Ef Stairway to Heaven hefði verið Doors-lag

Enn er ég innblásin af bloggi Kristjáns Kristjánssonar, Kidda rokk, en núna er hann kominn með YouTube af einhverjum metal-hryllingi með Pat Boone. Meðal annars Stairway to Heaven í útgáfu sem minnir á eina af útgáfunum á Stairways to Heaven, þar sem Ástralir eru með alls konar útgáfur af þessu ágæta lagi, sumar eru glæpsamlegar og aðrar bara flottar. Ég ætla að setja inn eina flotta, hugsið ykkur að þetta lag hefði í raun verið Doors lag og hlustið á the Australian Doors Show:

 

Og ég held ég leyfi bítlaútgáfunni að fljóta með líka. Hún er meira fyndin en flott, en samt smá flott líka.

 


Ég veit að Pressa er ekki rómantísk gamanmynd en ...

... ósköp var ég fegin að Lára og Halldór náðu saman að lokum. apressaElska rómantískar gamanmyndir, og Pressa er smá fyndin, rómantíkin skaust inn í lokin og spennan var allan tímann nógu mikil til að halda manni við efnið. Sem sagt, stórfínt sjónvarpsefni, vona að framleiddir verði fleiri þættir, mér er farið að þykja vænt um sumar persónurnar, sem er alltaf góðs viti (og aðrar náttúrulega óþolandi, en samt mannlegar, bara besta mál).

Hugsjónafólk

Rosalega er gaman að tala við hugsjónafólk. Átti þess kost að spjalla við mikla hugsjóna- og baráttumanneskju núna um helgina og það er hreinlega sálarbætandi að gera það. Í framhaldi hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig hugsjónafólk breytir lífinu, bæði sínu eigin og annarra, þegar vel tekst til. Það er í rauninni ekki hægt að hugsa sér tilveruna án þess að einhverjir berjist fyrir hugsjónum sínum en maður gleymir því stundum að þar sem hugsjónafólk ryður brautina, þannig að hún verður greið fyrir alla sem fylgja í kjölfarið, rekur það sig oft á ótrúlegar hindranir. Þessi færsla er til að taka ofan fyrir því góða hugsjónafólki sem hefur rutt brautina fyrir svo marga aðra.

Ég vissi ekki að Dagur væri svona mikill húmoristi

Núna biðlar Dagur Eggertsson stíft til Gísla Marteins vegna ummæla hans um uppbyggingu byggðar á flugvallarsvæðinu. Ummæla sem vel endurspegla veikan grunn núverandi meirihluta. Það sem gæti vakað fyrir Degi er:

1. Að vilja sprengja núverandi meirihluta og mynda annan um flugvallarmálið með ,,til í allt án Villa" klúbbnum. Ekki líklegt, þar sem flestum ætti að vera ljóst að borgarbúar eru búnir að fá sig fullsadda á klækjaliðinu og eini meirihluti sem gæti átt von til að sátt ríkti um núna væri Tjarnarkvartettinn, sem er bara tríó núna.

2. Að reyna að hafa áhrif á núverandi meirihluta. Ekki líklegt, þar sem hann var að sögn, myndaður um breytingu á flugvallaráherslunum og sumir innan hans hafa ofurtrú á því að láta ,,verkin tala" í þeim efnum með því að gera ekki neitt.

3. Að stríða nýja meirihlutanum. Dagur virkar mjög hrekklaus, en er greinilega laumustríðinn, svona í anda ,,salt í sárin" skopstefnunnar. Hallast að þessari skýringu.

 


Breytt og bætt samfélagsumræða

Ekki veit ég hvort ég á að þakka blogginu, rokkinu eða einfaldlega að eitthvað liggi í loftinu, en mér finnst umræðan í samfélaginu snúast æ meira um gildi sem hafa ekki verið ýkja hátt skrifuð á stundum. Um þörf á réttlátum byggðakvóta með tengingu við fiskvinnslu, um húsafriðun og varðveislu fallegrar götumyndar sem er ekki steingeld og steríl, um réttlæti, um umhverfismál, um laun umönnunarstétta og kennara, um aðgerðir gegn spillingu ... Orð eru til alls fyrst, ekki er langt síðan gildi samfélagsins voru mæld í auðmannaveislum og verðbréfum. Ekki skal ég nú ganga eins langt og Davíð Þór Jónsson sem fagnað kreppunni á svipuðum forsendum og ég er að þylja hér upp, því ég er skíthrædd við það á hverjum kreppan kann að bitna hart, þótt þeir sem hafa efni á að tapa milljörðum væli kannski hærra, en samt fagna ég breyttum áherslum. Einhvern tíma fyrir um það bil ári þegar ég byrjaði að blogga hér á Moggablogginu var ég að reyna að orða þessa tilfinningu mína, sem þá var miklu óljósari, enda einkennin þá miklu ,,vægari". Núna er ég sannfærð um að umræðan hefur breyst. Vonandi breytist samfélagið líka.

Leyndardómar tónlistarsmekksins

Bloggfærsla Kristjáns Kristjánssonar um Johnny Cash fékk mig til að fara út í meiri háttar vangaveltur um tónlistarsmekk fólks. Um tvítugt var ég alveg rosalega þver og þrjósk með afdráttarlausan tónlistarsmekk. asmekkur1155Tilheyrði þeim hluta fólks sem gat rústað partíi með því að koma inn og segja: ,,Uppáhaldssöngvarinn minn er Andy Williams" (djók) ég sannreyndi það, það var hægt að kála heilu partíi með svona andstyggilegri athugasemd.

Með aldrinum hef ég mildast og þroskast. Hlusta á fleira en Stones, Pink Floyd, Zeppelin og Beethoven nú orðið (gerði það líka þá, en þið sjáið línuna).  

Núna langar mig alveg rosalega að kynnast ykkur bloggvinir kærir, með því að fá að vita hver er tónlistarsmekkur ykkar og jafnvel hvers vegna, smekkurinn dugar samt. Kannski skelli ég inn könnun í framhaldi, annars er þessi með Bandaríkjaforsetana ennþá vel virk svo hún er ekki á útleið rétt um sinn. Sjáum til hverjir þora að afhjúpa sig í athugasemdakerfinu. Ég skal ríða á vaðið og segja í stuttu máli hvað ég elska, en þið ættuð að heyra blandið í poka sem ég hlusta á í vinnunni! En hér er svona draumamix fyrir einn klukkutíma eða svo - mjög tilviljunakennt val augnabliksins: Creep með Radiohead, Guttavísur með Hundi í óskilum (ný útgáfa af Whiter Shade of Pale), One með Johnny Cash, sálmurinn með Bubba, Ho, ho, ho (Barðalagið í Eurovision), Ungversk rapsódía nr. 2 eftir Liszt (hljómsveitarútgáfa), Little red rooster með Stones, Dolphins cry með Magna, Satisfaction með Björk og PJHarvey, California Girls með Leningrad Cowboys og kór Rauða hersins og Bongo song með Safri Duo. 

 

 


Vetrarfegurð enn og aftur og mjög ,,selectívt" minni

Er svolítið heilluð af því hversu fallegur þessi vetur ætlar að verða, þessa fáu stilludaga sem við höfum fengið. Gleymast stormar og leiðindabálviðri, sem ég hef reyndar lítið þurft að ögra þar sem aðalvinnustaðurinn minn er háaloftið heima. Þetta kallast víst að hafa ,,selectívt" minni, svo ég brjóti nú allar reglur um að grauta ekki saman enskri og íslenskri stafsetningu. Það er notalegt að skrifa stundum á þessum afslappaða bloggvettvangi, þar sem ég hef áskilið mér rétt til að nota ritað talmál.

Langt síðan ég hef heillast svona mikið af fannfergi og vetrarham, en samt hlakka ég til að komast til Kanarí og geta farið í langar gönguferðir í sól og hita smá tíma.

Hér eru svipmyndir dagsins, sem urðu til á leiðinni úr prentsmiðjunni (Álftanes - Oddi - Prentmet - Álftanes verður rúnturinn hjá mér á næstu mánuðum).  

Bessastaðir í vetrarskrúða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flestir koma að Bessastöðum úr hinni áttinni, en þessi er ,,álftanesísk".

Dularfull vetrarbirta og Esjan yfir Tjörn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vetrarbirtan er dularfull. Horft yfir lítt snortinn hluta Norðurnessins. 

 Vetrarlitir ráða líka ríkjum inni

 

 

 

 

 

 

 

 

Og af því ég á svona falleg blóm í vasa í vetrarlitum fylgja þau með ... 


Aðfangatímabil, úrvinnslutímabil og uppskeruhátíðir (með viðkomu í matreiðslutíma)

Hef einhvern tíma rætt það hér á blogginu - eða gamla blogginu mínu - hvað tímabil tilverunnar virðast skiptast í aðfanga- og úrvinnslutímabil. Alla vega er það reyndin hjá mér sem hef unnið bæði við blaðamennsku, sagnfræðirannsóknir og -ritun, hugbúnaðargerð og jafnvel pólitík. Og nú er ég sem sagt stödd á þessu mikla aðfangatímabili, að taka viðtöl, grúska í heimildum, gera áætlanir, fletta upp á netinu, tína saman efni og úr þessu á ég svo eftir að vinna, sumu fljótlega og öðru þegar meiri heimildir liggja fyrir. Oft er erfiðara að sjá eitthvað eftir sig á meðan á aðfangatímabili stendur, úrvinnslan er þakklátara verk, svo maður tali nú ekki um uppskeruhátíðir ;-)

En engin uppskeruhátíð er haldin og engin úrvinnsla er möguleg án þess að fyrst sé safnað saman öllu sem til heyrir. Mér fannst alltaf hálf asnalegt þegar ég var í matreiðslu í Melaskóla að við vorum látnar (strákarnir fengu ekki að fara í matreiðslu á þeim tíma) taka til allt hráefni fyrst, mig minnir á einhverja litla smjörpappírsbleðla, áður en hafist var handa. En núna sé ég hvað þessi vinnubrögð voru skrambi skynsamleg. Við sluppum samt við að fara út í búð og versla ... 


Ophra og Kennedy-frændgarður með Obama og/eða á móti Hillary

Edward Kennedy, sem ekki ætlaði að taka afstöðu í forkosningum demókrata, hefur lýst yrir stuðningi við Barack Obama, líkt og Ophra nýverið. Obama fékk mikla sveiflu með sér eftir yfirlýsingu Ophru. Caroline frænka Edwards og dóttir Johns F. Kennedy hefur líkt Obama við föður sinn. Nú er stutt í 5. febrúar þegar stóri forkosningadagurinn rennur upp og mögulega mun þessi yfirlýsing hafa áhrif, reyndar hef ég meiri áhyggjur af ummælum Caronline en stuðning frænda hennar, en þó fylgir fregnum að hann sé mikill áhrifamaður (ennþá) meðal demókrata. Svolítið kaldhæðnislegt allt, þar sem öllum var það ljóst að (vonandi) verðandi forsetaeiginmaður, Bill Clinton, leit á Kennedy sem sína fyrirmynd, kannski í of mörgum efnum ;-)

Ég hef reyndar enga ástæðu til að ætla að þessar yfirlýsingar séu gegn Hillary með beinum hætti, en samt er ég sannfærð um að Edward Kennedy er ekki boðberi kvenfrelsisafla í Bandaríkjunum. Hugsandi yfir Caroline og Ophru. Ophra er auðvitað stórveldi og á þann hátt hefur hún verið góð fyrirmynd fyrir konur í Bandaríkjunum, en stundum sýp ég hveljur yfir þáttunum hennar, það eru svo blendin skilaboð til kvenna og svo grímulaus skilaboð um að vera sætar alla vega, kannski að halda kjafti líka (svo ég vitni í góðan bókatitil frá fyrri árum). Þannig að, það er kannski gott að styðja Obama en það er ekki svo gott að leggja stein í götu Hillary, og það er útkoman.


Feministaheimurinn, síður með íslensku og alþjóðlegu feministabloggi

Vil endilega vekja athygli á síðu sem hann Óli, sonur minn, hefur haldið úti um nokkurt skeið, þar sem hann tekur saman á einni síðu blogg frá þeim yfirlýstu feministum sem eru virkastir í blogginu. Heilmikil vinna að fá leyfi til endurbirtingar en afraksturinn líka góður. Núna er hann búinn að bæta um betur og kominn með link á hliðstæða alþjóðlega síðu. Hér og linkur til hliðar er FEMINISTAHEIMURINN.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband