Kona eignast indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu

Lengi vel var þetta indverska sjal uppi í sumarbústað, en ég tók það í bæinn fyrir haustið og stend mig að því að njóta þess að horfa á það. Mínir litir og þeir eru fallegir fyrir þá sem kunna að meta þá. 

2023-10-20_21-35-44Sjalið á sér sögu. Þegar ég var að vinna í Hamborg, ásamt fólki af ýmsu þjóðerni (33 mismunandi) voru tveir Danir meðal vinnufélaga minna, en svo fór Natalie heim til Danmerkur og Anders var einn eftir af Dönunum. Við unnum svolítið saman, nógu mikið til að vera búin að átta okkur á því að við áttum sama afmælisdag og skakkaði varla nema hálfri ævi á okkur hvað fæðingarárið varðaði. Einhvern tíma eftir að Natalie fór og áður en við áttum afmæli dó mamma hans Anders frekar óvænt og hann var heldur miður sín, skiljanlega. Þegar hann kom til baka til Hamborgar var enn í ýmis horn að líta og hann frekar upptekinn, en einn daginn kom hann að máli við mig og spurði hvort ég kynni ekki dönsku? Jú, ég hélt ég gæti haldið því fram. Þá vantaði hann nefnilega vott að því að hann hefði sjálfur útfyllt smá eyðublað sem varðaði skipti arfs milli hans og systur hans, ef ég man það rétt. Anders var ekkert að grípa næsta mann í verkið, heldur stálheiðarlegur fann hann til dönskulesandi manneskju, mig, og ég vottaði að sjálfsögðu allt hans verk, ekki var það erfitt. Nema hvað, daginn eftir kom hann með þetta fallega sjal í vinnuna og sagði mér frá því þegar hann bjó ásamt móður sinni og systur á Indlandi, en þaðan er sjalið. Tvennt togaðist á í mér, að afþakka sjalið af því það var einfaldlega allt of mikið fyrir svona létt og lítið verk, eða þiggja það af því það er svo fallegt. Og þannig eignaðist kona indverskt sjal vegna nokkurrar dönskukunnáttu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband