Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
Uppreisn í Sjálfstæðisflokknum?
13.1.2009 | 20:53
Landsamband Sjálfstæðiskvenna á greinilega meiri samleið með okkur vinstri grænum og utanríkisráðherra en eigin flokki og ályktun gegn árásum Ísraelsmanna á saklausa borgara á Gaza er þeim til mikillar sæmdar að mínu mati.
Það leynist ekki nokkrum manni að mikil ólga er í Sjálfstæðisflokknum nú í kjölfar landsfundar. Hver hefði trúað því að sveitarstjórnarmaður Sjálfstæðismanna myndi skrifa á xd vefinn grein þar sem hann veltir því fyrir sér af fullri alvöru hvort það sé dragbítur á framboði hans og félaga hans í Sjálfstæðisfélagi sveitarfélagsins að tilheyraSjálfstæðisflokknum. Merkileg grein:
... og við vitum öll að þetta eru ekki einu dæmin um ólguna í Sjálfstæðisflokknum.
![]() |
Sjálfstæðiskonur fordæma árásir á Gasa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
PIRR!
13.1.2009 | 20:36
Get ekki að því gert - ég er pirruð! Ef það er rétt að ástandið sé að versna þá óttast ég að ekkert muni verða gert - rétt eins og í tragíkómedíunni sem við fylgdumst með í haust, þegar allt var í himnalagi þar til við sáum safn af steinhissa stjórnmálamönnum með þrjá fallna banka og yfirlýsingarglaðan seðlabankastjóra. Ég hef áður á þessari síðu vísað til leikritsins: Biedermanns og brennuvarganna. Mögnuð samsvörun, eins og þeir vita sem þekkja verkið.
Líka pirruð yfir því að tilheyra kynslóðinni sem kannski verður svipt lífeyrisgreiðslum og horfir kannski á eftir henni í svínarísslóð Stórríks og skunkanna sem honum fylgja. Vissulega er ég af þessari sömu kynslóð sem nurlaði fyrir sparimerkjum í bernsku og fékk út andvirði hálfs frímerkis, fékk fyrstu verðtryggðu lánin sem voru upphaflega greidd með hálfum mánaðarlaunum í afborgun tvisvar á ári en enduðu með næstum þrennum! (þetta var á tíma misgengisins fræga).
Dóttir mín var þriggja eða fjögurra ára þegar hún fór með okkur fjölskyldunni að heimsækja Stínu frænku sína í Hrauneyjarfossum, en lenti í að aka gegnum eldgos (það er gjóskuna) á bakaleiðinni. Næst þegar halda skyldi til Stínu, sem þá var flutt til byggða eftir sumarvinnu fjölskyldunnar, sagði sú stutta: - Æ, nei, ekki til Stínu, ég nenni ekki eldgos!
Mér er svipað innanbrjósts, ég nenni ekki að taka þátt í þessu rugli, en á ekkert val ef ég vil halda áfram að vera Íslendingur. Mér líkar ekki kuldi, finnst álver heimskuleg atvinnustefna, þoli ekki hálku, finnst langir vinnudagar ekki skynsamlegir, lítið hrifin af roki, elska hlýja golu, stutta og snarpa vinnudaga og ekkert hangs en samt elska ég Ísland, fegurð landins er ótrúleg gjöf sem við ættum að sjá sóma okkar í að varðveita! Afsakið þetta pirr, það er í boði ríkisstjórnarinnar.
Gerviþarfir: Eurovision 2009
12.1.2009 | 22:53
Sá einhvers staðar tillögu um að sleppa því að setja milljónir í Eurovision þetta árið. Get eiginlega ekki annað en verið sammála og það þótt ég geri mér grein fyrir að einhver uppgrip séu fyrir tónlistarmenn í kringum þetta ævintýri og vilji þeim allt hið besta. Hmmm, það er verið að skera svo margt niður, skoða þarf allar tillögur. En þessa klausu setti ég á blað á laugardagskvöldið, minnir mig, en gleymdi að birta hana. Hún er enn í gildi.
Af praktískum ástæðum (afsökun er kannski ekki nauðsynleg, en þessi er engu að síður rétt) er ég farin að fylgjast með Eurovision strax í fyrstu atrennu. Athyglis mína vakti að kynnarnir voru ekki í neinum glamorklæðum, heldur þykkum vetrar- og kreppuklæðum, sem var bara hressandi. Smá kynni af Evu Maríu og frammistaða Steinunnar í Astrópíu valda því að ég er rosalega jákvæð í garð þeirra.
Vildi að ég gæti sagt það sama um lögin. Kannski lærast þau og venjast, en það sem ég batt helst vonir við, lag Valgeirs, er dottið út. Þau voru allt of einsleit, ekkert með húmor, ekkert með þrumandi rokkkrafti og áttu það til að detta út í væl.
Troðfullt á fróðlegum fundi Heimssýnar
11.1.2009 | 22:51
![]() |
ESB myndi stjórna hafsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
ESB-fundahelgin mikla
10.1.2009 | 19:42
Í dag fór ég á góðan fund um ESB á vegum Vinstri grænna og á morgun er fundur hjá Heimssýn þar sem sjónum er beint að sjávarútvegsmálum, Íslandi og ESB. Einhvern tíma var sagt hjá Kvennó: Sá á fund sem finnur - og ég er að finna óvenju mikið af fundum. Hér er fundurinn á morgun, sunnudag:
SJÁVARÚTVEGURINN OG ESB
Fundur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins nk. sunnudag 11. janúar frá kl. 15 - 17.
Ræðumenn:
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
Peter Örebech, þjóðréttarfræðingur við Háskólann í Tromsö
Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)
Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fiskvinnslustöðva (SF)
Frjálsar umræður og fyrirspurnir úr sal eftir því sem tími gefst til. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Á fundinum verður leitað svara við ýmsum brennandi spurningum sem upp kynnu að koma í hugsanlegum aðildarviðræðum við ESB:
- Hafa verið gerðar undanþágur frá meginreglunni um alger yfirráð (exclusive competence) ESB yfir auðlindum sjávar í aðildarríkjum?
- Er hugsanlegt að vikið verði frá viðmiðunarreglu ESB um veiðireynslu (relative stability) á næstu árum?
- Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á samningsstöðu Íslendinga um deilistofna?
- Hvaða áhrif hefur ESB-aðild á hæfni yfirvalda til að taka skjótvirkar ákvarðanir um verndun veiðisvæða?
- Stafar íslenskum sjávarútvegi aukin hætta af kvótahoppi á erfiðleikatímum eftir hugsanlega ESB-aðild?
- Yrði breyting á kvótakerfinu við ESB-aðild?
Heimssýn,
hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
Notaleg nótt yfir sokkaprjóni og þrjár rómantískar gamanmyndir
10.1.2009 | 01:43
Frjáls vinnutími hefur ýmsa kosti, þótt stöku morgnar detti inn í vinnutímann, svo sem morguninn í morgun, þegar ég var búin að bóka mjög fróðlegt viðtal tengt vinnunni minni. En þegar þannig stendur á getur verið gott að geta leyft sér að bæta úr smá bráðræði, svo sem þvotti á risasokki sem prýðir gifsklæddan fót eiginmannsins þessa dagana. Þvottur á þessum ullarsokki endaði með ósköpum og undarlega smáu og þykku eintaki, vel þæfðu. Þannig að upp voru teknir prjónar, rómantísk gamanmynd sett í tölvuna og byrjað að prjóna annan sokk í stað þess sem ég hafði prjónað daginn eftir að Ari minn braut sig. Það tekur næstum þrjár rómantískar gamanmyndir að prjóna einn hnéháan risasokk á fimm prjóna. Náði að klára áður en Ari vaknaði, árla að vanda, og var vel stolt yfir unnu verki og vel mett af rómantískum gamanmyndum í bili alla vega. Gaman að geta einstaka sinnum leyft sér svona lagað, gagn og gaman.
Gleymum ekki Gaza
7.1.2009 | 01:14
Hugur og hjarta í Evrópusambandsmálum
7.1.2009 | 01:12
Greinilegt að Evrópusambandsumræðan er að leika Sjálfstæðismenn grátt, sífellt fleiri framámenn í flokknum eru að missa tengslin við grasrótina og henda sér um borð í Evrópusambandslestina. Skilaboð um að grasrótin sé ekki sama sinnis koma úr ýmsum áttum, en eins og oft vill verða hættir sumum til þess að rugla saman því að vera kjörnir fulltrúar fólksins og því að eiga að ,,hafa vit fyrir lýðnum". Fréttir af nýliðnum fundi í Valhöll, þar sem einn af áhrifameiri þingmönnum flokksins bar fyrir sig kalda skynsemi í afstöðubreytingu sinni gagnvart sambandinu staðfestir þetta. Frásögn um fundinn frá gamalreyndum fjölmiðlamanni er áhugaverð. Köld skynsemi getur fengið marga til þess að gera heimskulega hluti og margir hafa einmitt flaskað á slíku, bæði prívat og í opinberu lífi. Skyldi það ekki hafa verið undir yfirskyni kaldrar skynsemi sem margar af þeim viðskiptaákvörðunum voru teknar sem komu okkur á kaldan klaka þannig að ekki varð aftur snúið? Við ESB aðild verður heldur ekki snúið.
Matthías Jóhannessen fjallar um hug og hjarta í Evrópumálum á síðu sinni: www.matthias.is með þessum hætti:
Ég hef verið að hugsa um Evrópusambandið og aðildina að því,Hef ekki enn gert upp hug minn, en mun gera það fyrir landsfund.
Hjarta mitt segir nei,heilinn já.
Ég ætla að sjá til,hvort hefur betur.
En áhyggjur af þessu eru litlar,því hér mun þróun ráða hvað sem okkur líður.
En mér stendur ógn af regluveldi.
Vonandi lætur Matthías og fleira gott fólk hjartað ráða ef upp kemur ágreiningur milli hugar og hjarta af þessu tagi. Regluverkið sem honum stendur ógn af er raunverulegt og verst er að þessar reglur eru flestar samdar af mönnum sem við þekkjum ekki deili á, fáum aldrei að vita hverjir eru og eru andlitslausir en áhrifamiklir embættismenn í flóknu skrifræði Evrópusambandsins. Vonandi man hann hvað flokksbróðirinn, Björn Bjarnason, sem ég er reyndar ekki oft sammála, sagði fyrir allmörgum árum (efislega): Það þarf kannski ekki nema eitt atriði til þess að vera andvígur aðild að ESB, ef þetta eina atriði er nógu mikilvægt.
Þetta eina atriði, sem myndi duga mér, er fjarlægðin frá valdinu og ákvarðanatökunni í ESB. Ég verð alltaf jafn undrandi þegar ég heyri íslenska verkalýðsforingja (úr takti við fólkið sem þeir eiga að vera fulltrúar fyrir) lýsa því hversu gríðarleg áhrif við ættum að geta haft innan sambandsins. Og sem kvenfrelsiskona sem þekkir söguna, þá veit ég líka að völd og áhrif kvenna fara dvínandi eftir því sem fjær dregur valdi og ákvarðanatöku. Tölfræðin um þetta breytist lítið. Fleiri ástæður valda því að ég hafna aðild, en þessi vegur þungt.
Ég á fjölmarga vini meðal Evrópusambandsandstæðinga í löndum innan ESB og það er átakanlegt að heyra ástæður þess að þeir hafa kosið að lýsa andstöðu sinni í garð sambandsins, þrátt fyrir að þeir viti að það skapar þeim óvinsældir áhrifamikilla manna. Kosningaþátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins er hrikalega léleg, gjarnan í kringum 50% og jafnvel lægri, og það er þó eina leiðin til að velja sér fulltrúa sem hefur einhver áhrif á stefnu ESB, ekki þó eins mikil og flestir hinna andlitslausu áhrifamanna sem í raun taka ákvarðanirnar.
Listir, myndlist, ástríða, snobb og þekking
6.1.2009 | 20:23
Það er margslungið að fást við myndlist. Eins og ég er óþreytt að nefna ,,lenti" ég einu sinni sem oftar (viljandi kannski) í myndlistarástríðukasti nú í haust og ekkert lát á því. Jafnframt sækja á mig, eins og alltaf þegar ég lendi í myndlistarkasti, ótrúlega áleitar spurningar um eðli listar og listiðkunar. Hópurinn sem ég er í er alveg einstaklega skemmtilegur og þetta umhverfi er hvetjandi og skemmtilegt og ég hef eins og endranær lært alveg óskaplega mikið af því að fylgjast með myndlist og aðferðum annarra. Hópar eru misgefandi, þessi er mjög fínn og ég er alltaf þakklát fyrir að komast í tæri við góðan, kraftmikinn og skapandi hóp sem tekur myndlist grafalvarlega (eins og ég, sorrí, þetta er bara ástríða).
Stundum dettur maður í að skoða myndlist annarra, hellir sér út í listasögupælingar, skoðun, heimspekilegar vangaveltur og ýmislegt annað.
Þegar ég lauk stúdentsprófi hellti ég mér út í fullt nám í myndlist og var í því í næstum tvo vetur, bestu vinkonur mínar þar voru báðar mjög hæfileikaríkar myndlistarkonur, en geysilega ólíkar. Jóhanna Kristín Yngvadóttir lést um aldur fram, feikilega flottur málari, myrk og dramatísk, orð eru reyndar vandmeðfarin í stuttaralegri umfjöllun um list. Hin, Svala Sigurleifsdóttir, hefur unnið að sinni list jafnt og þétt með brauðstritinu og ég vildi svo sannarlega að hún væri enn meira áberandi í íslensku listalífi en hún er nú, en það getur alltaf breyst.
En ég var ósátt við snobbið í kringum listaheiminn þá og nú og ýmsar klisssjur og ,,sannleika" sem hefta menn í ósveigjanlega afstöðu gagnvart list og listaumfjöllun. Listaheimurinn á áttunda áratugnum var einhvern veginn allt annað en það sem togaði mig. En ég gat ekki stungið af og hef aldrei getað, ekkert sem ég hef fengist við um ævina hefur tekið jafn mikinn tíma, orku og pælingar, ekki enn, og það er auðvitað bara yndislegt.
Hugsandi eftir daginn, umfjöllun um verk okkar nemendanna í allan dag. Ég var reyndar mjög sátt við þá umfjöllun sem ég fékk. Það besta er að ég hlusta og geri svo bara það sem ég sjálf vil, er í þannig hópi. Var hvött til þess að halda áfram með módelmyndirnar mínar, já, já, það getur svo sem verið ágætt, en ég hef nú reyndar aðrar hugmyndir og mun eflaust láta eftir mér, enda í frjálsri myndlist. Þannig að ég held bara mínu striki og nýt þess að láta myndlistina taka sífellt meiri tíma í lífinu. En það sem var mest gefandi var að skoða verk samnemenda minna, ég var hreinlega að springa af þörf fyrir að tjá mig um verk þeirra og tók auðvitað þátt í umræðunum, en reyndi (af meðfæddri kurteisi ;-) að halda mínum þætti innlegginu innan velsæmismarka, svona tímalega séð. Langaði að segja miklu meira (og reyndar allt fallegt). Inni á milli voru alls konar umræður og meira að segja óvæntur mini-fyrirlestur og svo textaskýringar við nokkrar myndir, sem voru áhugaverðar. En ég finn líka að myndlist og myndlistarumfjöllun svo mikið hjartans mál að það hefur bæði kosti og galla, mjög hugsandi yfir einu máli sem upp kom í umræðunni.
Áramótaskaupið í þriðja til fjórða sinn og enn er það urrandi fyndið
6.1.2009 | 00:00