Endurnýting

Rosalega höfum við verið heppin varðandi sumarbústaðinn okkar, við höfum fengið meira og minna heilt innbú í hann án þess að þurfa að kaupa eiginlega neitt. Þetta dettur mér nú í hug af þvi við vorum að fá fallegt hornsófasett gefins sem smellpassar svona í bústaðinn okkar, og ekki nóg með að vinir og ættingjar hugsi til okkar (og viti að við erum rosalega endurnýtin) heldur er þetta alltaf svo fallegt sem okkur áskotnast.

Þegar ég lít í kringum mig heima, þá er í rauninni sömu sögu að segja, fyrir utan nokkrar bókahillur, þá lítið af innbúinu aðkeypt, nema hvað við enduðum með að kaupa okkur sófasett fyrir 6-7 árum, eftir að sófasettið sem við keyptum notað 1979 og ég hafði margsaumað utan um, hreinlega dó. Jú, einn fallegan, háan skáp fengum við okkur í millibilsástandinu þegar við vorum búin að rífa út gömllu bráðabirgðaeldhúsinnréttinguna en ekki setja hina upp. Það olli því reyndar að þegar jólamáltíðin var að verða tilbúin uppgötvaðist allt í einu að allir diskarnir voru enn inni í skápnum og ýmsum hafði verið raðað fyrir hann, enda var þá (endur)byggingartímabil hússins rétt að byrja. 

Þarna eru borðstofugömlu stólarnir sem mamma átti, hún var eflaust þriðji eigandi og af því þeir eru bara 5 þá eigum við líka einn Louis Ghost við, kaupum kannski fleiri því stofuborðið hennar ömmu er stækkanlegt, þarna er líka skápurinn sem mamma og pabbi keyptu sér um 1950, og ,,danish modern" ruggustóllinn kauptu þau líka (þarfnast yfirdekkingar - sé hann fyrir mér knallrauðan). Sófaborðið er hurð með grind undir sem smíðuð var í stíl vil gluggana okkar, Britannica í fallegum skáp, sem dagaði uppi frá tengdaforeldrum mínum, gullfallegt og gagnlegt ennþá, mamma er byrjuð að lauma að mér antíkhlutum sem hún þykist hafa keypt fyrir sjálfa sig, ég fékk líka gamla dúnkofastólinn, sem reyndist vera í stíl Arts and Crafts og þannig mætti lengi telja. Eins og sakir standa ægir öllu saman, enda húsið að hluta enn á (endur)byggingarstigi, en ég er að verða spennt að endurraða þessum fallegu hlutum sem við höfum fengið úr ýmsum áttum. Samræmi mun ég aldrei geta lofað, en áhugavert, já, ekki spurning ;-)

Ég á ágæta vinkonu sem líka er dugleg að endurnýta og eftir að hafa grúskað á antíksölum í London lengi vel og halað inn ýmislegt þar fluttist hún heim til Íslands og uppgötvaði góða hirðinn. Á fimmtugsafmælinu hennar héldu systkini hennar, sem eru greinilega ekki eins endurnýtingarsinnuð, ræðu sem mér fannst reyndar á mörkunum, en þeim fyrirgefst af því þau eru svo rosalega skemmtileg. Þau kölluðu nefnilega innbúið hennar ,,haugana heim". Hvað á ég þá að kalla okkar innbú? Kannski ,,háaloftin heim"?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og allt byrjaði þetta á "handritin heim"!

HG 17.6.2007 kl. 00:30

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Held að ódýri Ikea-sófinn minn í bókaherberginu sé það eina "nýja" heima hjá mér, fyrir utan Billy-bókahillurnar. Þetta gamla dót er svo skemmtilegt. Mikið hlakka ég til að sjá "nýja" heimilið þitt, það verður örugglega æðislegt!!! 

Guðríður Haraldsdóttir, 17.6.2007 kl. 01:00

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, ég fór niður á hafnarbakkann að taka á móti þeim (handritunum), þarna hefur innrætingin greinilega hafist. ,,Nýja" heimilið já, sumarbústaðurinn þróast hraðar en daglega heimilið, verð að játa það. Óli er áfram uppi í bústað og okkur vantar hann til að klára steypuvinnuna, en tímum ekki að ræsa hann heim. En fyrir utan kvenfélagskaffið með mömmu á morgun (sautjándann) þá býst ég við að við þokum málum enn aðeins áfram, Ari búinn að finna hið ákjósanlega verk fyrir 17. júní, loft á ,,kvennaklósettið", sem jafnframt er liður í að loka seinustu holunni á háaloftinu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.6.2007 kl. 01:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband