Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Tilfinningaskyldan og sunnudagskvöld á pásu

Þegar mikil vinna, nám og aðrar annir eru að drekkja manni er oft freistandi að setja mannleg samskipti á pásu, hætta að sinna vinum og vandamönnum og nota tímann í annað, það er vinnu, svefn og nám. Stundum er þetta vissulega nauðsynlegt, en í öðrum tilfellum mikill misskilningur.
Fyrir svona tuttugu árum var ég sjálfstætt starfandi (og þar með hjá harðasta húsbónda sem hægt er, aldrei frí) og hafði ósköp lítinn tíma fyrir vini og ættingja. Þá æxlaðist það þannig að vinir mínir fóru að dúkka upp á sunnudagskvöldum og í svona átján ár var það siður að hittast hjá mér á sunnudagskvöldum og skiptast á skoðunum, hlusta á músík og bara að vera til. Þessi siður hefur verið í pásu í rúm tvö ár, sem betur fer fæ ég oft kvartanir, sem bendir til þess að þetta hafi verið góð hugmynd.

Gagga frænka mín, (Gagga Lund) söngkona sem var algert æði, hafði ,,salon" á fimmtudögum, minnir mig, á meðan hún bjó í London og mér skilst að það hafi verið mjög skemmtilegt, þannig að kannski er þessi árátta í blóðinu. Ég man ekki betur en fyrsta veturinn sem ég átti með mig sjálf í Reykjavík og leigði lítið kjallaraherbergi með aðgangi að góðu eldhúsi, hafi ég verið búin að skapa einhvers konar gestakvöldssið áður en margar vikur voru liðnar. Sá siður skapaðist í kringum eggjakökuna sem ég bjó til úr eggjunum sem Hanna frænka mín gaf mér alla fimmtudaga, en þrisvar í viku skrapp ég út á Álftnes til að heimsækja heimilisköttinn meðan foreldrar mínir bjuggu erlendis, og alltaf nestaði Hanna (sem bjó í næsta húsi við köttinn) mig út með kílói af eggjum sem varð uppistaðan að þessum eggjakökuveislum. Eggjakakan var eins konar naglasúpa og alltaf dugði hún handa öllum gestum sem mættu, sem voru mismargir.

Þegar svona siða nýtur ekki við, og tilfinningaskyldan (að sinna því sem tilfinningin segir manni) kallar, þá er síminn þarfasti þjóninn. Ég á eina góða vinkonu sem alltaf passar upp á mig og hringir af og til og við spjölluðum einmitt um helgina. Svo heyrði ég loksins í Gunnu vinkonu fyrir norðan, það var sannarlega kominn tími á það, og tölvusíminn og sms-ið sá til þess að við Hanna mín náðum saman að lokum, milli helgarbíltúra hennar til Rúmenínu, Úkraínu og Slóvakíu, ég hlakka til að heyra restina af ferðasögunni! Við mamma spjöllum reglubundið saman í síma eða ,,live" og gerðum það líka og svo var barnaafmæli hjá Elísabetu systur með frjálsri mætingu og þangað mætti ég rétt í þann mund sem seinasta barnið var farið, enda var erindið miklu heldur að hitta hana, Má og krakkana, en aðra afmælisgesti, þótt það hefði nú reyndar verið gaman að hitta Nönu frænku svona í leiðinni, en maður fórnar ekkert hverju sem er til þess. Þegar maður er vaxinn upp úr barnaafmælum í bili (barnabörnin sem sagt ófædd enn) þá er svo notalegt að neita sér um þau. En allt í allt var þetta góð helgi fyrir tilfinningaskylduna.


Afstætt fylgi

Fyndið að fylgjast með fjölmiðlum þegar kannanirnar streyma inn sem aldrei fyrr. Framsókn að ,,sækja í sig veðrið" þegar möguleikinn á að komast upp í HÁLFT síðasta kosningafylgi er í sjónmáli og VG ,,dalar" niður í tvöfalt fylgi miðað við síðustu kosningar. viðmælendur vita betur og því var Jónína Bjartmars ekkert að hrópa húrra yfir þessum tölum í kosningaþætti í dag en Kolbrún Halldórs var bara kát. Sjálfstæðismenn vara sitt fólk óspart við að trúa hagstæðum fylgistölum og Samfylkingin reynir að fullvissa sína kjósendur um að þeirra fylgi verði meira á kjördag. Merkilegt! Stóra skoðanakönnunin aðeins í þriggja vikna fjarlægð og ég er frekar spennt fyrir þeim degi og finnst bara gaman af öllum þeim sveiflum sem við höfum verið að horfa uppá og staldra ekki við nema þegar ein og ein könnun sýnir eitthvað allt annað en allar hinar. Vantrúaður vinur minn var óspar á að minna mann á að skoðanakannanir sýndu ,,ekkert nema skoðanir þeirra sem spurðir eru á þeirri stundu sem þeir eru spurðir"  en eins og þorri þjóðarinnar bíð ég yfirleitt spennt eftir hverri nýrri könnun, og það er ekki bara af því VG hefur verið í þessari áberandi uppsveiflu. Á meðan ekki er beinlínis verið að reyna að afvegaleiða fólk með fylgiskönnunum held ég að þær geri ekkert nema drepa tímann fram að kosningum. 

Ef ríkisstjórnin héldi velli ...

Getur einhver hugsað þá hugsun til enda, ef ríkisstjórnin héldi nú velli og eftir kosningar yrði allt óbreytt. Framsókn og Sjálfstæðismenn skiptu kannski aðeins öðru vísi með sér verkum, Sjálfstæðismenn hafa jú lýst yfir vilja til að taka við heilbrigðisráðuneytinu og einhverja þarf Framsókn að hafa eftir til að manna nokkrar nefndir, en þetta er möguleiki. Mig grunar að jafnvel sumir Sjálfstæðismenn fái hroll núna, en nái stjórnarflokkarnir meirihluta þá er þetta líklegasta (og leiðinlegasta) niðurstaðan. Leiðinleg=vekur leiða, ekki bara óhressileik, heldur meira í ætti við hryggð í þessu tilfelli. Hugsið! Og kjósið VG til að vera viss. 

Ómissandi fólk (stígur upp úr flensu)

Ég veit að Maggi Eiríks syngur um að kirkjugarðar heimsins fylli ómissandi fólk, en allt í einu í dag fannst mér ég eitthvað svo ómissandi, þrátt fyrir pestina, svo ég skrapp í vinnuna, til að fullvissa mig um að allt væri í lagi. Enginn er ómissandi, en þessi skrepputúr endaði sem fullar átta stundir, þannig að ég kom bara ótrúlega miklu í verk og er í frekar skemmtilegum verkefnum þessa dagana, þar að auki.

Ótrúlegar fréttir, ef Penzínið, sem Ari hefur alltaf viljað kaupa, þótt við séum ekkert krem-fólk, á nú að fara að gagnast við öllu frá fuglaflensu til hversdagslegs kvefs. Klínískar tilraunir munu eflaust taka sinni síma, en miðað við pestakvótann minn þá ætti ég að vera á þriðju seinustu flensunni minni núna, eftir það verður þetta bara penzínið og ég, og hægt að vera enn meira ómissandi, að eigin áliti að minnsta kosti.


Veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir vinningar

Bjarkey Gunnarsdóttir bloggaði um ómótstæðilega vinninga í kosningahappdrætti Vinstri grænna, oft hefur verið boðið vel en aldrei eins og núna. Sjáið þetta: http://www.vg.is/kosningar/happdraetti/ - ég gæti vel hugsað mér nánast alla vinningana, þannig að ég ætla alla vega að fá mér nokkra miða. Hér eru nokkur (allt of fá) dæmi um gersamlega frábæra vinninga, sem eru bæði veglegir, frumlegir, fallegir og frábærir í alla staði:

5. Skák og ...: Kvöldstund við taflborðið með Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Manngangur kenndur, ef þarf. Léttar, hjartastyrkjandi veitingar. 50.000 kr.

11. Að lífið sé skjálfandi ...: Svarfaðardalur sóttur heim í boði Ingibjargar Hjartardóttur og Ragnars Stefánssonar. Kvöldverður að svarfdælskum hætti. Gisting. Fyrir fimm. 75.000 kr.

17. Í upphafi var orðið ...: Hlynur Hallsson spreyjar vel valin slagorð á vegg. 100.000 kr.

19. Fröken Reykjavík ...: Óræðar slóðir miðborgarinnar þræddar með Birnu Þórðardóttur. Hressing á leiðinni og besta lasagne norðan Modena í lokin! Fyrir sex. 60.000 kr. (þetta með lasagne er engin lygi)

23. Helgardvöl fyrir fjölskyldu í gestahúsi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Frjáls afnot af hestum, fiskibáti og öðrum afþreyingarmöguleikum, þar með talinn fjallajeppi. Í boði Steingríms J. Sigfússonar og ábúenda. 75.000 kr.

26. Í sátt við skattmann ...: Drífa Snædal gengur frá skattframtölum fimm einstaklinga. 60.000 kr.

Það er eiginlega alveg nauðsynlegt að fara á síðu VG og skoða allan listann - annars get ég ekki hætt. Smella hér.

 


Hestamennska ... fyrir aðra

Eins og fram hefur komið áður í þessum pistlum þá er ég óvirkur hestamaður, sem felst í því að ég hef gaman af að vera í kringum hesta og hestamenn (í réttu ástandi), get drukkið kaffi, Ari í vetrarleikumbrennivín og tekið í nefið, góð í heyskap, þokkaleg í mokstri (þótt ég sleppi yfirleitt), slarkfær í að kemba, klappa, gef ekki hestabrauð, var á tímabili þokkalega fróð í hestaættum, hef óskaplega gaman af því að ferðast um landið með hestagengjum, geri yfirleitt allt NEMA að fara á hestbak, það er að segja ekki síðan ég hryggbraut mig hérna um árið. Unglingsárin í hestamennsku líða að vísu seint úr minni, þá var þetta bara gaman. En ég er hins vegar gift miklum eðal hestamanni, og á meðan ég skrapp á skautana um daginn þá fór hann og tók þátt í vetrarleikum Sóta. Var að finna flottar myndir á Álftanesvefnum og má til með að birta þessar frábæru myndir. Þarf varla að taka það fram að það er Ari minn sem situr sinn jarpa svona vel.

Ari á jarpa klárnum


Notalegt síðdegi þrátt fyrir Forrest Gump í fertugasta sinn og engar skítkaldar skrúðgöngur

Það er hálf mislukkað að liggja í pest á sumardaginn fyrsta. Fjölskyldumeðlimir eru að horfa á Forrest Gump í fertugasta sinn, en ég er ekkert sérlega hrifin af því, músíkin er samt OK. Var reyndar að frétta það að í bókinni færi Forrest Gump líka út í geiminn, hmm, það verður alltaf að sleppa einhverju í kvikmyndaútgáfunni. En alla vega er maður ekki á rölti í einhverjum skítköldum skrúðgöngum, það eru víst ennþá skrúðgöngur en þær eru vonandi ekki eins skítkaldar og skrúðgöngur æsku minnar. 

Svona löglegir letidagar hafa samt alltaf ákveðinn sjarma. 


Gleðilegt sumar!

Það er svo skrýtið að halda upp á sumardaginn fyrsta í þessu landi okkar, sem aldrei er almennilega búið að ákveða hvernig veðrið verður þennan daginn, vikuna, mánuðinn, misserið eða árið. En gleðilegt sumar og vonandi verður það veðurblítt líka.

Konur, ritskoðun og lífskjör í Íran

Yfirleitt fyllist ég (oft ástæðulausri) tortryggni þegar ég sé að erlendir dagskrárgerðarmenn eru að gera þætti um ástandið í framandi heimshlutum (myndi þó ekki hika við að slást í hóp þeirra ef ég væri í þessum bransa, en það er önnur saga). En ég datt inn í þátt sem mér fannst býsna góður á ríkissjónvarpinu í kvöld. Sem sagt þátt sem enskur dagskrárgerðarmaður gerði um Íran, þar sem hann tók sér fyrir hendur að skrifa grein fyrir tímarit sem höfðar til ungs fólks í Íran, efnisval hans og leiðina til að fá greinina birta, sem minnst fyrirframritskoðaða. Honum tókst að gera þáttinn þannig úr garði að örlög fólksins sem hann fjallaði um urðu síður en svo léttvæg og hann kynnti okkur fyrir fólki af holdi og blóði (og sál) sem manni var síður en svo sama um. Smá brot af starfi fyrrverandi fíkla til að halda sér frá efnunum, brot úr sögu nokkurra kvenna og Einar Bárða þeirra Írana eru minnisstæðir karakterar. Framákona með mannaforráð komst að skemmtilegri niðurstöðu um hvers vegna hún vildi frekar konur í vinnu hjá sér, frekar en karla. Sjáum til, ef hún réð konu þá reddaði hún sé sjálf kaffi, ljósritaði og faxaði fyrir sjálfa sig, en karl í sömu stöðu þyrfti ritara, þernu og símadömu. Ójá, hún sagði það. Svo sá maður að photoshop er notað í fleira en að gera fyrirsætur sléttar og grannar, bannað hár og bert hold (handleggi) má einnig fela. 

Veturinn kveður með óþarfa hvelli

Þessi vetur er að kveðja okkur Íslendinga með óþarfa hvelli, eldur og vatn hafa sagt til sín og spurning hvort jörðin og himininn eiga eftir að blanda sér í málið. Indjánarnir í New Mexico (og eflaust víðar) vitna reyndar frekar til fjóreykisins jarðar, vinds, elds og vatns, sem sagt loftið er vindurinn, sem er svo sem næsti bær við. Við höfum reyndar nóg haft af vindi (foki) og jörð (skriðum) að undanförnu, sbr. Sauðarkrók um daginn og fleiri atburði að undanförnu. Ég held upp á árstíðaskiptin með því að leggjast í pestina sem ég ætlaði ekki að láta hafa af mér þennan seinasta vetrardag, og svo vona ég bara að þessi hálf veikindalegi vetur sé að baki og allt það vesen sem honum hefur fylgt, eftir smá tíma mun ég hvort sem er bara muna þetta skemmtilega sem gerðist í vetur, sumarfríið á Kanarí og Ameríkuferðina, frábær jól og áramót, skautaferð, VG uppsveifluna miklu en þó ekki síst bara þægilegar og notalegar stundir heima með fjölskyldunni. Þetta hefur verið köflóttur vetur en eins og alltaf er minnið þegar farið að grisja þetta leiðinlegra frá og magna upp það besta. Vonandi verður það saman raunin í Reykjavík og á Króknum, Laugarvegurinn hreinn og fínn eftir þvottinn og endurbyggingin norðan og sunnan heiða til fyrirmyndar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband