Ég er Álftnesingur og Íslendingur - og það er gott

Það er indælt að vera Álftnesingur, þrátt fyrir það sem á dynur. Alveg eins og mér finnst það gott að vera Íslendingur, þótt stormasamt sé í kringum okkur.

Hljómsveitin Acid - geðveikt efnilegir rokkarar undir fermingu - held égÍ hnotskurn er stærsti vandinn okkar á Álftanesinu góða að hér búa stórar og barnmargar fjölskyldur í grennd við stærsta atvinnusvæði landsins. Hér er mikil þörf fyrir þjónustu og miklu stærri hópur í grunnskóla hlutfallslega en annars staðar. Á móti koma sáralitlar tekjur af atvinnurekstri, því stutt er að sækja fjölbreytta vinnu í nágrannasveitarfélögin, aðallega í Reykjavík.  Bæjarstjórn, alla vega sú sem fór frá í sumar, barðist fyrir að fá tekið tillit til þessarar sérkennilegu stöðu t.d. með því að fá Jöfnunarsjóð nýttan eins og andi laganna segir til um, til að jafna stöðu sveitarfélaga. En af því staða okkar er einstök hefur verið seinlegt að sækja það mál, þrátt fyrir að almennt hafi menn skilning á þessari sérstöðu. 

Það hefur oft gustað um Álftanesið, það þekki ég frá því ég skrifaði Álftaness sögu fyrir næstum fjórtán árum. Hrunið núna er ekkert í líkingu við það sem varð þegar íbúum Álftaness fækkaði úr um 600 niður í 210 á aðeins þrjátíu árum frá 1880 til 1910. Þá, eins og nú, snerist mannlíf á Álftanesi um að lifa í sátt við náttúruna og umhverfið. Afleiðingar af ofveiði og yfirgangi enskra togara á smábátamiðum Álftnesinga úti fyrir nesinu voru þessar. En jafnvægi komst á á nýjan leik. Fyrir 200 árum stóð vagga sjálfstæðisbaráttunnar á Álftanesi, þegar Fjölnismenn gengu í Bessastaðaskóla og skólapiltar unnu á sumrum á bæjunum hér á nesinu. 

Að koma heim í BlátúniðSöguríka nesið okkar hefur alltaf boðið upp á gott mannlíf og mikla vitund um þörfina fyrir að lifa í sátt við náttúruna, enda er náttúrun hér í kring ósnortnari en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ómetanleg verðmæti, og það er engin tilviljun að hér vill fólk ala börnin sín upp. Vonandi að skilningur ríki um að það sé bara indælt og eðlilegt og raddir jöfnuðar og samkenndar finnist í þessari orrahríð.

Myndirnar eru  frá 17. júní hér á Álftanesi og öllum börnunum og unglingunum sem njóta þess að vera Álftnesingar (m.a. hljómsveitin Acid). Ennfremur vetrarmynd úr götunni minni og loks ein mynd frá fyrri tíð. Hún er eftir Benedikt Gröndal, sem skrifaði svo skemmtilega um mannlífið á Álftanesi í bókinni sinni: Dægradvöl, og Álftnesingar hafa skírt menningar- og listafélagið sitt sama nafni. Húsið er Eyvindarstaðir, æskuheimili Benedikts, og stóð á svipuðum slóðum og gatan mín, Blátún, er nú, en þar sem sú gata er nú voru rófnagarðar Eyvindarstaða, þess húss sem byggt var líklega um 1910 og stendur enn við Heimatún.

scan0011.jpg

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband