,,Óútskýrði" launamunurinn útskýrður
20.6.2007 | 00:28
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook
19. júní - bleikir skór og mamma
19.6.2007 | 00:55
19. júní er runninn upp. Það verður ekki vandamál að finna bleik föt að fara í, nema hvað buxurnar verða varla bleikar í þetta sinn, á einar, en þær eru ,,íþrótta-" og ekki innan klæðakóða vinnunnar minnar. Hins vegar er ég búin að taka til bleiku tölvutöskuna mína, sem ég nota bara spari (bleikt er viðkvæmt fyrir óhreinindum og töskuþrif erfiðari en fataþrif). Og svo er gaman að velja sér bleika skó til að fara í. Svolíitð svag fyrir bleikum skóm, þeir sem eru uppi í skóhillu eru aðeins sýnishorn, einhvern tíma þyrfti ég að safna þeim öllum saman og taka aðra mynd. Mér skilst að ég sé til dæmis ein af fáum sem eiga bleika Timberland útivistarskó - sé ekki þversögnina sem sumir þykjast sjá í því.
En 19. júní er samt aðallega dagurinn hennar mömmu. Hún á nefnilega afmæli á kvenréttindadaginn og vel við hæfi. Ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar og ávallt og ævinlega mikil kvenfrelsiskona. Seinustu árin höfum við skroppið út að borða á afmælisdaginn hennar og ætlum að halda þeim sið þennan afmælisdag sem aðra. Þótt hún sé ekki sama bleika týpan og ég, þá skartar hún alltaf góðum, bleikum klæðum á þessum degi, frá því Feministafélagið fann upp á þessum frábæra sið, að mála bæinn bleikan 19. júní. Mamma sómdi sér hins vegar mjög vel í rússkinnsjakkanum sínum á víkingahátíðinni í fyrradag, þar sem jarðlitirnir áttu frekar við en 19. júní bleiki liturinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook
Dúmbó og Steini sigra handboltaleik, eða þannig
17.6.2007 | 21:46
17. júní á Álftanesi eins og risastórt ættarmót og nunnur á víkingahátíð
17.6.2007 | 19:41
17. júní er alltaf góður og það átti svo sannarlega við í dag sem aðra daga. Milt og fallegt veður, hátíðarstemmning á Álftanesi, kvenfélagsgarðurinn er orðinn svo flottur og hátíðarstemmningin var alveg yndisleg. Á 17 júni mæta allir Álftnesingar sem vettlingi geta valdið í kvenfélagsgarðinn þar sem hátíðardagskráin er alltaf vel þegin. Núna slógu unglingarnir í Acid við og fyrsti bæjarlistamaðurinn var valinn, Sveinbjörn I. Baldvinsson, sem var valinn í þessum mikla listamannabæ okkar, þar sem við eigum eiginlega svo marga góða listamenn að helst þyrftum við að úthluta fimm manns bæjarlistamannatitli svo allir lifi að ná þeim heiðir sem skilið eiga. En þetta er auðvitað var okkar ríkidæmi. Hannes Pétursson og Helga Ingólfsdóttir voru líka heiðruð sérstaklega og vel að því komin.
Svo mættu ALLIR í kvenfélagskaffið, og þegar ég segi ,,allir" þá er það svo sannarlega rétt, rétt um lokun kláruðust birgðir kvenfélagsins sem hefði átt að duga í fermingarveislur heils árgangs. Þessar trakteringar eru löngu orðnar landsfrægar, enda foreldrar og frændfólk margra Álftnesinga mættir á staðinn, þeirra á meðal stór hópur úr minni tengdafjölskyldu, foreldra nágrannakonunnar, einn vinstri grænn úr Vogunum, bróðir mannsins á næsta borði, ég veit ekki hvað ég á að hætta. Ég held ég vitni í orð eins Kópavogsbúa sem var orðinn tíður gestur á þorrablótunum okkar: Ég held þið ættuð að fara að skipuleggja helgarferðir á Álftanes! Eftir hátíðarhöldin á nesinu ákváðum við mamma að skjótast í bíltúr og enduðum á víkingahátíðinni í Hafnarfirði.
Mikið rosalega kom hún skemmtilega á óvart, svo flott handverk og frábært mannlíf. Alþjóðlegt yfirbragð og skemmtileg stemmning. Þarna var Jörmundur Ingi að gefa saman hjón, alls konar elddansar og fleiri atriði voru til skemmtunar og eldsmiðir að störfum ásamt ótal öðrum handverksmönnum.
Og ekkert smá krúttlegt að rekast á nokkar nunnur á Víkingahátíð! Lifi margbeytileikinn, þarna voru krakkar að leika sér, vinnufélagar í fullum víkingaklæðum og hátíðarstemmning sem sannar það sem ég hef heyrt svo marga segja: Þessi víkingahátíð hlýtur að vera komin til að vera.
Sautjándi júní er alltaf sérstakur
17.6.2007 | 05:14
Sautjándi júní runninn upp og mörgum eftirminnilegum skýtur upp kollinum. Skrúðgöngur bernskunnar, sautjándi júní á Seyðisfirði 1964 þegar pabbi sagði að Haukur Mortens eða Bítlanirnir myndu spila og Haukur mætti, en ég fékk samt að fara á ballið og vera til klukkan hálf 12 rétt nýskriðin á þrettánda árið. Hvort pabbi þurfti að beita sér til að breyta reglunum veit ég ekki, en við krakkarnir tveir sem vorum þarna eyddum kvöldinu í að flissa og blása upp blöðrur. Á Seyðisfirði var sjómannadagurinn miklu meiri hátíðisdagur, en það skyggði ekkert á þennan tiltekna sautjánda.
Stúdentsárið, þá var frostnótt á sautjándann en úti skokkaði maður með stúdentshúfuna aftur á baki (bandið sem á að liggja framan á svarta hlutanum er nefnilega ágætt til að halda svona sumarhúfum um hálsinn ;-) óformlegheit hippaáranna urðu til þess að það var bara fyndið og gaman að eignast húfu, en svo var aftur á móti annað mál með notkunina. Húfan hefur prýtt marga góða kolla eftir það, einkum í minni ágætu tengdafjölskyldu. Með krakkana okkar nýflutt á Álftanesið, rétt fyrir neðan húsið okkar þar sem þá var sundlaugargrunnur sem síðar var fyllt uppí og laugin færð hinu megin við skólann. Það var heitur og sólríkur dagur. Einhvern tíma lék ég fótbolta í regngalla með hreppsnefndinni, í annað skipti var það hátíðarræðan og einhvern tíma var Ari í reiptogi og fleiri fíflalátum með Lions. Ófáar skrúðgöngur fór maður frá Bessastaðakirkju, meðan krakkarnir voru á skrúðgöngualdrinum.
Og svo var það árið sem ég hélt hátíðarræðuna í Sandgerði, þá nýbyrjuð að skrifa sögu sveitarfélagsins, sem bíður útgáfu í handriti, kemur vonandi út fyrr eða síðar. Það var gaman, enn meira gaman fannst mér þegar fótboltaleikurinn Ísland-Pólland hófs þar, en svo var brennt í bæinn (okkar, Álftanes) með viðkomu í sjoppunni hjá Fitjum, en þar skófluðum við Ari í okkur pulsum. Veðrið var ágætt en allt í einu fauk bíllinn harkalega til og Ari hafði orð á því að hann væri aldeilis farinn að blása og þetta hefði verið snörp vindhviða. Skömmu síðar hringdi nágranninn að norðan og spurði hvernig ástandið væri á Álftanesinu eftir jarðskjálftann. ,,Vindhviða, hvað?" Heima var allt uppistandandi nema ein stytta og enginn í stressinu. Vinir okkar af nesinu sem voru á Selfossi urðu betur varir við skjálftann og í dag heyrði ég að á Arnarhóli hefði mannskapurinn klappað ;-)
Gleðilega þjóðhátíð!
Gangi ykkur vel að stöðva þá áður en þeir skaða einhvern alvarlega
17.6.2007 | 02:33
![]() |
Lögregla minnir á hærri sektir og betri tækni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Endurnýting
16.6.2007 | 23:39
Rosalega höfum við verið heppin varðandi sumarbústaðinn okkar, við höfum fengið meira og minna heilt innbú í hann án þess að þurfa að kaupa eiginlega neitt. Þetta dettur mér nú í hug af þvi við vorum að fá fallegt hornsófasett gefins sem smellpassar svona í bústaðinn okkar, og ekki nóg með að vinir og ættingjar hugsi til okkar (og viti að við erum rosalega endurnýtin) heldur er þetta alltaf svo fallegt sem okkur áskotnast.
Þegar ég lít í kringum mig heima, þá er í rauninni sömu sögu að segja, fyrir utan nokkrar bókahillur, þá lítið af innbúinu aðkeypt, nema hvað við enduðum með að kaupa okkur sófasett fyrir 6-7 árum, eftir að sófasettið sem við keyptum notað 1979 og ég hafði margsaumað utan um, hreinlega dó. Jú, einn fallegan, háan skáp fengum við okkur í millibilsástandinu þegar við vorum búin að rífa út gömllu bráðabirgðaeldhúsinnréttinguna en ekki setja hina upp. Það olli því reyndar að þegar jólamáltíðin var að verða tilbúin uppgötvaðist allt í einu að allir diskarnir voru enn inni í skápnum og ýmsum hafði verið raðað fyrir hann, enda var þá (endur)byggingartímabil hússins rétt að byrja.
Þarna eru borðstofugömlu stólarnir sem mamma átti, hún var eflaust þriðji eigandi og af því þeir eru bara 5 þá eigum við líka einn Louis Ghost við, kaupum kannski fleiri því stofuborðið hennar ömmu er stækkanlegt, þarna er líka skápurinn sem mamma og pabbi keyptu sér um 1950, og ,,danish modern" ruggustóllinn kauptu þau líka (þarfnast yfirdekkingar - sé hann fyrir mér knallrauðan). Sófaborðið er hurð með grind undir sem smíðuð var í stíl vil gluggana okkar, Britannica í fallegum skáp, sem dagaði uppi frá tengdaforeldrum mínum, gullfallegt og gagnlegt ennþá, mamma er byrjuð að lauma að mér antíkhlutum sem hún þykist hafa keypt fyrir sjálfa sig, ég fékk líka gamla dúnkofastólinn, sem reyndist vera í stíl Arts and Crafts og þannig mætti lengi telja. Eins og sakir standa ægir öllu saman, enda húsið að hluta enn á (endur)byggingarstigi, en ég er að verða spennt að endurraða þessum fallegu hlutum sem við höfum fengið úr ýmsum áttum. Samræmi mun ég aldrei geta lofað, en áhugavert, já, ekki spurning ;-)
Ég á ágæta vinkonu sem líka er dugleg að endurnýta og eftir að hafa grúskað á antíksölum í London lengi vel og halað inn ýmislegt þar fluttist hún heim til Íslands og uppgötvaði góða hirðinn. Á fimmtugsafmælinu hennar héldu systkini hennar, sem eru greinilega ekki eins endurnýtingarsinnuð, ræðu sem mér fannst reyndar á mörkunum, en þeim fyrirgefst af því þau eru svo rosalega skemmtileg. Þau kölluðu nefnilega innbúið hennar ,,haugana heim". Hvað á ég þá að kalla okkar innbú? Kannski ,,háaloftin heim"?
Yndislegur skreppitúr í bústaðinn, útskriftarveisla og tveir undanlega ólíkir umferðardagar
16.6.2007 | 19:05
Trú veðurspánni ákvaðum við að skjótast upp í sumarbústað um miðjan dag í gær, en ég hafði einmitt mætti allt of snemma í vinnuna til að losna snemma. Það reyndist mikið heillaákvörðun því umferðin um vesturlandsveg var skapleg, skapgóð og afskaplega þægileg. Það var ekkert smá yndislegt að komast í bústaðinn okkar góða, veðrið afskaplega fallegt og bústaðurinn auðvitað alltaf jafn yndislegur. Hlóðum batteríin vel, sváfum mikið og höfðum það í alla staði ljúft. Vorum að endurskipuleggja stpfuna með tilliti til nýrra endurvinnsluhúsgagna (kannski skrifa ég bráðum um endurvinnsluhúsgögnin sem oftar en ekki enda sögu sína hjá okkur). Það var skemmtileg törn og maður svitnaði mátulega í húsgagnaburði. Óli var hálf hissa þegar hann kom um 9-leytið uppeftir til okkar.
Í dag var síðan Oddrún vinkona okkar að útskrifast úr Kennaraháskólanum og við í bæinn í útskriftarveislu. Veislan afskaplega ljúf, en umferðin í bæinn var einhvers konar vígvöllur umskiptinga. Spurning hvort nú hafi verið á ferð fullt af geðvonskupúkum sem komust ekki af stað í gærkvöldi og létu það bitna á okkur hinum, eða kannski þeir sem eru orðnir svo aldraðir að þeir komust ekki af þeim sökum úr stað í gær. Alla vega tel ég okkur ljónheppin að hafa lifað af þrjár morðtilraunir (þar af eina alvarlega) og einn aldinn heiðursmann sem stefndi harðákveðinn beint á okkur á miðjum örmjóum Álftanesveginum þar til Ari neyddist til að nauðhemla og við ískrið úr hemlunum okkar hefur sá gamli greinilega vaknað og vippaði sér á réttan vegarhelming. Öllu alvarlegri var morðtilraunin hjá ökumanni flotta svarta bílsins rétt sunnan við Borgarfjarðarbrú, en þegar við vorum rétt að mæta bíl þar, tók sá svarti sauður sig til og ákvað að blússa framúr bílnum sem við mættum, og hætti ekkert við þótt við kæmum á móti. Ef vegurinn þarna hefði verið jafn mjór og Álftanesvegurinn værum við steindauð, slíkur var hraðinn á fíflinu. En vegurinn er breiður og með því að Ari keyrði alveg út í blákantinn dó enginn. Ef þið heyrið af banaslysi á leiðinni norður eða til baka um helgina er ég hálf hrædd um að annar bílanna sé svartur, dýr og með afskaplega hættulegan mann undir stýri.
Og enn horfi ég á nýja veðurspá helgarinnar, allt öðru vísi en þá sem ég treysti um miðjan dag í gær. Spennan magnast.
Sumardagurinn EINI
15.6.2007 | 16:21
Samkvæmt öllum langtímaveðurspám er sumardagurinn EINI á morgun, hér á suðvesturhorninu. Þess vegna er brýnt að nota sólina og vera dugleg að njóta góða veðursins. Ekki hægt að treysta því að fleiri svona dagar komi. Gleðilegt sumar!
Ástir sundurlyndra hjóna
14.6.2007 | 00:07
Heyrði þá furðulegu söguskoðun í dag úr munni eins nýbakaðs ráðherra að það væri hreinlega styrkleiki nýu ríkisstjórnarinnar hversu sundurlyndur meiirhlutinn væri. Þetta þykja mér heldur undarleg tíðindi. Þetta er auðvitað sagt í trausti þess að meirihlutinn sé nógu stór til að sumir þingmenn ,,megi" hlaupa útundan sér. En spurningin er, hverjir þeirra, hve margir hverju sinni og hvar eru mörkin? Mér finnst þetta reyndar mjög fíflalegt, leyfa þeim að sprikla í búrinu (ríkisstjórnarmeirihlutans) og kannski að skora meðal kjósenda sinna, allt í lagi á meðan það hefur engin áhrif!
Mér finnst tvennt koma til greina þegar samsteypustjórnir eru myndaðar, annars vegar að þær eigi það mikla samleið málefnalega, að ekki þurfi að semja fyrirfram um nema örfá ágreiningsmál. Hins vegar, ef um mjög ólíka flokka er að ræða, að gera ítarlegan málefnasamning sem tekur bæði til þess hvaða málum á að þoka áfram og einnig til þess hvaða mál þarf að setja í salt, af því ekki næst samstaða um þau.
Í fyrra tilfellinu hefði til dæmis væntanleg vinstri stjórn getað komið velferðarmálunum áfram án þess að negla þyrfti þau of mikið niður (hér er gengið út frá því að vinstri öflin í Samfylkingunni hefðu ráðið ferðinni, því út á þau fékk Samfylking það fylgi sem þó halaðist inn), á meðan setja hefði þurft sannanleg ágreiningsmál eins og ESB á ,,hold".
Ef VG og Sjálfstæðisflokkur hefðu myndað saman stjórn, mynstur sem margir telja að hefði getað orðið nokkuð farsælt, þá hefði það samstarf ekki verið mögulegt nema að negla niður afskaplega ítarlegan málefnasamning.
En núna munum við þurfa að horfa upp á hjónabandserjur fyrir opnum tjöldum í fjögur ár, í ca. 43 manna hjónabandi!