Hlutir gerast hratt í hugbúnaðargeiranum

Núna er ég búin að vinna hjá INNN í um hálft annað ár og ósköp ánægð þar. Þegar ég fór að vinna í hugbúnaðarbransanum fyrir rúmlega sex árum vissi ég vel að þar var hægt að búast við viðburðaríku lífi. Enda reyndist það rétt. Eftir hálft ár var ég farin að fara milli Danmerkur og Íslands tvisvar í viku, viku eftir viku. Mikið að gera og mikið fjör. Svo róaðist í því starfi en ég heyri þó frá gömlu vinnufélögunum mínum að enn eru viðburðir þar á bæ, þrjú að flytja til Spánar á vegum fyrirtækisins um þessar mundir með misstórar fjölskyldur.

En síðan ég byrjaði hjá INNN hafa einnig verið miklar breytingar þótt af öðru tagi séu, nefnilega tvisvar orðið eigendaskipti á þessu eina og hálfa ári. Og núna á föstudaginn var tilkynnt um sameiningu okkar og annars álíka stórs hugbúnaðarhúss, Eskils, sem útheimtir flutninga upp á Lyngháls, einnig aðra flutningana síðan ég byrjaði hjá INNN. Þar með verð ég að vinna við hliðina á Gurrí, sem er gott, og Prentmeti, sem er líka gott (skýri það seinna) en fjær flestum viðskiptavinunum núna en áður, þegar við vorum í Skipholtinu, og þar af leiðandi meiri keyrsla á okkur. Reyni að haga fundum í bænum þannig að þeir falli sem næst tímunum sem ég mun sækja í háskólanum. Stefni á útskrift í febrúar.

Það er ekki hægt að láta sér leiðast í svona vinnu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Það verður dýrlegt að fá þig í hverfið ... hvað eru nú komin mörg ár síðan við vorum í skvassi? Held að ég sé orðin verri en byrjandi núna ... á meðan þú hefur verið í tennis. Hugs, hugs samt!

Guðríður Haraldsdóttir, 21.8.2007 kl. 23:03

2 identicon

Ég kynntist INNN þegar ég var í vinnuhópi vegna vefs HA. Svo fengum við líka heimsókn frá Eskli þegar þeir kynntu okkur sitt vefkerfi. Þetta hlýtur að vera mjög spennandi völlur að vera á  gangi þér vel í þessu flutningastandi. En má ég spyrja: Í hverju ætlarðu að útskrifast og frá hvaða háskóla? (minns er dáldið forvitin svona stundum )

Anna Ólafsdóttir (anno) 21.8.2007 kl. 23:14

3 identicon

Ég er líka forvitin  en á öðrum nótum en nafna þín.  Hvað segir það konu að þrír af starfmönnum hugbúnaðarfyrirtækisins eru að flytja til Spánar: Er fyrirtækið að færa út kvíarnar, er það að flytja lögheimili sitt eða er það að skipta um ríkisborgararétt?

Helga 21.8.2007 kl. 23:59

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Aha, lítill heimur. En varðandi námið: Ég hef verið að reyna að finna tíma til að klára masterinn í tölvunarfræði, á eftir einn kúrs og hluta af lokaverkefni, ætla líka að endurtaka eitt (staðið) próf þar sem ég á mikið inni í því fagi. Þetta hefur tekið eilífðartíma þar sem ég hef unnið allt of mikið með þessu námi og þurfti líka að taka svo rosalega mikið (21 einingu) af forkröfum, af því ég er ,,bara" sagnfræðingur (cand.mag. sem er 60 eininga nám eftir BA-próf og breyttist í mastersnám 1-2 árum eftir að ég kláraði það 1985). 

Og Helga, þessir þrír (eða samtals 8 með fjölskyldum) eru að flytja til Spánar af því Betware fékk loksins samning við spánska lottóið. Þannig að það segir ekki annað en að það gengur bara vel bæði í nýju og gömlu vinnunni. Held samt að þau flytji bara lögheimilið.  

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 00:59

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Eitt enn: Háskólinn minn er HÍ en ég tók einn ógleymanlegan kúrs við háskólann í Lancaster síðastliðinn vetur í efninu sem ég er að skrifa lokaverkefið um, ubiquitous computing. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 01:06

6 identicon

Forvitni mín sneri að því hvort enn eitt fyrirtækið værið farið eða "flúið" úr landi vegna þess að lítil hugbúnaðarfyrirtæki eru mörgum ráðamanninum ekki eins kærkomin og álver og olíuhreinsunarstöðvar.

Helga 22.8.2007 kl. 01:08

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Skil hvað þú meinar, nei, það á alla vega ekki við ennþá um þetta fyrirtæki, þar sem meginstarfsemin er eftir sem áður á Íslandi, en þetta sem þú bendir á er að gerast víða og eins og þú segir (óbeint) er það mikið áhyggjuefni.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 08:31

8 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Verður hún Sigríður ekki örugglega í forsvari fyrir hitt sameinaða fyrirtæki?

Þar fer skelegg og afar klár kona.  Gersamlega upplifun að tala við hana um hvaðeina, jafnvel góð á mótorhjóli.

Sindrandi greindir menn eru skemmtilegir, sérstaklega kven-menn. 

Vonandi verður þetta ykkur til gæfu og framfara.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 22.8.2007 kl. 08:58

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sigrún Guðjónsdóttir er einstök kona og að sjálfsögðu verður hún í forsvari fyrir þessu nýja og eflda fyrirtæki ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 09:22

10 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Skjáplaðist á nafninu.

Rasbögur á lyklaborð eru afar leiðinlegar.

Illter, að þegar búið er að senda inn og menn lesa bullið sitt yfir EFTIR að inn er sent, er öngvu hægt að breyta.

Svona er með huglata menn, þeim verður á.

Afsakið pikkhraða, -án hugsunar.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 22.8.2007 kl. 10:47

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta skildist ljómandi vel og fegin að við erum að tala um sömu manneskjuna ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 10:52

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Skvass, Gurrí, ég held við ættum að gera smá atlögu að því við tækifæri.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.8.2007 kl. 10:53

13 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

kæra anna, þar sem þú er myndlistamaður set ég þetta inn hjá þér !

Kæri bloggvinur ! bara smá að minna á  

"HEIMAR MÆTAST" Fimmtudaginn 23.8 kl 19,00 á íslenskum tíma og 21,00 á dönskum tíma opna Guðsteinn Haukur Barkarson og Steinunn Helga Sigurðardóttir samsýningu á moggabloggi ! Allir eru velkomnir á fyrstu sýningu sinnar tegundar. Við viljum með þessari samsýningu sýna að allt er möguleg bæði hvað varðar sýningarrými og fjarlægðir. Við hvetjum fólk til að setjast niður við tölvuskjáinn með veitingar og taka þátt í þessari ósýnilegu tengingu landa og manna á milli. Listamennirnir eru staddir á heimilum sínum á opnuninni. Sýningin er opin allan sólarhringinn frá fimmtudeginum 23. ágúst til sunnudagsin 26. ágúst.

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 23.8.2007 kl. 15:51

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband