Það er hægt að eltast við fleira en drauma

Ekki misskilja mig, mér finnst æðislegt að eltast við drauma, en almennt séð finnst mér bara fyrst og fremst gaman að eltast við eitthvað skynsamlegt og óskynsamlegt, þegar sá gállinn er á mér. Þannig hef ég farið til baka með lest frá Bexhill í Englandi til að eltast við bleikt hús, sem ég sá út um lestargluggann. Sú ferð bar mig á slóðir stórs golfvallar og þegar ég var að fara til baka eftir stíg á golfvallarsvæðinu brast á þetta ferðlega þrumuveður svo ég reyndi að rifja upp hvað væri rétt að gera, ekki fara undir tré, alls ekki vera hæsti punkturinn á vellinum, en til baka komst ég alla, einni mynd af bleiku húsi ríkari, ég á nokkur hundruð og hef meira að segja fléttað þeim inn í eina af myndlistarsýningunum mínum.

i286260064373074369._szw1280h1280_

Sömuleiðis elti ég eitt sinn geisladisk. Innskot: Ef Moggabloggið á yngri lesendur en mig þá er rétt að geta þess að það er hvorki borðbúnaður né eitthvað geislavirkt, heldur er hægt að spila lög af þeim í geislaspilara. Innskoti lýkur. Sá þennan geisladisk með Robert Palmer og laginu Johnny and Mary í glugga plötubúðar í írska fjölþjóðlega hverfinu Kilburn í London einhvern tíma seint á síðustu öld. Keypti hann ekki, af því ég var ekki með pening á mér (og ekki kort) nema rétt nægilegan fyrir annað hvort lestinni niður í miðbæ, þar sem ég hélt til í Baker Street, eða fyrir geisladiskinum. Sá mig um hönd eftir að vera komin alllangt frá búðinni, fór og keypti diskinn og gekk svo niður í bæ, nokkuð sem ég hafði oft gert fyrr á öldinni, á blankheitaárunum þegar ég var bara unglingur í London. Það tekur ekki nema eitthvað um klukkutíma hvort sem var. Veggskreyting með úlfalda í Gran Tarajal, þorpi á Fuerteventura með frekar strjálum strætósamgöngum, blátt hús í Los Llanos á La Palma, næstum klukkutíma strætóferð hvora leið, svartir svanir og kengúrur í Canberra í Ástralíu, þær síðarnefndu útheimtu að ég vaknaði klukkan fimm að morgni, aftur í strætó í útjaðar borgarinnar. 

55783924_10218921192879266_3551199958151462912_nMér dettur oft í hug hvort ég hafi erft þetta í einhverjum genum frá móðurömmu minni og -afa, sem iðkuðu það á millistríðsárunum að fara í sunnudagsbíltúr sem fólst í því að velja sér bíl sem var á leið upp Ártúnsbrekkuna og elta hann þangað sem hann fór. Eitt sinn enduðu þau í Vík í Mýrdal, mögulega hefur það verið í stríðinu eða eftir það, nenni ekki að tékka á hvenær varð almennilega bílfært til Víkur. En sumir túrarnir urðu á hinn bóginn snautlega stuttir. 

Eftir tíu daga ætla ég að skreppa í smá ferðalag og elta eina hugdettu. Aldrei að vita nema að ég segi ykkur nánar frá því. 

Því segi ég, eltið drauma ykkar og hvað annað sem ykkur dettur í hug! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband