Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

INNNflutningsannríki

INNN, hugbúnaðarfyrirtækið sem ég hef unnið hjá í hálft annað ár, var að flytja eftir sameiningu við Eskil og að undanförnu hefur verið mikið annríki hjá okkur. En í dag var sem sagt flutt á Lynghálsinn og búin að vera svolítið geggjuð innflutningsstemmning hjá okkur, þrátt fyrir að flutningafyrirtæki sæi um kassa og húsgagnaburð.  

Hálf lúin eftir erilssama viku, þar sem flutningarnir bætast ofan á venjulega, daglega vinnu. Ekki bætir úr skák að ég er enn í 100% starfi en 30% skólinn minn er byrjaður. Fleira í bígerð og fleira að baki, en ég vona samt að næsta vika verði ekki alveg eins kræf.


Allt sem þú vildir vita um ættingja (en þorðir ekki að spyrja) ...

Hef mikið pælt í ættingjum að undanförnu. Fjölskyldan mín er þannig að stundum höfum við tekið það fram að ekki dugi annað en þrívíddarlíkan til að lýsa henni. Íslensk tunga á reyndar fullt af góðum nýjum orðum fyrir flóknar og margsamsettar fjölskyldur, enda veitir ekki af. Uppáhaldið mitt er orðið teygjufjölskylda, það heldur nefnilega svo ágætlega utan um fjölskylduna. Hef alltaf verið hlynnt því að í slíkum fjölskyldu geti allir talað óþvingað við alla fjölskyldumeðlimi hvernig sem skilnaðir og annars konar aðskilnaður svo sem fjarlægðir hefur haldið fólki sundur um lengri eða skemmri tíma. 

Samt hef ég alltaf haft ákveðnar efasemdir um sameiginlega forsjá foreldra með börnum sínum, það er að hafa það sem meginreglu eins og nú er. Heyrði um daginn af dæmi um að barn þyrfti að sækja tvo skóla út af slíku fyrirkomulagi. Það mætti stundum rifja upp að markmið barnalaganna er að hagur barnanna sé hafður í fyrirrúmi. Reyndar voru það aðrir hlutir sem ollu efasemdum mínum um sameiginlega forsjá, það var hið nauðsynlega ákvæði að hægt sé að endurskoða úrskurð um sameiginlega forsjá. Sé ekki að það sé barni í hag að taka upp síðbúnar skilnaðardeilur þegar það er búið að jafna sig á því róti sem ávallt fylgir jafnvel farsælustu skilnuðum.

Hins vegar er það mikil blessun þegar börn fara ekki á mis við annað hvort foreldrið, en margt getur valdið því eins og allir vita dæmi um. Erfiðast finnst mér þegar ekki má ræða foreldrið sem er fjarri eða jafnvel reynt að leyna börn uppruna sínum. Sumar fjölskyldur eru svo yfirhlaðnar leyndarmálum og tabúum að það hálfa væri nóg. Get aldrei fullþakkað mínum foreldrum að taka ekki þátt í slíkum leik gagnvart mér alla vega, þótt leiðir skildu.

En aftur að fjölskyldunni minni. Líklega á frænka mín þá athugasemd sem best lýsir margbrotnu fjölskyldunni minni. Ég var nefnilega einu sinni beðin fyrir kveðju til hennar og hún var smá stund að átta sig á því hver var að senda henni kveðju, en allt í einu fattaði hún og ljómandi upp: Hún, já, hún er systir seinni konu fyrri mannsins míns!

Þetta er reyndar bara sýnishorn og ýmislegt enn flóknara í fjölskylduböndunum í kringum mig. En það er ótrúlegur fjársjóður í því að eiga stóra og góða fjölskyldu, þótt maður sé stundum svolítið seinn til að kynnast mannskapnum. Þannig var ég að hitta fullt af fólki sem er af öðrum og þriðja lið við mig í gærkvöldi, sumt í fyrsta sinn, og mikið rosalega var það gaman. Við þurftum að spyrja hvert annað um svo margt varðandi fjölskyldumeðlimi og það var af nógu að taka. Ekki spillti fyrir að svo margir í fjölskyldunni þekktu til tengdafólksins míns og hefur mikið dálæti á því. Upphófst hin venjulega íslenska rakning á tengslum þessarra og hinna á íslenskan mælikvarða. Nýsjálensku frændurnir tveir, sem hafa verið á ferð og flugi um landið í viku, voru ábyggilega steinhissa á öllu þessu spjalli og trúðu því rétt mátulega að við þekktum ekki helminginn fyrir. En það var ábyggilega rosalega gaman fyrir þá að hitta allt þetta fólk, afkomendur móðursystur og ömmusystur þeirra, sem því miður komst ekki vegna aldurs og heilsu.


Hrímkalt haust í bland við hlýja síðsumarssólskinsdaga

Svolítið skringilegt veður, vaknaði klukkan fimm í morgun uppi í sumarbústað við ægifagurt veður og hitamælirinn sýndi meira að segja 4.7 gráður úti. En þegar ég sá hrímið á grasinu fyrir utan og bílrúðunni fékk ég smá hroll, þrátt fyrir fegurð morgunsins. Dalalæðan lúrði niðurfrá og aðeins syfja og tímapressa stoppaði mig í að taka ómótstæðilega mynd (ekki mátti láta frændurna missa af flugi). Svo kom þessi ægifagri sólardagur, sem ég að vísu eyddi í vinnunni, en það tilheyrir vinnandi fólki.

Svolítið ráðvillt alltaf þegar haustið nálgast, mér er hlýtt til myrkursins, enda trúi ég á rannsóknir Jóhanns Axelssonar um skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga og Vestur-Íslendinga sem í stórum dráttum hafa sýnt fram á minna skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga en annarra norlægra þjóða. Þær eru á vísindavefnum en ég greip eina setningu þaðan: ,,Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis."  En ég er ekki hrifin af hálkunni sem fylgir fyrstu frostunum (og heldur ekki þeim sem fylgja á eftir fram til vors). Fallegir síðsumardagar bæta reyndar úr skák, en samt, 19 stiga hiti og 10 stig í plús um nætur eru alveg í lagi mín vegna.

 


Borgarfjörðurinn skartar sínu fegursta

Seint á laugardagskvöld komum við Ari upp í sumarbústað með tvo frændur sem eru í heimsókn á landinu og tókum sunnudaginn í að sýna þeim Borgarfjörðinn, Ara tókst að finna æði nýstárlega vegi til að brölta yfir og ég verð að viðurkenna að Borgarfjörðurinn kemur ávallt á óvart. Hef ekki áður farið úr Norðurárdalnum rétt við rætur Holtavörðuheiðar og beint yfir í Þverárhlíðina, en það var áhugaverður vegur. Við enduðum í Reykholti og veðrið lék við okkur. Fallegur dagur og skemmtileg ferð. Þegar við komum í bústaðinn beið okkar veislumáltíð sem Óli hafði eldað handa okkur, en hann hefur verið í bústaðnum nánast óslitið síðan um seinustu helgi, rétt skrapp í próf á föstudaginn. Vöknuðum um fimm leytið í morgun til að koma okkur í bæinn og frændunum í flug.

Fer barátta Heiðu að bera árangur?

Barátta Heiðu (skessa.blog.is) gegn nauðgunarlyfi sem er enn á markaði hér á landinu gæti verið að bera árangur. Í kvöldfréttum mátti alla vega greina smá von í viðtali við landlækni, þrátt fyrir smá fyrirvara sem voru óþarfir. Vonandi að þetta lyf hverfi af markaði sem fyrst áður en fleiri verða fyrir barðinu á því.

42 og listin að spila golf svo að öllum líði vel

Hef einsett mér að ánetjast golfi. Þetta er útivist, hreyfing, keppi og gaman og svo er mér sagt að (góðir) skvassarar geti orðið góðir í golfi, en ég veit ekki hvað er með skítsæmilega skvassara, ættu þeir ekki að geta orðið skíktsæmilegir í golfi? Svo eru golfvellir út um allt land, en tennis- og skvassvellir varla nema í 2-3 sveitarfélögum. Eina ,,smá" vandamálið er að ég sinni þessu nýfundna áhugamáli mínu nánast ekki neitt. Uppgötvaði nýjan flöt á golfinu í dag, þetta er hin skemmtilegasta vinnustaðaíþrótt.

Alla vega þá var golfmót hinna sameinuðu fyrirtækja, INNN og Eskils í dag, það var virkilega gaman og við vorum ljónheppi með veður. Það fór ekkert að rigna fyrr en við vorum búin með hringinn okkar. Sjö hópar kepptu og  fjórir (!) þeirra voru efstir og jafnir og fóru hringinn á 42 höggum, sem er bara dágott. Fyndið, því talan 42 er hvorki meira né minna en svarið við alheimsgátunni (þennan skilja sumir ;-)

En það sem ég dáist mest að er kerfið sem við spiluðum eftir. Það heitir víst Florida Texas Scramble (sem er furðulegt nafn) og felst í því að eftir upphafshöggið er valið besta höggið en sá sem á besta höggið hverju sinni situr hjá eina umferð. Þannig er tryggt að flestir eða allir eigi möguleika á að eiga ,,besta" höggið einhvers staðar á leiðinni. Ég hafði sett mér það persónulega markmið að eiga alla vega eitt högg sem væri notað (áður en ég vissi um kerfið) en þegar til átti að taka þá missti ég meira að segja töluna á nothæfu höggunum mínum - við vorum einn af 42 högga hópunum. Í hverjum hópi var alla vega einn vanur, jafnt frá hvoru fyrirtæki og sem jafnast kynjahlutfall. 


Meira um réttlæti

Fyrsta heimsóknin á bloggið mitt eftir að ég skrifaði smá hugleiðingu um réttlæti var frá konu sem er að berjast fyrir réttlæti með mjög ákveðið markmið í huga. Skoðið síðuna hennar Heiðu (skessa.blog.is) sem er að fjalla um það réttlætismál að banna öll nauðgunarlyf tafarlaust. Mig langar að leggja þessari baráttu lið og þakka Heiðu fyrir að koma með ákveðinn farveg fyrir slíka baráttu.

Bendi líka á mjög góða umræðu á síðu gegn ofbeldi gegn konum sem er í tengslum við Amnesty: gegnofbeldi.blogspot.com - þar er líka fjallað um baráttu gegn nauðgunarlyfjum. 


Réttlæti

Dagur í faðmi vina og vandamanna, samband af gleði og trega. Og óvenju mikið talað um réttlæti. Í rauninni þarf ekki annað að vera fullkomið ef við getum skapað samfélag réttlætis, að því leyti sem það er í valdi okkar fólksins að gæta þess.

Hlutir gerast hratt í hugbúnaðargeiranum

Núna er ég búin að vinna hjá INNN í um hálft annað ár og ósköp ánægð þar. Þegar ég fór að vinna í hugbúnaðarbransanum fyrir rúmlega sex árum vissi ég vel að þar var hægt að búast við viðburðaríku lífi. Enda reyndist það rétt. Eftir hálft ár var ég farin að fara milli Danmerkur og Íslands tvisvar í viku, viku eftir viku. Mikið að gera og mikið fjör. Svo róaðist í því starfi en ég heyri þó frá gömlu vinnufélögunum mínum að enn eru viðburðir þar á bæ, þrjú að flytja til Spánar á vegum fyrirtækisins um þessar mundir með misstórar fjölskyldur.

En síðan ég byrjaði hjá INNN hafa einnig verið miklar breytingar þótt af öðru tagi séu, nefnilega tvisvar orðið eigendaskipti á þessu eina og hálfa ári. Og núna á föstudaginn var tilkynnt um sameiningu okkar og annars álíka stórs hugbúnaðarhúss, Eskils, sem útheimtir flutninga upp á Lyngháls, einnig aðra flutningana síðan ég byrjaði hjá INNN. Þar með verð ég að vinna við hliðina á Gurrí, sem er gott, og Prentmeti, sem er líka gott (skýri það seinna) en fjær flestum viðskiptavinunum núna en áður, þegar við vorum í Skipholtinu, og þar af leiðandi meiri keyrsla á okkur. Reyni að haga fundum í bænum þannig að þeir falli sem næst tímunum sem ég mun sækja í háskólanum. Stefni á útskrift í febrúar.

Það er ekki hægt að láta sér leiðast í svona vinnu. 


Gamla, góða Vikuliðið mitt

Við hittumst í gærkvöldi, gömlu, góðu vinnufélagarnir frá Vikunni 1980-1985. Það var eins og við hefðum hist í gær, varð einu okkar að orði, og þannig er það með sanna og góða vini. Þótt tilefnið hafi verið af þyngra taginu, fráfall Jóns Ásgeirs okkar, þá voru þetta góðir endurfundir. Við höfum hist af og til en óvenju langt síðan við hittumst seinast, en stundum er vinátta þannig að hún endist ævina og þannig er það með Vikuliðið góða.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband