sem átti undir högg að sækja, úr stofunni til að reka fyrir sig eitthvert erindi og á meðan sagði hún okkur að ef við sýndum honum á einhvern hátt leiðindi væri henni að mæta. Vinkona mín sem kom síðar í bekkinn fann því miður ekki fyrir sömu velvild en hrósaði henni fyrir íslenskukennsluna, held að það fyrrnefnda hafi komið okkur flestum á óvart. 

Mamma útskrifaðist sem teiknikennari þegar ég var fimm ára og það hefur eftir á að hyggja verið mín lukka, þótt hún léti sem hún reyndi aldrei að kenna mér neitt. Var nefnilega ekkert sérlega heppin með teiknikennara í barnaskóla, en það breyttist heldur betur í gaggó, þegar við lentum hjá einum allra besta teiknikennara á landinu, þori ég að fullyrða. Þótt ég hafi síðar lært að nota (líka) aðrar aðferðir í myndlist en þær sem hann predikaði, þá var góður grunnur að læra að bjarga myndum án þess að nota strokleður, mæla ekki neitt, heldur þjálfa augað til að ,,sjá" hlutföll og nota íþróttasíður dagblaðanna til að finna módel í alls konar (undarlegum) stellingum. Í menntó stóð listafélagið hins vegar fyrir vikulegum kvöldum undir leiðsögn eins okkar besta teiknara og þar lærði ég að teikna með strokleðri. Í inntökuprófinu (sem stóð í heila viku) í MHÍ var ég örugglega eina manneskjan sem gerði tilraun til að teikna tauklemmu í yfirstærð í heilan dag, án þess að mæla. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist inn í skólann með bravör, en hefði ég fallið þá hefði það verið út af gömlu innrætingunni úr gaggó. Samt, ég held að hvor tveggja tæknin eigi rétt á sér.

Líklega hefur framúrskarandi sögukennari í MR ráðið mestu um að ég ákvað að fara (líka) í sagnfræði og bókmenntasögu meðfram náminu í MHÍ og þegar ég var þvinguð til að velja milli HÍ og MHÍ valdi ég sagnfræðina. Var svo lánsöm að hitta þennan velgjörðarmann minn í barnaafmælum síðar, af því hann var pabbi vinkonu minnar. Í sagnfræðinni var líka annar kennari minn úr MR sem hafði ekki minni áhrif á mig, sumir kölluðu hann alfræðibók og þá ekki til hróss, en hans þekking, þótt mikil væri, var miklu dýpri. Á háskólaárunum voru nýlendur, einkum í Afríku, ein af annarri að fá sjálfstæði og hann sagði fyrir um það með fáránlegri nákvæmni hvenær hver nýlenda yrði frjáls, hvers vegna og hvaða vandamál gætu fylgt í kjölfarið. Sama máli gengdi um upplausn Sovétríkjanna, sem voru löngu eftir hans dag, hann greindi með ótrúlegri nákvæmni þá togstreitu sem hefur verið á flestum átakasvæðum, vegna trúarbragða, efnahagslegra hagsmuna og mismunandi menningar. 

Stærðifræðikennari í gaggó var að prufukeyra námsefnið Tölur og mengi, einmitt á mínum bekk, og kenndi mér því snemma á galdra tvíundakerfisins og mengjafræðinnar. Þegar ég fór að bæta við mig framhaldsskólastærðfræði sem hafði breyst mikið frá árunum fyrir 1970, naut ég góðs af þessum grunni, og einhvern veginn komst ég í gegnum mastersnám í tölvunarfræði um og uppúr fimmtugu, þótt máladeildarstúdent væri. Seinasti stærðfræðikennarinn í þeirri lotu bjargaði mér alveg gegnum þá glímu, enda kennari af guðs náð. Í tölvunarfræðinni var það samt kennarinn sem kenndi kúrsinn Samskipti manns og tölvu, sem lagði grunninn að tveggja áratuga störfum í hugbúnaðargerð. Hún var skipuleg, skemmtileg og fann fyrir okkur námsefnið sem einmitt varð til þess að ég hugsaði: Hér á ég heima. 

Það er ekki öllum gefið að vera kennarar. Aðeins eitt ár af starfsævinni hef ég haft kennslu (í íslensku) að aðalstarfi og gleðst innilega yfir því að bæði ég og nemendurnir komumst heil frá þeim vetri. Þess vegna var ég undrandi þegar ég hitti, á myndlistarsýningu í fyrra eða hitteðfyrra, nemanda sem sagði mér frá þeim jákvæðu áhrifum sem ég hefði haft á hana. Engu að síður gerði ég rétt með því að velja mér ekki kennslu að ævistarfi. Það þarf sterk bein og mikinn mannkærleika og fagmennsku til að verða eins og þetta fólk sem reyndist mér svona vel. Það sem ég kann að hafa af svoleiðis löguðu nýttist þá í annað. 


Við C-fólkið

Var að glíma við svolítið lúmskt erfiða vatnslitamynd meira og minna frá kl. 16 í gær, með heilmiklum hléum til kl. hálf tvö í nótt. Þá þurfti ég að fara að sofa, því ekki vildi ég mæta seinasta vinnudaginn í hefðbundnu 9:40-17:40 vinnunni minni geispandi út í eitt.

unnamed (6)a

Er oft spurð hvort ég sé A eða B manneskja, því ég hef aldrei farið leynt með svefnvenjur mínar, að því leyti sem ég get ráðið þeim. Það eru allmörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég er C-manneskja. Þetta merkir það að ef ég ætla að sofa þokkalega út, þá þarf ég að meta það hvort það er of snemmt fyrir mig að stilla vekjaratóninn í símanum á 12:20 til að missa ekki af hádegisfréttunum. Það merkir líka að ég þekki varla flugþreytu nema af afspurn, því ég er þaulvön frjálslegum svefnvenjum. Sömuleiðis kom það fyrir á aðal lausamennskuárunum mínum, þegar ég sinnti bæði myndlist og blaða- og útvarpsmennsku, að ég náði að elda hafragraut handa eiginmanni og börnum áður en ég fór að sofa, eftir langa nótt við grafíkpressuna mína. Hins vegar er ég gefin fyrir fallega sumardaga og hika ekki við að fara á fætur milli kl. 9 og 10 á fögrum sumardögum, heima og erlendis, til að njóta sólar og alls konar stúss í góðu veðri. En mér finnst nóttin og myrkrið líka góðir vinir mínir. Skammdegið hefur aldrei verið óvinur minn, bara hálkan og einstaka sinnum ófærðin. Elska líka bjartar sumarnætur og miðnæturgolf, þegar bakið leyfir mér svoleiðis lúxus.

unnamed (7)

Veit ekki hvort líf C-manneskjunnar á heimilinu, mitt sem sagt, mun taka neinum sérlegum stakkaskiptum þótt ég fari í annað sinn á ævinni á eftirlaun frá og með dagslokum í dag. Vissulega hefði ég haldið áfram með myndina sem ég var að glíma við fram eftir nóttu, ef ég hefði ekki verið bundin við að fara í vinnuna í morgun. Það er gott að geta lifað í takt við líkamsklukkuna, þótt hún gangi alla vega, og ég er jafn forvitin og aðrir um það hvernig hún muni haga sér næstu misserin. 

 

 


Vinnustaðir - morð á ganginum og gengið yfir brúna

Hef unnið á allmörgum (mishefðbundnum) vinnustöðum á starfsævinni og oftar en ekki verið í vinnu með góðum hópi fólks sem ég þekkti ekki fyrir. Nú, þegar ég er á 72. aldursári og búin að segja upp hefðbundnu launavinnunni minni veit ég ekki almennilega hvort ég á að skilgreina mig í lausamennsku, sem er vinnutilhögun sem ég er svosem vön (8 ár af starfsævinni alla vega), eða að ég sé ,,bara" að fara á eftirlaun, sem ég hef reyndar áður gert, í næstum fjögur ár, áður en ég fór að vinna í núverandi vinnu. Aðalmunurinn er vinnustaðurinn og vinnufélagarnir. Þótt minn ágæti eiginmaður hafi bent mér á að ég sé í góðum félagsskap þegar ég er í lausamennskunni (ein með sjálfri mér mestanpart) þá hef ég upplifað nokkra alveg óborganlega vinnustaði og uppátæki í góðra vina hópi. Fyrsti langtíma-heilsárs vinnustaðurinn minn var Vikan. Þar var ég í hópi einvalaliðs vinnufélaga í fimm ár. Helgi Pé var ritstjórinn sem réð mig í þá vinnu en hann og Eiríkur Jónsson (já, sá) voru skamma stund með okkur og við tók hópurinn sem er á þessari mynd. 

Vikan

Eins manns sakna ég af þessari mynd (sem NB ég þurfti að teikna fríhendis, því ekkert photoshop var komið þá). Hann var greinilega ekki byrjaður með okkur, en það var virðulegi auglýsingastjórinn okkar. Hann var ögn eldri en við flest, gríðarlega vel klæddur í óaðfinnanleg jakkaföt og datt hvorki af honum né draup (þrátt fyrir að hann ritað mjög umdeildar kjallaragreinar í annað blað). En, lengi skal manninn reyna. Í fyrsta sinn sem það gerðist uggðum við ekki að okkur, ritstjórnin, allt í einu heyrðist rosalegur hvellur á hljóðbæra ganginum okkar í Síðumúlanum og síðan hljóp þessi virðulegi maður út úr fremstu skrifstofunni á ritstjórninni, að því er virtist skelfingu lostinn og hrópaði: Hvað er að gerast, var verið að drepa mann? Enginn fann neitt, en þegar þetta fór að endurtaka sig sáum við hann laumast fram á gang með stóran, uppblásinn bréfpoka, sprengja hann frammi, hraða sér á skrifstofuna sína og svipta svo upp dyrunum og bera fram sömu spurninguna og síðast, og þaráður!

Ég var líka um það bil fimm ár hjá Betware, í fyrsta starfi mínu við hugbúnaðargerð, meðan ég var enn í mastersnáminu mínu í tölvunarfræði. Það voru skrautleg og skemmtileg ár, bæði vinnulega séð og af því að ég ákvað að hella mér út í skemmtanalífið með vinnufélögunum, börnin mín uppkomin og þau (vinnufélagarnir og börnin) flest án nokkurra fjölskylduskyldna, enn sem komið var. Við hliðina á okkur í Ármúlanum var ,,slísí" bar á annarri hæð, þar sem sungið var karókí og ekki síst með fulltingi ótrúlegra söngfugla úr okkar hópi. Hann gekk undir eldra nafni sínu, Jensen, meðal vinnufélaganna. Þar var svona Allie McBeal-stemning fyrir þá sem muna eftir þeirri sjónvarpsseríu. Þá kynntist ég líka alls konar tölvuleikjum og þrautum sem hafa síðan fylgt mér gengum þessa tvö áratugi sem ég hef starfaði við hugbúnaðargerð. Vegna persónuverndarsjónarmiða birti ég bara sjálfa mig hér, en ekki hina vinnufélagana, en lofa því að þau hlógu alveg jafn dátt og ég við eitt slíkt tækifæri.

Þrátt fyrir stuttan stans hjá Iceconsult féll ég alveg fyrir vinnufélagahópnum þar, og í fórum mínum á ég mynd af einum vinnufélaga sem fór í ,,brú" meðan annar síðan gekk yfir brúna og sá þriðji passaði upp á að hann dytti ekki af þessari ótrúleg brú. Aftur, skrambans persónuverndin sem stoppar mig í að birta þessa mynd en treysti á ímyndunarafl lesenda.

unnamed,Frau.W

Aftur á móti er nýrri mynd af ágætlegar óþekkjanlegum vinnufélaga mínum alveg birtingarinnar virði, efast um að nokkur þekki viðkomandi, en segir allt um fjölbreytileikann við leik og störf. 

393074400_909616107193300_2582729761996044063_n

Auðvitað hafa vinnustaðirnir mínir verið misfjörlegir, en sumir svo óborganlegir að ég bara varð að setja þetta á blað, og reyndar eftir hvatningu eins núverandi vinnufélaga svona rétt í bland. Og af hverju gæti ég ekki persónuverndarsjónarmiða vinnufélaga minna hjá Vikunni? Þessi mynd var á forsíðu blaðsins á sínum tíma, og þegar þú flettir síðunni, hvað blasti þá við? Nú, auðvitað bakhliðin. 

Vikan2

 

 


Gríðarlega mislangir mánuðir

Tíminn líður mismunandi hratt í hugum flestra. Breytilegt eftir æviskeiðum, er mér sagt, þótt ég geti ekki tekið undir það, hjá mér líður tíminn einfaldlega mjög mishratt. Jú, reyndar, að einu leyti. Vikurnar fjórar eða svo fyrir jólin voru alveg hrikalega lengi að líða þegar ég var lítill krakki, nú er leitun að hraðskreiðara tímabili. 

Eitt afhjúpar vel hve hratt tíminn líður. Þegar eitthvað endurtekur sig með nokkuð reglulegu millibili. Seinustu sex árin höfum við bekkjarfélagarnir úr MR mælt okkur mót mánaðarlega um vetrartímann eftir því sem unnt hefur verið. Tíminn sem líður milli þess að við hittumst er grunsamlega mismunandi langur og það helgast ekki af því að fyrsta laugardag í mánuðinum ber upp á daga missnemma í hverjum mánuði fyrir sig. Nei, það er eitthvað allt annað. Stundum hafa fleiri en einn á orði að það sé langt síðan við höfum hist, þótt það sé aðeins um mánuður, oftar er eins og við séum að taka upp þráðinn eftir fyrri viku eða næstsíðustu. 

Undanfarinn mánuður hefur verið ótrúlega langur, venjulega er nóvember með styttri mánuðum í lífi mínu, en ekki núna. Margvíslegir viðburðir í samfélaginu, bæði nærsamfélagi, á landinu okkar og á plánetunni okkar hafa áreiðanlega spilað þar inn. Seinustu mánaðarmót og dagarnir kringum þau buðu reyndar ekki upp á MR-hitting. Þess í stað fór ég í stutta og skemmtilega ferð til Skotlands og Englands, á hljómleika og sýningar, og ég bað jarðskjálftahópinn minn vinsamlegast að sjá til þess að skjálftarnir sem voru þá byrjaðir, mundu hætta áður en ég kæmi heim aftur. Völd þessa hóps eru augljóslega engin. Heim komin setti ég í snatri upp vatnslitasýninguna mína, sem ég tók niður í fyrradag og eftir yndislega opnun var einn árviss viðburður á dagskrá hjá mér. Kannski það eina sem var á réttum tíma og tók venjulegan (góðan) tíma. 

Var að velta því fyrir mér hvort það lengdi mánuðinn eitthvað að ég var búin að segja upp vinnunni minni, eins og ég nefndi í seinustu færslu. Var sem sagt farin að vinna uppsagnarfrestinn. Það skekkir þá mynd að ég sagði upp fyrir 7-8 vikum þótt uppsagnarfresturinn hæfist ekki fyrr en fyrir liðlega mánuði, sem sagt m.v. mánaðarmót. Mín reynsla hefur líka yfirleitt verið sú að að uppsagnarfrestur er allt of fljótur að líða, einkum fyrir fólk eins og mig, sem langar að klára svo margt áður en það fer. 

Böndin berast því að því sem eru ytri aðstæður fyrir mig, en snerta annað fólk svo hræðilega djúpt. Fólkið sem beið eftir að jarðskjálftum linnti en fékk þá bara verri, beið þess að líf þess á flótta undan náttúruöflunum reyndist bara vondur draumur. Og enn frekar fólkið á Gaza-svæðinu sem er statt í miðjum alvarlegum hörmungum sem ekki sér fyrir endann á. En líka fólkið í nærumhverfi mínu sem átti þess ekki kost að velja hvort það hætti í vinnunni sinni eða ekki. Við sem vinnum í sveiflukenndum heimi hugbúnaðargerðar höfum flest orðið vitni að eða upplifað þær skyndilegu sveiflur sem fylgja þessum bransa, en samt er það aldrei auðvelt, þegar niðursveifla á sér stað og fjöldi fólks missir vinnuna. 

Á þá jólaósk heitasta að allt þetta fólk fái sem allra fyrst öryggi og ró í tilveru sína. Og að tíminn þangað til verði fljótur að líða.  

 


Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!

Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"

Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.

Leidin ut i vitann

Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini. 

Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á. 

 


Virðing

Það er ekki hægt annað en fyllast óttablandinni virðingu þegar stærstur hluti þjóðarinnar stendur frammi fyrir því að náttúruöflin margslungnu minna á sig. Á vissan hátt eru það forréttindi að búa í landi þar sem magnaðir kraftar ríkja, þótt vissulega sé það líka skelfilegt á stundum.

Þá er ekki síður hægt annað en finna fyrir virðingu fyrir því ótrúlega æðrulausa fólki sem hefur búið í hrikalegu návígi við þessi ógnaröfl og hefur nú þokast út í óvissu sem enginn getur létt af því eins og sakir standa. 

Í sumar þegar ég var á heimleið eftir góðan tíma með syni mínum og við vatnslitaiðkun, lífið áhyggjulaust, flugum við yfir Vestmannaeyjar í þann mund sem goslokahátíðin stóð yfir og síðan yfir margsundurbrotið Reykjanesið. Nokkrum dögum síðar fór að skjálfa og síðan að gjósa og nú skelfur aftur og gæti gosið. 

IMG_4176

 

IMG_2764IMG_2767


Lestin brunar, hraðar, hraðar, húmið ljósrák sker

Fátt elska ég meira en góða lestarferð. Kenni Jóni Helgasyni ekki beinlínis um angurværðina sem grípur mig stundum á langri ferð um lestarteina, en ljóðið hans, Lestin brunar, er lestur sem ég mæli með við hvern sem er og allar túlkanir eru leyfðar, líka sú sem Jón sjálfur gaf upp með réttu eða röngu. Síðasta lestarferðin mín var engin undantekning frá kunnuglegri lestarupplifun.

IMG-4546Norpaði á brautarstöð óþarflega lengi, það hefur gerst ótal sinnum áður, lestir hafa þá einstöku náðargáfu að eiga það til að geta seinkað býsna hressilega. Í þetta sinn hélt að ég væri snjöll að velja aðal rigningardaginn í Skotlands/Englandsferðinni minni til þess að sitja í lest í rúma fjóra tíma (reyndin varð meira en fimm tímar). Á löngum lestarferðum er það oftar en ekki birtan sem breytist gegnum ferðina, ljósrákir skera húmið bæði út um lestargluggann og einnig í augum þeirra sem horfa á lestina bruna framhjá sér.

IMG-4557Hver einasta lestarferð getur snúist upp í ævintýri, sum þeirra hef ég rakið hér í bloggi og víðar, ævintýri sem seint gleymast, aðrar eru eftirminnilegri vegna útsýnisins og þá þarf ekkert að heimta gott veður. Ætla að leyfa ykkur að njóta með mér nokkurra mynda úr lestarferð síðastliðinn sunnudag, þar sem leiðin lá frá Edinborg til Lundúna. Meðan aðrir horfðu á símann sinn eða sváfu, horfði ég hugfangin út um gluggann mestalla ferðina og tímdi ekki nema endrum og sinnum að munda símann til myndatöku. Eins og laxveiðimennirnir segja: Þið hefðuð átt að sjá þessa(r) sem sluppu.  Hlustaði þó á tónlistina frá tónleikum kvöldsins á undan síðari hluta leiðarinnar og útilokaði þá sumt af því sem samferðafólkið vildi segja vinum sínum og vandamönnum, en alls ekki mér.IMG-4587aIMG-4593aIMG-4601aIMG-4621IMG-4565IMG-4578


Mér var nær að kalla sýninguna mína: Þekkt og ,,óþekkt"

Þegar ég vakna í fyrramálið, laugardagsmorgun 4.11. 2023, nálægt hádegi, bruna ég á bókasafnið í Garðabæ til að festa örfáar óþekkar myndir. Þessar snælduvitlausustu, sem láta sér ekki nægja kennaratyggjó til að tryggja að þær verði ekki of hornskakkar á sýningunni minni. Sýningaropnun er alltaf spennandi, munu jarðskjálftar næturinnar ná að fella myndir af veggjum í nótt? Síga einhverjar hengjur niður eftir girninu og niður á gólf? Mér er það reyndar enn í fersku minni þegar fyrsta (og versta) jarðskjálftahrinan í okkar 200 ára Reykjaneseldum sem eru nýhafnir, hófst. Þá var nefnilega nýbúið að setja upp, í Hönnunarsafninu á Garðatorgi, gullfallega keramiksýningu sem spannaði upphaf og þróun keramiklistar. En þessi snillingar þar létu það ekki slá sig út af laginu. Leirnum var haganlega komið fyrir á beði í fallegum kössum.

En ég var að kvarta undan óþekku myndunum mínum, samt er eitt af þremur þemum hennar einmitt ÓÞEKKT, það er að segja að vera óþekk(ur). Hin tvö eru hversdagslegri, eitthvað sem við þekkjum (sem sagt þekkt) og eitthvað sem við þekkjum ekki (sem sagt óþekkt). Óþekktin í heiti sýningarinnar er margs konar, ég er nefnilega gjörn á að brjóta ýmsar reglur og það teygir sig yfir í myndlistina, hvort sem um er að ræða meðferð vatnslita (sem annarra lita), myndbyggingu, pensilskrift, upphengingu eða eitthvað annað. Stefni reyndar að því að herða mig enn á því sviði. Svolítil mis-falin óþekkt er í sumum náttúrumyndunum mínum (get bent þeim sem kíkja á sýninguna á dæmi) en hinn helmingur myndanna, sem er helgaður konum, er samt aðal óþekktin. Eflaust hafa einhverjar þeirra verið einstaklega ,,þægar og góðar" en miklu fleiri sem ég veit að hafa og treysti til að hafa sýnt af sér frábæra óþekkt. Segi ekki meira en að ein þeirra er draugur og önnur útilegukona. 

386822820_741402444483125_3693604150818432607_n

Kláraði að setja upp sýninguna í kvöld, mæti með níðsterkt límband til að leysa linkulegt kennaratyggjó af hólmi þar sem það á við, einhverjar veitingar í töskunni og ef ykkur langar að skreppa á sýningu á bókasafnið í Garðabæ milli kl. 13:30 og 15 þá býst ég við að taka vel á móti ykkur, svo lengi sem þið ekki sýnið neina óþekkt. Hún er frátekin fyrir sýninguna sjálfa. 


Sjö konur af 42 og ein alveg sérstök

Það er alltaf gaman að undirbúningi sýninga. Síðustu árin hef ég verið nokkuð dugleg við að halda einkasýningar og er ég lít til baka sé ég að ég hef haldið alls konar myndlistarsýningar með furðu litlum hléum frá því ég hélt þá fyrstu í Gallerí Lækjartorgi haustið 1984. Það sem helst heldur mér við efnið, fyrir utan að ég hef verið merkilega iðin við að mála frá því Vatnslitafélagið var stofnað, er að ,,hitt" myndlistarfélagið mitt, Gróska í Garðabæ, býður félögum sínum á hverju ári uppá að vera ,,Listamaður mánaðarins" á bókasafninu á Garðatorgi. Nú er ég að fara að þiggja þetta ágæta boð í þriðja skiptið, telst til að ég geri það um það bil á 18 mánaða fresti.

unnamed (7)

En af hverju sjö konur af 42? Jú, ég er yfirleitt með tvö meginþemu á hverri sýningu og sú næsta verður engin undantekning. Þar verð ég með meginþemað sem tengist náttúru og manngerðum veruleika, byggð og bátum aðallega. Það er í takt við það sem ég hef verið að fást mest við að undanförnu. Konurnar sjö ákváðu eiginlega sjálfar að þær ætluðu að vera með. Uppi í hillu á ég möppu sem að stofni til er þriggja ára, myndskreytingarverkefni sem ég tók að mér og vissi að var upp á von og óvon. Ástæða þess að ég sló til var einfaldlega sú að mér fannst viðfangsefnið áhugavert, konur í ýmsum hlutverkum, þekktar og óþekktar (eða óþekkar kannski?). Eins og mig grunaði hef ég enn ekki verið krafin um afraksturinn, fengið smá styrk út á vinnuna sem ég hef þegar innt af hendi, en ef til þess kemur að þetta verkefni verði að veruleika, þá mun ég eflaust endurgera flestar eða allar myndirnar, 42 að tölu, nema kannski þessar sjö sem ákváðu að þær ætluðu á sýningu. Nú er sjö engin heilög tala (ykkur er velkomið að mótmæla því) og vera má að kvennamyndirnar á sýningunni verði einni fleiri eða færri. Sumir munu eflaust átta sig á að 42 er líka merkileg tala, en það er ósennilegt að lokatölur mynda fyrir verkefnið góða verði nema svona rétt uppúr 30. 

Dolindusyning

Og nú er eins gott að fara að bretta upp ermar og koma þeim myndum í ramma sem ég ekki þarf að leita með til innrömmunarfyrirtækja. Sýningin verður opnuð annan laugardag, 4. nóvember, á dánarafmæli pabba míns. Þannig að eftir opnunina, einhvern tíma uppúr klukkan þrjú, þegar ég verð búin að taka saman sælgæti, glös og freyðivín, fer ég væntanlega í Fossvogskirkjugarð eins og ég geri á hverju ári og kveiki á kerti á leiðinu hans og hennar Dolindu, konunnar hans seinustu æviárin hans, en hún féll frá ári á undan honum. Bæði dóu í blóma lífsins, þótt blómið hans hafi verið farið að visna svolítið af sorg. Og það merkilega er að annars staðar á Garðatorgi, í Hönnunarsafninu, stendur nú yfir yndisleg sýning á verkum hennar, en hún var svissnesk listakona með merkilegan feril. Ég man hana fyrst og fremst við rennibekkinn sinn á Seyðisfirði, þar sem hún tók mér opnum örmum og leiddi mig í gegnum fyrsta og eina leirmótunarskeið á minni ævi, þá var ég í kringum tíu ára aldurinn. Það er einskær tilviljun að þessar tvær sýningar verða þarna samtímis, en falleg er sú tilviljun. 


Kona eignast indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu

Lengi vel var þetta indverska sjal uppi í sumarbústað, en ég tók það í bæinn fyrir haustið og stend mig að því að njóta þess að horfa á það. Mínir litir og þeir eru fallegir fyrir þá sem kunna að meta þá. 

2023-10-20_21-35-44Sjalið á sér sögu. Þegar ég var að vinna í Hamborg, ásamt fólki af ýmsu þjóðerni (33 mismunandi) voru tveir Danir meðal vinnufélaga minna, en svo fór Natalie heim til Danmerkur og Anders var einn eftir af Dönunum. Við unnum svolítið saman, nógu mikið til að vera búin að átta okkur á því að við áttum sama afmælisdag og skakkaði varla nema hálfri ævi á okkur hvað fæðingarárið varðaði. Einhvern tíma eftir að Natalie fór og áður en við áttum afmæli dó mamma hans Anders frekar óvænt og hann var heldur miður sín, skiljanlega. Þegar hann kom til baka til Hamborgar var enn í ýmis horn að líta og hann frekar upptekinn, en einn daginn kom hann að máli við mig og spurði hvort ég kynni ekki dönsku? Jú, ég hélt ég gæti haldið því fram. Þá vantaði hann nefnilega vott að því að hann hefði sjálfur útfyllt smá eyðublað sem varðaði skipti arfs milli hans og systur hans, ef ég man það rétt. Anders var ekkert að grípa næsta mann í verkið, heldur stálheiðarlegur fann hann til dönskulesandi manneskju, mig, og ég vottaði að sjálfsögðu allt hans verk, ekki var það erfitt. Nema hvað, daginn eftir kom hann með þetta fallega sjal í vinnuna og sagði mér frá því þegar hann bjó ásamt móður sinni og systur á Indlandi, en þaðan er sjalið. Tvennt togaðist á í mér, að afþakka sjalið af því það var einfaldlega allt of mikið fyrir svona létt og lítið verk, eða þiggja það af því það er svo fallegt. Og þannig eignaðist kona indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband