Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Blogg dagsins

Blogg dagsins veit ekki alveg hvað það ætlar að verða þegar það verður stórt. Það verður kannski aldrei stórt, því þótt stundum teygist úr litlum bloggum sem byrja sakleysislega, þá er þetta ekki eitt þeirra. Nóg að gerast í samfélaginu, hef meira að segja séð stöku sjónvarpsskot, sorglegu atburðina við Rauðavatn oftast á undanförnum dögum, enda sjóvarpsgláp komið yfir á netið að mestu í bili. En það er búið að blogga það mál í tætlur, bendi enn á linkinn á blogg Birgittu Jónsdóttur sem meðal annars vísar á YouTube skot em ekki er sómi af. Að undanförnu hef ég  verið að reyna að blogga frá mér (með mis-merkilegum árangri) það sem mest hvílir á okkur fjölskyldunni þessa dagana, alvarleg veikindi í nánasta vinahópnum okkar, en það er bara ekki alltaf hægt. Svo kannski er ég komin að þeim punkti að tímabundið blogghlé er óhjákvæmilegt.

 


Er sumarið kom yfir sæinn ...

Þá er komið löglegt sumar. Gleðilegt sumar öll!

Fallegur morgunn þótt himinn væri ekki alveg heiðskír (hver er yfir höfuð heiðskýr?) og það er alveg eins hægt að trúa því að það sé að koma sumar. Fyrir næstum ári fór ég norður yfir heiðar dagspart og lenti í 17 stiga hita á Akureyri þegar verið var að heiðra hana Málmfríði Sigurðardóttur í tilefni áttræðisafmælisins. Núna eru vinir og fjölskylda líka í forgrunni í tilverunni og það er ósköp indælt. Í blíðu og stríðu sagði einn úr þeim hópi um daginn og var reyndar að vísa til síns unga hjónabands, en ég held það sé bara hægt að yfirfæra það á alla vináttu og fjölskyldubönd og þannig á það að vera. Engar vangaveltur um fréttir og fjölmiðla núna og ég ætla að vona að allir njóti dagsins með vinum sínum og fjölskyldum.

Og ef einhver skyldi ekki þekkja hið fallega lag: Dagný, þá er það einmitt lagið sem hefst svona: Er sumarið kom yfir sæinn/og sólskinið ljómað' um bæinn/  ... lag sem á svo ljómandi vel við í dag og vonandi alla daga.


Veturinn kveður með yfirbókuðum fréttum

Engar gúrkufréttir í dag, nóg af alvörufréttum. Þetta hefur verið harður vetur á ýmsan máta, ekki bara snjór heldur líka erfið tíð hjá mörgum í mínu umhverfi, þannig er lífið víst. En lands- og heimsfréttir hafa sinn gang eftir sem áður. Fylgst hefur verið með atburðunum við Suðurlandsveg í fréttum í allan dag, dálítið misvísandi skilaboð, en ég varð ansi hugsi þegar ég sá myndband á bloggsíðu Birgittu Jónsdóttur.

Fleira er í fréttum:

Hillary vann góðan sigur (og já, ég horfði)

Fyrrverandi formaður Evrópu(sambands)samtakanna næsti ritstjóri Moggans

Bæjarbylting í Bolungarvík

... og það sem er kannski merkilegast til lengri tíma, losunarkvótinn okkar er að springa vegna álvera, samtal við umhverfisráðherra í kvöldfréttum útvarps var mjög athyglisvert. Fréttir enn í gangi svo ég býst ekki við að upptakan sé komin inn á vefinn, en á ruv.is er hægt að skoða allar fréttir.  


Jæja, Hillary ... hvernig fer þetta í kvöld?

Er að bræða það með mér hvort ég á að sofna snemma og heyra um Hillary (ástand og horfur) í fyrramálið eða ekki. Vakna snemma á morgnana þessa dagana, sem er bara skemmtileg tilbreyting, reyndar aðeins of snemma í morgun (hálf fimm, til að skutla Jóhönnu minni út á flugvöll, sem var á landinu í allt of stuttu stoppi). Annað hvort leggst ég í vinnutörn í nótt og tékka á Hillary á netinu af og til, legg mig smá og vakna klukkan sex (bæti svefninn upp síðar) eða ég hendi mér í rúmið núna og frétti af Hillary í fyrramálið. Hmmmmmm ég breyti alla vega engu í baráttu Hillary þannig að önnur atriði munu ráða, meðal annars þau verkefni sem ég er að vinna í og hvenær best er að vinna í þeim. Og þá kemur nóttin sterk inn, aldrei betri vinnufriður. En hvernig ætli þetta fari með Hillary, mætir hún fílelfd í slaginn í fyrramálið eður ei?

Loks kom ég því í verk að horfa á Juno - og sú mynd veldur ekki vonbrigðum

Sjaldan að ég ákveð fyrirfram að sjá væntanlega kvikmynd, en um leið og ég heyrði eitthvað almennilega af myndinni Juno vissi ég að þessa mynd ætlaði ég að sjá. Juno-movie-f01Og loksins er ég búin að því og þetta er mynd sem ekki veldur vonbrigðum, þvert á móti, alveg rosalega góð mynd. Ég sá stelpuna sem leikur Juno í spjallþætti um daginn (eflaust Jay Leno) og hún alveg geislaði af húmor og það skilar sér skemmtilega í þessari ,,feel-good" kvikmynd sem er samt ekki eins heilalaus og sumar ,,feel-good" myndirnar sem ég hef fallið fyrir. Alveg stórfín mynd.

Spurt er: Hvað er Monk?

Ég skulda dyggum lesendum bloggsins míns smá skýringu. Hef nefnilega vanrækt að svara spurningunni: Hvað er Monk? frá því ég hrósaði þessum sjónvarpsþáttum smávegis í seinasta bloggi. Nú skal úr því bætt. Monk er sjónvarpsþáttaröð, sem því miður er ekki í opinni dagskrá, heldur á Stöð 2. Ný sería nýbyrjuð á sunnudagskvöldum. monkoverviewAdrian Monk er sem sagt ráðgjafi lögreglunnar í San Fransisco en var áður lögga og langar annað veifið að komast í fast starf aftur hjá löggunni, þar sem hann var rísandi stjarna hér í eina tíð. Hann er hins vegar með alls konar fælni og áráttur, svo sem rosalega hreinlætisfíkn og röðunaráráttu. Samt sem áður: Enginn er eins klár að leysa furðulegustu lögreglumál. Það er mikill húmor í þessu þáttum.

Leikarinn sem leikur Monk er Tony Shalhoub (lengst til vinstri) og hann hefur fengið ýmis verðlaun, svo sem Golden Globe fyrir frammistöðuna í hlutverkinu, mjög verðskuldað. Uppáhaldsþátturinn minn til þessa er þegar Monk þurfti að ráða sig sem ,,butler" til ríkisbubba sem var yfir sig ástafanginn af aðstoðarkonu hans (lengst til hægri). Þar fór Monk á kostum sem hinn ofurnákvæmi butler sem kom auga á hverja einustu misfellu, millimetra halla á hníf, munnþurrku og hverju sem er. Annars eru flestir þættirnir verulega fyndnir þannig að endilega horfið eða mætið í heimsókn á sunnudags- eða mánudagskvöldi (endurtekið á Stöð 2 extra) hjá sönnum Monk-aðdáanda. 


10 ástæður fyrir því að blogga um Monk

1. Monk er frábær

2. Susan Silverman var i Monk þættinum í kvöld og HÚN er frábær

3. Monk er byrjaður aftur

4. Monk liggur svo vel við bloggi 

5. Leikarinn sem leikur Monk (Tony) er nýbúinn að fá verðlaun, eða ef hann er ekki nýbúinn að fá verðlaun, þá ætti hann að vera nýbúinn að fá verðlaun

6. Margir vita hvað verið er að tala um, og þeir sem ekki gera það láta sér ábyggilega á sama standa

7. Kynningarstefið er svo grípandi

8. Gurrí fílar Monk líka

9. Mig langar að venja fleiri á að horfa á Monk, sem sagt þröngva sjónvarpssmekk mínum upp á aðra

10. Þrátt fyrir allt þetta mikilvæga sem er að gerast í tilverunni einmitt núna, þá er bara svo miklu auðveldara að blogga um Monk


Afskaplega ó-óvænt úrslit í bandinu hans Bubba

Hafi einhver úrslit nokkru sinni verið fyrirsjáanleg þá voru það úrslitin í Bandinu hans Bubba. Þótt mér finnist Arnar miklu skemmtilegri rokkari þá er Eyþór mjög flottur og hæfileikaríkur og ALLIR vissu að hann myndi vinna. Og hvað gerðist? Hann vann!

Þetta hefur verið ágætis skemmtun í vetur og aðallega vegna þess að hæfileikafólk hefur fundið sér ágætan, nýjan, farveg. Björn Jörundur og Villi naglbítur mátulega klikkaðir í hlutverkin sín og margir gestadómaranna bara mjög fínir líka.  Bubbi verið furðu lítið áberandi í þessu, skrýtið að sjá hann vera að máta hlutverk ,,grand old man" en hann ræður þessu. Alla vega hefur þessi ágæta sérviska hans að fá allt sungið á íslensku (fín sérviska sem sagt) valdið því að meira að segja hörðustu Queen textar hafa verið íslenskaðir.

 

 


Bílaþvottur fyrir byrjendur

Þegar ég eignaðist frekar nýjan, svartan bíl þá fann ég, kannski í fyrsta sinn á ævinni, hjá mér þörf til að þvo hann svolítið, ekki oft, ekki mikið, en meira en oftast áður. Þetta er samt meira en að segja það. Gamli rauði var að vísu í þjónustusamningi hjá mér á tímabili, en hvort tveggja er að hann er bæði hávaxnari en ég og kústurinn samanlagt (eða þannig) og svo eltist hann smátt og smátt. Var einu sinni settur í Löður, en þoldi ekki atganginn og miðstöðin varð aldrei söm eftir það, né heldur tókst að loka bensínlokinu fyrr en tveimur dögum seinna. Í sumar, meðan veðrið var hlýrra og skárra, þá var þetta lítið mál með svarta Volvo-inn, en svo var farið að vera með moldroksframkvæmdir við Álftanesveginn og frekar fúlt að aka á nýþvegnum bíl gegnum fíngert moldrokið.

CarwashNú, svo kom vetur, ekkert gaman að þvo bíla við svoleiðis aðstæður. Ég er enn ekki orðin hagavön annars staðar en á þvottaplönum, en hef rennt hýru auga til einhverra bílaþvottastöðva þar sem maður mætir og fær sápu og svoleiðis með því að borga í einhvern stöðumæli. Íhuga það. 

En alla vega, ég kom við á bílaþvottaplani í dag áður en ég verslaði í matinn. Við erum óvenjumörg í mat í kvöld, þannig að ég þurfti að sleppa mjög síðboðuðu kvennaboði í fjölskyldunni, það er ekki hægt að vera alls staðar. Ætlaði ,,rétt að skola af bílnum" í leiðinni eins og ég segi oft svo hæversklega. Það merkir yfirleitt að ég sé ekki grábrúnu blettina sem verða eftir fyrr en bíllinn er orðinn nokkuð þurr. Það merkir líka að ég skola mjög lauslega af dekkjunum. Sennilega hef ég þó gert það betur núna en oft áður, því ég varð skelfingu lostin þegar ég áttaði mig á því að það snarrauk gufa frá framdekkjunum, bremsudiskar, mun vera eðlilegt (ég ætla rétt að vona að svo sé)!

CarwashNema hvað, ævintýrin voru á næsta leiti, fyrst þurfti ég að renna upp úlpunni og setja á mig hettuna, þar sem maðurinn á næsta bás gekk mjög hart fram í sínum bílaþvotti. Annars mjög krúttlegt hvernig hann spreyjaði á örlítið lausa og hangandi lista sem héngu utan á bílnum hans og pússaði þá af natni, sem minnti óþægilega mikið á fyrstu fimm bílana mína af aldri og útliti að sjá. Og pússaði mjög vafasama hliðar bílsins, sem ég var dauðhrædd um að létu undan. 

Mórallinn í sögunni er: Það er greinilega vor í lofti! Þegar ég kom úr búðinni og sá hvaða hlutar bílsins höfðu sloppið við mjúkar strokur kústsins skrapp ég á tvö plön og þau voru bæði sneisafull af fólki í sömu erindagjörðum, þannig að ég varð frá að hverja með hann Flekk minn. En núna er dóttirin komin með bílinn í lán og smá hint um að það megi ljúka þessu verki. Hún lofaði engu, en það er aldrei að vita. 


Þarf Vodafone ekki að ættleiða Dr. Spock?

Þá er það ljóst að Eurovision er í raun barátta á milli stóru símafyrirtækjanna. Mercedes Clube myndbandið var sumsvifalaust að símaauglýsingu (og sést mikið og vel) og nú ætlar Nova að taka Eurobandið að sér. Þar sem ég kaupi hluta af minni símaþjónustu af Vodafone þá fer ég fram á að þar á bæ íhugi fólk að ættleiða Dr. Spock, enda kúlið mikið á þeim bænum. Hinn símaþjónustuaðilinn minn er Síminn og dyggir lesendur bloggisins míns vita af því að ég hef haldið óspart með Barða og Mercedes Club, með dassi af laumuhrifningu á Dr. Spock, þannig að þetta myndi vera bara gott. Eurovision er hvort sem er bara stór auglýsingamarkaður og gaman að hafa það grímulaust.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband