Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Mein sem er innbyggt í kerfið

Flestir munu sammála um að fiskveiðistjórnun sé nauðsynleg og ekki megi ofgera stofnunum. Hins vegar virðist sem eitthvert fólk - sem jafnvel tekur ákvarðanir um fiskiveiðistjórnun - haldi að það sé einhver lausn að vera með kerfi sem tekur ekki á brottkasti nema með takmörkuðu og fjársveltu eftirliti og kattarþvotti sem vonar að þetta sé nú ekki svo slæmt!

Meðan ég var að skipta mér af pólitík fékk rauk ég eitt sinn upp í pontu og talaði eitthvað um brottkast og fékk í kjölfarið símtal sem ég hef oft vitnað til. Það var frá einum af þekktustu útgerðarmönnum landsins sem lét sér sæma að öskra á mig í símann, eflaust eitthvað um að svona ,,stelpur sem hefðu ekki hundsvit á sjávarútvegi" ættu að halda kjafti. Ég öskraði á móti og við skildum í fullum fjandskap. Sótrauð kom ég fram og hlammaði mér á milli þeirra Guðjóns A. Kristjánssonar og Steingríms J. sem litu forviða á mig. Ég hreytti út úr mér: Það hefur aldrei bröndu verið kastað í sjóinn! og sagði þeim hver heimildarmaður minn væri. Guðjón skellti uppúr og Steingrímur J. varð hugsandi á svip.

Ástandið hefur ekki skánað meira en svo að í stað þess að afneita þessari staðreynd, þá gera menn nú orðið bara lítið úr þeim. Man að Einar Oddur (áður en hann settist á þing) sagði eitt sinn á þingi fiskvinnslunnar að það væri einkennilegt hvað afli sem kæmi að landi væri alltaf alveg nákvæmlega af jafn stórum fiski, skyldu ekki veiðast fiskar sem væru af annarri stærð? Mest var hann þá að vísa til þess afla sem unnin var um borð í frystitogurum. 

En þetta var þá. Margt hefur breyst og nú er lag að fá þjóðarsátt um fiskveiðimál, og þótt fyrr hefði verið, þjóðarsátt sem tryggir að allur afli komi að landi, að fiskvinnslulottóinu linni, kvóti fylgi byggðarlögum og vinnslu ekkert síður en útgerð og í kerfinu sé ekki hvatt til brottkasts eins og nú er. Tonnið sem komið er með að landi er jafn stórt og tonnið sem veitt er, þótt 400 kílóum sé kastað og aðeins 600 kíló komi að landi. Verðmætin eru kannski ekki þau sömu, en með hvertjandi aðgerðum til að fá undirmálsfisk að landi svo verðmæti aflans sé ekki enn einn hvatinn að brottkasti, mætti komast langt. Það ætti að vera hægt að reikna út skynsamlega meðalsamsetningu afla og jafna út á árið hjá hverju kvótahafa fyrir sig og kanna sérstaklega aðstæður ef aflasamsetning einhvers aðila er óeðlileg. Hjálpartæki gætu verið upplýsingar um mið og rannsóknir á aflasamsetningu á svipuðum slóðum. Sóknarmark er annað sem stundum er talin möguleg leið til að takmarka brottkast, ekki endilega óskaleiðin, en ef það gæti stemmt stigu við brottkasti þá væri það sannarlega vel þess virði - treysti fólk sér ekki í aðrar aðferðir. 

Mórallinn í sögunni er, núverandi kerfi mælir ALLS EKKI réttan heildarafla og getur því ekki verið nógu góður grunnur að úthlutun heildarkvóta.  

Miðað við núverandi ástand þá þyrfti að fara bil beggja, auka heildarkvóta til dæmis um helming þess afla sem nú er talið að sé kastað á brott. Þannig fengist hvatning og minni afli væri dreginn úr sjó. 

 


mbl.is Segir brottkast að aukast gífurlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldrahúsið í nýtt húsnæði, listsýning í háskólanum á vegum Skyns og krakkarnir í Álftanesskóla

Mikið var gaman að sjá nýja húsnæðið undir Foreldrahús Vímulausrar æsku, sem var vígt í dag. Gamla Foreldrahúsið við Vonarstræti var löngu sprunigið undan starfseminni en þetta húsnæði er hreinn draumur. Vinir og velunnarar Foreldrahússins fjölmenntu og unglingarnir sem hafa verið í eftirmeðferðinni í Foreldarhúsinu fengu okkur sem vorum viðstödd til að muna að með því að gefast aldrei upp bætist alltaf í hóp þeirra fíkla sem komast yfir vandann. Oftar en ekki liggur að baki elja og eldmóður fjölskyldunnar og stuðningur Foreldrahússins, en þau eru engu að síður sigurvegararnir.

Annar sigurvegari var með listsýningu í Hámu á Háskólatorginu, það var ung þýsk stúlka, Freddie, sem er á leið í doktorsnám hér á Íslandi þrátt fyrir sértæka námserfiðleika sem eflaust hefðu stoppað einhverja hæfileikaríka manneskju af. Hún er líka listakona og ég vona að sem flestir hafi séð verk hennar á Háskólatorginu, en ég var auðvitað allt of sein að plögga fyrir þessa sýningu, afsakið það. Missti reyndar sjálf af Fabúlu sem söng í tilefni þessarar sýningar, og það var auðvitað alveg afleitt.  Félagið Skyn er nýtt í háskólaflórunni, það er félag stúdenta með sértæka námsörðugleika, svo sem lesblindu, ADHD og ýmislegt fleira. Mér heyrist að háskólasamfélagið, til dæmis námsráðgjöfin, ætli að taka þessu félagi fagnandi, en það er frekar ungt og ómótað enn sem komið er. 

Flesta vetur fæ ég tækifæri til að vera með krökkunum í 4. bekk í Álftanesskóla þegar byrjað er að kenna námsefni um Álftanes, sem ég ber ábyrgð á. Það er eiginlega alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að segja krökkunum hérna á nesinu frá þessari lygilegu sögu sem við Álftnesingar eigum og þessir tímar eru alltaf skemmtilegir. 60 mínútur með krökkunum eru eiginlega allt of fljótar að líða. Þessar 60 mínútur voru einmitt í dag, þannig að þessi dagur hefur verið nokkuð sérstakur í tilverunni.

 


Hungur í heiminum - American Idol og rifjaðar upp gamlar hugsjónir

Það er einn kostur við American Idol, það er hægt að gera heilmargt á meðan. Og svo hverf ég ekki frá því að þarna innan um er mikið af hæfileikafólki, svo mjög að ef frá eru taldir David-arnir tveir og Carly (þetta seinasta er ég stundum svolítið ein um) þá getur hver sem er farið heim hvernær sem er. Í kvöld var ekkert Vá! í gangi meðal keppenda en Jason Castro var með skemmtilega útgáfu af Somwhere Over the Rainbow, en hana var ég reyndar búin að sjá á netinu.

En aðaltónleikar kvöldsins voru eflaust Idol gives back. Mér finnst hvaða aðferð sem er eiga rétt á sér í svona tilvikum, og þarna safnast fullt af peningum til góðra málefna. Auðvitað er það skömm að yfir höfuð skuli ekki vera búið að leysa þessi vandamál, sem mörg eru auðleyst, það var einmitt rifjað upp í útvarpi í dag að fyrir svona 40 árum var maður að rölta um og safna fyrir Herferð gegn hungri og hélt að það yrði seinasta stóra söfnunin, það var svo sannarlega ætlunin að leysa málið þá. Tveimur eða þremur árum seinna vorum við enn með talsverð vonbrigði í sálinni á hungurvöku í Casa Nova í Menntó, enn vegna sama málefnis. Við vitum hvernig hefur gengið - ekki nógu vel - en það merkir ekki að leggja eigi árar í bát. Þetta kveikti alla vega heitar umræður á heimilinu, um stefnu okkar Íslendinga í þróunarmálum (friðargæsla í Afganistan, er það brýnasta verkefnið?) og hvernig lítils háttar stuðningur og breytingar geta skipt sköpum í Afríku. Og skotin frá Ameríku voru líka sláandi, einkum ofbeldið og þau verkefni sem eru í gangi til að finna leið úr þeim vítahring. 

Í fréttum í dag hefur lika mikið verið fjallað um yfirvofandi matvælaskort vegna nýrrar hættu, of dýrra matvæla fyrir fátækustu þjóðirnar og þjóðfélagshópana. Nokkuð langt er síðan farið var að benda á hættuna af því að eldsneytisframleiðendur færu að yfirbjóða matvælakaupmenn til að búa til ,,lífrænt" eldsneyti úr korni. Það er ekki aukandi á vandann og tími til kominn að taka upplýstar ákvarðanir áður en það er of seint. Vonandi verður umræðan nógu fljótt nógu heit til að snúa blaðinu við meðan enn er tími til. Alla vega tel ég að fjölmiðlar séu að standa sig í stykkinu og rétt að geta þess, svo oft sem ég er að naggast í þeim.  


Tvær lúðrasveitarmyndir

Netið okkar hefur verið leiðinlegt um helgina, og reyndar af og til að undanförnu, en ég ætla samt að henda inn tveimur lúðrasveitarmyndum frá því að frændur mínir voru að spila í gær. Reyni ekki að setja myndbrotið sem ég tók upp fyrr en þetta ástand skánar.

CIMG2211 Hér er Sveinn Rúnar frændi minn nákvæmlega fyrir miðju.

 

 

 

 

 

 

 

 

CIMG2216Og hér má sjá Kjartan á klarinettið rétt vinstra megin við miðju.

 

 

 

 

 

 

 

 


Vaknaði við alhvíta jörð og ESB áróður, enn einu sinni ...

Ég hélt það væri komið fram í miðjan apríl. Það þýðir ekkert að tala um páskahret, páskarnir voru snemma í ár, mjög snemma. En alla vega þá kann ég ekki allskostar að meta þessi frjálsu framlög úr loftinu. Undanfarna daga hefur verið þetta fína gluggaveður og ,,gula fíflið", eins og gamall vinnufélagi minn kallaði sólina svo óvirðulega, verið duglegt við að láta sjá sig. Ekki var betra að hlusta á Silfur Egils, sem í þetta sinn var reyndar Pjátur Egils. Hann er nefnilega farinn að safna æði mörgum Evrópusambandssinnum saman í þættina sína (sumum reyndar undir því yfirskyni að þeir vilji ,,bara" taka upp evru, sem þeir vita mæta vel að merkir Evrópusambandsaðild). Eins og Egill er nú mætur þáttastjórnandi, svona yfirleitt (Kiljan er betri en blikkið), og bráðskemmtilegur oft að auki, þá finnst mér þetta óþarfa tilraun til heilaþvottar. Hann hefur reyndar aldrei haldið því fram að hann vilji vera fullkomlega óvilhallur, þannig að hann er svo sem ekki einu sinni að sigla undir föslku flaggi, bara frekar leiðinlegu flaggi að mínu mati.

En nú hlýtur vorið að fara að koma og lýsa inn í hræddar sálir samlanda okkar. Hér er veðurspáin í næstu viku alla vega og vedurvonandi að þetta skánandi tíðarfar nái til kjarks, skynsemi og ábyrgðartilfinningar okkar sem ættum að geta að rekið hér besta samfélag allra samfélaga, með aðeins færri ál-plástralausnum með tilheyrandi efnahagssveiflum, aðeins meiri hollustu gagnvart umhverfinu og mörgum smáum lausnum í atvinnumálum, þar sem hugvitið, sem oft er mært á tyllidögum, fengi að njóta sín. Held að fólk skilji ekki alveg eða vilji taka ábyrgð á þeim breytingum sem við höfum sjálf í hendi okkar, stjórn efnahagsmála. Það er aldrei nauðsynlegra en í alþjóðlegri viðskiptakreppu að hafa góða stjórn á eigin efnahagsmálum. Nú stefnir í tvö ný álver, þenslu, (mjög líklega verður lítið búið að lærast um óheilbrigði eyðslufyllerísins) og enn eina niðursveiflu í kjölfarið þegar allir verða búnir að gleyma þessari. Hvar er skynsemin og bjartsýnin eiginlega núna?


Múðralúsík

Ekki láta heitið á pistlinum rugla ykkur. Ég held að þetta heiti sé ættað frá móðurafa mínum, sem ég man ekkert eftir, en heyri oft af. Datt þetta bara í hug af því helgin fram til þessa hefur verið svolítið rugluð, en ósköp góð samt. Slatti af misskilningi og uppákomum, sú besta þegar sími eins heimilismeðlims fékk að fljóta með uppi á húddinu á bílnum mínum og út í Skátakot, yfir 5 hraðahindranir. En bóndinn kom heim með enn einn verðlaunapeninginn úr Bakkareið hér á nesinu, hörð samkeppni, þannig að hann var sáttur við sætið, þótt hann hafi stundum farið ofar.

En sem sagt, svo fór ég á lúðrasveitartónleika að hlusta á systursyni mína tvo, sem búa á næsta nesi til hægri (eða vinstri, eftir því hvernig maður snýr). Þeir eru hvor í sinni sveitinni, Sveinn Rúnar yngri og í þeirri með yngri börnunum, en Kjartan í eldri barna/unglinga-lúðrasveitinni, sem ég hef heyrt í áður og er alltaf að verða betri og betri. Heyrði þar meðal annars í fyrsta sinn lag eftir Tómas R. sem heitir eftir ágætum kokteil, Dakiri og nú er ég alveg ákveðin í að leita að þessu lagi á netlendum, vona að það hafi verið hljóðritað. Krakkarnir spiluðu það líka flott. Reyni svo að finna tíma til að skutla inn myndum og kannski tón- og myndbroti á morgun, þó ekki væri nema fyrir Magga frænda ;-)


Vor í lofti og er þjóðin tilbúin í smá bjartsýniskast (eða ekki)?

FAllegir vordagar og bjartsýnismælirinn í Hafnarfirði sýndi 9 gráðu hita í gær meðan sá raunsæi í bílnum hélt sig við 4 gráðurnar. Eins virðist örla á bjartsýni innan um svartsýnishjalið, auglýsendur auglýsa lækkun vöruverðs vegna styrkingar krónunnar meðan Seðlabankinn spáir hruni  fasteignaverðs og talsmaður SA spáir hruni trúverðugleika Seðlabankans, eða er hann bara að óska þess svo han sjái þær breytingar sem hann vill fá? Rétt eins og vorið með fallegu gluggaveðri og kulda í bland, þá eru teiknin á lofti efnahagsvorsins misvísandi. Ég á eftir að taka sérstaka rispu á þeirri undarlegu umræðu sem hefur verið um ESB-aðild og evrumál, þar sem Eiríkur Bergmann hefur tekið saman skýrslu um ágæti aðildar að ESB og/eða upptöku evrunnar á buddu almennings. Hverjar eru fréttirnar, Eiríkur Bergmann að útmála kostina við að ganga inn í Evrópusambandið? Það væri fréttnæmt ef hann teldir einhverja annmarka á slíku, ÞAÐ væri frétt. En ég þarf að fara í gegnum alla fyrirvarana sem hann setti í frétt annarrar hvorrar sjónvarpsstöðvarinnar á fimmtudagskvöld til að segja ykkur nánar frá því. Nóg í bili, úti skín sólin og veðrið í stofunni minni er að gefa einhver fyrirheit um góðan dag, jafnvel gott vor.

Slæðingur af ljóðabókum hefur verið á stofuborðinu okkar að undanförnu, meðal annars borgarskáldið Tómas. Það er hann sem yrkir:

Í nótt hefur vorið verið á ferli

og vorið það er ekki af baki dottið

því áður en fólk kom á fætur í morgun

var fyrsta grasið úr jörðunni sprottið

Reyndar sé ég aðallega fagurfjólubláa krókusa stinga sér upp úr moldinni þessa dagana en ekki mörg strá. Það er svo alveg óþarfi af Tómasi að  enda ljóðið eins og hann gerir, en þetta er bara svo fyndin vísa að hún fær að fljóta með, og sumir vilja nú reyndar halda því fram að við séum á þessu stigi núna, eftir þenslufyllerí undanfarinna ára:

En sumir halda að hausti aftur

þá hætta víst telpur og grös að spretta

og mennirnir verða vondir að nýju

því víxlarnir falla og blöðin detta.  


Máttur og máttleysi auglýsinga

Dagskrárhefti sem datt inn um lúguna í dag var aldrei þessu vant lesið á heimilinu, venjulega fer það beint til mömmu, sem ekki fær svona ,,þéttbýlispóst" enda býr hún nokkra tugi metra frá skipulögðu gatnakerfi.

Nema hvað, ég sá þessa frábæru auglýsingu frá hreingerningarfyrirtæki þar sem það benti fyrirtækjum og húsfélögum á að það gerði fólki tilboð í reglubundnar ræstingar að kostnaðarlausu. Nú býst ég við að tilboðið sé gert að kostnaðarlausu en ekki að þrifin séu að kostnaðarlausu, en blessuð málfræðin gerði auglýsinguna skemmtilega tvíræða. Sú tilgáta kom reyndar fram á heimilinu að einhver myndi láta á þetta reyna, en líklega nennir því enginn.

Reyndar voru fleiri auglýsingar í þessu litla riti sem virkuðu vel, aðallega niðurtalning á nokkrum nýjum og gömlum sjónvarpsþáttum sem toguðu (ekki meira þó en svo að ég man ekkert hvaða þættir þetta voru, fyrir utan Grey's Anatomy sem er sárt saknað, hefst í apríl! og dagskrárritið sem nær fram til  16. apríl sýnir ekki tangur né tetur af nýjum þáttum úr seríunni). En á hinn bóginn verð ég að viðurkenna að aðrar dagskrárauglýsingar hafa þveröfug áhrif á mig. Svalbarði er gott dæmi. Eflaust er þetta vænsti þáttur, og Ágústa Eva gerði góða hluti með Silvíu Nótt og í Mýrinni, en þessar auglýsingar virka þannig á mig: Ekki horfa! Alveg sama þótt ég þykist elska absúrd húmor. Ég elska líka fyndinn húmor. En svo getur vel verið að ég detti niður í þennan þátt einn góðan veðurdag og hrífist með.


Vona að slysaöldunni fari að linna

Óvenju mikið af alvarlegum slysum þessa dagana, vonandi fer þessu að linna. Allar sögurnar á bak við hvert slys minna mig á hvað það er dýrmætt þetta líf. Vissulega er það margt fleira en slysin sem getur sett strik í þann reikning, það fer ekkert á milli mála, en hvað varðar slysin þá er þó hægt að gera eitthvað til að stemma stigu við þeim, og þar á ekki að horfa í kostnað - annars erum við farin að setja verðmiða á líf og limi fólks og það er ekki sæmandi.

Margrét Pála: Ég var svo lánsöm að vera ekkert sérlega lukkulegt barn - viðtal í Húsfreyjunni

Fyrr á þessu ári var ég svo heppin að fá tækifæri til að taka viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur, höfund Hjallastefnunnar, sem flestir þekkja. Hafði reyndar lengi dreymt um að taka viðtal við hana, enda hlýtur það að vera óskaviðtal allra blaðamanna, sem áhuga hafa á kvenfrelsismálum. Nú er blaðið komið út, Húsfreyjan, og ég er himinilifandi yfir því að sjá að viðtalið er eins gott og mig minnti, sem er reyndar vegna þess að viðtalsefnið er kona sem hefur ákveðnar skoðanir, setur þær skýrt fram og stendur og fellur með meiningu sinni.

margPalaHún segir frá þeirri skemmtilegu tilviljun í þessu viðtali að þegar hún skrifaði grein í Húsfreyjuna um Hjallastefnuna fyrir hartnær tveimur áratugum þá féll sú grein alveg í skuggann á sams konar efni í Bleiku og bláu, sem þá var virðulegt rit um kynlíf, kynfræðslu og kyneðli undir ritstjórn Jónu Ingibjargar Jónsdóttur. Skemmst er frá því að segja að við tók tveggja ára ströggl við kerfið og gegn ótrúlegum fordómum sumra í garð hennar og Hjallastefnunnar, en einkum hennar persónulega.

Ég gat því ekki annað en brosað í kampinn þegar ég sá að á sama tíma og viðtalið mitt við hana birtist í Húsfreyjunni, þá voru henni veitt verðlaun, sem án efa gætu freistað einhverra til að taka afstöðu til hennar og verka hennar á ekki alveg hárréttum forsendum, rétt einu sinni. Það er sem sagt fræðilegur möguleiki að viðtalið falli í skuggann ;-) sem mér finnst reyndar vitlaust. Hvort tveggja er að engin hugmyndafræði getur eignað sér verk hennar né heldur ætti nokkur að geta tekið afstöðu með eða á móti því sem hún er að gera á nokkrum öðrum forsendum en þeim að kynna sér það. Þessi togstreita er reyndar eitt af því sem ber á góma í viðtalinu.

Hvet ykkur alla vega til að kaupa nú Húsfreyjuna, eða fá ykkur blaðið á bókasafni, og lesa þetta viðtal, ég lofa því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Viðtalið er undir yfirskriftinni: ,,Ég var svo lánsöm að vera ekkert sérlega lukkulegt barn" og í því vona ég að þið kynnist Margréti Pálu betur en áður, það er vel þess virði. 

Myndin er úr Húsfreyjunni og myndasmiðurinn náði mjög skemmtilega að fanga þá stemmningu sem mig langaði að sýna lesendum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband