Formúlan
13.6.2007 | 01:34
Ég hef ekki á takteinum formúluna fyrir hamingju, ekki fyrir réttlæti, nei, formúlan sem ég ætla að tala um er Formúla 1 kappaksturinn. Kannski hálf ,,splittað" að hafa gaman af því að horfa á kappakstur í sjónvarpi en vera um leið ofurgætin og hatrammur andstæðingur glæfraaksturs - á götum úti. Það er einmitt þetta seinasta sem skiptir máli, íþróttir eru vissulega margar hverjar hættuspil, Georg bróðir til að mynda tvisvar lent á slysó eftir að spila skvass við mig, en í íþróttum eiga allir að vera meðvitaðir um áhættuna sem tekin er. Þannig að lengi vel fannst mér formúlan meðal betra íþróttaefnis í sjónvarpi og hélt með mínum ágæta skoska Coultard. Hins vegar hefur hann ekki verið á nógu góðum bíl að undanförnu, þrátt fyrir góðan vilja Red Bull. Ég mun halda með honum áfram, á því leikur enginn vafi, en þegar hann er ekki að blanda sér í toppbaráttuna, er hætt að vera skemmtilegt að horfa nema endrum og sinnum.
En nú held ég að áhugi minn sé að vakna á nýjan leik. Hamilton er spennandi karakter og ég hlakka til að fylgjast með honum á næstunni. Þannig að hver veit nema ég geti farið að horfa á formúluna af auknum áhuga fyrr en varir? Það sem er spennandi er að brjóta upp klissjurnar í íþróttinni, ungir hvítir karlar hafa ,,átt" þessa íþrótt fram til þessa, en nú e r óspart vitnað til Tiger Woods í golfinu sem hliðstæða innkomu og Hamilton á nú, þar sem einokun hvíta kynþáttarins er rofin. Ég vil líka benda á að Annika Sörenstam og Michelle Wie eru að breyta ímynd kven-golfarans, þannig að ég á von á konum í keppendahóp í formúlunni innan fárra ára. Konur eru nefnilega svo lúmskt góðr bílstjórar ;-)
Hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni bönnuð - hvað?
12.6.2007 | 10:02
Oft gaman að hlusta á morgunútvarpið á leiðinni í vinnuna. Stundum eins og menn séu ekki alveg vaknaðir. Þannig heyrði ég í upprifjun á sögu dagsins að X. ár væru síðan lög sem bönnuðu hjónabönd fólks af gagnstæðu kyni (!) hefði verið samþykkt einmitt á þessum degi.
Samhengið leiddi síðan í ljós, eins og hægt var að giska á, að það sem bannað var átti við fólk af gagnstæðum kynþætti, ekki gagnstæðu kyni. Og eitt annað úr sama morgunútvarpi, Richard Thompson og lagið Dad's gonna kill me, alger snilld.
Mike McGear/McCartney fundinn - í Mogganum
12.6.2007 | 02:00
Umferðarharmleikir
12.6.2007 | 00:23
Það kemur alltaf illa við mann að heyra af alvarlegum slysum í umferðinni og sýnu verst þegar um háskaakstur er að ræða. Það er hreinlega vitað hvaða afleiðingar slíkur akstur getur haft í för með sér og sorglegt að það skuli ekki ná að stoppa alla af. Langflestir haga sér reyndar ágætlega í umferðinni, en það dugar bara ekki. Og afleiðingarnar geta orðið svo óskaplegar, fjölmiðlar fylgja stöku sinnum eftir þeim slysum sem ekki leiða til dauða, og það er alltaf þörf áminning.
Það eru liðin meira en 30 ár síðan ég lenti í því að verða fyrir bíl, á gangbraut reyndar, og eftir á að hyggja þá hefur sú lífsreynsla breytt talsverðu í minni tilveru, bæði til hins verra og hins betra. Tryggvi Þorsteinsson læknir, hlýr og góður maður, sem giftur er frænku minni, kom á öðrum eða þriðja degi til mín þar sem hann hafði frétt að ég lægi á Borgarspítalanum, sem þá var og hét, og hafi skoðað skýrslur um slysið og áverkana og sagði mér að strangt til tekið ætti ég að vera steindauð. Það þarf reyndar mjög sérstakan mann til að geta sagt manni svona lagað þannig að maður finnur bara fyrir þakklæti en engu öðru, en það er líklega galdur sem Tryggvi kann. Sennilega hefur þetta raskað náminu hjá mér til lengri tíma litið, en ég var í tvöföldu listaskóla og háskólanámi þegar þetta var, og í sjálfu sér var ekkert gott við að mölbrotna á tveimur stöðum, en aðrar afleiðingar hafa verið þrálátari og hvimleiðari.
Mér verður alltaf þegar ég les um ný slys hugsað til þessa litla andartaks, þegar kurteis leigubílsstjóri stoppaði fyrir mér á gangbraut, en annar, ógætinn í augnablik, kom og ,,náði mér". Ég er ein af þessum heppnu. Röð af góðum tilviljunum urðu til að ég fór ekki verr. Vinir mínir og fjölskylda gerðu mér lífið sannarlega auðvelt á meðan ég var uppi á spítala og heima að jafna mig, sem tók drjúgt langan tíma. Ekki síst vinkona mín í Myndlista- og handíðaskólanum, sem kom með vélritaðar glósur handa mér. Og svo kynntist ég manninum mínum þegar hann skutlaði vinum mínum í sjúkraheimsókn. En ég veit það ósköp vel að það eru ekki allir svona heppnir.
Við vorum að ræða þetta í vinnunni í dag og vinnufélagi minn undraðist að ekki væru til sérstök afmörkuð og örugg svæði þar sem fólk gæti fengið útrás fyrir löngun sína til hraðaksturs (án þess að tilheyra akstursíþróttahópi). Þótt það myndi sjálfsagt ekki koma í veg fyrir öll tilvik hraðaksturs, þá gæti það verið vel þess virði að reyna það. Kostnaðarlega gæti það ekki komið út öðru vísi en í plús, ef eitthvað drægi úr vondum slysum. Einhvers staðar á Reykjanesi er að vísu einhver spyrnubraut, ef ég man rétt, en það sem hann var að tala um var annars eðlis og ég held að þetta sé eldsnjöll hugmynd.
Aftur í pólitískar bloggstellingarnar - hvað nú Framsókn?
10.6.2007 | 20:32
Fátt óvænt í kjöri varaformanns Framsóknar. ,,Hinn" armurinn fékk varaformanninn, þar sem Guðni var allt í einu orðinn formaður. Einhverjir farnir að tala um þörf á kynslóðaskiptum, sem sagt að losna við Guðna væntanlega, ekki Valgerði, sem þó er á sama aldri. Guðni segir flokknum að líta inn á við í leit að skýringum á fylgishruninu og vissulega er nóg af skýringum að hafa þar, en Guðni er sjálfum sér ekki samkvæmur þar sem hann hefur viljað skella skuldinni á Baug og DV.
Hvort sem okkur í VG likar betur eða verr verðum við saman í stjórnarandstöðu, væntanlega alla veag næstu fjögur árin. Ég efast ekki um að það mun ganga vel að græða sárin eftir málefnalega ósamstöðu í stóriðjumálum. Oft eru flokkar saman í stjórnarandstöðu sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að veita sitjandi ríkisstjórn aðhald og það er einmitt það sem ég sé þessa flokka eiga sameiginlegt. Hvorugum hugnast einkavæðing í heilbrigðiskerfinu eða íbúðalánasjóðum né heldur vill meiri hlutinn (nokkrir undanvillingar að vísu í Framsókn) aðild að ESB. Þannig að verkefnin eru ærin.
MR72 - myndir og minningar - með smá framkvæmdapistli
10.6.2007 | 18:20
Það var ótrúlega ljúft að vakna á Þingvöllum í morgun, en við Ari erum farin að kunna að meta að gista í Valhöll þegar stúdentaafmæli eru haldin á Þingvöllum. Sandey stóð á höfði í stillunni í hádeginu þegar við renndum í bæinn til að koma hurðunum upp heima á háalofti. Reyndar bíður það betri dags, vegna þess að timbursalan er lokuð hjá Byko á sunnudögum og gerektið reyndist of mjótt, vegna þess að við veggþykktina bætist nefnilega veggklæðningin. En allt er klárt til að halda áfram seinna í vikunni og við notuðum stillurnar til að fara með fyrstu jeppakerruna af drasli af byggingasvæðinu í Sorpu. Á milli hef ég verið að tína inn myndir frá því í gærkvöldi og vona að skólasystkini mín og aðrir vinir geti afritað myndirnar eftir þörfum. Hér eru nokkrar góðar frá fögnuðinum:
Við vorum að velta því fyrir okkur yfir morgunverðinum í morgun, (seint í morgun), hvers vegna þetta hefði verið svona sérlega notalegt. Mætingin var ekkert sérlega góð, kannski náði fólk betur að komast yfir að spjalla saman vegna þess? Var það stuðið í hljómsveitinni? Góða veðrið?
Miklu fleiri myndir í myndaalbúmi MR72. Skoðið, njótið og afritið. Og takk fyrir skemmtunina.

Fyrstu myndir komnar inn í albúm
10.6.2007 | 14:18
Ljúft og gott stúdentaafmæli
10.6.2007 | 13:42
Mikið óskaplega var stúdentaafmælið okkar ljúft og gott. Þau eru alltaf góð, en þetta var alveg einstaklega skemmtilegt. Þingvallaafmælin okkar (15 ára, 25 ára og núna) eru alltaf sérstaklega vel heppnuð. Góð stemmning, gott jafnvægi, góður tími til að spjalla og rosalega skemmtilegt lagaval hjá hinni stórgóðu hljómsveit séra Hannesar Arnar Blandon. Set inn fleiri myndir fljótlega í sérmöppu en hér til að byrja með ein af okkur í D-bekknum. Og NB þessi var tekin á Þingvöllum um 11 leytið í gærkvöldi!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook
Að hitta skólafélagana á fimm ára fresti - og móðga vonandi engan!
8.6.2007 | 23:22
Þar sem ég er í fjölmennasta útskriftarárgangi úr framhaldsskóla á Íslandi, fyrr eða síðar, þá hlakka ég mikið til að vakna á sunnudagsmorgun í Valhöll á Þingvöllum og heyra einhvern segja: Var þessi með mér í árgangi? Seinasta þegar útskriftarárgangurinn úr MR 1972 hittist á Þingvöllum ákváðum við Ari að gista þar eftir ballið og núna ætlum við að gera það sama og eflaust hafa fleiri skólasystkini mín fengið sömu bráðsnjöllu hugmyndina eins og seinast. Þar sem ég er hluti af 300 (!) útskriftarfélögum þá fer ekki hjá því að leiðir einhverra okkar hafi legið saman seinna meir og svo komi það á óvart á næsta stúdentaafmæli að, já, þetta er reyndar einhver úr þessu dæmalausa árgangi.
Ég hef verið svo hundheppin að komast á fimm ára fresti í öll stúdentaafmælin og það hefur alltaf verið mjög vel lukkað. Þegar við vorum 10 ára stúdentar var ég reyndar hryggbrotin eftir hestaslys og Ari að vinna uppi í fjöllum þannig að Ólafur fóstri minn skutlaði mér á Lækjarbrekku, ég þurfti að liggja í aftursætinu á Passatinum hans, til að komast, gat nefnilega bara legið og staðið en ekki setið. Síðan stóð ég til borðs með bekkjarfélögunum í 6-D og loks var farið í Hollywood að hitta alla hina, þangað hlýtur Ólafur að hafa skutlað mér, nema ég hafi lagt undir mig baksæti á leigubíl, ekki man ég það nú alveg. Kjartan Gunnarsson færði okkur bekkjarsystkinunum rósir, eins og hans var von og vísa.
Seinasta stúdentaafmæli mótaðist talsvert af því að ég þurfti að halda ræðuna og að aflokinni rútuferð var fólk mismunandi mikið til í að hlusta á það sem ég hafði að segja. Tókst að móðga 6-M í heilu lagi, nennti ekki að heyra hvers vegna :-) en fékk mikið af knúsi og fallegum orðum á kvennaklósettinu. Takk stelpur mínar! Ég var búin að segja Markúsi Möller að hátíðarræðurnar mínar væru umdeildar og hann hefði átt að muna það frá gaggó-reunion fyrir 8-10 árum, þegar mér tókst ábyggilega að segja eitthvað annað en fólk ætlaðist til, en samt allt í lagi (held ég). En hins vegar var hann ekki með mér í barnaskóla þannig að ræðan mín frá því að 12 ára bekkurinn hjá Sigríði hittist fór framhjá honum þegar ég mátaði okkur 12 ára rollingana í ameríska unglingamynd, ég skemmti mér vel yfir því og hluti hópsins, en hinn hlutinn er ábyggilega enn að klóra sér í hausnum. Ef fólk vill þægilegar og ,,mainstream" hátíðarræður, vinsamlegast ekki biðja mig, ég reiti alltaf einhverja til reiði. Tókst meira að segja að stíga ofan á tærnar á einhverjum ölvuðum blaðamanni úr Kópavogi þegar ég talaði fyrir minni karla á Þorrablóti hér á Álftanesi. Úpps :-D - En á morgun heldur einhver annar ræðuna og ósköp er ég fegin.
Þar sem ég álfaðist nú gegnum menntaskóla án þess að bragða áfengi og man þar af leiðandi ALLT sem gerðist þar, þá kemur vel á vondan að vera komin á pensilín og þurfa að afþakka alla þá drykki sem ég geri ráð fyrir að verði á boðstólum á morgun. En ég hlakka svoooo mikið til, og svo mun ég muna allt, eins og í gamla daga. Í smáatriðum, hehe!
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.6.2007 kl. 01:37 | Slóð | Facebook
Grasofnæmi og andúð sumra á köttum
7.6.2007 | 20:29
Þegar við Ari minn ákváðum, barnung, að byggja okkur hús hér á Álftanesi, þá létum við burðinni í þakinu miðast við níðþungt torfþak. Síðan kom í ljós að dóttir okkar með er heiftarlegt grasofnæmi og sonur okkar með heyofnæmi, þannig að horfið var frá því snarlega. Hins vegar er tún fyrir utan húsið og svo slatti af öðrum mis-vingjarnlegum jurtum, nokkuð villt allt saman. Gráa beltið kringum húsið hrekkur skammt, enda ekki nema 1-3 metra fyrir utan malbikaða planið okkar. Þannig að við erum á mjög gráu (les grænu) svæði heilsufarslega fyrir krakkana okkar.
En það er segin saga, ef fréttist af ofnæminu þá eru fyrstu viðbrögð svo óskaplega margra: Verið þið þá ekki að losa ykkur við köttinn? (áður kettina). Nei, ekkert frekar en hneturnar í eldhússkápnum! Allt of margir nota ofnæmi sem skálkaskjól til að hata ketti og ég hef bara aldrei skilið það. Fjölbýlishúsalögin hafa verið freklega misnotuð af fólki sem skákar í skjóli ofnæmissjúklinga til að skipta sér að lífsstíl annarra. Eitt sinn lenti ég í því að þurfa að svara ofstækisfullri manneskju sem vildi gera ketti útlæga úr öllum fjölbýlishúsum vegna mögulegs ofnæmis og ég sagði sama aðila að ég væri til í að skrifa undir það um leið og grasi yrði útrýmt með öllu. Ég ber fulla virðingu fyrir ofnæmi og vil síst af öllu stuðla að því, en þetta er nokkuð sem fólk lærir að lifa með, krakkarnir mínir sem aðrir, ekki auðvelt, en þau reyna ekki að umbylta lífsstíl allra annarra.
Þegar hundabann var í Reykjavík (man það vel) þá var einn afbrotahundur í eigu fólksins á móti á Nýlendugötunni. Hann bjó á fjórðu hæð og fór aldrei út nema undir styrkri stjórn eigenda sinna, meðal annarra unglingsstráks sem seinna varð þekktur í tónlistarheimi landsins. Það var aldrei ónæði af hundinum en iðulega var hins vegar hópur geltandi barna fyrir neðan gluggann sem ullu verulegu ónæði fyrir mig og ungbörnin á heimilinu, en í glugganum á fjórðu hæð sat hundurinn og horfði með fyrirlitningarsvip á börnin sem geltu frá sér allt vit.