Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Tvö ný álver og svo skulum við verða grænir á nýjan leik

Tvö ný álver og svo skulum við verða grænir á nýjan leik. Einhvern veginn þannig heyrist mér að endurreisn umhverfisímyndar Framsóknarmanna verði undir stjórn nýja formannsins. Reyndar er ég ekkert viss um að Framsókn hafi nokkurn tíma verið svo ýkja umhverfisgræn, frekar græn í anda framræstra túna með miklum áburðargjöfum, en það er önnur saga. En þá vitum við það.

Köflóttur dagur

Hélt, þegar ég vaknaði í morgun, að þessi pest ætlaði að vera óvenju snögg að ganga yfir, en ónei, ekki alveg. Vondur kafli fylgdi í kjölfarið, sá versti í pestinni, en svo hef ég verið á réttri leið, eyddi nokkrum tímum ,,á skrifstofunni" og kláraði tölvupósta og uppflettingar sem ég hafði sett sjálfri mér fyrir. Vonandi er þetta allt að skána. Náði mér í smáskammt af fréttum úr fjölmiðlum og viðtal við Sigmund Davíð, en núna stend ég mig að því að horfa á American Idol, ekki alveg að virka allt saman, en þokkaleg skemmtun. Pestarlíf er ekki beint skemmtilegt og nú þarf þessu að linna.

Skýr skilaboð hjá Framsókn, en breytist eitthvað?

Framsóknarmenn hafa sent skýr skilaboð til síns fólks: Breytingar eigi síðar en nú! Eftir mjög undarlega niðurstöðu í Evrópumálunum sem hefur verið súmmeruð einhvern veginn svona upp: Við skulum sækja um aðild en setja skilyrði sem ekki er hægt að uppfylla, ekta já, já, nei, nei stefnu, gerist loksins eitthvað óvænt í herbúðum helsta afturhaldsins. Erfðaprins gömlu flokksforystunnar (Halldórs Ásgrímssonar og co.) kemst ekki einu sinni í aðra umferð, en tveir menn sem eru á móti ESB aðild en þora ekki að vera á móti aðildarviðræðum í orði alla vega, komast í aðra umferð. Í svefrofum pestarinnar sem ég ligg í missti ég að vísu af því þegar Höskuldur var lýstur formaður, en það verður eflaust endurtekið í fjölmiðlum. Og niðurstaðan var heldur ekki sú, mjótt var á munum en niðrustaðan þó ágætlega skýr, formaður framsóknarflokksins er maður sem er nýgenginn í flokkinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Að vísu af rótgrónum framsóknarættum, en hvað með það, það eru margir.

Nú er bara spurningin, breytist eitthvað. Þessi framsóknarmaður er alla vega ekki eins og margir hinna gömlu, en það eru hins vegar þeir sem sitja eftir á þingi, endurnýjunin sem orðið hefur vegna afsagna hefur enn ekki skilað neitt breyttri umræðu og ég held að raunverulegra breytinga sé ekki að vænta nema kosið verið á nýjan leik - strax! Sonur minn hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði: Kannski verður bara hægt að vinna með Framsókn (þá væntalega eftir næstu kosningar). Við erum auðvitað jafn vinstri græn eftir sem áður og barnmerkið góða: ,,Aldrei kaus ég Framsókn" í fullu gildi. Hér er svo youtube-skotið sem kom Sigmundi Davíð á kortið - önnur góð ábending frá syni mínum, þetta hefur alveg farið framhjá mér en gaman að láta fljótameð:


En ef þetta reddast nú kannski ekki?

Eins og (margir) aðrir Íslendingar fékk ég gamankunna tilfinningu í magann í haust, svona innan um undrunina, pirringinn og hneykslunina: Þetta reddast.

Það er ekki fyrr en núna á seinustu vikum, þegar ég sé hvaða svik og prettir hafa verið í gangi og hversu alvarlegar afleiðingar andvaraleysi stjórnvalda eru að ég er farin að hugsa: En ef þetta reddast nú kannski ekki?

Búin að mótmæla, blogga, hugsa, sjá fullt af skemmtilegum lausnum: Frystingu lána til að gefa fólki grið til að hugsa, nýsköpunarstyrki, ókeypis vinnuaðstöðu fyrir fólk með frjár hugmyndir (NB fólk sem er að drepast úr peningaáhyggjum er kannski ekki með svo frjóar hugmyndir, þess vegna þarf að frysta lán og gefa grið. Hér er einfalt system sem á endanum myndi ábyggilega koma út með hagnaði: Fyrir hverja krónu sem hafa ,,týnst" (að okkur er sagt tímabundið), verið afskrifaðar, horfið eða verið stolið af hálfu hinna ógeðslega ríku er afskrifuð króna af skuldum okkar hinna. Jibbí, þetta væri nothæft og myndi enda með miklu betra samfélagi grósku og nýsköpunar. Er ekki alltaf verið að segja okkur að þetta sé baraí bili, en í raun séu eignir á móti mestöllum skuldum banka og bankamanna? Það sé bara tímaspursmál hvenær þetta verði innheimt! Á meðan þarf að láta einhverja peninga vinna, er það ekki lausnarorðið að leyfa þessu peningum að vinna. Það var það alla vega á meðan þeir sjúklega ríku áttu þá.

Vissulega hefur sprottið mjög góð umræða upp um stjórnskipulag og möguleika á breytingum á því. Ég er hins vegar ekki að sjá að nokkur skapaður hlutur sé að fara að gerast í þeim málum. Sorrí!

Urrr! (Og svo er einhver pest að anga okkur í ofanálag, mér finnst að Ísland ætti að vera ,,flu-free-zone" á meðan þessi leiðindi ganga yfir.


Æi, ekki er Eurovision alveg að rokka - enn

Lýsi enn eftir húmor eða rokki í Eurovision-framlagi Íslands. Ekki komið enn.

 


Pestin

Það var svo sem við því að búast að ,,pestin" legði fleiri í rúmið en soninn á heimilinu, sem er búinn að liggja í viku. Nú er ég sem sagt búin að fá ,,pestina" og er ekkert sérlega kát yfir því. Nú orðið fæ ég frekar sjaldan umgangspestir, en á meðan krakkarnir mínir voru litlir kom hver einasta pest við hjá okkur og ég tíndi þær allar upp og það var ekki beint skemmtilegt.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af núna er að verða ekki orðin frísk og fersk fyrir næstkomandi föstudag, þegar ég þarf að keppa fyrir Álftanes í Útsvari. Best að gera allt sem hægt er, drekka engiferte sem hún Tang Hua vinkona mín kenndi mér að nota gegn kvefi, mikið af vatni, sofa og sofa og svo hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að það sé snjallt að taka paratabs við beinverkjunum. Þetta síðastnefnda geri ég líklega ekki, ekki vön að taka verkjatöflur nema í neyð og einhvern veginn hef ég aldrei litið á beinverki sem neyð. En æi, þetta er fúlt! Það eina góða við pestir er dagurinn þegar pestin er allt í einu að baki, fyrir mér er það alltaf eins og ákveðin endurfæðing.


Hárrétt skref utanríkisráðuneytis

Margt er furðulegt við þessa frétt og ég veit ekki hvort það er til siðs að tilkynna fyrirvaralausar heimsóknir til að reyna að lappa uppá orðsporið þegar heimurinn er að ranka við sér (að hluta) og fordæma aðgerðirnar. Viðbrögð utanríkisráðuneytisins eru auðvitað hárrétt, svo langt sem þau ná.
mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Janúardagar

Sérlega fallegur dagur í dag. Snjóföl yfir  öllu hér suðvestanlands, líklega um mestallt landið. Útsýnið yfir Grafarvoginn yndislegt, en þar var jarðarför Möggu Odds og mikið fjölmenni. Sólin að hækka á lofti, hik og bið í samfélaginu vegna ástandsins en líklega langt í að vor verði í lofti og sinni. Hlýindin um daginn voru í bland við svartasta skammdegismyrkrið svo það var ekki beinlínis vorlegt þótt fallegt væri. Janúar er ekki minn uppáhaldsmánuður og í febrúar höfum við Ari oftast forðað okkur í frí undanfarin ár, varla núna þó, það styttir veturinn mikið þegar gert er. En stundum þarf að gera fleira (eða færra) en gott þykir.

Í minningu Margrétar Oddsdóttur

Á þrettándann sátum við saman, ég og Heiða vinkona mín, og ræddum það hvað við söknuðum oft Jóns Ásgeirs Sigurðssonar, kærs vinar okkar, ssem lést langt fyrir aldur fram. Ég spurði hana hvort hún hefði einhverjar fregnir af líðan Möggu Odds, ekkju Jóns, sem hefur glímt við krabbamein um nokkurra missera skeið. Heiða vissi af því að hún væri í stöðugri sjúkdómsmeðferð, en hvoruga okkar óraði fyrir því að þremur dögum síðar yrði hún látin. Það er mikill missir af Margréti Oddsdóttur - það vita allir sem áttu því láni að fagna að kynnast henni.

Aðeins hálft annað ár er síðan við kvöddum Jón Ásgeir, lífsförunaut Margrétar. Þá var það hún sem átti hlýlegt orð handa okkur sem stóðum ráðvillt eftir og vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið. Hún var svo sterk og róleg eins og jafnan, flottasti skurðlæknirinn á læknaþinginu á Ísafirði (heimabæ Möggu) en það fékk ég tækifæri til að sækja þegar ég var að vinna fyrir Læknablaðið og fékk þá tilfinningu fyrir þeirri virðingu sem hún naut meðal kollega sinna. Hún var konan sem var að koma af næturvakt í New Haven þegar 20-30 Íslendingar mættu í ,,brunch" fyrir eftirminnilega haustlitaferð. Jón hvíslaði því að mér eða hún hefði tekið á móti einu eða tveimur fórnalömbum morðárása þá um nóttina. Hún var sallaróleg að sjá, áreiðanlega þreytt en síður en svo buguð. Hún var stoltið hans Jóns þá sem endranær og þótt sorgin sé sár núna get ég ekki annað en óskað börnunum þeirra til hamingju með þessa einstöku foreldra.

Það er alltaf erfitt að sætta sig við það þegar fólk er hrifsað burt í blóma lífsins  og erfiðast þegar börnin fá ekki einu sinni að vaxa úr grasi áður en þau missa foreldra sína. Það er aldrei auðvelt að kveðja þá sem hverfa á braut, hvort sem í hlut á aldraður heiðursmaður sem ég kvaddi með sveitungum mínum um daginn, eða kona á besta aldri, sem á svo mörgu ólokið bæði í lífi og starfi.


Ókeypis skemmtun af besta tagi

Einmitt þegar ég var að koðna niður í svartsýni fyrir hönd þjóðarinnar, mannkynsins og heimsins alls sendi Erna frænka mín í Ameríku mér alveg stórkostlega gleðifilmu. Kettir eru snilld, en þessir kettir eru stórsnilld, takk Erna! Og njótið vel.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband