Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Stigu hringdans í flugstöðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu myndir frá Ungó - meira af rauðu
15.6.2008 | 18:29
Búin að setja nokkrar myndir í viðbót í albúmið (óþarflega seinlegt, held þetta sé ekki bara tengingin, tölvan og stærð myndanna). En alla vega, ég þarf að játa á mig fleiri rauðar syndir, ekki eins krassandi þó og það hljómar. Ég gersamlega féll fyrir ofurrauðum skóm þegar ég kom hingað fyrir rúmum tveimur vikum og fékk mér á endanum fallega hörblússu við þá, en svo þegar ég fór að skoða þá betur þá fannst mér þeir einum of glannalegir. Svo ég fékk mér bara ódýrar espadrillur við blússuna sem ég keypti við skóna.
Næst þegar ég skoðaði skóna féll ég aftur, gersamlega, fyrir þeim. Þannig að þið sjáið afraksturinn hér. Taskan er hins vegar hafin yfir alla gagnrýni (geri ég ráð fyrir).
Hanna og Sara á pizzustað sem við fórum á í hádeginu um daginn. Staðurinn getur engan veginn ákveðið sig hvort hann vill vera spánskur, ítalskur eða grískur. Alla vega ekki ungverskur.
Þetta hádegi kom Toni, maðurinn hennar Söru, með tvíburana þeirra, þá Kolbein og Þorstein, til að þeir fengju að hitta mömmu sína í björtu svona einu sinni til tilbreytingar. Svona er stúdentalífið hér. Hún les ýmist hér hjá okkur eða uppi í skóla, og sama má segja um Hönnu, les þó meira hér heima.
Þegar sólin skín hvað skærast er gaman að fara niður í bæ dagspart, líka góður göngutúr, svona hátt í hálftíma gangur þangað niðureftir. Þetta er eitt af mörgum sjónarhornum á aðaltorginu.
Mest erum við svo hér heima á fimmtu hæðinni, þar sem útsýni er til norðurs (áleiðis til Úkraínu) og austurs (þar sem örugglega sæist til Rúmenínu ef skyggnið væri viðlíka og á Íslandi, sem það er ekki). Hér er urmull af húsum með turnum eins og voru á gömlu Uppsölum sem voru á horninu á Túngötu og Aðalstræti, á móti Herkastalanum og er nú nýbygging í anda gamla hússins. Í þeim turni lék ég mér sem lítil stelpa, því mamma átti íbúðina og þarna var stofan okkar. Man ekki mikið eftir mér þar, en gaman að sjá öll þessu hús með alla þessa turna.
Sit löngum stundum hér í lærdómsherberginu hennar Hönnu hér í Debrecen undir flottu plakati af Albert Einstein og á því stendur: ,,Peace cannot be kept by force. It can only be achieved by understanding." Þetta plakat fylgdi íbúðinni og fer henni vel. Ég horfi sem sagt á þessi spöku orð á hverjum degi og skil ekkert í því hvers vegna það eru ekki allir sammála þessu.
Fyrri myndin er frá því að Hanna fluttist í þessa íbúð fyrir næstum tveimur árum og sú seinni sýnir hversu þétt setinn bekkurinn er stundum, lappar í röðum og alls konar nytjahlutir sem tilheyra tæknivæddri tilveru íslensks námsmanns í útlöndum með nördinn móður sína í heimsókn.
Og aftur í daglega lífið: Við fórum á indælan veitingastað í kvöld, til að halda upp á útskriftina mína, og ég fékk meira að segja forláta Parker penna í útskriftargjöf frá fjölskyldunni minni, ég elska góða penna. Staðurinn sem við fórum á heitir Wasabi og þar kom ég fyrst í haust og varð heilluð. Varúð, farið svöng á þennan stað. Meðfram borðunum liðast ýmsir réttir á teinum og eru hver öðrum flottari. Svo er bara að fá sér. Japanskur stíll á innréttingum en sambland af ýmsum asískum línum í matargerð. Við fórum á meiri gourmet stað um daginn en þessi stendur fyrir sínu. Hér er ódýrt að fara út að borða en við gerum ekki mikið af því núna vegna náms og starfa.
Upp er runninn útskriftardagur ...
14.6.2008 | 09:09
... og ég er blessunarlega fjarri góðu gamni. Hér í Ungverjalandi ætlum við eigi að síður að halda upp á hann með því að fara út að borða. Mér sýnist að hérlendir veðurguðir ætli líka að halda upp á daginn með mér, að vísu svolítið hvasst, en létt yfir og ekkert sem bendir til þess nú að fari að rigna, en enn er sólarlaust.
Það er skrýtið að upplifa lokapunktinn á þessu stranga námi mínu en það verður eflaust ekki raunverulegt fyrr en ég sæki prófskírteinið mitt á skrifstofuna þegar ég kem heim til Íslands, sem er ekki fastsett enn, ekkert sem liggur á því. Skrýtið að vera að taka þátt á sama tíma í lífi læknastúdentanna hér, sem eru á fyrri skrefum sínum í áttina að enn lengra og miklu strangara námi en ég stundaði, enda er þetta fullt starf þeirra í 6-7 ár en mitt var bara í hjáverkum og alla tíð með mikilli vinnu, nema kannski rétt á blá-lokasprettinum.
Yfir 1000 stúdentar að útskrifast í dag frá HÍ. Það verður eflaust mikill spenningur og bið. Ég hef verið í þessum sporum í tvígang, þegar ég útskrifaðist með BA prófið, það var í febrúarmánuði fyrir réttum 30 árum (!) og ekki stór hópur sem útskrifaðist þá, við vorum í hátíðarsalnum og mjög hátíðlegt. Svo var það cand.mag. prófið 1985 í júníútskrift úr Háskólabíói. Stór hópur en ekki nándar nærri eins stór og sá sem nú er að útskrifast. Óska öllum sam-útskriftarnemendum til hamingju með daginn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook
Lagstur í rigningar hér í Debrecen - og ekkert að því
12.6.2008 | 18:46
Rigningartíð komin í nokkra daga, samt sól fyrst í morgun, síðdegisþrumuveður eins og stundum, og rigning af og til. Ekkert að því, höfum sannarlega haft nóg af góða veðrinu og ég hef bara vorkennt stúdentunum að geta ekki notað góða veðrið meira en raun ber vitni, eiginlega ekki neitt.
Próf í skyldu-valgreinum og knallrauðar buxur
11.6.2008 | 21:37
Dóttur minni finnst ekki allt smekklegt í klæðaburði Ungverja, aðeins of litaglaðir fyrir hennar smekk. Að mörgu leyti get ég tekið undir það, en eitt heillar mig þó upp úr skónum, það eru knallrauðar gallabuxur sem ég sé mikið af hér. Og þegar ég skrapp í Tesco um kvöldmatarleytið að kaupa í matinn þá fann ég þessar fínu, knallrauðu buxur, og smellti mér umsvifalaust á þær, enda ekki amalegt á 2.200 krónur íslenskrar (ágætis efni í þeim ... hef einu sinni áður keypt flík í Tesco og hún hefur reynst ótrúlega vel). Ég mundi reyndar eftir að kaupa matinn og allt það líka. Ég hef þó lofað að mæta ekki í þeim þegar við Hanna lendum á Íslandi, það eru mannúðarsjónarmið sem ráða því, maður fær næstum ofbirtu í augun. Meðfylgjandi mynd er sem betur fer ekki af mér, því þá væri ég bæði í Vísindakirkjunni og gift Tom Cruise og hvort tveggja þætti mér óásættanlegt. En liturinn er réttur og mínar eru líkar þröngar, samt ekki svoooooona.
Prófatörnin er þvílík á þeim Hönnu og Söru að það hálfa væri nóg. Hanna er reyndar alveg á fullu, fór í próf í morgun í fagi sem sem flokkast undir skyldu-valgrein (ég er ekki að grínast) og flestir sleppa. Það þarf sem sagt að taka próf í 75% af valgreinunum og þessi er ekki sérlega vinsæl, þykir erfið og leiðinleg. Hún var ekkert vongóð þegar ég heyrði í henni eftir prófið, en einkunnirnar komu kl. 16 og þá hafði hún náð prófinu nokkuð örugglega. Flott miðað við að hún hafði lítinn tíma til að lesa fyrir það, annað miklu erfiðara og stærra á morgun og það verður auðvitað þrautin þyngri. En þannig er þessi prófatími og kerfið hér nokkuð sniðugt, mikill sveigjanleiki í því hvenær fólk tekur prófin, þau eru keyrð vikulega á öllu prófatímabilinu og þrír sjansar. Hún er að taka þetta í fyrsta sinn (minnir mig) á morgun og mjög gætin í bjartsýninni. En hún er búin að ná þremur af fjórum prófum til þessa í fyrstu tilraun, þannig að þetta gæti alveg verið verra.
Hér eru allir hálf skjálfandi og gefa fjölskyldum sínum mjög loðin svör þegar spurt er hvenær þeir séu væntanlegir heim. ,,Það fer eftir ýmsu," býst ég við að algengasta svarið sé. Prófatímabilinu lýkur í lok mánaðarins og það er eina dagsetningin sem er örugg. Svo er alltaf spurning hversu lengi er hægt að keyra sig áfram, það eru komnar ansi margar vikur síðan prófin byrjuðu, mig minnir að það hafi verið 19. maí. Sumir eru að fara í sín fyrstu próf á morgun, þannig að þetta er alla vega ansi margbreytilegt allt saman og fróðlegt að fylgjast með.
Takið þátt í nýju skoðanakönnuninni um efnahagsástandið og takk fyrir frábæra þátttöku í Hillary könnuninni
10.6.2008 | 12:44
Þá er kominn tími til að skipta út skoðanakönnunum. Hillary virðist ekki stefna í að verða næsti forseti Bandaríkjanna þótt 35% lesenda síðunnar minnar hafi spáð því. 30% spá Obama forsetastól og 18% nefna Ástþór Magnússon en McCain fékk ótrúlega fá atkvæði. Þátttakan hefur verið rífandi góð, atkvæði á fimmta hundrað, en nú er mál að linni.
Næst er að heyra í ykkur varðandi efnahagsástandið. Endilega takið þátt í könnuninni hér til hliðar.
Þá er ég búin að bæta nokkrum myndum héðan frá Debrecen í albúm og ætla að bæta fleirum við er færi gefst. Hér í bæ er allt vaðandi styttum og sumar ekkert voðalega sætar. Eina hérumbil hálslausa fundum við Hanna úti í skógi:
Ég ákvað auðvitað að sýna þessum ókunna (og eflaust fræga) manni samstöðu og vera hálslaus líka.
Annars er þessi skógur, sem er rétt hjá okkur og kallast stóri skógur (án þess að vera ýkja stór) alveg einstakur. Vatnaliljurnar eru þær fallegustu sem ég hef séð:
En reyndar er fátt sem einkennir borgina meira þessa dagana en sá urmull námsmanna sem eru að lesa út um allt, sumir úti í skógi og aðrir uppi á fimmtu hæð.
Það er Sara, vinkona Hönnu, sem hefur komið sér vel fyrir á fimmtu hæðinni hjá okkur, en hún á rúmlega ársgamla tvíbura sem eru í góðum höndum pabba síns hér í nágrenninu meðan hún streða við próflesturinn. Hún er töffari sem kom aftur hingað út eftir að hafa átt sína tvíbura heima og verið með þá í níu mánuði heima á Íslandi.
Annars komum við Hanna við um daginn hjá konunni á leigumiðluninni til að borga leigu fram í tímann og hún er með eitt nýfætt heima hjá sér, það fjórða. Hún segir að fólk nenni lítið að eiga börn en stjórnvöld hvetja mjög til barneigna, enda Ungverjum að fækka. Hér er hreinlega besta barneignafrí í Evrópu, tvö ár á kaupi og það þriðja með styrk, auk þess sem barnabætur eru þokkalegar, einkum þegar börnum fer fjölgandi. Forvitnilegt.
Svo er ég búin að rekast á fleiri samstúdenta Hönnu, við lentum á kjaftatörn á Palma um daginn við Svenna þann sem samdi uppáhalds Eurovision-lagið mitt, Ég les í lófa þínum. Hann hefur mörg járn í eldinum og var með rússneskri samstarfskonu sinni. Mikið fjör. Það var hann sem sagði okkur gúllas söguna.
Lýkur þá fréttapistli frá Debrecen að sinni.