Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Leyndardómar tónlistarsmekksins

Bloggfærsla Kristjáns Kristjánssonar um Johnny Cash fékk mig til að fara út í meiri háttar vangaveltur um tónlistarsmekk fólks. Um tvítugt var ég alveg rosalega þver og þrjósk með afdráttarlausan tónlistarsmekk. asmekkur1155Tilheyrði þeim hluta fólks sem gat rústað partíi með því að koma inn og segja: ,,Uppáhaldssöngvarinn minn er Andy Williams" (djók) ég sannreyndi það, það var hægt að kála heilu partíi með svona andstyggilegri athugasemd.

Með aldrinum hef ég mildast og þroskast. Hlusta á fleira en Stones, Pink Floyd, Zeppelin og Beethoven nú orðið (gerði það líka þá, en þið sjáið línuna).  

Núna langar mig alveg rosalega að kynnast ykkur bloggvinir kærir, með því að fá að vita hver er tónlistarsmekkur ykkar og jafnvel hvers vegna, smekkurinn dugar samt. Kannski skelli ég inn könnun í framhaldi, annars er þessi með Bandaríkjaforsetana ennþá vel virk svo hún er ekki á útleið rétt um sinn. Sjáum til hverjir þora að afhjúpa sig í athugasemdakerfinu. Ég skal ríða á vaðið og segja í stuttu máli hvað ég elska, en þið ættuð að heyra blandið í poka sem ég hlusta á í vinnunni! En hér er svona draumamix fyrir einn klukkutíma eða svo - mjög tilviljunakennt val augnabliksins: Creep með Radiohead, Guttavísur með Hundi í óskilum (ný útgáfa af Whiter Shade of Pale), One með Johnny Cash, sálmurinn með Bubba, Ho, ho, ho (Barðalagið í Eurovision), Ungversk rapsódía nr. 2 eftir Liszt (hljómsveitarútgáfa), Little red rooster með Stones, Dolphins cry með Magna, Satisfaction með Björk og PJHarvey, California Girls með Leningrad Cowboys og kór Rauða hersins og Bongo song með Safri Duo. 

 

 


Vetrarfegurð enn og aftur og mjög ,,selectívt" minni

Er svolítið heilluð af því hversu fallegur þessi vetur ætlar að verða, þessa fáu stilludaga sem við höfum fengið. Gleymast stormar og leiðindabálviðri, sem ég hef reyndar lítið þurft að ögra þar sem aðalvinnustaðurinn minn er háaloftið heima. Þetta kallast víst að hafa ,,selectívt" minni, svo ég brjóti nú allar reglur um að grauta ekki saman enskri og íslenskri stafsetningu. Það er notalegt að skrifa stundum á þessum afslappaða bloggvettvangi, þar sem ég hef áskilið mér rétt til að nota ritað talmál.

Langt síðan ég hef heillast svona mikið af fannfergi og vetrarham, en samt hlakka ég til að komast til Kanarí og geta farið í langar gönguferðir í sól og hita smá tíma.

Hér eru svipmyndir dagsins, sem urðu til á leiðinni úr prentsmiðjunni (Álftanes - Oddi - Prentmet - Álftanes verður rúnturinn hjá mér á næstu mánuðum).  

Bessastaðir í vetrarskrúða

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flestir koma að Bessastöðum úr hinni áttinni, en þessi er ,,álftanesísk".

Dularfull vetrarbirta og Esjan yfir Tjörn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vetrarbirtan er dularfull. Horft yfir lítt snortinn hluta Norðurnessins. 

 Vetrarlitir ráða líka ríkjum inni

 

 

 

 

 

 

 

 

Og af því ég á svona falleg blóm í vasa í vetrarlitum fylgja þau með ... 


Aðfangatímabil, úrvinnslutímabil og uppskeruhátíðir (með viðkomu í matreiðslutíma)

Hef einhvern tíma rætt það hér á blogginu - eða gamla blogginu mínu - hvað tímabil tilverunnar virðast skiptast í aðfanga- og úrvinnslutímabil. Alla vega er það reyndin hjá mér sem hef unnið bæði við blaðamennsku, sagnfræðirannsóknir og -ritun, hugbúnaðargerð og jafnvel pólitík. Og nú er ég sem sagt stödd á þessu mikla aðfangatímabili, að taka viðtöl, grúska í heimildum, gera áætlanir, fletta upp á netinu, tína saman efni og úr þessu á ég svo eftir að vinna, sumu fljótlega og öðru þegar meiri heimildir liggja fyrir. Oft er erfiðara að sjá eitthvað eftir sig á meðan á aðfangatímabili stendur, úrvinnslan er þakklátara verk, svo maður tali nú ekki um uppskeruhátíðir ;-)

En engin uppskeruhátíð er haldin og engin úrvinnsla er möguleg án þess að fyrst sé safnað saman öllu sem til heyrir. Mér fannst alltaf hálf asnalegt þegar ég var í matreiðslu í Melaskóla að við vorum látnar (strákarnir fengu ekki að fara í matreiðslu á þeim tíma) taka til allt hráefni fyrst, mig minnir á einhverja litla smjörpappírsbleðla, áður en hafist var handa. En núna sé ég hvað þessi vinnubrögð voru skrambi skynsamleg. Við sluppum samt við að fara út í búð og versla ... 


Ophra og Kennedy-frændgarður með Obama og/eða á móti Hillary

Edward Kennedy, sem ekki ætlaði að taka afstöðu í forkosningum demókrata, hefur lýst yrir stuðningi við Barack Obama, líkt og Ophra nýverið. Obama fékk mikla sveiflu með sér eftir yfirlýsingu Ophru. Caroline frænka Edwards og dóttir Johns F. Kennedy hefur líkt Obama við föður sinn. Nú er stutt í 5. febrúar þegar stóri forkosningadagurinn rennur upp og mögulega mun þessi yfirlýsing hafa áhrif, reyndar hef ég meiri áhyggjur af ummælum Caronline en stuðning frænda hennar, en þó fylgir fregnum að hann sé mikill áhrifamaður (ennþá) meðal demókrata. Svolítið kaldhæðnislegt allt, þar sem öllum var það ljóst að (vonandi) verðandi forsetaeiginmaður, Bill Clinton, leit á Kennedy sem sína fyrirmynd, kannski í of mörgum efnum ;-)

Ég hef reyndar enga ástæðu til að ætla að þessar yfirlýsingar séu gegn Hillary með beinum hætti, en samt er ég sannfærð um að Edward Kennedy er ekki boðberi kvenfrelsisafla í Bandaríkjunum. Hugsandi yfir Caroline og Ophru. Ophra er auðvitað stórveldi og á þann hátt hefur hún verið góð fyrirmynd fyrir konur í Bandaríkjunum, en stundum sýp ég hveljur yfir þáttunum hennar, það eru svo blendin skilaboð til kvenna og svo grímulaus skilaboð um að vera sætar alla vega, kannski að halda kjafti líka (svo ég vitni í góðan bókatitil frá fyrri árum). Þannig að, það er kannski gott að styðja Obama en það er ekki svo gott að leggja stein í götu Hillary, og það er útkoman.


Feministaheimurinn, síður með íslensku og alþjóðlegu feministabloggi

Vil endilega vekja athygli á síðu sem hann Óli, sonur minn, hefur haldið úti um nokkurt skeið, þar sem hann tekur saman á einni síðu blogg frá þeim yfirlýstu feministum sem eru virkastir í blogginu. Heilmikil vinna að fá leyfi til endurbirtingar en afraksturinn líka góður. Núna er hann búinn að bæta um betur og kominn með link á hliðstæða alþjóðlega síðu. Hér og linkur til hliðar er FEMINISTAHEIMURINN.

Pressa í kvöld, hvernig finnst ykkur til hafa tekist?

Stend mig að því að hlakka til að horfa á Pressu í kvöld, þótt raunveruleikinn hafi reyndar verið í harðri samkeppni við skáldskapinn í síðustu viku. Þessi þættir hafa tekist virkilega vel, leikararnir eiga mikinn apressaþátt í því og svo er sögusviðið alveg ágætlega valið líka. Plottið er ennþá nógu gott til að ég veit ekki upp né niður í því hver gerði hvað og það er nokkuð vel að verki staðið. Sumum þótti eitthvað nóg um þráðinn í seinasta þætti þegar blaðakonan lenti á fylleríi heim til eins af grunsamlegustu persónunum í þættinum, en þegar ég spurði: Er þetta ekki einmitt það sem gæti gerst (á Íslandi og víðar) þá varð fátt um svör. Mun alla vega setjast trygg við sjónvarpið í kvöld.

Húmor á laugardegi: Rannsóknarnefnd skipulagsslysa og Alfreð

Eftir þunga viku með mikilli undiröldu og válegum pólitískum tíðindum þá get ég ekki annað en hlegið með sumu því sem ég sé og heyri í fjölmiðlum. Var að enda við að hlusta á góðan laugardagsþátt Hjálmars Sveinssonar þar sem meðal annars var rætt við Pétur H. Ármannsson um skipulagsmál. Hann læddi að, eins og honum er lagið, lítilli athugasemd í umræðunni um hvað væri vel gert og hvað illa í reykvískum skipulagsmálum og sagði: Ég vil nú ekki, eins og gert hefur verið, ganga svo langt að halda því fram að það þurfi að stofna rannsóknarnefnd skipulagsslysa, en ... Og þar með var hann auðvitað búinn að koma hugsuninni á framfæri. Þökk hverjum þeim sem datt þetta hugtak í hug.

Annað, sem einnig tengist grafalvarlegu máli, er ályktun sem félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík sendi frá sér varðandi aðförina að Birni Inga. Ályktunin er góðra gjalda verð, en mér var starsýnna á nafnið á félaginu: Alfreð. Einhverjir hafa húmor í Framsókn, fleiri en Guðni (á köflum).  


Stormur á eftir storminum ... í Reykjavík

Við áttum kannski ekki von á svona stormi eftir pólitíska storminn í Reykjavík í gær. En kannski er þetta táknrænt, eitthvað svo innilega ófært allt saman.

Viðburðaríkur dagur - samfélagslega og persónulega

Þetta er ótrúlega viðburðaríkur dagur. Ég hef setið við tölvuna og haft fréttir í bakgrunni. Ekki hægt að fagna samfélagslegum viðburðum, valdaskiptum í Ráðhúsinu og líka tapi hjá landsliðinu. Hins vegar var ég að uppgötva að ég náði markmiði mínu í stærðfræðiprófinu síðastliðinn laugardag, en þar vantaði mig 7-u og fékk hana. Einnig gengur þokkalega að ná í upplýsingar sem ég er að leita að og sömuleiðis að finna viðmælendur og tímasetja viðtöl, ekki allt komið á hreint þar, en allt í vinnslu. Þannig að já, ég vildi að dagurinn hefði verið eins góður við Reykvíkinga og handboltaunnendur og mig.

Þegar fortíðin er skemmtilegri en nútíðin - 25% borgarstjórnin og Kvennalisti fyrir 100 árum

Svo virðist sem Reykvíkingar séu ekki alveg að sætta sig við það sem er að gerast í nú-inu, það er valdatöku nýs borgarstjórnarmeirihluta. Skoðanakönnun Fréttablaðsins gefur nýju borgarstjórninni ekki nema 25% fylgi í veganesti og það er viðburður þegar sú borgarstjórn sem er að fara frá naut mikilla vinsælda. 

Annað atriði úr fjarlægari fortíð er hins vegar mjög merkilegt, í dag eru nefnilega 100 ár síðan Kvennalisti vann eftirminnilegan sigur í bæjarstjórn Reykjavíkur. Leyfi frétt RUV að tala:  

,,Í dag er þess minnst að fyrir 100 árum, 24. janúar árið 1908, var kvennasigurinn mikli þegar listi kvenna kom fjórum konum í bæjarstjórn Reykjavíkur með ótvíræðum sigri.

Tímamótanna verður minnst með margvíslegum hætti á næstunni, en í dag verður opnuð sýningin Konur í borgarstjórn 1908-2008, í Tjarnarsal Ráðhússins. Sýningin spannar pólitíska vegferð kvenna í bæjarstjórn og síðar borgarstjórn Reykjavíkur."

Skrýtið hvernig dagar geta vakið fögnuð og hryggð í senn. 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband