Listir, myndlist, ástríða, snobb og þekking

Það er margslungið að fást við myndlist. Eins og ég er óþreytt að nefna ,,lenti" ég einu sinni sem oftar (viljandi kannski) í myndlistarástríðukasti nú í haust og ekkert lát á því. Jafnframt sækja á mig, eins og alltaf þegar ég lendi í myndlistarkasti, ótrúlega áleitar spurningar um eðli listar og listiðkunar. Hópurinn sem ég er í er alveg einstaklega skemmtilegur og þetta umhverfi er hvetjandi og skemmtilegt og ég hef eins og endranær lært alveg óskaplega mikið af því að fylgjast með myndlist og aðferðum annarra. Hópar eru misgefandi, þessi er mjög fínn og ég er alltaf þakklát fyrir að komast í tæri við góðan, kraftmikinn og skapandi hóp sem tekur myndlist grafalvarlega (eins og ég, sorrí, þetta er bara ástríða).

Stundum dettur maður í að skoða myndlist annarra, hellir sér út í listasögupælingar, skoðun, heimspekilegar vangaveltur og ýmislegt annað.  

Þegar ég lauk stúdentsprófi hellti ég mér út í fullt nám í myndlist og var í því í næstum tvo vetur, bestu vinkonur mínar þar voru báðar mjög hæfileikaríkar myndlistarkonur, en geysilega ólíkar. Jóhanna Kristín Yngvadóttir lést um aldur fram, feikilega flottur málari, myrk og dramatísk, orð eru reyndar vandmeðfarin í stuttaralegri umfjöllun um list. Hin, Svala Sigurleifsdóttir, hefur unnið að sinni list jafnt og þétt með brauðstritinu og ég vildi svo sannarlega að hún væri enn meira áberandi í íslensku listalífi en hún er nú, en það getur alltaf breyst. 

En ég var ósátt við snobbið í kringum listaheiminn þá og nú og ýmsar klisssjur og ,,sannleika" sem hefta menn í ósveigjanlega afstöðu gagnvart list og listaumfjöllun. Listaheimurinn á áttunda áratugnum var einhvern veginn allt annað en það sem togaði mig. En ég gat ekki stungið af og hef aldrei getað, ekkert sem ég hef fengist við um ævina hefur tekið jafn mikinn tíma, orku og pælingar, ekki enn, og það er auðvitað bara yndislegt.

Hugsandi eftir daginn, umfjöllun um verk okkar nemendanna í allan dag. Ég var reyndar mjög sátt við þá umfjöllun sem ég fékk. Það besta er að ég hlusta og geri svo bara það sem ég sjálf vil, er í þannig hópi. Var hvött til þess að halda áfram með módelmyndirnar mínar, já, já, það getur svo sem verið ágætt, en ég hef nú reyndar aðrar hugmyndir og mun eflaust láta eftir mér, enda í frjálsri myndlist. Þannig að ég held bara mínu striki og nýt þess að láta myndlistina taka sífellt meiri tíma í lífinu. En það sem var mest gefandi var að skoða verk samnemenda minna, ég var hreinlega að springa af þörf fyrir að tjá mig um verk þeirra og tók auðvitað þátt í umræðunum, en reyndi (af meðfæddri kurteisi ;-) að halda mínum þætti innlegginu innan velsæmismarka, svona tímalega séð. Langaði að segja miklu meira (og reyndar allt fallegt). Inni á milli voru alls konar umræður og meira að segja óvæntur mini-fyrirlestur og svo textaskýringar við nokkrar myndir, sem voru áhugaverðar. En ég finn líka að myndlist og myndlistarumfjöllun svo mikið hjartans mál að það hefur bæði kosti og galla, mjög hugsandi yfir einu máli sem upp kom í umræðunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband