Er nokkuð að renna upp fyrir mönnum vinstri grænt ljós?
26.4.2007 | 01:02
Skilaboðin hafa verið skýr í hverri könnuninni á fætur annarri, fylgið hefur verið að síga yfir á vinstri græna vænginn.Við sem fögnum höfum verið gætin í tali, aðrir bent á að þetta sé að snúast, ef fylgið sígur niður í 2,5 falt kosningafylgi í stað þrefalds. En kannski er að renna upp fyrir okkur öllum, mér líka, að þetta er líklega hætt að vera tilviljun. Ég hef aldrei efast um að við ættum fylgið skilð, en hins vegar skilið efann sem af og til kom upp í vinstri græna hjartanu.
Kosninganóttin hlýtur að verða spennandi, og já, ég ætla líka að horfa á Eurovision, vona að okkar maður verði þar meðal annarra Evrópustjarna, en það fáum við væntanlega bara að heyra skömmu áður. Annars þarf maður að fara að finna út með hverjum á að halda, alla vega ekki tékknesku Lordi-stælingunni. Eins og ég er bæði hrifin af Tékkum og þungarokki þá er þessi blanda herfileg!
Annars hef ég verið í tiltektum í kvöld, eitt hornið á stofunni hefur ekki vitað hvað það ætlar að verða þegar það verður (aftur) stórt, en er nú orðið hin ljúfasta líkamsræktaraðstaða, með skásýn á sjónvarpið. Og málverkin mín, sem hafa verið bak við skerm allt of lengi eru loksins komin í ljós aftur. Batnandi fjölskyldu er best að lifa.
![]() |
VG bætir við sig í Reykjavík suður samkvæmt könnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skynsemi og skipulagsslys
24.4.2007 | 21:21
Eins og við var að búast koma einhverjir spekingar og heimta að háhýsi verði reist á litla reitnum þar sem miðbæjarbruninn varð. Þvílík skammsýni, ég ætla að vona að skynsemin ráði ferð, og er reyndar bjartsýn á að svo verði, bæði af viðbrögðum borgarstjóra, borgarfulltrúa, góðri umræðu að frumkvæði VG og ekki síst skemmtilegu viðtali við Pétur Ármannsson arkitekt, í fréttatíma í gærkvöldi. Pétur benti á tvennt sem mér finnst einkum áhugavert, uppbygging húsanna má alveg vera í anda þess besta sem gerðist í ævisögu hvors um sig, og þarna er best að hafa mannlífsauðgandi starfsemi, Pétur brosti svolítið í kampinn þegar hann var spurður hvort það væri ekki fínt að setja safn þarna og benti hæglátlega á að það væri miklu betra að starfsemin væri meira lifandi, benti á IÐU húsið sem gott fordæmi. Pétur klikkar ekki.
Þar sem Pétur á ættir að rekja á Álftanesið höfum við verið svo lánsöm að njóta leiðsagnar hans í áttina að þeirri farsælu lendingu sem náðist í skipulagsmálum miðbæjarins okkar. Það er lausn sem þegar er farin að vekja nokkurn áhuga út í frá og fjölmiðlamenn hafa verið að spyrja hvort hér sé kannski komin fyrirmynd af fleiri miðbæjum. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessar hugmyndir sem eru niðurstaða úr arkitektasamkeppni (sigurvegarar Gassa) geta alltaf kíkt á www.alftanes.is - en rauði þráðurinn í þessum hugmyndum er grænn (!) með bílastæði neðanjarðar og grasi grónar gangstéttarhelllur (grassteina).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook
Verðmæti felast í góðum hugmyndum, góðri úrvinnslu og þekkingu - ekki nýjum álverum
23.4.2007 | 13:31
![]() |
Google orðið verðmætasta vörumerki heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook
Tilfinningaskyldan og sunnudagskvöld á pásu
23.4.2007 | 01:41
Þegar mikil vinna, nám og aðrar annir eru að drekkja manni er oft freistandi að setja mannleg samskipti á pásu, hætta að sinna vinum og vandamönnum og nota tímann í annað, það er vinnu, svefn og nám. Stundum er þetta vissulega nauðsynlegt, en í öðrum tilfellum mikill misskilningur.
Fyrir svona tuttugu árum var ég sjálfstætt starfandi (og þar með hjá harðasta húsbónda sem hægt er, aldrei frí) og hafði ósköp lítinn tíma fyrir vini og ættingja. Þá æxlaðist það þannig að vinir mínir fóru að dúkka upp á sunnudagskvöldum og í svona átján ár var það siður að hittast hjá mér á sunnudagskvöldum og skiptast á skoðunum, hlusta á músík og bara að vera til. Þessi siður hefur verið í pásu í rúm tvö ár, sem betur fer fæ ég oft kvartanir, sem bendir til þess að þetta hafi verið góð hugmynd.
Gagga frænka mín, (Gagga Lund) söngkona sem var algert æði, hafði ,,salon" á fimmtudögum, minnir mig, á meðan hún bjó í London og mér skilst að það hafi verið mjög skemmtilegt, þannig að kannski er þessi árátta í blóðinu. Ég man ekki betur en fyrsta veturinn sem ég átti með mig sjálf í Reykjavík og leigði lítið kjallaraherbergi með aðgangi að góðu eldhúsi, hafi ég verið búin að skapa einhvers konar gestakvöldssið áður en margar vikur voru liðnar. Sá siður skapaðist í kringum eggjakökuna sem ég bjó til úr eggjunum sem Hanna frænka mín gaf mér alla fimmtudaga, en þrisvar í viku skrapp ég út á Álftnes til að heimsækja heimilisköttinn meðan foreldrar mínir bjuggu erlendis, og alltaf nestaði Hanna (sem bjó í næsta húsi við köttinn) mig út með kílói af eggjum sem varð uppistaðan að þessum eggjakökuveislum. Eggjakakan var eins konar naglasúpa og alltaf dugði hún handa öllum gestum sem mættu, sem voru mismargir.
Þegar svona siða nýtur ekki við, og tilfinningaskyldan (að sinna því sem tilfinningin segir manni) kallar, þá er síminn þarfasti þjóninn. Ég á eina góða vinkonu sem alltaf passar upp á mig og hringir af og til og við spjölluðum einmitt um helgina. Svo heyrði ég loksins í Gunnu vinkonu fyrir norðan, það var sannarlega kominn tími á það, og tölvusíminn og sms-ið sá til þess að við Hanna mín náðum saman að lokum, milli helgarbíltúra hennar til Rúmenínu, Úkraínu og Slóvakíu, ég hlakka til að heyra restina af ferðasögunni! Við mamma spjöllum reglubundið saman í síma eða ,,live" og gerðum það líka og svo var barnaafmæli hjá Elísabetu systur með frjálsri mætingu og þangað mætti ég rétt í þann mund sem seinasta barnið var farið, enda var erindið miklu heldur að hitta hana, Má og krakkana, en aðra afmælisgesti, þótt það hefði nú reyndar verið gaman að hitta Nönu frænku svona í leiðinni, en maður fórnar ekkert hverju sem er til þess. Þegar maður er vaxinn upp úr barnaafmælum í bili (barnabörnin sem sagt ófædd enn) þá er svo notalegt að neita sér um þau. En allt í allt var þetta góð helgi fyrir tilfinningaskylduna.
Afstætt fylgi
22.4.2007 | 02:07
Ef ríkisstjórnin héldi velli ...
20.4.2007 | 23:43
Ómissandi fólk (stígur upp úr flensu)
20.4.2007 | 21:11
Ég veit að Maggi Eiríks syngur um að kirkjugarðar heimsins fylli ómissandi fólk, en allt í einu í dag fannst mér ég eitthvað svo ómissandi, þrátt fyrir pestina, svo ég skrapp í vinnuna, til að fullvissa mig um að allt væri í lagi. Enginn er ómissandi, en þessi skrepputúr endaði sem fullar átta stundir, þannig að ég kom bara ótrúlega miklu í verk og er í frekar skemmtilegum verkefnum þessa dagana, þar að auki.
Ótrúlegar fréttir, ef Penzínið, sem Ari hefur alltaf viljað kaupa, þótt við séum ekkert krem-fólk, á nú að fara að gagnast við öllu frá fuglaflensu til hversdagslegs kvefs. Klínískar tilraunir munu eflaust taka sinni síma, en miðað við pestakvótann minn þá ætti ég að vera á þriðju seinustu flensunni minni núna, eftir það verður þetta bara penzínið og ég, og hægt að vera enn meira ómissandi, að eigin áliti að minnsta kosti.
Veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir vinningar
20.4.2007 | 00:26
Bjarkey Gunnarsdóttir bloggaði um ómótstæðilega vinninga í kosningahappdrætti Vinstri grænna, oft hefur verið boðið vel en aldrei eins og núna. Sjáið þetta: http://www.vg.is/kosningar/happdraetti/ - ég gæti vel hugsað mér nánast alla vinningana, þannig að ég ætla alla vega að fá mér nokkra miða. Hér eru nokkur (allt of fá) dæmi um gersamlega frábæra vinninga, sem eru bæði veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir í alla staði:
5. Skák og ...: Kvöldstund við taflborðið með Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Manngangur kenndur, ef þarf. Léttar, hjartastyrkjandi veitingar. 50.000 kr.
11. Að lífið sé skjálfandi ...: Svarfaðardalur sóttur heim í boði Ingibjargar Hjartardóttur og Ragnars Stefánssonar. Kvöldverður að svarfdælskum hætti. Gisting. Fyrir fimm. 75.000 kr.
17. Í upphafi var orðið ...: Hlynur Hallsson spreyjar vel valin slagorð á vegg. 100.000 kr.
19. Fröken Reykjavík ...: Óræðar slóðir miðborgarinnar þræddar með Birnu Þórðardóttur. Hressing á leiðinni og besta lasagne norðan Modena í lokin! Fyrir sex. 60.000 kr. (þetta með lasagne er engin lygi)
23. Helgardvöl fyrir fjölskyldu í gestahúsi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Frjáls afnot af hestum, fiskibáti og öðrum afþreyingarmöguleikum, þar með talinn fjallajeppi. Í boði Steingríms J. Sigfússonar og ábúenda. 75.000 kr.
26. Í sátt við skattmann ...: Drífa Snædal gengur frá skattframtölum fimm einstaklinga. 60.000 kr.
Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að fara á síðu VG og skoða allan listann - annars get ég ekki hætt. Smella hér.
Hestamennska ... fyrir aðra
19.4.2007 | 23:25
Eins og fram hefur komið áður í þessum pistlum þá er ég óvirkur hestamaður, sem felst í því að ég hef gaman af að vera í kringum hesta og hestamenn (í réttu ástandi), get drukkið kaffi, brennivín og tekið í nefið, góð í heyskap, þokkaleg í mokstri (þótt ég sleppi yfirleitt), slarkfær í að kemba, klappa, gef ekki hestabrauð, var á tímabili þokkalega fróð í hestaættum, hef óskaplega gaman af því að ferðast um landið með hestagengjum, geri yfirleitt allt NEMA að fara á hestbak, það er að segja ekki síðan ég hryggbraut mig hérna um árið. Unglingsárin í hestamennsku líða að vísu seint úr minni, þá var þetta bara gaman. En ég er hins vegar gift miklum eðal hestamanni, og á meðan ég skrapp á skautana um daginn þá fór hann og tók þátt í vetrarleikum Sóta. Var að finna flottar myndir á Álftanesvefnum og má til með að birta þessar frábæru myndir. Þarf varla að taka það fram að það er Ari minn sem situr sinn jarpa svona vel.
Notalegt síðdegi þrátt fyrir Forrest Gump í fertugasta sinn og engar skítkaldar skrúðgöngur
19.4.2007 | 15:22
Það er hálf mislukkað að liggja í pest á sumardaginn fyrsta. Fjölskyldumeðlimir eru að horfa á Forrest Gump í fertugasta sinn, en ég er ekkert sérlega hrifin af því, músíkin er samt OK. Var reyndar að frétta það að í bókinni færi Forrest Gump líka út í geiminn, hmm, það verður alltaf að sleppa einhverju í kvikmyndaútgáfunni. En alla vega er maður ekki á rölti í einhverjum skítköldum skrúðgöngum, það eru víst ennþá skrúðgöngur en þær eru vonandi ekki eins skítkaldar og skrúðgöngur æsku minnar.
Svona löglegir letidagar hafa samt alltaf ákveðinn sjarma.