Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Björn Ingi stelur senunni í dag - og hættir

Í svefnrofunum fannst mér ég heyra í útvarpinu að Björn Ingi væri að hætta í stjórnmálum. Rumskaði áðan og tékkaði á því hvort þetta gæti verið. Jú, mikið rétt, búin að lesa yfirlýsingu hans á eyjan.is

Þegar ég var sextán ára sumarlangt í Noregi lærði ég frasa sem ég man kannski ekki alveg orðrétt eða kann að skrifa stafrétt, en hljómar þó eitthvað á þessa leið: °A glimre ved sit fravær. - Sem sagt að ljóma með fjarveru sinni. Ég er næstum sannfærð um að þetta verður dagurinn hans Björns Inga, ekki dagurinn hans Ólafs F. Það eru mikil tíðindi ef hann er að hætta í stjórnmálum. Vissulega hef ég ekki verið í aðdáendahópi hans, enda ekki Framsóknarkona, en hins vegar þá fannst mér atlagan að honum yfir strikið og er þá ekki að réttlæta fatakaupamálið sem slíkt, heldur að benda á hvernig skipulega hefur verið veist að honum af þeim sem ættu að vera samherjar hans. Svo sem ekki meira um það mál að segja, en þetta er greinilega niðurstaða Björns Inga.  


Sigrar og ósigrar - ein gossaga líka

Hressandi handboltaleikur og sérstaklega frábær seinni hálfleikur, sigurinn var verðskuldaður, einkum á Hreiðar markvörður heiður skilinn. Húrra fyrir strákunum, þetta var vel spilað.

Undiraldan vegna valdaskiptanna í borginni er gríðarleg, það er augljóst að mörgum blöskrar. Forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.

Samt er svona lagað lítilvægt þegar við erum minnt á þau feiknaöfl sem gerðu vart við sig fyrir 35 árum í Vestmannaeyjagosinu. Ótrúleg björgunarsaga og myndin af flotanum sem sigldi með heilan bæ til lands, þetta er ótrúleg minning. Gleymi því seint þegar ég kom i háskólann þennan morgun eftir að hafa heyrt fréttirnar um gosið. Tími (hjá Vésteini Ólasyni) féll niður og þegar við Gunna vinkona vorum að fara til baka mættum við einni síðbúinni skólasystur og sögðum við hana: Það er frí í tíma, af því tengdaforeldrar Vésteins búa í Vestmannaeyjum! .... Ég gleymi aldrei hversu langleit þessi skólasystir okkar varð, þótt hún hafi nú seinna sagst hafa vitað af gosinu, þá sagði svipurinn eitthvað allt annað!


Dagur að kvöldi

Dagur Eggertsson brilleraði í Kastljósi áðan, ég get ekki sagt annað. Sigmar gætti þess að vera jafn grimmur við hann og aðra, fyrir utan ákveðna mildi sem hann sýndi væntanlegum borgarstjóra í mjög pínlegum fréttaþætti (eflaust Kastljósi) í gærkvöldi. En skemmst er frá því að segja að Dagur kom þessari umræðu í kringum dæmalaus valdaskipti í borginni á hærra plan en hún hefur verið. Mig langar að sjá gott viðtal við Svandísi fljótlega, ég er mikill aðdáandi hennar eins og fleiri Íslendingar, ef til vill hef ég misst af einhverju, kemst ekki yfir að horfa á allt fréttatengt, en þangað til þá læt ég mér nægja frásögn Dags, sem var skýr og kippti umræðunni úr þessum fáránlega farsastíl sem hún hefur verið.

Eftir storminn í borginni ...

Borgarbúar standa frammi fyrir orðnum hlut. Klækjastjórnmál, segir stjórnmálafræðingur, ég held einfaldlega að það hafi orðið smá óhapp og núna sé það að renna upp fyrir fólki að storminn lægir ekkert endilega. Það getur alltaf komið ný lægð og meiri stormur.

Margt er ólíkt með þessum valdaskiptum í borginni og þeim fyrri, sem áttu sér stað fyrir 102 dögum. Þau áttu sér stað í kjölfar eins mesta deilumáls sem upp hefur komið í borginni og var, eftir á að hyggja, óhjákvæmlegt að leiddi til niðurstöðu, en án efa voru þeir sem lögðu þar á ráðin búnir að ætla að fólk léti REI-málið yfir sig ganga eins og allt annað. Valdaskiptin núna virka á migsem uppreisn æru fyrir Vilhjálm gagnvart sex-menningaklíkunni. Súr svipur sumra þeirra í gær rennir stoðum undir þann grun, þótt aðrir hafi án efa spilað heilshugar með. Þetta var í rauninni eini veiki hlekkurinn í meirihlutanum og á hann var sótt og boðið gull og grænir skógar, svoleiðis virkar stundum.

Ég tek undir með þeim sem spá því að vera megi að enn muni koma til valdaskipta í borginni áður en kjörtímabilið er úti, jafnvel tiltölulega fljótlega.


Ótrúlegt fréttakvöld

Var á fundi með innvígðum ungum Sjálfstæðismanni, ungri Vinstri grænni konu úr framvarðasveit og einum reyndasta stjórnmálamanni landsins þegar þessar fréttir af borgarstjórn fóru að seitlast inn. Ungi Sjálfstæðismaðurinn sagði okkur hvað var að gerast í upphafi fundar og okkur fannst það eiginlega að vera of ótrúlegt, og þó. Svo barst staðfesting inn á fundinn. Síðan hef ég verið límd við fjölmiðlana og ég verð að viðurkenna að þeir hafa ekki látið sitt eftir að liggja.

Ó, Reykjavík, ó Reykjavík, þú yndisfagra borg ...

Get ekki sagt annað en það sem hljómaði í myndinni Rokk í Reykjavík. Mig minnir endilega að það hafi verið hljómsveitin Vonbrigði sem flutti það. Ef ekki þá er það önnur hljómsveit, sú fékk ekki að auglýsa undir eigin nafni í útvarpi og þurfti að finna annað nafn á sjálfa sig, eftir því sem sagan segir.

Himnesk vetrarfegurð!

Dagurinn í dag er einn sá fallegasti í vetur og þar sem veðrið var líka yndislegt þá var ekki hægt að standast þá freistingu að fara í langa og góða gönguferð um nesið mitt bjarta. Leit við í hesthúsunum og hitti Snorra og Gunna vini mína, og svo kom hann Ari minn og búinn að járna einn hest í viðbót. En myndir segja meira en nokkur orð.

Tré nágrannanna

 

 

 

 

 

 

 

Hestamenn í útreiðatúr meðfram Bökkunum

 

 

 

 

 

 

 

Suðurnesið á móti sól

 

 

 

 

 

 

 

Hestarnir í gerðinu

 

 

 

 

 

 

 

Að koma heim í Blátúnið

 


Reykjavik - Fisher - Spasskí og allir hinir strákarnir okkar! Hugleiðingar eftir próf

Fyrst smá í leiðinni um handboltalandsliðið. Ég náði seinustu mínútunum, sem voru greinilega ekki þær skemmtilegustu, en skemmtilegar þó. Og bara gaman að fá þá á fullu trukki. Það verður gaman að horfa á fyrri hálfleikinn í endursýningu, búin að frétta af þessum dæmalausu tölum! Var búin að fá sms frá Ungverjalandi til að segja mér að fara að drífa mig að horfa, en ég var að koma úr prófi sem ég hef litla tilfinningu fyrir því hvernig gekk. Mig vantar nefnilega helst 7 í þessu fagi, og mér var bara hreint ekki ljóst um hvað var verið að spyrja í sumum tilfellunum, þannig að ég hef litla hugmynd um hvort markmiðið næst, ekkert gefið í þeim efnum. Þetta próf er þó miklu minni hjalli en það sem ég náði fyrir jól, ég get hækkað mig í öðrum fögum í staðinn eða endurtekið þetta til meiri hækkunnar. Á staðna einkunn í því, sem er of lág.

En þá að aðalefni pistilsins. Það eiga nefnilega margir sínar Fisher-minningar og mín er mjög skemmtileg, segir nefnilega mikið um hversu rosalega merkilegt þetta heimsmeistaraeinvígi Fisher-Spasskí var. Tveimur árum eftir einvígið var ég nefnilega á ferð í gömlu Júgóslavíu, í gömlu Austurlandahraðlestinni, sem fór alla leið til Mið-Austurlanda en ekki bara til Feneyja eins og þessu uppgerða, uppskrúfaða. Kryddlykt og fjölbreytt mannlíf. Og um miðja nótt var vegabréfaskoðun í skugga mikils lestarslyss, sem átti sér stað á brautinni á móti okkur. Júgóslavnesku landamæraverðirnir voru aldeilis ekki á því að það væri til land sem héti Ísland. Bentu á passann minn og sögðu að það væri ekki til land sem héti: Eyja (Island) og þetta væri bara plat-passi. Ég reyndi að sannfæra þá um að þetta land væri til og fram var dregið Evrópukort. En hvað var að finna efst í vinstra horninu? Ekkert Ísland, bara ekki neitt! Nú voru góð ráð dýr, en þá datt mér eitt í hug: Reykjavik-Fisher-Spasskí! sagði ég, og benti á útgáfustað vegabréfsins míns sem var sem betur fór Reykjavík en ekki Hafnarfjörður, eins og það hefði átt að vera. Aha, sögðu landamæraverðirnir, Aha, Reykjavík, Reykjavik-Fisher-Spasskí, og ég var ekki vefengd meira.

En guði sé lof fyrir að Júgóslavar eru líka miklir skákáhugamenn, eins og Íslendingar. Það kom sér að vísu ekki vel fyrir Fisher þegar hann vogaði sér að tefla þar í landi fyrir liðlega áratug, upphafið að útskúfun hans frá fyrrverandi heimalandinu og handtöku og fangelsisvist í Japan. Þeir sem stóðu að heimkomu Fishers til Íslands eiga heiður skilinn og ég gæti sannarlega glaðst ef hann myndi hvíla á Þingvöllum, fín hugmynd, kemur í ljós hvort það verður eitthvað úr því. 


Ég veit að þetta á að vera í blíðu og stríðu, en ...

Ææ, ekki gaman að horfa á Ísland-Svíþjóð. Það er eins gott að við höfum lofað að standa með þeim í blíðu og stríðu, það er þegar verið að innheimta þetta stríða ...

Verðskulduð viðurkenning

Stígamót eru samtök sem hafa alltaf staðið sig vel í baráttu gegn mörgu því versta sem við glímum við. Þessi viðurkenning er verðskulduð og ánægjuleg.


mbl.is Stígamót fá alþjóðlega viðurkenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband