Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Stundum kemur hressilegt þrumuveður eftir sólríkan morgun og þannig varð það í dag. Hanna segir að þetta sé sennilega eitt voldugasta þrumuveðrið að undanförnu alla vega. Ég rétt slapp heim úr búðinni og af prent/ljósritunarstofunni, með mikilvægar glósur í lausagangi, lélega regnhlíf í fanginu og fjórar tveggja lítra vatnsflöskur á bakinu. Þrumurnar sem heyrast út um austurgluggann eru stundum í Rúmeníu, enda væri ekki nema korters keyrsla þangað ef vegurinn lægi beint í austur. Hraði þrumanna er öllu meiri. Eldingarnar voru vel sýnilegar i björtu og þegar veðrið var sem næst (sem sagt ekki handan landamæranna) og aðeins hægt að telja upp að fjórum milli eldingar og þrumu, þá nötraði fimmta hæðin hér í húsinu, þar sem við erum, allvígalega, þetta var eiginlega eins og lítill jarðskjálfti á hlið. Rúðurnar glömruðu afskaplega myndarlega, enda sæmilega stórar og gluggarnir ekki eftir íslenskum stöðlum, en tvöfaldir þó. Minn reyndar með fiskiflugu á milli sem stendur, af því þegar ég lokaði honum áðan, fyrir úrfellið, þá var hún stödd þar.
Og nú er sólin farin að skína á ný.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:41 | Slóð | Facebook
Nú verður aftur hlýtt og bjart um bæinn ...
9.6.2008 | 12:23
Gúlassúpustríðið
7.6.2008 | 13:51
Ekki enn farin að smakka gúlassúpu, en það er annars skylda hér í Ungverjalandi. Hins vegar heyrði ég ansi skemmtilega sögu hér á kaffihúsi um daginn. Í grenndinni er borgin Eger, sem er víst mjög falleg, en það er nyrsta vígið sem Tyrkir felldu (á 16. öld). Þeir voru með mikið ofurefli en svo mikill var baráttuhugurinn að þegar skotfæri þraut mættu konurar upp í kastala með gúlassúpu (þangað höfðu þær fært mönnunum mat) og helltu henni yfir Tyrkina, væntanlega bæði heitri og ógeðslegri. Búin að finna það við snögga leit á netinu að þessi saga er þekkt, hefur jafnvel verið kvikmynduð. Ætla ekki að legjast í uppflettingar að svo stöddu.
Þá er búið að safna kröftum fyrir næstu törn, sem byrjar í dag. Lítið unnið og lesið í gær, þó tókst Hönnu að lesa eitthvað meðan ég verslaði í matinn og gerði verðkönnun á prenturum. Hér er hægt að fá einfalda svarthvíta prentara niður í 3.500 krónur og okkur vantar einmitt einn slíkan (splæsum eflaust í 5000 króna prentara). Litaprentarinn hennar Hönnu er orðinn ansi lúinn, svona svipað og minn gamli heima, en getur samt séð um skann og myndaprentun með ágætum og í raun allt nema prentun af því tagi sem ég þarf stundum að grípa til við mín verkefni. Ekki reynt á það enn, enda bara búin að vera hér í viku.
Eins og í góðum ferðum til útlanda hefur tíminn flogið hratt en samt margt búið að gerast í hversdagslífinu. Er reyndar hrifnust af því hvað það er gott vinnuandrúmsloft hér, miðað við tilgang ferðarinnar. Og hitt sem er hagstætt er afburðagott gönguveður, nema rétt þegar við lendum í úrfelli,en það hefur bara gerst einu sinni. Hálf-kalt núna, bara um 20 stiga hiti, en það batnar aftur fljótlega. Þangað til er bara að klæða sig vel.
Sex and the city á ungversku - ekki fyndið!
5.6.2008 | 22:37
Köflóttur dagur. Hápunkturinnátti að vera þegar við færum þrjár saman, Hanna, Sara og ég, á Sex and the city, sem aldrei þessu vant átti að vera sýnd á ensku, en ekki döbbuð á ungversku. Misstum af fimm-sýningunni því allir leigubílar voru seinir þegar mikið úrhelli og þrumuveður skall á. Fórum á flottan veitingastað á undan og náðum átta-sýningunni. Korter án nokkurs bíós, síðan korter af ,,úr-næstu-700-myndum" og loks byrjaði myndin - á ungversku!!!! Mér skilst að Mr. Big (heitir hann það ekki) hafi náð að segja bæði takk fyrir og gerðu svo vel á ungversku, hvort tveggja mun lengri orð, áður en við læddumst frekar lúpulegar út. Sex and the city sérfræðingarnir í hópnum sögðu að það væri útilokað að horfa á þessa mynd með þessari limlestingu. Ég var hætt að hlæja, en fyrstu viðbrögðin hjá mér voru hrikalegur hlátur.
Þetta var svona frátekið kvöld þegar kaflaskil í próflestri leyfðu bíóferð, og satt að segja voru vonbrigðin mikil, einkum hjá þeim tveimur (hinum) sem þekkja almennilega haus og sporð á þáttunum sem myndin byggist á. Ég hafði þrælgaman af þeim þáttum sem ég sá, en þeir voru reyndar afskaplega fáir.
Góðu fréttirnar voru góður matur úti að borða (sem enn er hræbillegt hér þrátt fyrir gengisbreytingar) og góður félagsskapur, en ég virkilega fann til með stelpunum sem voru loksins að upplifa smá tilbreytingu í erfiðum próflestri og fengu þess í stað bara ungverskan brandara, sem var ekkert fyndinn.
Heyrði í morgunþætti BBC mikla hneykslan á því að það hefði verið sagt frá því í fréttatíma BBC að Sex and the city hefði verið heimsfrumsýnd í London. Æ, aðeins svona nefið-upp-í-loft stíllinn.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook
Einmitt mjög hamingjusamur fæðingardagur
4.6.2008 | 22:23
Robbie frændi á Nýja Sjálandi (ömmur okkar eru systur) sendi mér himneska afmæliskveðju á Facebook: Hamingjusamur fæðingardagur! Og það er einmitt það sem afmælið mitt í dag var, mjög hamingjusamur fæðingardagur. Við Hanna röltum út í skóg neðan við háskólann eftir matinn á Palma. Mjög yndislegur skógur með froskahjali. Kysstum engan enda enginn á höttunum eftir prinsi.
Afmælisbarnið á Palma
Hanna á skógargöngu
... og froskarnir voru hver öðrum fjörugri
Hillary hætt eða ekki?
4.6.2008 | 16:06
Í æðislegu afmælisveðri
4.6.2008 | 09:39
Feministamóðir stolt af syninum
3.6.2008 | 21:42
Það hefur eflaust ekki farið framhjá lesendum bloggsins míns að ég tel mig oft hafa ástæðu til að vera stolt af börnunum mínum, þótt þau séu sloppin af barnsaldri og vel það. Það gladdi feministahjartað mitt þegar ég heyrði að sonur minn væri orðinn ráðskona yfir vef karlahóps Feministafélagsins auk þess sem hann er í stjórn Feministafélags Háskóla Íslands. Hann hefur verið vel virkur í félagsmálum að undanförnu og tekið við af öðrum í fjölskyldunni í því hlutverki og greinilega að gera góða hluti, alla vega er ég bara mjög stolt. Hann heldur líka úti vefnum Feministaheimurinn sem er með hlekk hér til hliðar. Til hamingu Óli!
Smábrot frá sólinni
3.6.2008 | 15:56
Skrapp í göngutúr í dag, búin að setja mér þá viðmiðunarreglu að fara ekki nema annan hvern dag í langan göngutúr, þar sem hér er margt sem glepur og auðvelt að týna sér heilt síðdegi, en það stendur ekki til. Í dag var ég líka sannur Íslendingur og gerði ráð fyrir að þessi dagur yrði seinasti almennilegi sólardagurinn (veðurspáin á weather.com er síbreytileg og svartsýni veðurfræðingurinn er greinilega á vakt). 34 stiga hiti, gola og bara alveg mátulegt gönguveður. Gekk í allt kannski álíka og á sunnudaginn en meira svona hingað og þangað. Fann einu búðina sem selur þjóðlega vöru hér í Debrecen, en við Hanna erum búnar að leita mikið og hún er held ég nýbúin að finna þessa.
Smábrot frá því í dag og á sunnudag:
Svartstakkar á ferð á sunnudegi, hægriöfgamennirnir sem við sáum í Budapest eru líka hér í þessari friðsælu borg. Á næsta horni eru afrískir söngvarar með trommur og fara í broddi fylkingar gegn hugri í heiminum. Andstæðurnar eru hrópandi.
Ég fór niður á endastöð trammans til að kaupa mér trammakort. Mjög gaman að rölta niðureftir og fjölbreytt mannlíf í trammanum. Mér voru kenndir allir klækir og hvenær eftirlitið er á ferð, en lgg undir grun um að hafa ekki viljað nýta mér þá og fór því ekki í trammann fyrr en ég var búin að ná mér í mánaðarkort. Þarf ekki margar ferðir til að það borgi sig. Í trammanum sá ég hvar tvær konur komu inn og trammastjórinn vatt sér fram, hmmm hugsaði ég, hvað ætlar hann að gera? Jú, andlitið á honum lifnaði við og hann knúskyssti konurnar í bak og fyrir.
Leiðin frá trammanum liggur um skjólsæla götu þar sem lítil umferð er. Nema hvað ég er tvisvar búin að mæta konunni með ör-hundinn (hann er eins og hundur nema smækkaður tífalt) - litlir hundar á Íslandi komast ekki með tærnar þar sem þessi hefur bæði tærnar og hælana.
Maðurinn í lottósölunni vildi alls ekki selja mér pappír í prentarann, þótt hann selji bæði stílabækur og aðra pappírsvöru. En svo fann ég tölvuvöruverslunina hinu megin við hornið og skil þetta betur.