Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

,, ... og aldrei það kemur til baka" - Árið sem við erum að kveðja var ár búsáhaldabyltingarinnar - ekki Icesave!

Mér finnst alltaf svolítið tregablandið við áramótin, að hlusta á að árið sé liðið í aldanna skaut ,, ... og aldrei það kemur til baka. Nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er liðið á gleymskunnar braut, en minning þess víst mun þó vaka." Var þetta ekki einhvern veginn svona? Alla vega er þetta stafað ofan í okkur ... það er farið! Nú veit ég í sjálfu sér ekki hvort það eru meiri tímamót í 31. desember en t.d. 12. september eða 30. mars, en þessi tímasetning var valin og við sitjum uppi með hana í okkar árlega uppgjöri. Um þessi áramót og hin seinustu hef ég staðið mig að því að kveðja árin með vissum létti og horfa fram á við með smá fiðringi (ekki endilega jákvæðum) í maganum. Samt hefur margt yndislegt og skemmtilegt gerst á þessum tveimur mjög skrýtnu árum. Og ég er vissulega stolt af því að tilheyra þjóð búsáhaldabyltingarinnar þetta árið. Icesave fór eins og ég bjóst við - um það hef ég ekki annað að segja en það sem ég sagði með neðangreindri mynd, sem ég hef áður birt hér á síðunni. Tek það fram að ég hef ekki bætt öðru en Írlandi inn á myndina og það stendur ekki til að breyta henni meira. Írlandi var bætt inn vegna kvartana Íra og Írlandsvina. 

CIMG5525

En gleðilegt ár og takk fyrir öll gömlu góðu! 

 


Innilega gleðileg jól

Þessi jól hafa verið, eins og jólum er tamt, alveg innilega gleðileg hjá fjölskyldunni í Blátúni. Fyrsta stóra jólaboðið á morgun, ,,aðeins" 27 væntanlegir, oft miklu fleiri. Það er tengdafjölskyldan mín sem heldur það að vanda. Mæður okkar Ara voru báðar í mat hjá okkur í dag og í gærkvöldi var mamma hér eins og venjulega á aðfangadagskvöld. Notlegar stundir og fullt af frábærum bókum sem hægt er að lesa fram á rauða nótt með fínni samvisku. Jólin eru falleg hátíð.

Gleðileg jól!


Últra-vel heppnuð og örstutt óvissuferð með vinnunni!

Ég kann vel við húmorinn í nýju vinnunni minni.

Við vorum boðuð í dag að skoða nýtt húsnæði vinnunnar, sem tekið verður í notkun á næsta ári. Nokkrir staðir hafa komið til greina, einn sýnu óvinsælastur en verður ekki nefndur af mannúðarástæðum vegna þeirra sem vinna þar í grennd. Þegar rútan hafði tekið við okkur flestum vinnufélögunum var stormað beint áleiðis til .... staðarins sem minnstrar hylli naut. Pollýönnur leyndu vonbrigðum sínum og fundu staðnum nokkuð til síns ágætis. Rétt áður en rennt var í hlað þar, beygði rútan af leið og hélt í annað hverfi, sem hefði sennilega ekki heldur notið vinsælda, ef mannskapurinn hefði ekki verið búinn að átta sig á brandaranum. Við enduðum á algerum draumastað og ég held að flestir dauðhlakki til að flytja þangað. Fylgist með hinni æsispennandi framhaldssögu.


Að hætta að vinna hjá sjálfri sér og fá raunverulegt helgarfrí

Þar sem ég hef unnið í lausamennsku allt að hálfa starfsævina þá þekki ég þokkalega kostina og gallana. Fyrir skemmstu datt ég niður á starf sem var of áhugavert til að sleppa því og nú er fyrsta vinnuvikan að baki og ég er raunverulega komin í helgarfrí! Þótt skammt sé til jóla og ýmis verkefni bíði hér heima á þessum annasama árstíma, þá er sérkennilegt að kveðja vinnuna að loknum vinnudegi á föstudegi og taka hana ekki með sér heim. Sofna með góðri samvisku fyrir framan 1cimg5328.jpgsjónvarpið, jafnvel missa af Taggart, og finnast ekki að ég ætti að skrifa tvær blaðsíður í viðbót í einhverju handriti, finna til myndir, lesa yfir skýrslu eða fara að vinna í mynd sem ég hef tekið með mér heim. Það eiga eflaust eftir að koma tarnir í þessari vinnu eins og annarri, og engin vinna sem ég hef fengist við er alveg laus við kvöld og helgartarnir, en það er bara eðlilegt. Og auðvitað er kollurinn fullur af reynslu síðustu viku og alls konar pælingar sem eltu mig heim, en þær eru ekki íþyngjandi, bara skemmtilegar. 

Ég sagði það stundum sem brandara þegar ég var að vinna hjá sjálfri mér að ég hefði ekki nógu góðan yfirmann, það er að segja sjálfa mig. Fríin, sem ég vissulega gaf sjálfri mér, tóku oftast tillit til vinnuveitanda-Önnu en ekki Önnunni sem vann hjá ,,henni". Þrátt fyrir fögur fyrirheit, þá skilst mér að þetta sé algengur plagsiður sjálfstætt starfandi fólks. Meira að segja þegar maður afmarkar tíma og fær tækifæri til að vinna við hugsjónirnar, þá vill það jafnvel éta upp tímann meira en nokkuð annað. Hins vegar er ég ánægð með afraksturinn og búin að fá útrás fyrir ótal hugmyndir og framkvæma þær flestar að meira eða minna leyti, og það eru forréttindi. 

Enn á ég eina bók í sölu í bókabúðunum, bókina um Elfu Gísla, enn hanga uppi myndlistarsýningar á tveimur stöðum, í Veggsporti, þar sem ég hengdi upp skvass- og tennismyndir og á Café Rót, þar sem Kaffi og landabréf, lítið eitt leiðrétt, eru sýnd 


Ég er Álftnesingur og Íslendingur - og það er gott

Það er indælt að vera Álftnesingur, þrátt fyrir það sem á dynur. Alveg eins og mér finnst það gott að vera Íslendingur, þótt stormasamt sé í kringum okkur.

Hljómsveitin Acid - geðveikt efnilegir rokkarar undir fermingu - held égÍ hnotskurn er stærsti vandinn okkar á Álftanesinu góða að hér búa stórar og barnmargar fjölskyldur í grennd við stærsta atvinnusvæði landsins. Hér er mikil þörf fyrir þjónustu og miklu stærri hópur í grunnskóla hlutfallslega en annars staðar. Á móti koma sáralitlar tekjur af atvinnurekstri, því stutt er að sækja fjölbreytta vinnu í nágrannasveitarfélögin, aðallega í Reykjavík.  Bæjarstjórn, alla vega sú sem fór frá í sumar, barðist fyrir að fá tekið tillit til þessarar sérkennilegu stöðu t.d. með því að fá Jöfnunarsjóð nýttan eins og andi laganna segir til um, til að jafna stöðu sveitarfélaga. En af því staða okkar er einstök hefur verið seinlegt að sækja það mál, þrátt fyrir að almennt hafi menn skilning á þessari sérstöðu. 

Það hefur oft gustað um Álftanesið, það þekki ég frá því ég skrifaði Álftaness sögu fyrir næstum fjórtán árum. Hrunið núna er ekkert í líkingu við það sem varð þegar íbúum Álftaness fækkaði úr um 600 niður í 210 á aðeins þrjátíu árum frá 1880 til 1910. Þá, eins og nú, snerist mannlíf á Álftanesi um að lifa í sátt við náttúruna og umhverfið. Afleiðingar af ofveiði og yfirgangi enskra togara á smábátamiðum Álftnesinga úti fyrir nesinu voru þessar. En jafnvægi komst á á nýjan leik. Fyrir 200 árum stóð vagga sjálfstæðisbaráttunnar á Álftanesi, þegar Fjölnismenn gengu í Bessastaðaskóla og skólapiltar unnu á sumrum á bæjunum hér á nesinu. 

Að koma heim í BlátúniðSöguríka nesið okkar hefur alltaf boðið upp á gott mannlíf og mikla vitund um þörfina fyrir að lifa í sátt við náttúruna, enda er náttúrun hér í kring ósnortnari en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ómetanleg verðmæti, og það er engin tilviljun að hér vill fólk ala börnin sín upp. Vonandi að skilningur ríki um að það sé bara indælt og eðlilegt og raddir jöfnuðar og samkenndar finnist í þessari orrahríð.

Myndirnar eru  frá 17. júní hér á Álftanesi og öllum börnunum og unglingunum sem njóta þess að vera Álftnesingar (m.a. hljómsveitin Acid). Ennfremur vetrarmynd úr götunni minni og loks ein mynd frá fyrri tíð. Hún er eftir Benedikt Gröndal, sem skrifaði svo skemmtilega um mannlífið á Álftanesi í bókinni sinni: Dægradvöl, og Álftnesingar hafa skírt menningar- og listafélagið sitt sama nafni. Húsið er Eyvindarstaðir, æskuheimili Benedikts, og stóð á svipuðum slóðum og gatan mín, Blátún, er nú, en þar sem sú gata er nú voru rófnagarðar Eyvindarstaða, þess húss sem byggt var líklega um 1910 og stendur enn við Heimatún.

scan0011.jpg

 

 

 

 


Örlaga- og ævintýrasagan um Elfu Gísladóttur: Eru fordómar gagnvart (meintri) fegurð skárri en aðrir fordómar?

Sérkennilegt að verða vitni að því að Elfa Gísla verður enn fyrir fordómum vegna þess að hún hefur verið talin mjög falleg kona. Ein birtingarmyndin er var umsögn um bókarkápuna (!) á ævisögunni hennar, sem ég tel mig hafa verið hundheppna að fá að skrifa. Þar var kápunni aðallega fundið það til elfakapa.jpgforáttu að vera Hófíar-leg og ekki hægt að misskilja það að slíkt var hið versta mál. Fyrir ykkur sem ekki áttið ykkur á því til hvaða Hófíar er verið að vísa er rétt að taka fram að Hófi var Ungfrú alheimur fyrir allmörgum árum og þótti falleg. Elfa var þekkt andlit á upphafsárum Stöðvar 2 og því ekkert óeðlilegt að hafa andlitið hennar á kápu bókar um hana, jafnvel þótt hún þyki eflaust fallegri en Steingrímur Hermannsson eða Einar Benediktsson, sem ég man ekki betur en að hafi prýtt viðlíka kápusíður án þess að undan væri kvartað. Sjálf er ég hrifin af þessari bókarkápu og finnst hún vel lukkuð, en það er ávallt smekksatriði og reyndar bara einn gagnrýnandi sem taldi hana slæma og það af því að hún væri Hófíar-leg!

Ævisaga Elfu Gísladótturer saga um ótrúlega ævi og aðeins smáhluti hennar fjallar um fordómana sem hún mætti vegna þess að hún þótti falleg. Fáránlega fordóma, alla vega eins og þeir komu fram í lífi hennar, þar sem fyrirfram var ákveðið að hún væri heimsk vegna þess að hún væri falleg. Á þeim tíma (hvernig er það núna?) þótti nefnilega af og frá að kona gæti verið hvort tveggja samtímis. Þetta birtist reyndar í mjög fyndinni mynd í bókinni um Elfu, enda er henni gefið að sjá jafnvel dramatíska hluti í meinfyndnu ljósi. Ævi hennar er þó fyrst og fremst merkileg vegferð konu sem er leitandi, frá því hún var þriggja ára að leita sér að nýjum foreldrum þegar ástandið á heimilinu var erfitt, gegnum þá lífsreyslu að verða ekkja aðeins 26 ára, reyna að fela lesblindu (sem leggst mér vitanlega ekki þyngra á fólk sem er talið fallegt en það sem er talið ljótt) - og vera samt afkastamikil leikkona, lenda í sviðsljósi kjaftasagna og loks að byggja upp menningarmiðstöð á svæði þar sem yfirvöld hafa jafnvel bannað byggingu menningarmannvirkja! 


Indælis útgáfuhóf og endurfundir vinkvenna - við Elfa áritum bókina í Kringlunni á morgun, sunnudag kl. 15

Tíminn hefur liðið hratt meðan Elfa er á landinu og styttist í dvöl hennar hér að sinni. Í dag var loks tími til að halda upp á útgáfuna á bókinni Elfa Gísla og hinar sögurnar í IÐU. Elfa hefur verið í sjónvarpsupptöku og líka haft smá tíma til að hitta ættingja og vini. Á morgun verðum við Elfa í Kringlunni að árita, en í dag, á undan útgáfupartíinu vorum við í Smáralind. Elfa hefur líka haft smá tíma til að hitta ættingja og vini og það er alltaf gott. 

aaCIMG5511 

 


Kaffi Rót: Síkvik sýning ICESAVE-myndinni hefur verið breytt og Írlandi bætt inn á hana

Þegar ég opnaði sýninguna mína: Kaffi og landakort, á Kaffi Rót fyrir um það bil tveimur vikum fékk ég yndislega kvörtun frá Írum sem þar voru staddir. Þeir sögðu: Hvers eigum við að gjalda, af hverju er Írland ekki á ICESAVE-myndinni? Ég er nú búin að bæta úr því með því að setja Írland inn á myndina - með mikilli ánægju.

CIMG5525


Með svona ævi væri hægt að skrifa leiðinlega bók, en þessi er skemmtileg!

Mér þótti sérstaklega vænt um þessa athugasemd, sem ég fékk þegar ég var að lesa upp úr bókinni um Elfu Gísladóttur í dag. Fólk var búið að vera að spyrja út í ótrúlega viðburðaríka og oft erfiða ævi Elfu og síðan fékk ég þessa athugasemd, sem er yfirskrift þessa pistils og mér finnst ótrúlega vænt um:

,,Með svona ævi væri hægt að skrifa leiðinlega bók, en þessi er skemmtileg!"

Myndin hér að neðan er frá erfiðum degi í lífi Elfu, en hins vegar segir hún þannig frá að það er húmor í harminum.

aa1.OrlagariktKvold 

 


Elfa komin heim til Íslands

Elfa Gísla er komin heim til Íslands og verður að kynna bókina sína (okkar) á næstunni á vegum Sölku. Gaman að sjá hana hressa og káta og vonandi nýtist ferðin heim vel. Um næstu helgi verður útkomu bókarinnar fagnað. aa1.MedLallaMyndin með þessum pistli er komin aðeins til ára sinna og er í bókinni: Elfa Gísla og hinar sögurnar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband