Foreldrahúsið í nýtt húsnæði, listsýning í háskólanum á vegum Skyns og krakkarnir í Álftanesskóla

Mikið var gaman að sjá nýja húsnæðið undir Foreldrahús Vímulausrar æsku, sem var vígt í dag. Gamla Foreldrahúsið við Vonarstræti var löngu sprunigið undan starfseminni en þetta húsnæði er hreinn draumur. Vinir og velunnarar Foreldrahússins fjölmenntu og unglingarnir sem hafa verið í eftirmeðferðinni í Foreldarhúsinu fengu okkur sem vorum viðstödd til að muna að með því að gefast aldrei upp bætist alltaf í hóp þeirra fíkla sem komast yfir vandann. Oftar en ekki liggur að baki elja og eldmóður fjölskyldunnar og stuðningur Foreldrahússins, en þau eru engu að síður sigurvegararnir.

Annar sigurvegari var með listsýningu í Hámu á Háskólatorginu, það var ung þýsk stúlka, Freddie, sem er á leið í doktorsnám hér á Íslandi þrátt fyrir sértæka námserfiðleika sem eflaust hefðu stoppað einhverja hæfileikaríka manneskju af. Hún er líka listakona og ég vona að sem flestir hafi séð verk hennar á Háskólatorginu, en ég var auðvitað allt of sein að plögga fyrir þessa sýningu, afsakið það. Missti reyndar sjálf af Fabúlu sem söng í tilefni þessarar sýningar, og það var auðvitað alveg afleitt.  Félagið Skyn er nýtt í háskólaflórunni, það er félag stúdenta með sértæka námsörðugleika, svo sem lesblindu, ADHD og ýmislegt fleira. Mér heyrist að háskólasamfélagið, til dæmis námsráðgjöfin, ætli að taka þessu félagi fagnandi, en það er frekar ungt og ómótað enn sem komið er. 

Flesta vetur fæ ég tækifæri til að vera með krökkunum í 4. bekk í Álftanesskóla þegar byrjað er að kenna námsefni um Álftanes, sem ég ber ábyrgð á. Það er eiginlega alveg ólýsanlegt hvað það er gaman að segja krökkunum hérna á nesinu frá þessari lygilegu sögu sem við Álftnesingar eigum og þessir tímar eru alltaf skemmtilegir. 60 mínútur með krökkunum eru eiginlega allt of fljótar að líða. Þessar 60 mínútur voru einmitt í dag, þannig að þessi dagur hefur verið nokkuð sérstakur í tilverunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Hvar er nýja foreldrahúsið til húsa ??

Þú hefur misst af af miklu ef að þú hefur misst af Möggu Stínu (fabúlu) hún er alveg ofsalega góður tónlistarmaður, að mínu mati einn af þeim fremstu á Íslandi.

Linda litla, 16.4.2008 kl. 07:51

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það er á neðstu hæðinni í Borgartúni 6, gömlu Rúgbrauðsgerðinni, í mjög björtu og fallegu húsnæði. Varðandi Fabúlu, þá langaði mig einmitt að sjá hana ,,live" en ég hef auðvitað fylgst heilmikið með henni, og sammála, hún er mjög flott.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.4.2008 kl. 15:46

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábært að Foreldrahúsið sé komið í gott húsnæði, Borgartún 6 er miðsvæðis en eflaust auðveldara fyrir foreldra að fá bílastæði þar ...

Guðríður Haraldsdóttir, 16.4.2008 kl. 19:02

4 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Það er gleðilegt að heyra að það varð að veruleika að Foreldrahúsið fékk inni á nýjum stað. Synd að hafa misst af fögnuðinum í dag. Eg óska Foreldrahúsinu til hamingju og velfarnaðar og sendi þeim hlýjar kveðjur.

Ein af stofnendum og þátttakendum í starfi Foreldrahúsins

Jóhanna Garðarsdóttir, 16.4.2008 kl. 20:10

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta er mikill áfangi og ég er spennt að líta við aftur á rólegri tíma, og já, það eru nefnilega bílastæði þarna, sem er mikill kostur! Þau eru baka til og þar er líka inngangur, eins á framhlið hússins.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.4.2008 kl. 22:01

6 Smámynd: Linda litla

Það fer nú víst að líða að því að ég þurfi að virkja mig þar, "litli unglingurinn" er orðinn 8 ára.

Linda litla, 17.4.2008 kl. 09:06

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það er alveg óskaplega mikið af góðu fólki í Foreldrahúsinu og það sem mér finnst svo flott er þegar verið er að efla ungu krakkana í að vera sjálfstæð og ekki fórnarlömb misvandaðra vinahópa heldur stolt af sjálfum sér.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.4.2008 kl. 12:09

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband