Aðfangatímabil, úrvinnslutímabil og uppskeruhátíðir (með viðkomu í matreiðslutíma)

Hef einhvern tíma rætt það hér á blogginu - eða gamla blogginu mínu - hvað tímabil tilverunnar virðast skiptast í aðfanga- og úrvinnslutímabil. Alla vega er það reyndin hjá mér sem hef unnið bæði við blaðamennsku, sagnfræðirannsóknir og -ritun, hugbúnaðargerð og jafnvel pólitík. Og nú er ég sem sagt stödd á þessu mikla aðfangatímabili, að taka viðtöl, grúska í heimildum, gera áætlanir, fletta upp á netinu, tína saman efni og úr þessu á ég svo eftir að vinna, sumu fljótlega og öðru þegar meiri heimildir liggja fyrir. Oft er erfiðara að sjá eitthvað eftir sig á meðan á aðfangatímabili stendur, úrvinnslan er þakklátara verk, svo maður tali nú ekki um uppskeruhátíðir ;-)

En engin uppskeruhátíð er haldin og engin úrvinnsla er möguleg án þess að fyrst sé safnað saman öllu sem til heyrir. Mér fannst alltaf hálf asnalegt þegar ég var í matreiðslu í Melaskóla að við vorum látnar (strákarnir fengu ekki að fara í matreiðslu á þeim tíma) taka til allt hráefni fyrst, mig minnir á einhverja litla smjörpappírsbleðla, áður en hafist var handa. En núna sé ég hvað þessi vinnubrögð voru skrambi skynsamleg. Við sluppum samt við að fara út í búð og versla ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf María Brynjarsdóttir

Ég kannast vel við svona tímabil. Er einmitt sjálf á aðfangatímabili og ekki virðist mikið liggja eftir mann í lok dagsins en svo er nú von að glæðist þegar úrvinnslan hefst (eða ég vona það í það minnsta).

Annars er Borgarfjörður upp á sitt besta þennan morguninn bjartur og blár af snjó og Hvítáin mín er sem spegill á milli snjóþungrabakkanna.

Ólöf María Brynjarsdóttir, 30.1.2008 kl. 11:12

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fallegir vetrardagar í Borgarfirði (og Álftanesi) hljómar vel. Komin með heimþrá upp í bústað, en við erum á leiðinni í sólina fyrst.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.1.2008 kl. 11:30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband