Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ljúf fjölskylduhelgi í bústaðnum

Mikið áttum við ljúfa fjölskylduhelgi í sumarbústaðnum. Í gær vorum við Ari tvö þar og nutum veðurblíðunnar en í dag komu yfir 30 ættingjar, mest úr föðurfjölskyldunni, í heimsókn til að halda mini-ættarmót. Hanna mín á förum aftur til Ungverjalands á morgun þannig að við vorum bæði að kveðja hana og heilsa uppá þá sem voru á landinu, Helgu frænku, Susse og Gitte og Nínu systur sem er nýflutt heim til Íslands. Guðmundur vinur okkar leit líka við á leiðinni norður og allir voru að pæla fram og til baka hver væri búin að fá sér nýjan mann ;-) þar til við því miður þurftum endilega að leiðrétta misskilninginn.

RIMG0422

 

Helga frænka sem býr í París

Nína systir, nýflutt frá Bandaríkjunum

Anna bloggari

Nana frænka, ljósmóðir og ánægð með úrslit keppninnar um fegursta orð íslenskrar tungu

Hjördís frænka, hestakona með meiru

 

 RIMG0433

 

 

 

 

 

 

 

Mestallt liðið á pallinum við bústaðinn okkar, einhverjir týndust í berjamó.

 


Mogginn tekur upp vindmylluþráðinn minn

Sá að Mogginn hafði ákveðið að birta Vindmyllubloggið mitt á síðum sínum í dag. Aldrei að vita nema hér skapist enn meiri umræða á síðunum um aðra valkosti í orkumálum en að leggja hálendið undir vatnsaflsvirkjanir og lón. Við erum komin að þeim punkti að flestar viðbótarvirkjanir munu verða umdeildar og umdeilanlegar. Gufuaflsvirkjanir eru heldur ekki hafnar yfir gagnrýni, og auðvitað yrðu aðrar hugmyndir, hvort sem væru vindmyllur, sólarorka eða vetnislausnir ekkert undanþegnar gagnrýni frekar en aðrir kostir.

Það sem máli skiptir er að festast ekki í einhverjum ramma og þora aldrei að hugsa út fyrir hann. Vindurinn hlýtur að vera áhugaverður til skoðunar í landi þar sem svona mikið blæs en þar með er ég auðvitað ekki að berjast fyrir vindmyllum í Viðey, eins og einn lesandi minn lét sér detta í hug. Í sakleysi mínu hafði mér hins vegar dottið í hug að nýta mætti gömul framræst og ræktuð tún sem hvert af öðru eru að fara í órækt á Suðurlandi, fjarri allri ósnortinni náttúru. Mér rann til rifja þegar ég fór að morgunlagi í bíltúr um Suðurlandið fyrir 1-2 árum hversu mörg gömul tún eru að komast í órækt og einhverjar þessara sléttna þyldu ef til vill vindmylluakra. Hins vegar er ég þeirrar gerðar að mér finnst alltaf að náttúran eigi að nóta vafans og ef svona framkvæmdir særðu auga annarra, t.d. vegna þess að sjónarhornið væri annað, þá legði ég þeim lið. 

Gaman að hafa opnað umræðuna og leitt hana út fyrir þröngan ramma, kannski er þetta valkostur sem einhverjum finnst áhugaverður, kannski ekki. Kannski er þetta raunhæft, kannski ekki. Og kannski finnast staðir hér á landi sem þola þessi mannvirki, kannski verður alltaf einhver til að mótmæla. Við hljótum öll að þurfa að hlusta á rök annarra.  


Bubbi töffari og Stuðmenn með lítið fyndna stæla

Bubbi Morthens var bara hreinlega kóngurinn á tónleikunum sem við vorum að fylgjast með í sjónvarpinu, með tónlistina í botni, þar til Stuðmenn byrjuðu með hljóðgervlastælana sína og tókst að slátra hverju snilldarlaginu á fætur öðru. Arrrggg það hefur einhver (Jakob) orðið vitlaus á tökkunum á hljóðgervlunum og skipað Agli að syngja millirödd í öllum lögunum. Svarti Pétur jaðraði við að vera í lagi, en þvílíkir stælar og ekki fyndnir. Ef þeir voru að reyna stæla Leningrad Cowboys þá var það mjög mislukkað (rússneskt lag og þýsk þýðing á öðru þekktu lagi). Synd að rústa annars frábærum tónleikum, en Bubbi var alla vega æði. Og reifst ekki síður en á góðum Þorláksmessutónleikum. 


Barist við vindmyllur

Á ráðstefnunni sem ég fór á í Helsinki um verslunarmannahelgina var meðal annars fjallað um aðra valkosti en kjarnorku sem orkugjafa. Eins og flestir vita efu Danir framarlega í notkun vindmylla og prófessor við Álaborgarháskóla sem er í fremstu röð á sínu sviði í heiminum talaði m.a. um vindmyllur, sólarorku af ýmsu tagi og fleira. Hér er sólarorka notuð til að hita upp heilu sumarbústaðina en engar vindmyllur (hef að vísu frétt af myllum úti á landi sem hættar eru notkun, held það séu allt vatnsmyllur). Hef spurt nokkra Íslendinga eftir að ég kom heim hvort þeir kannist ekki við mýtuna um að það sé OF hvasst á Íslandi fyrir vindmyllur. Jú, flestir hafa heyrt það. En alla vega ég bara VARÐ að heyra skoðun sérfræðingsins á þessu. Hann fékk flog af hlátri. Sem sagt, ég er gengin í lið með ,,mythbusters" og búin að hrekja eina mýtu nú þegar. Mágkonum mínum leist ekki meira en svo á blikuna vegna þessarar umræðu minnar, þegar ég sagði þeim frá henni, og vildu nú ekki að ég færi að agitera fyrir vindmyllum út um allt Ísland. Mér FINNST reyndar að við eigum að nýta alla orkugjafa en ekki einblína á einn eða tvo, en það er önnur saga. Og alltaf þegar ég ek um flatar sléttur fyrir neðan Landvegamótin þá sé ég fyrir mér að þarna myndi það ekkert skemma að hafa smá vindmylluakur. Aðallega er mín hugsun, vindurinn er svo mikill hjá okkur, þetta er orkugjafi, veltu því alla vega fyrir okkur hvort við ættum að nýta hann. Tek á móti stuðningi og skömmum einmitt hér. Þetta heitir sko að berjast við vindmyllur. (Já, ég hef lesið Don Kíkóta). 

Enn með fríið í blóðinu

Mikið er gott að taka sér smá sumarfrí. Þótt ég sé enn á því að sumarfrí á veturna sé það besta sem hægt er að gera til að stytta veturinn og fækka hálkudögunum, þá er líka hressandi að eiga sér smá frí á fallegu sumri. Ferðin til Svíþjóðar og Finnlands var ljúf og góð og við auðvitað ekkert smá heppin með veður. Riging á undan og eftir en ekkert nema blíðan meðan við vorum þarna. Og sumarið hérna fyrir sunnan hefur líka verið svo fínt og gott. Búin að bæta við myndum og á eflaust eftir að tína nokkrar í viðbót inn í albúmið sem merkt er sumrinu 2007. En hér er svona eitthvað til að ylja sér við:

Nýkomin til Sigga og Cillu í á Svartsö í skerjagarðinum sænska

 

 

 

 

 

 

 

 

Ari Siggi og Cilla fyrir utan húsið þeirra á Svartsö

Flotta Línu langsokks-húsið sem Siggi smiðaði fyrir stelpurnar. Skil ekkert á því hvers vegna Ikea vill ekki fjöldaframleiða það.

 

 

 

 

 

 

 

 

Siggi smíðaði þetta fína Línu Langsokkshús fyrir stelpurnar þeirra

Komið að landi í Suomenlinna eða Sveaborg

 

 

 

 

 

 

 

 

Komið að landi í Sveaborg við Helsinki 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Jón Ásgeir Sigurðsson

Vaknaði í morgun við það að Ari minn sagði mér að Jón Ásgeir væri dáinn. Þótt ég hafi vitað það í tvo mánuði að hverju dró, þá brá mér samt. Líklega ber maður alltaf einhverja von í brjósti um að öðru vísi fari - þvert á allar líkur og skynsemi. 

Við Jón byrjuðum í sömu vikunni á vormánuðum 1980 að vinna sem blaðamenn á Vikunni og unnum þar bæði í meira en 5 ár, hann hætti haustið 1985 og fór til Ameríku þegar Magga hans fór í framhaldsnám og ég hætti um áramótin. Tíminn á Vikunni var lærdómsríkur og skemmtilegur, við vorum hamingjusamur hópur sem skrifaði um allt sem máli skipti (og ekki) undir mildri en markvissri stjórn Sigurðar Hreiðars. Jón var metnaðarfullur blaðamaður, stofnaði snemma á þessu tímabili lítinn blaðamannaklúbb sem hafði það að markmiði að auka fagmennsku í blaðamennsku. Við hittumst nokkrum sinnum í turnheberginu á Hótel Borg og þegar ég lít yfir umræðuna og þá sem Jón valdi til að koma inn á fyrstu fundina þá sé ég margt af því besta sem prýða má blaðamennsku. Hann hafði byggt upp mikla þekkingu og gagnrýninn hug í námi bæði við Freie í Berlín og í Bandaríkjunum. Við á Vikunni vorum svo lánsöm að vera í sambýli við Blaðamannafélagið fyrstu árin okkar Jóns á Vikunni og ég sá margar hugmyndir sem Jón dreymdi um að fá hrint í framkvæmd verða að veruleika, enda gott fólk í forsvari þar. Blaðamannanámskeið í tölvunotkun, íslensku og notkun skoðanakannana sem blaðaefnis eru meðal þess sem ég tel víst að hafi sprottið af umræðu sem hann átti þátt í. 

Á Vikuárunum gat Jón skrifað um allt sem hann vildi, enda var Vikan þá ásamt Nýju lífi eitt fárra blaða á markaðnum fyrir utan dagblöðin. Kannski var Vikan þá allt í senn: Mannlíf, Ísafold, helgarútgáfa dagblaða og gamla góða Vikan. Jón skrifaði snemma (1983 minnir mig) um tölvuvæðingu, sem þá var varla orðin almenn. Hann var svolítið forspár í aprílgabbi sem hann hafði veg og vanda af, um gervihnattadiska á svölum venjulegra íbúðahúsa. Hann skrifaði um golf og skíðaíþróttina, þar þóttumst við greina áhrif Möggu, sem þá var ungur læknanemi frá Ísafirði og nýja ástin í lífi Jóns. Hvort sem um léttmeti var að ræða eða þyngri þjóðfélagsumræðu, þá skrifaði Jón Ásgeir alltaf áhugaverðar greinar. 

Á Ameríkuárunum var ég svo ljónheppin að fá tækifæri til að heimsækja Jón Ásgeir og Möggu til New Haven haustið 1991. Fyrst var ,,brunch" í fallega húsinu þeirra þar og Jón sýndi mér litla stúdíóið undir stiganum þar sem margar góðar fréttaútsendingar frá Bandaríkjunum áttu uppruna sinn. Svo fórum við ásamt fjölda Íslendinga úr nágrenninu í haustlitaferð upp á fjall i nágrenninu. Hann var líka mikið með okkur í New York þessa haustdaga og ég ætla að leyfa mér að skoða allar myndirnar sem ég á úr þessum draumatúr einhvern tíma þegar ögn lengri tími er liðinn frá þessu sorgarfréttum dagsins, ekki strax. 1994 hittumst við síðan aftur í USA þegar ég var á ferð í Washington og hann kynnti mig fyrir þeirri hlið á borginni sem mér finnst minnisstæðust, bókabúðunum góðu og háskólahverfinu Georgetown. 

Eftir að Jón Ásgeir og Magga fluttu heim aftur lágu leiðirnar saman af og til, Jón var að mínu mati réttur maður á réttum stað hjá ríkisútvarpinu, þar sem hann vann bæði að því að byggja upp fagmannlega fréttaskýringarþætti og að málefnum er vörðuðu starfsfólk RUV. Þar sem ég hef alltaf af og til dottið inn í lausamennsku hjá útvarpinu þá rákumst við saman þar, viljandi og óviljandi. Jón las eitthvað fyrir mig í þáttum sem ég gerði og svo var hægt að lauma sér í kaffi eða mat og spjalla. Það eru heldur ekkert svo óskaplega mörg ár síðan við hættum að halda ,,Vikupartí" - gamli, góði hópurinn frá árunum 1980-1985. Og ég upplifði meira að segja alveg nýja hlið á honum fyrir varla meira en hálfu öðru ári þegar hann kom að kosningaráðgjöf fyrir framboð sem mér var mjög kært. Þar var gengið til sigurs.

Minningarnar um Jón Ásgeir eru margar og allar góðar. Svo vill til að Magga hefur verið lífsförunautur hans nánast alla þá tíð sem ég hef þekkt hann og ég veit hvað hann var stoltur af því að eiga þessa hæfileikaríku konu. Börnin öll voru líka stoltið hans, son missti hann ungan, en hann átti þrátt fyrir það miklu barnaláni að fagna. Ég ætla að leyfa mér að minna mig á að Jón Ásgeir átti gott líf þar sem margir draumar hans rættust. Hann var alltaf að læra, bæði í skóla og lífi sínu, alltaf að miðla af þekkingu sinni og reynslu og hann var alltaf góður vinur. 

 


Fjölskyldusamvera

Þeim fer fækkandi dögunum á árinu sem öll fjölskyldan er saman komin, en þessa dagana njótum við þess þó. Hanna fer innan skamms aftur til Ungverjalands, Óli hefur verið á ferð og flugi eins og við og fer fljótlega í heimsókn til Annie frænku sinnar í Ameríku, þá verðum við aftur þrjú í kotinu. Gaman að hafa nokkra daga saman núna fyrir haustið, þótt þeir séu vissulega erilsamir hjá okkur öllum.

Óli eftir góða törn í steypuvinnunni

 

 

 

 

 

 

 

Óli eftir erilsama steypuvinnu á háaloftinu

Hanna í góðum skátahópi á Jamboree í Englandi

 

 

 

 

 

 

 

Hanna á Jamboree á Englandi ásamt vinum 

 


Myndir frá fallegu sumri

Nú er ég að byrja að tína inn smávegis af myndum frá þessu einstaklega fallega sumri, sem vonandi er nóg eftir af. Sólarlag í sumarbústaðnum og svipmyndir frá Helsinki og sænska skerjagarðinum svona til að byrja með og svo kemur meira eftir því sem ég get og nenni.

Logandi himinn við bústaðinn okkar

 

 

 

 

 

 

 

Blíðan í Borgarfirði

Við Sibeliusar-minnismerkið í Helsinki

 

 

 

 

 

 

 

Helsinki er full af ummerkjum um Sibelius

Ari að sigla í sænska skerjagarðinum

 

 

 

 

 

 

 

Á skútunni hans Sigga í skerjagarðinum  

 


Ný skoðanakönnun um utanríkismál Íslendinga

Hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Þessi umræða er þörf og góð. Margt ber þar til, viðræður við önnur lönd, ný ríkisstjórn og ákveðin grundvallarumræða sem er að byrja að eiga sér stað um hlutverk Íslendinga á alþjóðavettvangi. Vona að hún verði góð og málefnaleg. Þess vega skellti ég upp nýrri skoðanakönnun um málið. Þeir sem ekki finna valkost við hæfi verða að nýta athugasemdakerfið.

Af fyrri skoðanakönnun er það að segja að fáir höfðu þörf á að tjá sig um hvort þeir væru sáttir eða ósáttir við úrslit í keppninni um fegursta orð íslenskrar tungu - en flestir sem tjáðu sig voru þó sáttir, lengst af 70-80%.  


Gaman á Skögunum ...

Eftir að hafa vaknað í Borgarfirðinum og rennt beina leið á Reykjanesskagann (næstum, heilsaði upp á Óla minn á Álftanesinu fyrst) til að sækja skátann minn, hana Hönnu, var rennt á Skagann með viðkomu í Mosó þar sem Nína systir bættist í hópinn. Ekkert smá skemmtilegt að fara í afmælið hennar Gurríar eins og venjulega, fá stelpuna sína heim og sannfærast um að Nína væri flutt heim. Margt að gerast hjá öllum, en þó líklega viðburðaríkast hjá Nínu þessa stundina, húsnæðismál og vinnumál í hraðri og spennandi þróun, þótt hún hafi bara verið hér í 4-5 daga. Annars var fyndið að koma í Leifsstöð og ganga í flasið á nokkrum tugum ef ekki hundruðum af bláum skátaskyrtum. Aðeins fjölbreyttari flóra fata á hinum Skaganum hjá Gurrí (sjá bloggið hennar Gurríar, linkur til hliðar), og ég skildi Hönnu vel þegar hún ákvað að losa sig við bláu skátaskyrtuna áður en hún fór í afmælið og fara frekar í ,,borgaralegri föt". Annars hefði hún sem sagt vakið aðeins meiri athygli en hentaði þegar maður er orðinn vel ferðalúinn. Núna hinkrar hún eftir að frétta af seinustu skátunum í sveitinni sinni - seinustu flugvélar ættu að lenda um miðnæturskeið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband