Evrópusöngur á RUV - hver veit meira um hann?

Í makalausri skýrslu kenndri við Willy de Clerk frá 1993, sem ég þreytist seint að vitna í, voru leiðbeiningar um hvernig gera ætti Evrópusambandið vinsælla meðal Evrópubúa. Smjaðra fyrir blaðamönnum og fjölmiðlafólki, ausa fé í háskólastyrki, nýta verkalýðshreyfinguna og umfram allt koma fánanum, nafninu og einhverjum jákvæðum, einföldum (fyrir okkur einfeldningana) skilaboðum á framfæri. En þeir nefndu ekkert um að búa til Evrópudýrkunarlög. Ég held að það hafi verið alvarleg yfirsjón af hálfu de Clerk, en kannski bara hugmyndaleysi.

En núna á morgnana vakna ég oftar en ekki við þetta undarlega lag um sundraða og svo seinna í laginu um ,,okkar sameinaðu Evrópu" á Rás 1 eða 2. Þetta er mjög dularfullt lag, einkum fyrir mig sem er að rumska á þessum tíma dags, milli kl. 7 og 9 og næ ekki að fá botn í textann við þær aðstæður. Ég er ekki ennþá búin að átta mig á því hvort þetta er brandari og ef svo er út á hvað hann gengur. Eða hvort þetta er dýrðarsöngur til sameinaðrar Evrópu, eins konar ástarljóð, en það hljómar samt þannig. Stíllinn á laginu er svona í anda hinna ástsælu Spaða. Kannast einhver við lagið og er það brandari eða hvað? Þar sem ég flakka óspart milli stöðva á frekar ónákvæmu útvarpi við rúmið mitt, þá hef ég ekki lagst í rannsóknir til að kanna hvaða stöð nákvæmlega spilar þetta merkilega lag en veit þó að það er önnur hvor ríkisrásin, reyni yfirleitt að hafa þær á og hlusta á fréttir RUV á morgnana.

Þar sem ég sigli ekki undir fölsku flaggi og þykist vera ,,opin fyrir öllum leiðum og ekki tilbúin að loka á neitt" gagnvart Evrópusambandinu þá er rétt að taka það fram að ég er Evrópusambandsandstæðingur. Alveg lokuð fyrir öllum leiðum og meira en tilbúin að loka á aðild að Evrópusambandinu, sem ég tel miðstýrt bákn undir stjórn skriffinna sem eru í litlum tengslum við þau samfélög sem þeir reyna að steypa í sitt sameinaða Evrópumót. Tek fram (af gefnu tilefni) að ég er mótfallin Evrópusambandinu vegna galla þess, ekki kostanna, sem vissulega eru líka til. Meira um það síðar (ábyggilega) en núna er ég bara hreinlega forvitin að vita eitthvað um þetta furðulega lag sem ég vakna stundum við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru Spaðar, held ég nýjasta lagið þeirra. Hef það eftir nokkuð góðum heimildum að einn Spaðinn sé mikill Evrópusinni. 

En vissulega er það ósmekklegt að hvort tveggja búa til sem og að spila svona áróðurslag gegn sjálfstæði þjóðarinnar og gegn þjóðarvitund okkar í fjölmiðlum, sérstaklega ríkisútvarpinu. Það kemur ekki til greina af minni hálfu að skipta út íslenskri þjóðarvitund minni fyrir evrópuvitund.

óskráður 7.2.2007 kl. 09:50

2 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

En ef áróðurinn væri fyrir einhverju sem þú ert sammála, væri það þá smekklegt eða ósmekklegt. Fyrir utan að ég skil ekki alveg hvernig það getur verið ósmekklegt að búa til texta með áróðri, hvort sem það er í gríni eða?

 Verð að segja eins og er að þetta er nú hámark þöggunarinnar! Á tímum Davíðs mátti ekki ræða um Evrópusambandsaðild. Nú er hættur og þá má ekki einu sinni syngja um hana!  Væri ekki nær að þeir sem eru á móti ESB-aðild kæmu lagi með texta andstæðum aðildinni í spilun (mæli með að fá Heiðu til að syngja! og væru ekki með þetta rugl.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:11

3 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Sé að það vantar "hann" inni í seinni málsgreinina. Á að standa: ...nú er hann hættur...

Ingibjörg Stefánsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:12

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir upplýsingarnar. Hljómaði eins og Spaðanir og passar við skoðanir einhvers þeirra. Mér finnst lagið frekar fyndið og svona eins og upphafinn vakningasöngur fyrir fagnaðarboðskapinn. Ég er eldheitur Evrópusambandsandstæðingur og reyndar mikill Evrópusinni líka álfan er ok en báknið ekki. Við erum ennþá hluti Evrópu, en verð bara að viðurkenna að ég er guðslifandi fegin að við skoðanasystkinin eigum okkur ekki ennþá söng á borð við: Það er svo unaðslegt að vera utan ESB ... Þar sem ég þekki aðeins til Spaðanna þá læðist að mér sá grunur að sumum í hljómsveitinni þyki þetta bara fyndið, getur verið að þeir séu að gera nett grín að þeim heittrúaðasta í hljómssveitinni?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.2.2007 kl. 17:58

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

En NB þegar ég segi að mér finnist þetta fyndið, þá er það vegna þess að við erum UTAN Evrópusambandsins, ekki innan. Hugsið ykkur ef við vöknuðum við þetta lag og værum INNI í Evrópusambandinu, þá væri þetta ekki vitundarögn fyndið. Þannig er þessi hárfína lína milli brandara og blákalds veruleika. Núna getum við séð þetta sem hallærishúmor í anda hinna ástsælu Spaða. En setjum nú svo að við værum innan sambandsins. Setjum svo að þetta væri skyldu-morgunsöngur barnanna í Melaskóla. Setjum svo að börnunum sem ekki vildu syngja sönginn væri veitt tiltal? Þá væri þetta ekkert fyndið. Og vegferð ýmissa skrifræðis- og einræðisafla segir okkur að setja spurningarmerki við þau öfl sem safna til sín miklum völdum og þurfa ekki að svara fyrir gerðir sínar. Meira seinna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.2.2007 kl. 18:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband