Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Nokkrar góðar stundir án netsins - og hugleiðingar um svefn, vinnu og vöku

Yfirleitt kemur það sér illa ef netið dettur út, sem gerist auðvitað aðeins um helgar, eða svo finnst mér alla vega. En í dag var ég netlaus í allmarga klukkutíma og svo heppilega vildi til að ekkert sem ég vissi um hvíldi á mér, var búin að senda sjálfri mér nýjasta textann sem ég var að skrifa (vinnan mín og það sem eftir er af námi byggjast á að skrifa) í tölvupósti og engar nýjar viðbætur eftir það, auk þess em USB lyklar eru alltaf til, því tölvan var á sínum stað. Þannig að ég átti bara nokkrar góðar stundir án netsins, en held ég hafi verið ein heimilismeðlima sem þetta ástand háði ekki að marki.

Nokkrum sinnum hef ég fjallað hér á blogginu um þessi aðfanga- og úrvinnslutímabil sem koma í öllum verkefnum og reyndar í tilverunni eins og hún leggur sig. Aðfangatímabilin krefast oft vinnu á dagvinnutíma og mikilla samskipta en afraksturinn er ekki eins sýnilegur. Úrvinnslutímabilið er yfirleitt skemmtilegra, þá er uppskeran að sýna sig. Og núna er ég á fullu í úrvinnslu á öllu því efni sem ég hef verið að sanka að mér að undanförnu. Klikkaði reyndar smá tíma á einu grundvallaratriði, mér finnst alltaf best að skrifa á nóttunni. Í þetta sinn var ég búin að vera svo lengi að vinna (sjálfstætt) á dagvinnutíma að ég hélt að ég gæti alveg eins skrifað á daginn. Og rembdist, og rembdist, þar ég ég loks gafst upp og fór að skrifa á nóttunni, eftir góðan morgunsvefn, afgreiðslu á praktískum málum svo sem símtölum og tölvupósti milli þrjú og fimm síðdegis, fínan síðdegisblund og smá sjónvarpsgláp áður en ég hófst handa. Frá því ég hætti að streitast á móti þessu vinnulagi sem hentar mér svona ljómandi vel, þá hafa skriftirnar gengið vel. Stundum kíki ég líka á tölvupóstinn áður en ég fer að sofa undir morgun, en ég vinn svo sem ekki alltaf fram á morgun. Reyni að sofa þegar ég er þreytt og vaka þegar ég er í vinnustuði, og þetta er bara svo ljómandi gott.

Hef alltaf verið afskaplega trúuð á að góður svefn geri vinnuna auðvelda (og svo er oft svo skemmtilegt að sofa, einkum ef draumarnir eru spennandi), en hins vegar geta góðar vökulotur verið mjög gagnlegar líka. Oftast hafa þær verið í sambandi við vinnulotur þegar ég er að ljúka verkefni, á meðan ég sinnti grafík að einhverju gagni var varla hægt að hefjast handa upp á minna en 20 stundir í senn og svo vann ég í nokkur ár með mjög skemmtilegu liði (hjá Betware) sem átti það til að vaka saman fram á morgun og skemmta sér í góðra vina hópi, það má heldur ekki vanmeta slíkt. Stöku sinnum tek ég líka svoleiðis tarnir með vinum, fjölskyldu og/eða ættingjum og það er gott ef allir eru í aðstöðu til að greiða svefnskuldirnar sem safnast upp. Ég er ekkert undrandi á þeim rannsóknum sem ég hef verið að lesa seinustu misserin um að hægt sé að greiða svefnskuldir eftir á eða jafnvel að safna upp svefninnistæðu. Grínaðist lengi með það ef ég fékk mikla svefnþörf að nú væri eitthvað að fara að gerast og ég í fyrirbyggjandi svefnuppsöfnun. Meira að segja einhver læknir hjá Ophru var víst að segja um daginn að hún svæfi hiklaust í 15 stundir ef henni fyndist hún þurfa á því að halda. Einmitt það sem ég leyfði mér á laugardaginn, endurnærð og nú er líka gott að halda áfram að vinna, eitthvað fram á morgun.

Eitt enn, þegar ég er í 9-5 vinnu (sem oft hefur gerst, jafnvel árum saman) á nánast ekkert af þessu við. Og ég er líka sannfærð um að fólk er misjafnt að þessu leyti, A-fólk, B-fólk og svo fólk eins og ég sem er ábyggilega C. Fyrir suma er reglulegur svefn áreiðanlega í öllu tilfellum réttur. Sumir verða hreinlega niðurdregnir á óreglubundnum svefni, en þá held ég reyndar að ekki eigi við það sem ég get (oftast) leyft mér, að vera í aðstöðu til að sofa þegar viðkomandi er þreyttur og vaka þegar vinnustuðið er gott. Það eru ákveðin forréttindi að vinna hjá sjálfum sér, en harðari húsbónda (húsmóður) er erfitt að finna, undir það veit ég að margir geta tekið.


Síðasta lag fyrir (fimm) fréttir

Á föstudagskvöldum kemur fyrir að við Nína systir dettum inn í tónlistarsukk, spilum alls konar merkilega og ómerkilega tónlist hvort fyrir aðra, eða réttar sagt, ég fer á tónlistarflipp og hún hefur gaman af sumu, og kemst að inni á milli. Einum vini mínum var þannig lýst að honum þætti lag ekki gott nema að hann hefði setti plötuna sjálfur á fóninn. Sem betur fer hefur hann góðan tónlistarsmekk. Ég er ekki þannig en niðurstaða kvöldisins er sú að við systur erum þessar tvær á landinu sem eru ekkert sérlega upprifnar yfir Sálinni. Hins vegar höfum við komið víða við í kvöld og fram á rauða nótt. Og ekki seinna vænna að setja inn síðasta lag fyrir fimm fréttir. Þau verða ábyggilega fleiri en eitt og eiga það sameiginlegt að vera ekki með upprunalegum flytjendum.

Fyrsta Travis lagið sem ég heyrði (og kolféll fyrir Skotunum, tónleikar þeirra hér voru til dæmis æði!) var tökulagið Hit me Baby One More Time, sem ég vissi ekki þá að væri Britney Spears-lag, lærði að meta stelpuna síðar (ekki að grínast). En ég held alltaf jafn mikið upp á þessa Travis útgáfu:

 

Reyndar er ÞETTA fyrsta úgáfan sem ég heyrði, en þarna eru hljómgæði og mynd mun lakari, en hins vegar finnst mér þessi útgáfa enn skemmtilegri, en maður þarf að vera svolítið húkkt á Travis til að vera sammála. 

Næst smá diss á Wonderwall með Oasis (ég fílaði Blur alltaf betur). Þetta er kannski smá í sama anda og Ragga Bjarna útgáfan af ,,Smells like Teen Spirit" (sem er snilld) nema hér er videóið alveg bráðnauðsynlegt, en röddin hans Ragga dugar: 

Loks er það smá misskilningur, ætlaði að leyfa Nínu að heyra Jeff Buckley útgáfuna af Hallelujah, en lenti á allt annarri útgáfu og varð bara ansi hrifin en finn hana auðvitað ekki þannig að ég skelli bara annarri með Rufusi Wainwright inn í staðinn:

 


Hellaristur

Ég er hugfangin af hellaristum. Var svo lánsöm þegar ég fór að heimsækja foreldra mína í Frakklandi rétt upp úr tvítugu að fá tækifæri til að fara inn í alvöru helli í Dordogne dalnum, ekki þennan frægasta (Lascaux) heldur annan minna þekktan (La Mouthe), sem þó var opinn. Núna er líklega búið að loka þeim öllum. En hughrifin voru rosaleg. Á þessum tíma var ég í námi í Myndlista- og handíðaskólanum og líka í sagnfræði í háskólanum og sennilega nýlega búin að uppgötva töfrana sem hellaristurnar framkalla. Þetta er menning forfeðra okkar, í rauninni fyrsta túlkun sem vitað er um, þar sem hellisbúarnir sem lifðu á veiðum, tjáðu eitthvað mjög töfrandi.

Rifjaðist upp fyrir mér þegar Guðný vinkona mín sagðist vera að fara til Frakklands. Hún er svo sem ekkert að fara á þessar slóðir, en við vorum í upprifjunarstuði, þannig að þetta kom í hugann. Svo dró ég upp nafnspjaldið mitt, sem ég lét prenta þegar ég uppgötvaði að ég átti ekki nafnspjald, af því ég vinn ,,bara" hjá sjálfri mér. En það fylgir því ákveðið frelsi að vera með eigið spjald, svo ég skellti bara nafni, email og símanúmeri á það og svo einni af grafíkmyndum mínum. Og Guðný var fljót að fatta tenginguna við hellaristurnar, á efri hlutanum aðallega, en myndefnið er reyndar sannar svefnstellingar Grámanns okkar, mikils undrakattar sem við áttum lengi. Og ég læt þessa mynd fljóta með og vona að fleiri kunni að meta hana.

 


,,Gamalt" rússneskt lag um Reykjavík

Það stendur í upplýsingum um þetta lag að það sé gamalt lag sem var vinsælt í Rússlandi um 2000. Rosa gamalt! En hann Halldór sendi mér þetta áðan og ég bara VERÐ að leyfa fleirum að njóta.

 


Verður kannski jákvæð barátta um viðskiptavinina? Ef svo verður ætla ég að taka þátt

Áðan fór ég og fyllti bílinn minn. Sem betur fór tók litla, sæta bensínstöðin mín, Olís í Garðabæ, þátt í verðlækkun dagsins, svo ég þurfti ekki að fara annað. Þau höfðu nóg að gera í dag, en sem betur fór sýndi fólk í verki að þetta er það sem virkar. Það er svo margt sem veldur því að betra er að versla á einum stað en öðrum og notalegt starfsfólk er eitt af því, verð annað, vöruúrval, staðsetning og þjónusta eiga líka sinn þátt.

Það sem mér leiðast stórinnkaup og sérstakar verslunarferðir reyni ég yfirleitt að kaupa inn ,,í leiðinni" þegar ég á erindi framhjá þeim verslunum sem ég fer helst í. Fer oftast í Samkaup í Hafnarfirði, þar er vöruúrval nokkuð gott og verðlag á mörgum vörum þokkalegt. Mikið af tilboðum og þeim fylgist ég með. Fer svo í Bónus og Nettó ef ég er á þeirri leiðinni og kaupi það sem hægt er að geyma og er klárlega ódýrara. En ek ekki auka 5 kílómetra reglubundið til að ,,spara". Samt er ég ekkert sérlega meðvitaður neytandi, því miður. Og ekki nógu umhverfisvæn heldur, en reyni. Kaupi smá lífrænt af og til af því mér finnst það gott, en fokdýrt yfirleitt, umbúðasparnaðurinn felst í að setja bananana sem hanga saman ekki í poka, né heldur appelsínuna einu, sem ég keypti áðan. Plastpokunum á heimilinu hefur frekar fækkað, hvað sem veldur, ekki man ég eftir tauinnkaupapokunum sem af og til eru keyptir. Þeir eru hins vegar fínir til að flokka skjöl í og geyma afmörkuð eftir efnisþáttum. 

En þetta var nú útúrdúr. IKEA verðskuldar smá vink hérna. Ekki bara af því stofnandinn er ríkur og sparsamur Svíi, heldur af því þar á bæ hefur fólk dottið niður á alveg brilljant viðskiptahugmynd: Heiðarleika. Að standa við útgefin verð í Ikeabæklingnum. Ég er viss um að þau stórgræða á þessu. Þetta minnti mig alla vega á að tékka aftur á hvort stóllinn sem ég sendi email út af í janúar er loksins kominn (mér var svarað fljótt, vel og kurteislega og sagt að örvænta ekki, það myndi að vísu líða nokkrar vikur þar til hann kæmi aftur, en þessi vara yrði fáanleg áfram). Annars hefði ég kannski gleymt því. 

Fyrir löngu skrifuðum við Hildur Jóns, seinna jafnréttisfulltrúi í Reykjavík, innblásna forsíðugrein í VERU þar sem við bentum á þá stýringu á innkaupum sem neytendur hafa á valdi sínu. Þetta er enn í fullu gildi.


Besta aprílgabbið og sannleikurinn

Besta frásögn af aprílgabbi sem ég hef heyrt var í kaffitíma á Sámsstöðum í Fljótshlíð, þar sem einn af ágætum samstarfsmönnum frá RALA sagði skemmtilega sögu af aprílgabbi á BBC þegar sagt var frá því að spaghetti-uppskeran á Ítalíu hefði brugðist. Samkvæmt sögunni áttu Bretar að hafa flykkst í verslanir til að hamstra spaghetti. Hmmm, góð saga, sem fór víða, meðal annars með viðkomu í göngunum í Oddskarði, en það er nú önnur saga. Í dag heyrði ég getið um þessa sögu í Víðsjá eða einhverjum viðlíka þætti, og þá var þetta orðið mun meinlausari saga, ekkert hamstur og spaghetti-ið ræktað í Sviss. Svo ég þurfti auðvitað að googla þetta og því miður var sviplausari sagan réttari. Sjá hér. Eins og tengdapabbi sagði stundum: Maður á aldrei að skemma góða sögu með sannleiksást ;-)

_38910395_spaghetti238

En svona er þetta nú samt. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband