Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Listin að mála (stærðfræðiformúlur á bolla, endurvinna módelmyndir og klína út veggi)

Málaði samtals í sjö og hálfan tíma í dag, bæði veggi og ofn í þágu hugsjónarinnar og einnig var ég greinilega komin með svolítið fráhvarf frá myndlistinni. Skil eiginlega ekkert í því  hvað ég hef verið  róleg þessar 3 vikur sem ég var í fríi frá myndlistinni. Línan á veggnum sem ég var að klára ,,fínmálningu" á var ekki neitt til að hrópa húrra fyrir, en ég er svolítið ánægð (ennþá alla vega) með myndirnar sem ég var að vinna í. Ein fær að flakka með, þetta er svona endurvinnsla, hef verið að flokka stórar módelmyndi, henda sumum, taka myndir af sumum og stafla þeim sem á að geyma. 

CIMG4272 Þá er sagan sögð til hálfs, því svo er að troða þessum risastóru myndum á lítinn og sætan striga. Þá vandast málið stundum, en stundum er ég sátt. Hvort myndin hér til hliðar er búin eða ekki hef ég reyndar ekki hugmynd um, hún er nýkomin á strigann. Svo er ég reyndar að mála stærðfræðiformúlur og gömul dæmi úr RRR (Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki) á bolla (myndir af bollum) - pínulitlar myndir - en gleymdi að taka myndir af því dæmi.


Hversdagslífið hefst aftur á morgun - og það er bara ágætt

Sama sagan endurtekur sig um hverja jólahátíð. Ég er ekkert viss um hvort eða hvenær jólaskapið hellist yfir mig, en ég veit það hins vegar vel í þann mund  er hversdagslífið hefst á ný að hátíðin hefur verið raunveruleg. Daglegt líf færist í fastar skorður á nýjan leik (reyndar ekkert mjög fastar þegar ég er að vinna í lausamennsku eins og núna) - minni tími til bóklesturs, fleiri skyldur, allar búðir opnar, hversdagslífið tekur við og vinnan verður reglubundin á nýjan leik. Mataræðið skánar til muna, misþungur veislumatur orðinn meira en ofnotaður. Jólaskapið hefur verið til staðar og jólin enn einu sinni verið tími sem gaman er að upplifa, þótt hver jól séu með sínum hætti. Það er bara gott að halda út í hversdagslífið á ný, fyrir mér merkir það meðal annars að ég get haldið áfram að taka viðtöl fyrir viðbótina á Álftanessögunni minni, og Myndlistarskólinn í Kópavogi opnar dyr sínar á nýjan leik fyrir mér og öllum hinum. Gleðilegt hversdagslíf!

Smá Murphy í viðbót - en samt hef ég trú á þessu ári!

Þá er það bara smá Murphy í viðbót. Skuggalega vel við hæfi, sumt alla vega. Það er allt í lagi að vera með smá bölmóð svona í upphafi árs, en til að fyrirbyggja misskilning þá vil ég taka það fram að ég hef fulla trú á þessu ári. Kosningaár, sem sagt, það er alltaf gott. Ef þetta verður ekki kosningaár verð ég alla vega illa svikin.

En hér er Murphy vinur vor:

Lögmál Van Herphen:

Lausinin að því að leysa vandamál felst í því að finna einhvern sem getur leyst vandamálið.

Lögmál Baxters:

Villan í forsendunum finnst í niðurstöðunum. 

Fyrsta lögmál McGee 

Það er undravert hversu langan tíma tekur að leysa viðfangsefni sem ekki er unnið í. 

Lögmál  Ruckerts:

Ekkert vandamál er svo smátt að ekki sé hægt að missa það fullkomlega úr böndunum. 

Lögmál Biondis:

Ef verkefnið sem þú ert að vinna í er ekki að virka, skoðaðu þá þætti sem þér fundust lítilvægastir.

Lögmál Allen:

Nánast allt er auðveldara í að komast en úr að sleppa.

Lögmál Young um hreyfanleika kyrrstæðra hluta:

Allir kyrrstæðir hlutir geta hreyfst nógu mikið til þess að verða í vegi fyrir þér. 

Regla Fahnestock um mistök:

Ef þér mistekst í fyrstu atrennu skaltu eyðileggja öll ummerki um að þú hafir reynt. 

 

 

 


Skrambi gott skaup

Skaupið í ár var með þeim betri að mínu mati. Hlýtur að vera vandaverk að skrifa skaup við þessar þjóðfélagsaðstæður. Facebook brandarinn var einlæglega kúl og pólitíkin tekin föstum tökum. Leikararnir hver öðrum betri, hér er kominn hinn fullkomni Geir, röddin var fullkomin, og Tjarnarkvartettinn var líka ótrúlega vel heppnaður. Margt hárbeitt - það er mikill kostur - og þótt ég hafi séð skaupið að hluta tvisvar (byrjunina aftur á Plús vegna smá tékks). Óska Silju og öllum hinum til hamingju - og hver hefði trúað því að Jón Gnarr gæti umhverfst í Pál Óskar. Þeir brandarar voru nöturlegir en hittu vel.

Árið hófst með ættingjum og vinum

Indælis upphaf á ári sem vonandi verður gott. Rólegt gamlárskvöld, mamma leit við í kalkúninn okkar, sem var vel heppnaður. Nokkrir flugeldar á miðnætti og svo skaust ég í bæinn með Óla og vin hans og lenti í skemmtilegri stjórnmálaumræðu á leiðinni, sem er alltaf hressandi. Í dag rólegheit aftur, en smá rennerí eins og hæfir ársbyrjun, fyrst kom Sæa, tengdamóðir mín, í heimsókn. Elísabet systir kom með Kjartan með sér rétt eftir að hún fór, mamma og vinkona mín frá Betware-árunum, Tang Hua, komu í nýárssteikina og svo sátum við og spjölluðum fram eftir kvöldi. Ari hefur líka fengið nokkrar sjúkraheimsóknir, en það var fyrra! Hann er reyndar kominn á ferð og flug, enda á sjálfskiptum bíl, en þarf samt að taka það rólega áfram, ökklabrot er alltaf ökklabrot.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband