Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Hvernig ,,best" viljum við vera?

Hvernig ,,best" viljum við vera? Best af því við erum fremst í flokki í umhverfismálum eða af því við bjóðum fyrirtækjum afslátt af umhverfisvernd? Best af því við bjóðum einstaklingum mestan jöfnuð í skattamálum eða af því við bjóðum fyrirtækjum hagstæðasta skattaumhverfið? Best af því við tryggjum öllum launþegum sanngjörn kjör, innlendum sem erlendum, eða af því við tryggjum fyrirtækjum lágmarkslaunakostnað?

Mér finnst við best af því við erum frjáls og sjálfstæð þjóð sem á samskipti og viðskipti við allar þjóðir en njörvum okkur ekki innan Evrópumúra. Mér finnst við best af því við höfum ekki enn spillt öllum okkar náttúrugæðum. Mér finnst við best af því við erum að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Mér finnst við líka best þrátt fyrir ýmislegt sem aflaga fer. Það er bara viðfangsefni til úrlausnar.

 


mbl.is Er Ísland best í heimi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salt í sárin og ,,þetta sagði ég þér"

Hefur ykkur ekki oft langað að segja: Þetta sagði ég þér! þegar einhverjir eru loksins að átta sig því sem þið eruð búin að segja þeim hundrað sinnum? Og vantar ekki stundum vettvang til að dvelja aðeins lengur við einhver afglöp sem einhver hefur gert sig sekan um? Í samræðum við góða vinkonu mína, sem nú er reyndar að nálgast áttrætt, spratt eitt sinn upp sú hugmynd að halda saman smá yfirliti yfir allar þessar ,,þetta sagði ég þér" stundir lífsins - og þá er ég að tala um í pólitík, NB.

Það er auðvitað alltaf umdeilanlegra hvort við hæfi sé að nudda salti í sárin. Lifandi dæmi ætti að skýra mál mitt aðeins betur. Frjálslyndir héldu að hljómgrunnur fyrir rasisma-daðri þeirra mundi færa þeim fylgisaukningu í það óendanlega í skoðanakönnunum. Brotthvarf Margrétar og hennar hóps átti nánast engu máli að skipta. Þá sagði ég á hinu blogginu mínu að þetta yrði þeim dýrt. Svo þegar ég ég sá nýjustu könnunina í Blaðinu í morgun rann upp hið dæmigerða ,,þetta sagði ég þér" augnablik. Ef ég bít nú hausinn af skömminni einhvern tíma á næstunni og ný þeim þessu um nasir af einhverju (eða engu) tilefni, þá flokkast það undir ,,salt í sárin." Mér finnst, eins og fleirum, að gott fólk innan Frjálslynda flokksins hafi aðeins látið blekkjast af því nýja afli sem stormaði inn í samtök þeirra. Þótt ég deili ekki pólitískum skoðunum með flokknum þá hef ég haft ágæt kynni af fólki úr röðum hans og því hefði ég alveg getað unnt flokknum þess að sleppa við þessar hremmingar. Kannski er það ekki pólitískt klókt að láta sér annt um aðra flokka en sinn eigin, en það verður bara að hafa það. Ég vil engum flokki það að feta í fótspor norrænna rasistaflokka og óttast að ákveðin öfl innan Frjálslyndra stefni þangað. 

Boða hér með sérstakar síður á þessu bloggsvæði sem munu heita: ,,Salt í sárin" og ,,Þetta sagði ég þér" sem verður haldið úti með óreglubundnum hætti og hefja göngu sína þegar þurfa þykir. 


Aumingjaskapur að líða að níðst sé á börnum

Umfjöllunin um Breiðavíkurheimilið hefur vakið mikil viðbrögð og hollt að draga svona þaggaðar staðreyndir úr fortíðinni fram í dagsljósið. Umræðan hér á Moggablogginu hefur verið lífleg og nægir að nefna ágæta umfjöllun sem Salvör Gissurardóttir hefur verið með á sínni síðu í tvígang.

Það er þessi þöggun sem er hættulegust alls en ég held að þjóðin sé að taka við sér. Það er ekki lengur þagað þunnu hljóði yfir því að hæstaréttardómarar kveði upp óafsakandi vægan dóm yfir kynferðisbrotamanni sem níðst hefur á ungum stelpum. Það er ekki lengur þagað yfir ljótum dæmum um kynferðismisnotkun og/eða sifjaspell, þökk sé Thelmu Ásdísardóttur, Bylgju Sigurjónsdóttur og fleiri ungum hetjum sem opnað hafa þá sársaukafullu umræðu. Það er ekki lengur þagað yfir hlutskipti fjölskyldna fíkniefnaneytenda, þökk sé hetjunum í Foreldrahúsinu.

Þöggunin er hættulegust. Í nokkur ár naut ég þeirra forréttinda að vera í lausamennsku sem blaðamaður og vann einkum blöð fyrir ýmis félagasamtök. Þá fékk ég tækifæri til að koma á framfæri efni frá ýmsum aðillum í samfélaginu sem ekki áttu endilega upp á pallborðið á þeim tíma. Eitt það eftirminnilegasta var  blaðið sem ég ritstýrði fyrir Kvennaathvarfið sem þá var frekar nýtt, en áður hafði ég tekið hringborðsumræður um þau málefni og unnið fyrir Vikuna. Stígamót voru ekki komin til skjalanna á þessum tíma og lítil umræða um hlutskipti barnanna í Kvennaathvarfinu. En í þessu blaði var sjónum beint að því málefni. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar Ingibjörg Georgsdóttir barnalæknir, sem  þá var nýkomin frá Kanada, margendurtók að hægt væri að koma í veg fyrir ofbeldi og sifjaspell í fjölmörgum tilfellum, bara með því að opna umræðuna. Með því að sætta sig ekki við þöggun. Með því að tilkynna (eins og lög kveða á um) ef minnstu grunsemdir vakna um misnotkun á börnum. Með því að hætta að þegja. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar en enn eru þeir til sem reyna að þagga þessa umræðu, með vægum dómum, véfenginum á sannleiksgildi framburðar barna og ýmsu öðru. Ég held að þjóðin sætti sig ekki við slíka þöggun.

Það er líka verðmætt skref fram á við að fara nú að fjalla um hlutskipti barna sem ekki hafa getað varið sig í umhverfi ókunnugra. Fyrst kom upp sterk umræða um hlutskipti heyrnarlausra barna, ömurlegt dæmi um þöggun. Breiðuvíkurmálið er annað dæmi um meðvitaða þöggun. Kannski er Byrgismálið þriðja dæmið, mér finnst menn ef til vill hafa meiri áhyggjur núna af peningunum en konunum sem í hlut áttu, en það er önnur saga. Gætir kannski fordóma í garð ,,þessara kvenna"? Og hver er sagan að baki neyslu þeirra og þess að þær eru svona auðsótt fórnarlömb? En umfjöllun ffjölmiðla er að minnsta kosti hetjuleg tilraun til að rjúfa þetta samsæri þöggunar og það er vel. Heiður þeim sem heiður ber.

 


Gaman að vera vinstri græn

Get ekki annað en glaðst yfir góðu gengi flokksins míns, Vinstri grænna. Skilaboðin til stjórnvalda eru skýr - gildi okkar hafa náð hljómgrunni. Mér finnst sérstaklega vænt um að sjá allan þennan fjölda hugsjónakvenna slá i gegn í VG, sem eru hver annarri hæfari og baráttuglaðari. Forvalið hér á suðvesturhorninu var greinilega þeirra stund og þjóðin virðist ákveðin í að skila þeim sem flestum á þing og reyndar feministum af báðum kynjum.

Varðandi gott gengi Sjálfstæðisflokksins þá held ég að þar njóti hann nýs fólks sem gefur sig út fyrir að tala fyrir mýrki gildum og meiri umhverfisvernd en áður. Einnig þess að takast að firra sig ábyrgð á flestu því sem aflaga hefur farið að undanförnu en njóta þess sem skárra hefur verið. Og svo er þetta einfaldlega flokkur með ótrúlega mikið af ,,af því bara" fylgi.


Evrópusöngur á RUV - hver veit meira um hann?

Í makalausri skýrslu kenndri við Willy de Clerk frá 1993, sem ég þreytist seint að vitna í, voru leiðbeiningar um hvernig gera ætti Evrópusambandið vinsælla meðal Evrópubúa. Smjaðra fyrir blaðamönnum og fjölmiðlafólki, ausa fé í háskólastyrki, nýta verkalýðshreyfinguna og umfram allt koma fánanum, nafninu og einhverjum jákvæðum, einföldum (fyrir okkur einfeldningana) skilaboðum á framfæri. En þeir nefndu ekkert um að búa til Evrópudýrkunarlög. Ég held að það hafi verið alvarleg yfirsjón af hálfu de Clerk, en kannski bara hugmyndaleysi.

En núna á morgnana vakna ég oftar en ekki við þetta undarlega lag um sundraða og svo seinna í laginu um ,,okkar sameinaðu Evrópu" á Rás 1 eða 2. Þetta er mjög dularfullt lag, einkum fyrir mig sem er að rumska á þessum tíma dags, milli kl. 7 og 9 og næ ekki að fá botn í textann við þær aðstæður. Ég er ekki ennþá búin að átta mig á því hvort þetta er brandari og ef svo er út á hvað hann gengur. Eða hvort þetta er dýrðarsöngur til sameinaðrar Evrópu, eins konar ástarljóð, en það hljómar samt þannig. Stíllinn á laginu er svona í anda hinna ástsælu Spaða. Kannast einhver við lagið og er það brandari eða hvað? Þar sem ég flakka óspart milli stöðva á frekar ónákvæmu útvarpi við rúmið mitt, þá hef ég ekki lagst í rannsóknir til að kanna hvaða stöð nákvæmlega spilar þetta merkilega lag en veit þó að það er önnur hvor ríkisrásin, reyni yfirleitt að hafa þær á og hlusta á fréttir RUV á morgnana.

Þar sem ég sigli ekki undir fölsku flaggi og þykist vera ,,opin fyrir öllum leiðum og ekki tilbúin að loka á neitt" gagnvart Evrópusambandinu þá er rétt að taka það fram að ég er Evrópusambandsandstæðingur. Alveg lokuð fyrir öllum leiðum og meira en tilbúin að loka á aðild að Evrópusambandinu, sem ég tel miðstýrt bákn undir stjórn skriffinna sem eru í litlum tengslum við þau samfélög sem þeir reyna að steypa í sitt sameinaða Evrópumót. Tek fram (af gefnu tilefni) að ég er mótfallin Evrópusambandinu vegna galla þess, ekki kostanna, sem vissulega eru líka til. Meira um það síðar (ábyggilega) en núna er ég bara hreinlega forvitin að vita eitthvað um þetta furðulega lag sem ég vakna stundum við.


Til að fyrirbyggja misskilning

Þegar ég byrjað að blogga á Mogganum fyrir tveimur sólarhringum eða svo hafði mikil umræða spunnist um frétt Morgunblaðsins um dóm Hæstaréttar yfir kynferðisbrotamanni. Fyrir níðingslegt brot þótti við hæfi að létta dóminn úr vægum í sama sem engan, 24 mánuðum í 18. Tek ofan fyrir ritstjórn Morgunblaðsins fyrir að hafa slegið málinu upp með þessum hætti. Ef þetta er ekki fréttnæmt, þá veit ég ekki hvað ætti að vera það. Tel ég þó að jafnaði að allt í lagi sé að stíga varlega til jarðar í blaðaumfjöllun, en blaðið sagði ekki annað en þáð sem satt og rétt var og uppstillingin á dómurunum, eins nöturleg og hún var, átti rétt á sér að þessu sinni. Það ER fréttnæmt hverjir taka slíka ákvörðun.

Til að fyrirbyggja þann misskilning að ég sé skoðanalaus í málinu, þá blanda ég mér hér með í umræðuna, þótt seint sé.


Vinnubrjálæðið

Alltaf að heyra fleiri og fleiri vísbendingar um að Íslendingar og reyndar líklega heimurinn allur, sé að missa sig í vinnubrjálæði. Og þetta kvað fara versnandi, nýjustu tölur hér á landi sýndu nokkurn árangur í styttingu vinnuvikunnar fyrir nokkurm árum en nú er allt að fara aftur í sama, vonda farið. Blessunarlega er ég að vinna á vinnustað þar sem yfirlýst stefna er að vinna ekki nema umsamdan vinnutíma en ytri aðstæður gera það erfitt þessar vikurnar og ég finn að nú er ég komin á þann stað í lífinu að ég vil ekki lifa svoleiðis lífi til langframa. Vissulega er gaman að taka góðar tarnir, svona eins og eina kosningabaráttu eða svo eða klára cand. mag ritgerð í sumarbústað eða að skrifa bók í Borgarnesi, jafnvel aðra bók á Kanaríeyjum, svo maður skrifi út frá eigin reynslu. En eins og góðar tarnir eru ágætar eru frí og það að LIFA jafn mikilvægt og reyndar miklu mikilvægara. Núna er ég í fyrsta sinn í mörg ár að fara í frí hérna heima, áður en leiðin liggur til Kanarí, og nýt þess út í ystu æsar. Og samt er bara sunnudagur og ég byrjaði í fríinu eftir vinnu á föstdag ;-)

Þegar ég lifði og hrærðist í pólitík í sex ár fjallaði eitt af uppáhaldsmálunum sem ég flutti á alþingi um styttingu vinnutímans án kjaraskerðingar. Ég held það sé tími til kominn að dusta rykið af þessu máli og taka það upp og líklega þarf það að gerast á öðrum vettvangi en alþingi, því þar talaði ég hreinlega fyrir fullkomlega daufum eyrum, þótt einhverjir yrðu til að taka kurteislega undir, án mikillar sannfæringar.


Vona að þetta sé rétt mat hjá Dönum

Fyrir nokkrum árum þegar núverandi stjórnarflokkar tóku við stjórnartaumunum í Danmörku, var greinilega kominn jarðvegur fyrir ákveðin kaflaskil þar í landi, kaflaskil sem voru að mínu mati mjög neikvæð. Ég var einmitt stödd í Danmörku vikurnar í kringum kosningarnar vegna vinnunnar og fylgdist með forundran með umræðunni. Danir sem höfðu sýnt svo mikið ,,umburðarlyndi" í garð innflytjendanna sinna (nema kannski systurþjóðarinnar Grænlendinga) voru orðnir svo svæsnir rasistar að mér stokkbrá hvernig umræðan var orðin. Einkum hve grímulaust sumir sigurvegarar þessara tilteknu kosninga töluðu hrokafullt um yfirburði síns eigin þjóðskipulags og trúar. Ég gat alveg með mínu gestsauga fundið ýmislegt athugavert við danskt samfélag, þannig er tilveran bara að ekkert samfélag er fullkomið og alltaf svolíitið hættulegt að vera með grjótkast úr glerhúsum.

Ef það er rétt að skopmyndadeilan, sem var svo sem ekkert fyndin, hafi haft þessi áhrif í Danmörku, að auka skilning á Islam, þá segi ég húrra fyrir því. Mér finnst það líka sanna að fáfræði sé uppspretta fordóma. Ég er ekkert að verja fordóma annarra í garð Dana, hvorki múslima né Íslendinga (má stundum passa mig sjálf, þótt kvart-Bauni sé). Það er ekkert einfalt mál að búa í friðsömu fjölmenningarsamfélagi. Bendi á að fullt af Evrópubúum (sem eflaust eru flestir kristnir) hafa valið að setjast að í múslimalöndum, til dæmis í Egyptalandi og Saudi Arabíu, svo ég nefni tvö ólík samfélög. Þeir ætlast til að njóta skilnings þar og eru kannski frekar ósáttir við það þegar þeirra eigin heilögu gildi eru fótum troðin, svo sem kvenréttindi og mannréttindi (!! - ennþá haf þessi tvö orð mismunandi merkingu - er það ekki merkilegt!?!).

Ég ætla rétt að vona að við Íslendingar sleppum við að fá það andrúmsloft tortryggni og skilningsleysi sem gætti í Danmörku fyrir nokkrum árum inn í okkar litla og fallega heim.


mbl.is Skopmyndadeilan hefur haft jákvæð áhrif á samskipti Dana við múslíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka hætt í menningarbindindinu, sem betur fer, ljósmyndasýning Soffíu rokkar

Þessi ár sem ég var í pólitísku bindindi var ég líka í menningar- og félagsbindindi, sem ég hélt að vísu misvel. Núna er ég farin að dreypa á smá menningu, þótt í hófi sé. Skrapp á opnun á ljósmyndasýningu Soffíu Gísladóttur sjávarmegin í Hafnarhúsinu áðan. Þarna er grafíkfélagið með lítinn og skemmtilegan sýningarsal, alveg passlegan fyrir myndirnar hennar Soffíu. Þetta er góð sýning, umhverfið betra en á seinustu sýningunni hennar sem ég sá á Sólon. Sýningin er vel þess virði að skoða hana og ég féll sérstaklega fyrir myndinni af manninum sem er að spila pool. Þeir sem líta þarna við (opið frá fimmtudegi til sunnudags) skilja ábyggilega hvað ég meina.


,,What's so funny about peace, love and understanding?"

Einhvern tíma á áratug pönksins og uppanna, áttunda áratugnum, sendi Elvis Costello frá sér plötu sem innihélt lagið: ,,What's so funny about peace, love and understanding?" Lagið er reyndar bara þokkalegt, en titillinn hefur alltaf af og til minnt á sig. Það eru sem betur fer heldur hagstæðari tímar fyrir umræðu um frið, ást og skilning nú en á áttunda áratugnum, þegar svoleiðis þótti bara hreinlega lúðalegt. Andrúmsloftið núna er andrúmsloft mikillar gerjunar, það er öflug friðar- og umhverfisumræða í heiminum en á meðan jafn svæsin hernaðarhyggja og fyrr og það sem hefur versnað er að nú ráða ríkjum ofsatrúarhópar með Bush í broddi fylkingar fyrir vestan og Bin Laden (væntanlega) fyrir austan. Stríðið í Írak á sér sífellt færri talsmenn en ekkert virðist geta stoppað hernaðarhyggjuna og nú eru vaxandi viðsjár í samskiptum við Íran. Þess vegna finnst mér svolítið hressandi að skoða slides-show frá Teheran með undirleik Cat Stevens, sem nú heitir Yussuf Islam. Þeir sem vilja kíkja geta farið á vefsvæði Ólafs Arasonar og kannski hreyfir þessi hversdagslega myndaröð við einhverjum eins og hún hreyfði við mér: www.olafura.com

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband