Ó, Reykjavík, ó Reykjavík, þú yndisfagra borg ...
21.1.2008 | 20:25
Himnesk vetrarfegurð!
20.1.2008 | 17:12
Dagurinn í dag er einn sá fallegasti í vetur og þar sem veðrið var líka yndislegt þá var ekki hægt að standast þá freistingu að fara í langa og góða gönguferð um nesið mitt bjarta. Leit við í hesthúsunum og hitti Snorra og Gunna vini mína, og svo kom hann Ari minn og búinn að járna einn hest í viðbót. En myndir segja meira en nokkur orð.
Reykjavik - Fisher - Spasskí og allir hinir strákarnir okkar! Hugleiðingar eftir próf
19.1.2008 | 19:28
Fyrst smá í leiðinni um handboltalandsliðið. Ég náði seinustu mínútunum, sem voru greinilega ekki þær skemmtilegustu, en skemmtilegar þó. Og bara gaman að fá þá á fullu trukki. Það verður gaman að horfa á fyrri hálfleikinn í endursýningu, búin að frétta af þessum dæmalausu tölum! Var búin að fá sms frá Ungverjalandi til að segja mér að fara að drífa mig að horfa, en ég var að koma úr prófi sem ég hef litla tilfinningu fyrir því hvernig gekk. Mig vantar nefnilega helst 7 í þessu fagi, og mér var bara hreint ekki ljóst um hvað var verið að spyrja í sumum tilfellunum, þannig að ég hef litla hugmynd um hvort markmiðið næst, ekkert gefið í þeim efnum. Þetta próf er þó miklu minni hjalli en það sem ég náði fyrir jól, ég get hækkað mig í öðrum fögum í staðinn eða endurtekið þetta til meiri hækkunnar. Á staðna einkunn í því, sem er of lág.
En þá að aðalefni pistilsins. Það eiga nefnilega margir sínar Fisher-minningar og mín er mjög skemmtileg, segir nefnilega mikið um hversu rosalega merkilegt þetta heimsmeistaraeinvígi Fisher-Spasskí var. Tveimur árum eftir einvígið var ég nefnilega á ferð í gömlu Júgóslavíu, í gömlu Austurlandahraðlestinni, sem fór alla leið til Mið-Austurlanda en ekki bara til Feneyja eins og þessu uppgerða, uppskrúfaða. Kryddlykt og fjölbreytt mannlíf. Og um miðja nótt var vegabréfaskoðun í skugga mikils lestarslyss, sem átti sér stað á brautinni á móti okkur. Júgóslavnesku landamæraverðirnir voru aldeilis ekki á því að það væri til land sem héti Ísland. Bentu á passann minn og sögðu að það væri ekki til land sem héti: Eyja (Island) og þetta væri bara plat-passi. Ég reyndi að sannfæra þá um að þetta land væri til og fram var dregið Evrópukort. En hvað var að finna efst í vinstra horninu? Ekkert Ísland, bara ekki neitt! Nú voru góð ráð dýr, en þá datt mér eitt í hug: Reykjavik-Fisher-Spasskí! sagði ég, og benti á útgáfustað vegabréfsins míns sem var sem betur fór Reykjavík en ekki Hafnarfjörður, eins og það hefði átt að vera. Aha, sögðu landamæraverðirnir, Aha, Reykjavík, Reykjavik-Fisher-Spasskí, og ég var ekki vefengd meira.
En guði sé lof fyrir að Júgóslavar eru líka miklir skákáhugamenn, eins og Íslendingar. Það kom sér að vísu ekki vel fyrir Fisher þegar hann vogaði sér að tefla þar í landi fyrir liðlega áratug, upphafið að útskúfun hans frá fyrrverandi heimalandinu og handtöku og fangelsisvist í Japan. Þeir sem stóðu að heimkomu Fishers til Íslands eiga heiður skilinn og ég gæti sannarlega glaðst ef hann myndi hvíla á Þingvöllum, fín hugmynd, kemur í ljós hvort það verður eitthvað úr því.
Ég veit að þetta á að vera í blíðu og stríðu, en ...
17.1.2008 | 20:27
Verðskulduð viðurkenning
17.1.2008 | 18:42
Stígamót eru samtök sem hafa alltaf staðið sig vel í baráttu gegn mörgu því versta sem við glímum við. Þessi viðurkenning er verðskulduð og ánægjuleg.
![]() |
Stígamót fá alþjóðlega viðurkenningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook
Svolítið einhæft að byrja allar fyrirsagnir á: Áfram ... en sem sagt: Áfram Ísland!
17.1.2008 | 18:06
Áfram Björk!
16.1.2008 | 13:12
Ætlaði nú ekki að blanda mér í umræðuna um Björk, en ég get ekki orða bundist. Er nefnilega ekki sammála ummælum pabba hennar í fréttaþætti í gær, þar sem hann gaf í skyn að Björk fengi harðasta dóma hér á Íslandi og mesta böggið. Ég efast ekki um að það er ástæða fyrir þessum ummælum hans og virði það. Hins vegar held ég að þorri þjóðarinnar sé að springa af stolti út af Björk, eigi sér uppáhaldslög með henni (fyndið, ég var einmitt nýbúin að setja lög af YouTube hér á bloggið mitt þegar umræðan byrjaði, og tvö ar þremur voru með Björk, engin tilviljun!). Það má ekki taka mark á einhverjum örfáum leiðindapúkum sem kannski eru með leiðinlega öfund eða illvilja, svoleiðis er alltaf til en óþarfi að gefa því of mikið vægi.
Björk er dáð og elskuð hér á landi og hananú! Hún hefur ekkert verið að eltast við lögnmollu í tónlist og ekki er allt sem hún flytur nein dinnermúsík, var einmitt að heyra Declare Independence á Rás 2 og mér finnst bara æði að heyra þetta frekar tormelta en flotta lag sem ,,mainstream" spilun. Frá því hún var aðalnúmerið í Rokk í Reykjavík, kasólétt utan á VERU, að taka á móti verðlaunum og leika í myndum og fram til nýjasta túrsins hennar um allan heim þá hefur hún verið í sviðsljósinu. Frekar að fólk hafi verið að pirra sig á Einari Erni á Sykurmolatímanum (mér finnst hann reyndar æði). Og hverjum er ekki sama um einhverja hysteríska papparassa í Nýja Sjálandi? Ég held að Brit útnefningin veki alveg eins mikla athygli, þótt það sé hversdagslegri atburður þegar Björk á í hlut að hún sé útnefnd til æðstu verðlauna en að hún slái frá sér.
11 dagar í snjó
15.1.2008 | 09:28
Fyrir mörgum árum var framhaldssaga í Vikunni eftir Margit Sandemo (fyrir tíma Ísfólksins) og þessi saga hét: 11 dagar í snjó. Mér sýnist að veðurspáin stefni í það sama, að vísu með smá rigningarinnskotum kl. sex síðdegis í dag og á morgun, skrýtið innskot.
Fyrir allmörgum árum þurfti ég að fara á fund í Stykkishólmi ásamt ágætu fólki og skemmst er frá þvi að segja að þegar við nálguðumst hótel Stykkishólm síðla dags eftir fundahöld þá var orðið ansi þungt og við þurftum að brjótast gegnum skafla seinustu tugi metra, en sumir í hópnum voru talsvert eldri og veikari fyrir en ég. Mér fannst þó nóg um. Minnti helst á páskana 1966 eða 1967 þegar ég lenti í bindbyl á leiðinni upp í KR-skálann í Skálafelli þar sem ég eyddi páskunum. Þungfært og blint og litið hægt að fara út nema einn dag þá páskana. Reykingamennirnir áttu bágast og við urðum vitni að ótrúlegum viðskiptum þar sem okrað var á hverri sígarettu. Var heppin að reykja ekki, hefði farið á hausinn.
En félagar mínir í Stykkishólmi forðum kunnu mér litla þökk fyrir að rifja upp þetta heiti á framhaldssögu, 11 dagar í snjó, enda var þetta fyrir nettengingar hótela og dæmi um að fólk flytti aðsetur sitt að faxtæki hótelsins. Ég var ekki svona ómissandi og fékk óvænt og kærkomið tækifæri til að hvílast og koma mér inn í mál sem höfðu setið á hakanum. Eftir 2-3 daga var fært til að fara til baka, svo ekki urðu þetta neinir 11 dagar í snjó.
Þessi pistill er tileinkaður Grindvíkingum, merkilegur fréttapistill í gær um staðbunda ófærð í þeim indæla bæ.
Sagnfræðisukk og stærðfræðispenna
14.1.2008 | 15:50
Lífið snýst um sagnfræðisukk og stærðfræðispennu þessa dagana. Ég þarf að taka eitt sjúkrapróf (á laugardaginn) vegna pestarinnar fyrir jólin og finnst hálf fúlt að þurfa að láta trufla mig í þessu fína sagnfræðisukki sem ég er dottin í. Hver hefði trúað því að nýliðin fortíð væri svona spennandi? Allt sem ég er að safna efni í er svo spennandi, þótt úrvinnslustigið sé venjulega enn skemmtilegra. Kosturinn við að skrifa um tiltölulega nýliðna sögu, eins og ég er að fara að gera, er að það er til svo rosalega mikið af heimildum og yfirleitt mjög gott myndefni. Það er líka ögrandi að takmarka sig, reyna að sjá stóru línurnar.
En á vissan hátt er gott að grípa í stærðfræðina á milli, það er ekki laust við að það agi hugann aðeins, og slíkt er auðvitað alltaf gott. Þetta er allt gott hvað með öðru. Á meðan á þessari törn stendur ætla ég að skera niður allt annað, svo sem félagslíf og sjónvarpsáhorf (lítil fórn), ætli ég horfi á mikið meira en Stephen Fry í kvöld, Grays Anatomy á miðvikudag og Útsvar á föstudag. Ef ég verð rosa dugleg fæ ég House í verðlaun á fimmtudaginn, það væri auðvitað gaman. Bloggvirkni fer eftir pásuþörf og fleiru, ótímabært að hafa skoðun á því máli.
Nokkur ótrúlega ólík snilldarlög - og Eiður rokkar líka
12.1.2008 | 20:44
Eins gott að ég dett ekki oftar í að gramsa á YouTube, alltaf að finna gersemar þar. Ég er enn á því að Rolling Stones hafi sýnt flottustu taktana þegar þeir voru hvað blúsaðastir, og var einmitt að finna eitt af mínum uppáhaldssönnunargögnum þar um, Little Red Rooster, eldgamalt Stones lag, videó-ið er líka snilld. Njótið vel.
Reyndar finn ég ekki annað ,,little red" lag með Stones, sem ég á einhvers staðar á tölvu, en án myndbands, það er Little Red Riding Hood. Stones útgáfan er miklu betri en Sam the Sham-útgáfan. Þarf að hafa upp á henni.
Svo datt mér í hug að þarna væri líka að finna mjög fáheyrt lag með Björk og PJ Harvey, Stones-tengt líka, það er þeirra útgáfa af Satisfaction, sem er alveg ótrúlegt.
Loks er það lag sem sjaldan heyrist með Björk, Short Term Affair, ég leitaði dauðaleit um alla London að laginu, hafði bara heyrt það í Ríkisútvarpinu, og mundi ekki þá að ,,hinn" söngvarinn var Tony Ferrino en hafði pata af að um einhverja góðgerðartónleika væri að ræða. Fann diskinn og núna líka á YouTube, afsakið samt hláturinn í áheyrendum, þetta lag er betra án hans, en þetta verður að duga.
Og núna er Eiður Smári að rokka með Barcelona, skoraði fyrsta markið í leiknum sem er verið að sýna. Varð bara að nefna það í leiðinni.