Sautjándi júní er alltaf sérstakur

Sautjándi júní runninn upp og mörgum eftirminnilegum skýtur upp kollinum. Skrúðgöngur bernskunnar, sautjándi júní á Seyðisfirði 1964 þegar pabbi sagði að Haukur Mortens eða Bítlanirnir myndu spila og Haukur mætti, en ég fékk samt að fara á ballið og vera til klukkan hálf 12 rétt nýskriðin á þrettánda árið. Hvort pabbi þurfti að beita sér til að breyta reglunum veit ég ekki, en við krakkarnir tveir sem vorum þarna eyddum kvöldinu í að flissa og blása upp blöðrur. Á Seyðisfirði var sjómannadagurinn miklu meiri hátíðisdagur, en það skyggði ekkert á þennan tiltekna sautjánda.

Stúdentsárið, þá var frostnótt á sautjándann en úti skokkaði maður með stúdentshúfuna aftur á baki (bandið sem á að liggja framan á svarta hlutanum er nefnilega ágætt til að halda svona sumarhúfum um hálsinn ;-) óformlegheit hippaáranna urðu til þess að það var bara fyndið og gaman að eignast húfu, en svo var aftur á móti annað mál með notkunina. Húfan hefur prýtt marga góða kolla eftir það, einkum í minni ágætu tengdafjölskyldu. Með krakkana okkar nýflutt á Álftanesið, rétt fyrir neðan húsið okkar þar sem þá var sundlaugargrunnur sem síðar var fyllt uppí og laugin færð hinu megin við skólann. Það var heitur og sólríkur dagur. Einhvern tíma lék ég fótbolta í regngalla með hreppsnefndinni, í annað skipti var það hátíðarræðan og einhvern tíma var Ari í reiptogi og fleiri fíflalátum með Lions. Ófáar skrúðgöngur fór maður frá Bessastaðakirkju, meðan krakkarnir voru á skrúðgöngualdrinum.

Og svo var það árið sem ég hélt hátíðarræðuna í Sandgerði, þá nýbyrjuð að skrifa sögu sveitarfélagsins, sem bíður útgáfu í handriti, kemur vonandi út fyrr eða síðar. Það var gaman, enn meira gaman fannst mér þegar fótboltaleikurinn Ísland-Pólland hófs þar, en svo var brennt í bæinn (okkar, Álftanes) með viðkomu í sjoppunni hjá Fitjum, en þar skófluðum við Ari í okkur pulsum. Veðrið var ágætt en allt í einu fauk bíllinn harkalega til og Ari hafði orð á því að hann væri aldeilis farinn að blása og þetta hefði verið snörp vindhviða. Skömmu síðar hringdi nágranninn að norðan og spurði hvernig ástandið væri á Álftanesinu eftir jarðskjálftann. ,,Vindhviða, hvað?" Heima var allt uppistandandi nema ein stytta og enginn í stressinu. Vinir okkar af nesinu sem voru á Selfossi urðu betur varir við skjálftann og í dag heyrði ég að á Arnarhóli hefði mannskapurinn klappað ;-) 

Gleðilega þjóðhátíð! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja, ástin mín það er eins gott að þú standir þig nú og mætir á 17. júní hátíðarhöldin út á nesi. Fyrst að ég get ekki verið þar, þá verð ég bara að senda fulltrúa minn.

Mig vantar nefnilega að vita nokkra hluti, eins og hver er bæjarlistamaður Álftaness, hver er heiðurssveitungi og hvernig Magni er á sviði á Álftanesi...

Eins langar mig í pulsu og kók í sjoppunni hjá Skátunum...

Heldur þú að þú getir reddað því.

Námsmaðurinn í útlöndum, sem er með heimþrá að geta ekki verið á 17. júní heima á Álftanesi....

Jóhanna 17.6.2007 kl. 10:23

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hæ elskan. Samanlagt munum við foreldrar þínir svara öllum þessum spurningum, ég get engu lofað um pusu og kók, því við erum að sinna ömmunum í dag, eins og vænta má. Ég er að fara að sækja ömmu niður á Tjörn eftir hálftíma, pabbi þinn farinn að sinna dagskránni. Amma í Vonó er væntanleg. Magni er alltaf magnaður, en ég veit ekki hvort ömmurnar fíla hann. Bæjarlistamaðurinn, ég fékk að vita um hann í gær, segi þér þegar búið er að tilkynna en hann er alla vega sá sem allir geta vænst að sé fyrst heiðraður. Svo verðum við bara í sambandi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.6.2007 kl. 14:46

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Held að ég muni alla mína "sjautjánda" eftir fimm ára aldur.  Nema kannski hin síðustu ár af skiljanlegum orsökum. Hm

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.6.2007 kl. 15:34

4 identicon

Hvernig væri þá að senda manni svona skemmtilegar upplýsingar. Ég skánaði ekkert af forvitninni á því að búa í útlöndum...

Ég þarf bara aðra til að redda mér upplýsingunum...

Jóhanna 17.6.2007 kl. 16:43

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hæ, búin að dæla inn upplýsingum á msn-ið þitt. Annars er Hannes Pétursson og Helga Ingólfs heiðursborgarar og Sveinbjörn I. er bæjarlistamaður.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.6.2007 kl. 18:41

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Jenný, ég hélt ég væri með stálminni, en að muna alla sautjándana (nema þessa ,,löglega afsökuðu", það held ég að væri svolítið mál.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.6.2007 kl. 20:09

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband