Pressa í kvöld, hvernig finnst ykkur til hafa tekist?

Stend mig að því að hlakka til að horfa á Pressu í kvöld, þótt raunveruleikinn hafi reyndar verið í harðri samkeppni við skáldskapinn í síðustu viku. Þessi þættir hafa tekist virkilega vel, leikararnir eiga mikinn apressaþátt í því og svo er sögusviðið alveg ágætlega valið líka. Plottið er ennþá nógu gott til að ég veit ekki upp né niður í því hver gerði hvað og það er nokkuð vel að verki staðið. Sumum þótti eitthvað nóg um þráðinn í seinasta þætti þegar blaðakonan lenti á fylleríi heim til eins af grunsamlegustu persónunum í þættinum, en þegar ég spurði: Er þetta ekki einmitt það sem gæti gerst (á Íslandi og víðar) þá varð fátt um svör. Mun alla vega setjast trygg við sjónvarpið í kvöld.

Húmor á laugardegi: Rannsóknarnefnd skipulagsslysa og Alfreð

Eftir þunga viku með mikilli undiröldu og válegum pólitískum tíðindum þá get ég ekki annað en hlegið með sumu því sem ég sé og heyri í fjölmiðlum. Var að enda við að hlusta á góðan laugardagsþátt Hjálmars Sveinssonar þar sem meðal annars var rætt við Pétur H. Ármannsson um skipulagsmál. Hann læddi að, eins og honum er lagið, lítilli athugasemd í umræðunni um hvað væri vel gert og hvað illa í reykvískum skipulagsmálum og sagði: Ég vil nú ekki, eins og gert hefur verið, ganga svo langt að halda því fram að það þurfi að stofna rannsóknarnefnd skipulagsslysa, en ... Og þar með var hann auðvitað búinn að koma hugsuninni á framfæri. Þökk hverjum þeim sem datt þetta hugtak í hug.

Annað, sem einnig tengist grafalvarlegu máli, er ályktun sem félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík sendi frá sér varðandi aðförina að Birni Inga. Ályktunin er góðra gjalda verð, en mér var starsýnna á nafnið á félaginu: Alfreð. Einhverjir hafa húmor í Framsókn, fleiri en Guðni (á köflum).  


Stormur á eftir storminum ... í Reykjavík

Við áttum kannski ekki von á svona stormi eftir pólitíska storminn í Reykjavík í gær. En kannski er þetta táknrænt, eitthvað svo innilega ófært allt saman.

Viðburðaríkur dagur - samfélagslega og persónulega

Þetta er ótrúlega viðburðaríkur dagur. Ég hef setið við tölvuna og haft fréttir í bakgrunni. Ekki hægt að fagna samfélagslegum viðburðum, valdaskiptum í Ráðhúsinu og líka tapi hjá landsliðinu. Hins vegar var ég að uppgötva að ég náði markmiði mínu í stærðfræðiprófinu síðastliðinn laugardag, en þar vantaði mig 7-u og fékk hana. Einnig gengur þokkalega að ná í upplýsingar sem ég er að leita að og sömuleiðis að finna viðmælendur og tímasetja viðtöl, ekki allt komið á hreint þar, en allt í vinnslu. Þannig að já, ég vildi að dagurinn hefði verið eins góður við Reykvíkinga og handboltaunnendur og mig.

Þegar fortíðin er skemmtilegri en nútíðin - 25% borgarstjórnin og Kvennalisti fyrir 100 árum

Svo virðist sem Reykvíkingar séu ekki alveg að sætta sig við það sem er að gerast í nú-inu, það er valdatöku nýs borgarstjórnarmeirihluta. Skoðanakönnun Fréttablaðsins gefur nýju borgarstjórninni ekki nema 25% fylgi í veganesti og það er viðburður þegar sú borgarstjórn sem er að fara frá naut mikilla vinsælda. 

Annað atriði úr fjarlægari fortíð er hins vegar mjög merkilegt, í dag eru nefnilega 100 ár síðan Kvennalisti vann eftirminnilegan sigur í bæjarstjórn Reykjavíkur. Leyfi frétt RUV að tala:  

,,Í dag er þess minnst að fyrir 100 árum, 24. janúar árið 1908, var kvennasigurinn mikli þegar listi kvenna kom fjórum konum í bæjarstjórn Reykjavíkur með ótvíræðum sigri.

Tímamótanna verður minnst með margvíslegum hætti á næstunni, en í dag verður opnuð sýningin Konur í borgarstjórn 1908-2008, í Tjarnarsal Ráðhússins. Sýningin spannar pólitíska vegferð kvenna í bæjarstjórn og síðar borgarstjórn Reykjavíkur."

Skrýtið hvernig dagar geta vakið fögnuð og hryggð í senn. 

 

 


Björn Ingi stelur senunni í dag - og hættir

Í svefnrofunum fannst mér ég heyra í útvarpinu að Björn Ingi væri að hætta í stjórnmálum. Rumskaði áðan og tékkaði á því hvort þetta gæti verið. Jú, mikið rétt, búin að lesa yfirlýsingu hans á eyjan.is

Þegar ég var sextán ára sumarlangt í Noregi lærði ég frasa sem ég man kannski ekki alveg orðrétt eða kann að skrifa stafrétt, en hljómar þó eitthvað á þessa leið: °A glimre ved sit fravær. - Sem sagt að ljóma með fjarveru sinni. Ég er næstum sannfærð um að þetta verður dagurinn hans Björns Inga, ekki dagurinn hans Ólafs F. Það eru mikil tíðindi ef hann er að hætta í stjórnmálum. Vissulega hef ég ekki verið í aðdáendahópi hans, enda ekki Framsóknarkona, en hins vegar þá fannst mér atlagan að honum yfir strikið og er þá ekki að réttlæta fatakaupamálið sem slíkt, heldur að benda á hvernig skipulega hefur verið veist að honum af þeim sem ættu að vera samherjar hans. Svo sem ekki meira um það mál að segja, en þetta er greinilega niðurstaða Björns Inga.  


Sigrar og ósigrar - ein gossaga líka

Hressandi handboltaleikur og sérstaklega frábær seinni hálfleikur, sigurinn var verðskuldaður, einkum á Hreiðar markvörður heiður skilinn. Húrra fyrir strákunum, þetta var vel spilað.

Undiraldan vegna valdaskiptanna í borginni er gríðarleg, það er augljóst að mörgum blöskrar. Forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.

Samt er svona lagað lítilvægt þegar við erum minnt á þau feiknaöfl sem gerðu vart við sig fyrir 35 árum í Vestmannaeyjagosinu. Ótrúleg björgunarsaga og myndin af flotanum sem sigldi með heilan bæ til lands, þetta er ótrúleg minning. Gleymi því seint þegar ég kom i háskólann þennan morgun eftir að hafa heyrt fréttirnar um gosið. Tími (hjá Vésteini Ólasyni) féll niður og þegar við Gunna vinkona vorum að fara til baka mættum við einni síðbúinni skólasystur og sögðum við hana: Það er frí í tíma, af því tengdaforeldrar Vésteins búa í Vestmannaeyjum! .... Ég gleymi aldrei hversu langleit þessi skólasystir okkar varð, þótt hún hafi nú seinna sagst hafa vitað af gosinu, þá sagði svipurinn eitthvað allt annað!


Dagur að kvöldi

Dagur Eggertsson brilleraði í Kastljósi áðan, ég get ekki sagt annað. Sigmar gætti þess að vera jafn grimmur við hann og aðra, fyrir utan ákveðna mildi sem hann sýndi væntanlegum borgarstjóra í mjög pínlegum fréttaþætti (eflaust Kastljósi) í gærkvöldi. En skemmst er frá því að segja að Dagur kom þessari umræðu í kringum dæmalaus valdaskipti í borginni á hærra plan en hún hefur verið. Mig langar að sjá gott viðtal við Svandísi fljótlega, ég er mikill aðdáandi hennar eins og fleiri Íslendingar, ef til vill hef ég misst af einhverju, kemst ekki yfir að horfa á allt fréttatengt, en þangað til þá læt ég mér nægja frásögn Dags, sem var skýr og kippti umræðunni úr þessum fáránlega farsastíl sem hún hefur verið.

Eftir storminn í borginni ...

Borgarbúar standa frammi fyrir orðnum hlut. Klækjastjórnmál, segir stjórnmálafræðingur, ég held einfaldlega að það hafi orðið smá óhapp og núna sé það að renna upp fyrir fólki að storminn lægir ekkert endilega. Það getur alltaf komið ný lægð og meiri stormur.

Margt er ólíkt með þessum valdaskiptum í borginni og þeim fyrri, sem áttu sér stað fyrir 102 dögum. Þau áttu sér stað í kjölfar eins mesta deilumáls sem upp hefur komið í borginni og var, eftir á að hyggja, óhjákvæmlegt að leiddi til niðurstöðu, en án efa voru þeir sem lögðu þar á ráðin búnir að ætla að fólk léti REI-málið yfir sig ganga eins og allt annað. Valdaskiptin núna virka á migsem uppreisn æru fyrir Vilhjálm gagnvart sex-menningaklíkunni. Súr svipur sumra þeirra í gær rennir stoðum undir þann grun, þótt aðrir hafi án efa spilað heilshugar með. Þetta var í rauninni eini veiki hlekkurinn í meirihlutanum og á hann var sótt og boðið gull og grænir skógar, svoleiðis virkar stundum.

Ég tek undir með þeim sem spá því að vera megi að enn muni koma til valdaskipta í borginni áður en kjörtímabilið er úti, jafnvel tiltölulega fljótlega.


Ótrúlegt fréttakvöld

Var á fundi með innvígðum ungum Sjálfstæðismanni, ungri Vinstri grænni konu úr framvarðasveit og einum reyndasta stjórnmálamanni landsins þegar þessar fréttir af borgarstjórn fóru að seitlast inn. Ungi Sjálfstæðismaðurinn sagði okkur hvað var að gerast í upphafi fundar og okkur fannst það eiginlega að vera of ótrúlegt, og þó. Svo barst staðfesting inn á fundinn. Síðan hef ég verið límd við fjölmiðlana og ég verð að viðurkenna að þeir hafa ekki látið sitt eftir að liggja.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband