Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Greinilega viðkvæmt mál

Blogginu mínu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá einum lesanda varðandi seinustu tvö bloggin mín - það er þann hluta sem varðar vangaveltur mínar um þau fáu atkvæði sem Halla fékk í formannssæti KSÍ og linkinn sem ég setti á blogg Hrafns Jökulssonar. Mér finnst ástæða til að birta hana og það verður bara hver að dæma fyrir sig:

,,Já, já, svo þið viljið bara meina að það átti að kjósa Höllu, ekki vegna ágætis hennar, heldur vegna kyns!

Þið verið að fyrirgefa, en fulltrúar aðildarfélaga KSÍ kusu Geir ekki vegna þess að hann pissar standandi, heldur vegna þess að þeir treysta honum og hann hefur verið starfandi lengi innan KSÍ og því þekkja þeir hann og hans verk.

Halla er nánast óskrifað blað, en það eitt virðist vera næg ástæða til að þið heimtið hana í formannssætið.

Ekki vegna ágætis síns, heldur vegna þess að hún pissar sitjandi. Það er asskotans enginn munur á ykkur og nafnlausu óþverrunum á heimasíðunum sem Hrafn vitnaði í.

Fyrirgefið orðbragið."


Skýringin fengin

Var að þvælast um á hinum bloggunum þegar ég rakst á samantekt á umræðunni um formann KSÍ, eins og hún var áður en Halla var ,,ekki kjörin". Uppruni þessarar samantektar er á síðu Hrafns Jökulssonar og hér er linkur þangað. Þetta er ótrúleg lesning, einkum í ljósi úrslitanna. Takk þið sem leidduð mig á þessa síðu og takk Hrafn. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er rétt að taka það fram að þessi síða birtir fordómafullt spjall sem Hrafn tíndi til og birti höfundum til háðungar. Tekið fram að gefnu tilefni.

Að keppa í kosningum, íþróttum eða hvoru tveggja

Keppni setti mikinn svip á þessa helgi. Kona tapaði í keppninni um formennsku KSÍ og skilaboðin sem léleg útkoma hennar sendir getur merkt þrennt: Að verið sé að senda konum skilaboð að þeim sé ekki ætlað upp á þetta dekk, að þeir sem kusu hafi séð þetta sem keppni tveggja karla með aukaleikara eða að eitthvað allt annað ráði.

Önnur keppni, um hylli kjósenda, er nú komin á fullt skrið. Sú keppni mun standa fram í maí, en þá hætta allir að keppa í eigin nafni og skipta sér í tvö lið. Hef reyndar heyrt þá skoðun oftar að undanförnu að lýðræði felist í því að meirihlutinn stjórni með virðingu gagnvart skoðunum minnihlutans, en yfirleitt finnst mér eftir kosningar eins og vinningsliðið líti svo á að það eigi að ráða öllu.

Gamla Kvennalistagenið mitt segir mér að setja spurningarmerki við keppni, sigurvegaradýrkun og foringjadýrkun. Allt of margt neikvætt hefur komið fram í krafti sterkra foringja (Hitler og Stalín voru óumdeilt foringjar). Meiri samvinna ætti ekki að skaða neinn. Þarna veit ég að mikillar hugarfarsbreytingar er þörf. Þangað til er leikvöllurinn keppnisvöllur.

En verð að viðurkenna að það er stundum gaman að keppa og þá er alltaf kostur að vinna. Spilaði skvass við litlu systur í dag eins og fleiri sunnudaga og hún vann, nema seinasta leikinn, þá loksins vann ég og keppnisskapið fékk smá uppörvun eina ferðina enn. Hmm, já, vandlifað eftir eigin hugmyndum ;-)


Aldrei aftur menningarbindindi

Fyrir nokkrum árum var ég búin að yfirbóka mig svo mikið að ég ákvað að fara í pólitískt, félagslegt og menningarlegt bindindi. Var í krefjandi vinnu og ströngu námi og fann að ég var ekki til skiptanna lengur. Núna er ég í krefjandi vinnu en á lokaspretti í náminu og sprungin á pólitíska bindindinu, það er svo margt að gerast. Félagsbindindið gengur betur, hef losað mig úr flestum félagsmálum og sátt við það.

Þá er það menningarbindindið. Mér tókst hreinlega aldrei alveg að standa við það. Missti mig af og til. Sem betur fer. Annars hefði ég aldrei séð Rómeó og Júlíu hjá Vesturporti, fallegu Gauguin sýninguna í Glypotekinu í Köben, hlustað á Matthíasarpassíuna í Hallgrímskirkju eða málað seinustu málverkin mín. Hins vegar hef ég takmarkað menningariðkunina óhóflega en núna er ég hreinlega komin að þeim punkti að það er ekki hægt öllu lengur. Þannig að ég er farin að tína saman smálegt af því sem ég hef verið að gera í myndlist og á myndir af (sem er mjög tilviljanakennt - hef látið mest frá mér). Byrjuð að reita inn eitthvað smávegis af því á myndasíðurnar. Þeir sem hafa áhuga geta kíkt á það.

grafik


Allt getur gerst

Reyni alltaf að hlusta á Vikulokin á Rás 1 á laugardögum. Oft skemmtilegir þættir en einn sá allra besti sem ég hef heyrt í langan tíma var núna áðan. Hægt að hlusta á hann hér. Guðný Halldórsdóttir, Þórlaug Ágústsdóttir og Reynir hjá Framtíðarlandininu (er hann ekki Harðarson?) fóru hreinlega á kostum enda var þátturinn undir mjög faglegri stjórn eins og oftar frá fréttastofu RUV. Niðurstaðan eftir þáttinn: Allt getur gerst! og einhvern veginn finnst mér að nú séu í vændum viðlíka tíðindi í umhverfismálum og urðu í kvenfrelsismálum þegar Kvennalistinn kom fram. Bein áhrif Kvennó voru vissulega umtalsverð en óbein áhrif á aðra flokka jafnvel enn meiri, að minnsta kosti hvað varðaði möguleika kvenna í þeim til að komast í ,,örugg sæti". Það sem Kvennalistinn gerði í kjölfarið var að breyta umræðunni, en það ferli hefur þegar byrjað í umhverfismálum. Þátttakendur í Vikulokunum skilgreindu sig þannig að öll voru græn en tvö til hægri og ein til vinstri. Og öll komu þau skýrum skilaboðum á framfæri: Stjórnvöldi eru ekki að standa sig, ekki í umhverfismálum, ekki í Byrgismálinu, ekki í atvinnumálum, ekki ... og sú tíð er liðin að það verði látið óátalið! Bloggið á stóran þátt í gróskunni í samfélagsumræðu, eða eins og eitt þeirra sagði: Hvað átti maður að gera hér áður? Láta prenta bækling og standa á götuhorni til að koma skoðunum sínum á framfæri? Hvet ykkur til að hlusta á þáttinn, oft hefur tekist vel til við val á viðmælendum en sjaldan eins vel og í þetta sinn. 

Gat í glerþakið

Var að frétta að Harvard háskóli hefði í fyrsta sinn valið konu í forsæti skólans, Drew Gilpin Faust, við eigum okkar Kristínu og Svöfu. Harvard er samt alltaf Harvard.

Biblían, tölvunarfræðin og kannski bráðum lagasafnið líka

Gaman að heyra af því að gera á þessar breytingar á biblíuþýðingunni, hætta að ávarpa kristið fólk í karlkyni eingöngu. Það hafa verið gerðar ýmsar skemmtilegar tilraunir til að breyta karlmiðuðu tungutaki á undanförnum árum. Ég hef lúmskt gaman af þeim tilraunum sem ganga lengst í þeim efnum, einkum vegna þeirra hörðu viðbragða sem þær vekja. Þegar Auður Eir fór að segja: Hún guð! þá urðu margir óskaplega hneykslaðir. Ég hlakka til að sjá í hvaða kyni guð verður í næstu biblíuútgáfu, verður gengið svo langt að hafa guð í hvorugkyni?

Annars hef ég orðið vör við tilraunir til að leiðrétta hefðbundnar ímyndir í tungumáli á óvæntustu stöðum. Tölvunarfræðin er mikið karlafag enn sem komið er en ótrúlega margir höfundar bóka á því sviði hafa valið að kvenkenna alla sem vísað er til í bókum sínum og ekki eru manneskjur af holdi og blóði: Verkfræðingar, forritarar, verkefnisstjórar og fleiri eru allir ,,she" en ekki ,,he" eins og maður er vanastur. (Maður er vanastur ... ég veit að Rauðsokkur sögðu Konan er maður, en samt :-). Frá hinni yndislegu bók: The joy of Linux til Contextual Design með viðkomu í ótal bókum og tímaritsgreinum. Þarna er ráðist gegn þeirri viðteknu hugsun að ,,normið" sé karlmaður og frávikið kona. Oddur Benediktsson prófessor í tölvunarfræði gekk reyndar svo langt að reyna að hafa sama háttinn á þegar hann var að kenna kúrs í Gæðastjórnun í hugbúnaðargerð í meistaranámi háskólans, en eftir áratuga uppeldi við annað tungutak er þetta ekkert auðvelt. Búin að lofa sjálfri mér að grufla aðeins meira í þessu þegar ég er búin að berjast í gegnum seinustu stærðfræðina sem bíður mín.

En hvenær ætli lögin endurspegli þá staðreynd að bæði konur og karlar eru hluti samfélagsins? Man eftir rimmu í lagasetningu um kynferðisofbeldi þar sem ekki var hægt að hagga þeirri orðnotkun að nauðgun fælist í að maður beitti annan mann ofbeldi. Við sem vildum breyta þessu og nota til dæmis orðið manneskja í staðinn fengum liðsstyrk úr óvæntri átt, Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson heitinn, Sjálfstæðisþingmaður) sagði þá að honum þætti miklu manneskjulegra að nota okkar orðalag. En auðvitað var ekki eytt miklum tíma í þennan hluta umræðunnar, því hversu mjög sem hún skipti máli, þá voru þó lagabæturnar sem verið var að gera enn mikilsverðari.

Þótt ég kunni enga algilda lausn í þessum efnum þá held ég að samhengið verði að ráða mestu. Í lagatextanum skaut þetta skökku við, kona og karl hefði verið nákvæmara og manneskja ásættanlegt. En ég er ekki búin að venja mig af því að segja: maður segir ... og langar ekki að dauðhreinsa málið. Þannig að ég held ég skilji hvað við er átt með orðalaginu ,,þar sem því verður við komið" í fréttinni um biblíuna. Alla vega vona ég það. 

 


mbl.is „Biblía 21. aldarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólarlandaferðir og vímulaus elli

Eftir að hafa látið mig dreyma um það í fjölmörg ár að komast í vetrarfrí í sólina þegar kuldinn og hálkan eru að hrella mig á morgnana, þá vildi svo til fyrir sjö eða átta árum að ég lenti af tilviljun í sól og sumri um miðjan vetur, á suðlægum slóðum (vinnuvélasýningu í Las Vegas). Síðan varð ekki aftur snúið og nú er aðalsumarleyfistími okkar Ara míns á veturna - Las Vegas hefur að vísu ekki verið heimsótt aftur, en þess í stað höfum við leitað á önnur mið. Á sumrin er svo hægt að taka styttri frí hér heima sem koma restinni af sumarleyfisdögunum léttilega í lóg.

Sólarlandaferðir á Íslendingaslóðir á Kanarí (engu ómerkilegri en Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn) eru skemmtilegt fyrirbæri. Eiga í rauninni ekkert sameiginlegt með því að ferðast til útlanda. Ferðalög eru líka skemmtileg, en þau eru bara allt annað fyrirbæri. Kanaríferðir minna meira á þjóðflutninga þrákálfa sem nenna ekki að elta stopula sólina á sumrin, en finnst samt þægilegt að vera á hlýjum stað í stuttbuxum og stuttermabol einhvern hluta ársins. Þetta eru ferðir í betra loftslag, félagsskap eftir því sem hverjum hentar og síðan gerir hver það sem henni og honum þykir skemmtilegast. Þannig lærði ég þythokkí í fyrra og sú sem kenndi mér var nýskriðin á áttræðisaldurinn en núna býst ég við að komast í tívolí í fyrsta sinn, vegna þess að systursynir mínir verða á sama tíma og við á ferðinni. Gamlar fermingarsystur, vinir, kunningjar, ættingjar, vinir vinanna og kunningjar kunningjanna mynda misstóran hóp sem hittist yfir góðri máltíð á kvöldin eða situr á útikaffihúsi eða bar fram eftir kvöldi, spilar pool eða lyftir glasi. Sumir iðka golf eða tennis, aðrir aðallega glasalyftingar. Sögur eru um sóldýrkendur með eldspýtur á milli tánna, en þá hef ég ekki séð enn. Sumir metast um sólbrúnkuna meðan aðrir stæra sig af því að ganga lengri vegalengdir en aðrir, gera betri kaup eða borða betri mat en allir hinir. En flestum er slétt sama og skilja metinginn eftir heima.

Tengdafaðir minn, sem átti það til að lauma góðum athugasemdum að mér hnippti eitt sinn í mig þegar við vorum á rölti á Kanaríeyjum og spurði, sakleysið uppmálað: ,,Skyldi ekki vera þörf á því að stofna Vímulausa elli hérna?" Athugasemdin kom til aðallega af tvennu: Af gefnu tilefni þar sem fjöldi eldri borgara sækir í sólina á veturna og sumir þeirra detta rækilega í það, hvort sem það er vegna þess að þeir eru lausir undan vökulu auga barnanna sinna eða vegna þess að þeim er í blóð borið að spara, og dropinn er ódýrari þarna en heima. Eða eru bara hreinlega óþurrkaðir alkar (hinir komast á AA fundi). Hin ástæðan var reyndar sú að ég hafði þá um nokkurt skeið starfað með samtökunum Vímulaus æska og honum fannst það frekar forvitnileg hlið á tengdadótturinni. En á Kanarí er ég í fríi og stofna engin samtök.

Mynd263  Eftir smá tíma þar hellist slökunin yfir mig, langir göngutúrar um fallegt umhverfi, tennis eða minigolf og sífellt færri ferðir á netkaffið, strætóferðir í nágrannaþorpin og notalegar stundir á kvöldin með vinunum skila manni úthvíldum heim eftir tvær eða þrjár vikur. Vægir fordómar mínir í garð sólarlandaferða af þessu tagi hafa horfið eins og dögg fyrir sólu í bókstaflegri merkingu.


Líta stjórnvöld á efnahagslífið sem ,,extreme sport"?

Það leikur enginn vafi á því að sjálfstæð efnahagsstefna Íslendinga hefur leikið lykilhlutverk í því að halda samfélaginu á floti meðan stjórnvöld hafa leikið sér við að skapa ofþenslu og hættulega sveiflur í efnahagslífinu. Ákvarðanir um stórframkvæmdir og ýmsar aðrar stjórnvaldsákvarðanir vekja hjá mér spurningar um hvort stjórnvöld líti kannski á efnahagslífið sem ,,extreme sport" (afsakið að íslenska þýðingin jaðaríþrótt nær ekki inntakinu).

Það er vissulega rétt hjá Davíð að með því að reka okkar eigin efnahagsstefnu og hengja okkur ekki utan í evruna hefur verið hægt að grípa til aðgerða til að draga úr skaðanum en betra hefði verið að setja þetta nauðsynlega stjórtæki í hendurnar á ábyrgari aðilum. Sjáum til hvernig næstu kosningar dæma efnahagsstjórina.

Þegar verið var að taka upp evruna innan Evrópusambandsins urðu fjölmargir til að vara við einmitt þessu atriði, að kippa svona mikilvægu stjórntæki úr höndunum á þjóðunum sjálfum og færa miðstýrðu yfirvaldi. Meðal þeirra voru allmargir þungavigtarmenn í Þýskalandi, menn sem að öðru leyti tóku ekki afstöðu gegn Evrópusambandinu. Flest þeirra orð eru enn í fullu gildi, sértækar aðgerðir gegn svæðisbundnu atvinnuleysi eru til að mynda torveldar í þessu miðstýrða efnahagstjórnunarumhverfi. Og þótt okkar efnahagsvandamál séu af öðrum toga veitir okkur sannarlega ekki af því að eiga eigin stjórntæki við öfgafullar aðstæður, hvort sem eru að mannavöldum eða annarra óblíðra afla.


mbl.is Davíð: Mesta furða hvað krónan hefur dugað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarlandið og hægri grænir á þeysispretti

Niðurstaða fundar Framtíðarlandsins kom mér ekki á óvart. Stofnað var til þessara samtaka þvert á öll flokksbönd. Það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar slík samstaða næst að reyna síðan að draga alla í sama dilk. Tala af eigin reynslu eftir að hafa þurft að yfirgefa samtök sem mér voru mjög kær, af því ákvörðun var tekin um að reyna að draga okkur allar í sama dilk. Enda gekk það ekki upp. Þess vegna er þetta ekki farvegur framboðs sem mér sýnist vera í uppsiglingu á hægri græna kantinum. Ómar Ragnarsson gengur reyndar svo langt á sinni bloggsíðu að boða slíkt framboð og segir meiri líkur en minni nú til þess að af því verði. Ég fylgist með af jákvæðri forvitni og hlakka til að sjá hvort af verður og hvort slíkt framboð verður til að auka áherslu Sjálfstæðisflokksins á umhverfismál (þar er búið að brjóta ísinn). Og eins er auðvitað spennandi að sjá hversu mikill hljómgrunnur er fyrir hægri grænu framboði yfir höfuð. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband