Próf í skyldu-valgreinum og knallrauðar buxur

Dóttur minni finnst ekki allt smekklegt í klæðaburði Ungverja, aðeins of litaglaðir fyrir hennar smekk. Að mörgu leyti get ég tekið undir það, en eitt heillar mig þó upp úr skónum, það eru knallrauðar katie_blog_11gallabuxur sem ég sé mikið af hér. Og þegar ég skrapp í Tesco um kvöldmatarleytið að kaupa í matinn þá fann ég þessar fínu, knallrauðu buxur, og smellti mér umsvifalaust á þær, enda ekki amalegt á 2.200 krónur íslenskrar (ágætis efni í þeim ... hef einu sinni áður keypt flík í Tesco og hún hefur reynst ótrúlega vel). Ég mundi reyndar eftir að kaupa matinn og allt það líka. Ég hef þó lofað að mæta ekki í þeim þegar við Hanna lendum á Íslandi, það eru mannúðarsjónarmið sem ráða því, maður fær næstum ofbirtu í augun. Meðfylgjandi mynd er sem betur fer ekki af mér, því þá væri ég bæði í Vísindakirkjunni og gift Tom Cruise og hvort tveggja þætti mér óásættanlegt. En liturinn er réttur og mínar eru líkar þröngar, samt ekki svoooooona.

Prófatörnin er þvílík á þeim Hönnu og Söru að það hálfa væri nóg. Hanna er reyndar alveg á fullu, fór í próf í morgun í fagi sem sem flokkast undir skyldu-valgrein (ég er ekki að grínast) og flestir sleppa. Það þarf sem sagt að taka próf í 75% af valgreinunum og þessi er ekki sérlega vinsæl, þykir erfið og leiðinleg. Hún var ekkert vongóð þegar ég heyrði í henni eftir prófið, en einkunnirnar komu kl. 16 og þá hafði hún náð prófinu nokkuð örugglega. Flott miðað við að hún hafði lítinn tíma til að lesa fyrir það, annað miklu erfiðara og stærra á morgun og það verður auðvitað þrautin þyngri. En þannig er þessi prófatími og kerfið hér nokkuð sniðugt, mikill sveigjanleiki í því hvenær fólk tekur prófin, þau eru keyrð vikulega á öllu prófatímabilinu og þrír sjansar. Hún er að taka þetta í fyrsta sinn (minnir mig) á morgun og mjög gætin í bjartsýninni. En hún er búin að ná þremur af fjórum prófum til þessa í fyrstu tilraun, þannig að þetta gæti alveg verið verra.

Hér eru allir hálf skjálfandi og gefa fjölskyldum sínum mjög loðin svör þegar spurt er hvenær þeir séu væntanlegir heim. ,,Það fer eftir ýmsu," býst ég við að algengasta svarið sé. Prófatímabilinu lýkur í lok mánaðarins og það er eina dagsetningin sem er örugg. Svo er alltaf spurning hversu lengi er hægt að keyra sig áfram, það eru komnar ansi margar vikur síðan prófin byrjuðu, mig minnir að það hafi verið 19. maí. Sumir eru að fara í sín fyrstu próf á morgun, þannig að þetta er alla vega ansi margbreytilegt allt saman og fróðlegt að fylgjast með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Það er nóg að gera hjá þér í útlandinu. Líst bara vel á rauðu buxurnar þinar, þú verður hin íslenska Kate Holmes þegar þú ert komin í þær og færð örugglega ekki frið fyrir íslenskum papparössum...... keep on the good works. Gangi þér vel.

Linda litla, 11.6.2008 kl. 22:55

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hef oft hugsað um það en aldrei gert neitt í því að fá mér rauðar buxur - fyrr en nú. Reyndar jú, ég átti þessi glæsilegu, rauðu sport-matrósarföt þegar ég var 12 ára, amma pantaði þau úr amerískum verðlista og ég átti ekki orð yfir glæsileikanum, en þau voru meira að segja svolítið kurteislegar rauð, ekki alveg svona glannaleg.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.6.2008 kl. 17:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband