Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Blessað kjördæmið mitt - VG rokkar enn

Þá eru að koma nýjar skoðanakannanir og enn staðfestist sókn Vinstri grænna, tveir þingmenn inni hjá okkur hér. Ekkert smá glæsilegir fulltrúar sem við eigum, Ögmundur og Guðfríður Lilja, hún verður að haldast inni, ég skora á ykkur! Og það eru konurnar sem stýra þessum breytingum.

Óviðráðanleg þörf fyrir að hrósa borgarstjóra

Heyrði í sjónvarpi áðan frá borgarstjóra (vonandi rétt eftir haft) að hann leggi áherslu á að halda þeirri heildstæðu götumynd sem var á horni Austurstrætis og Lækjargötu þar sem enn brennur. Skil hann svo að hann muni vilja láta endurbyggja húsin í sinni upprunalegu mynd, frá því um 1800. Ég skora á hann að standa við þessi orð með fullri sæmd. Það er hægt að endurbyggja með miklum sóma, t.d. er fallegt dæmi um það í gamla bænum í Varsjá og reyndar miklu víðar.

Sjónvarpsseríur sem enda ekki (Prison Break)

Hef ánetjast tveimur sjónvarpsþáttaröðum, 24 og Prison Break undanfarna vetur (báðar mjög spennandi og önnur alla vega (24) með mjög vafasömu innihaldi en óbærilegri spennu - sem er nóg fyrir mig). Missti af lokaþætti nýjustu seríu Prison Break og þegar ég kom heim áttu eftirfarandi samræður sér stað:

- Hvernig var lokaþáttur Prison Break?

- Þetta var ábyggilega ekki lokaþáttur, hann endaði engan veginn.

- Lokaþátturinn í fyrra var svoleiðis líka, ég ætlaði aldrei að láta hafa mig að fífli aftur.

- Ég veit eiginlega ekki hvernig hann endaði.

Svo fór ég  á netið og fletti upp lokaþættinum og fékk tvær mismunandi útgáfur: Annars vegar að framburður hálfsköllótta, dökkhærða gæjans hefði sýknað Lincoln og Söru og hins vegar að Sara væri komin í verulegan vanda, jafnvel úti um hana. Svo ég hélt áfram að spyrja fjölskylduna:

- Kom fram framburður sem sýknar Lincoln og Söru?

- Hann fær ábyggilega hjartaáfall.

- Bíddu, fékk einhver hjartaáfall?

- Nei, hann fær ábyggilega hjartaáfall í næstu seríu.

- Kom framburðurinn fram eða ekki?

- Hann er búinn að segja þetta en það er ekki komin niðurstaða.

- Hann er ekki búinn að bera vitni (þegar hér er komið sögu ætti að vera ljóst að ekkert okkar man hvað þessi hálfsköllótti, dökkhærði sem reyndi að drekkja Söru í baðkarinu en er núna orðinn góður, heitir).

HJÁLP! 

 

 

 


Vetur án kvefs?

Nú er hafið æðisgengið kapphlaup við veturinn, ég er staðráðin í að láta kvef ekki leggja mig að velli núna í vetur, og núna þegar ég er farin að snýta mér og reyna að láta linsurnar fljóta rétt í uppfullum augunum þarf ég bara að harka af mér í rúman sólarhring í viðbót til að lifa heilan vetur án kvefs! Verðugt verkefni, ekki satt? Yfirleitt hef ég líka verið hraust, ekkert átakanlega kvefsækin miðað við þau ár sem börnin voru á leikskóla og í skóla þar sem þau pikkuðu upp allar pestir. Reyndar smá viðvörun í vetur varðandi heilsuna, en það er allt komið í farveg, þannig að ég get aftur farið að láta kvef fara í taugarnar á mér. Mikil forréttindi meðan það er ekkert alvarlegra. Atsjú! Pinch


Æsispennandi framhaldssaga um vottun á launajafnrétti - 2. kafli

Búin að finna meira um það sem ég heyrði í hádegisfréttum. Fann þetta á síðu 4 í mogganum í dag (pappírsútgáfunni). Sem sagt, fjölmörg fyrirtæki hafa lýst yfir áhuga á tillögum samráðshóps félagsmálaráðherra um vottun á jafnlaunastefnu og fjögur vilja fá svona vottun þegar í stað - bæði opinber og einkafyrirtæki! Þetta verður gæðastimpillinn þeirra. Glæsilegt. Mér finnast þetta vera stórfréttir! Félagsmálaráðherra var að kynna málið í gær ásamt fólki frá Háskólunum í Reykjavík og á Bifröst. 

Þá þarf bara að ráðast að launaleyndinni, sjá kafla 3. í þessari æsispennandi framhaldssögu. Ég vona að hann verði birtur sem allra fyrst. VG eru líklegastir til að gera eitthvað í því máli og ég held að stór hluti Samfylkingarinnar eigi samleið með okkur hvað það varðar, vona alla vega að hægri armurinn hjá þeim sé ekki of stór, nei é g hef tröllatrú á þetta gæti gerst á næstu árum komist réttir flokkar til valda. 

 


Uppsveiflan á Suðurlandi og ástæður skiptingar

Nú eru kjördæmin að tínast inn í sundurliðuðum könnunum. Ítarleg könnun í Suðurlandskjördæmi sýndi hvar fylgisaukningin lá, og hún var að vanda mest hjá Vinstri grænum. Mér fannst sérstaklega vænt um að heyra skýringu einstaklings á Höfn í Hornafirði sem var spurður hvers vegna Vinstri græn hefðu svona mikið fylgi í austaverður Suðulandskjördæmi sem raun ber vitni. Ætli það sé ekki af því við höfum svo fallega náttúru hérna og kunnum svo vel að meta hana, eitthvað á þá leiðina var svarið. Næstum feimnislegt, en bara svo falleg skýring og ég er alveg til í að kaupa hana. 

Vottun um launajafnrétti hjá fyrirtækjum?

Rétt náði í skottið á frétt um vottun á launajafnrétti hjá fyrirtækjum og finnst þetta bara sniðug hugmynd, hafi ég skilið hana rétt. Hlakka til að heyra meira, sé ennþá ekkert um þetta á vefnum.

Stattu við þetta Bjarni!

Ein athyglisverðasta yfirlýsing helgarinnar kom frá bankastjóra, Bjarna Ármannssyni, þess efnis að hann væri jákvæður fyrir því að aflétta launaleynd. Nú hefur hann þokkaleg mannaforráð svo ég vona bara að hann stígi næsta skref og geri þetta á hinum stóra vinnustað sem hann stendur fyrir. Áhrif þeirrar aðgerðar yrði að mínu mati alveg gríðarleg. Ekki sársaukalaus, en áhrifarík. Vissulega munu menn koma og segja, þá fer bara launamisréttið niður fyrir borðið, með alls konar sporslum sem aðeins kæmu til karla. Ekki hafa áhyggjur, sporslurnar eru þarna nú þegar og reyndar held ég að afnám launaleyndar gæti alveg náð til þeirra líka. Flott sagt og enn glæsilegra ef þetta verður gert. 

Elska landið, verra með veðrið

Fórum aðeins upp í Borgarfjörð um helgina og gat ekki hætt að dást að fegurð landsins og náttúrunnar. Hins vegar hefur ástar/haturssamband mitt við veðrið ekkert skánað, aðallega nettur fjandskapur við kulda, trekk, rok, slyddu og hálku. Mér er ekki illa við snjó ef það er ekki of mikið rok og kuldi og ég elska 25 stiga hita á Þingvöllum eða Borgarfirði, sem ég hef oft upplifað einkum í ágústbyrjun. Rok og rigning getur meira að segja verið í lagi ef hlýtt er í veðri, en því miður er ekki of mikið um slíkt. 

Nú er að vanda alveg ágætis kuldaspá fyrir ,,sumardaginn fyrsta" sem er auðvitað geggjað fyrirbæri, og ekki er síðri þjóðtrúin um að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman (!). Þetta er auðvitað með merkilegri markaðssetningarfrösum Íslandssögunnar. Hver fann þetta eiginlega upp?

En svo koma svona fallegir dagar eins og sunnudagurinn og út um bíl- og sumarbústaðarglugga og maður gleymir öllu. Við erum æði rík af orðum sem lýsa ekki bara veðri heldur líka samfélagsástandi, gluggaveður, grjótfok og uppáhaldið mitt: Skrifstofufárviðri, sem á við þessa örfáu virkilega góðu sumardaga sem við fáum.

Þessi hugleiðing sem hömruð inn á tölvuna í tilefni sumarkomunnar og fallega sunnudagsins sem er nýliðinn og ég vona að Ari segi ekki eins og hann sagði um árið: Vona að þetta verði snjólétt sumar, því það var einmitt árið sem Jónsmessuhretið kom og nágrannar okkar urðu veðurtepptir í tjaldi í Víkurskarði og komust ekki til byggða á sumardekkjunum, sama árið og tengdapabbi lýsti hestaferð um Kaldadal þannig að allir hefðu hallað sér fram í vindinn eins og þeir væru á mótorhjólum og enginn hefði komist af baki (nema kannski einu sinni) vegna veðurs þótt þeir þyrftu að létta af sér. Og þetta sumar tók Gunna vinkona fyrir norðan myndir af fénu sínu vaðandi snjó upp á kvið, sem betur fór voru lömbin orðin meira en mánaðargömul.

Í einhverjum annál sagði eitthvað á þessa leið: Þetta ár kom sumarið ekki. Og þegar maður les slíkt skammast maður sín auðvitað fyrir nöldrið, ég vildi ekki búa í torfbæ (þeir geta orðið furðu kaldir) eða vera háð því að rölta út til að gefa skepnum án góðra og hlýrra vetrarklæða, eins og mig grunar að formæður okkar og -feður hafi þurft að gera. En það er heldur ekki gott að gera illt verra með því að ógna því bláþráðarjafnvægi sem veðrátta heimsins er nú þegar í. Þannig að í guðanna bænum, við verðum að hætta að taka frekari sjens á veðráttunni, ef við ætlum að geta notið náttúrunnar öðru vísi en út um gluggann. Þess vegna er svo nauðsynlegt að vera hæfilega grænn og ekki of hrifinn af vondu veðri. Hvernig sem veðrið mun þróast með auknum áhrifum gróðurhúsaloftslagsins þá er eitt alla vega víst, það skánar ekki. Danirnir sem klæddust havaískyrtum og fóru í gríngöngu hér um árið og spreyjuðu úr úðabrúsum til að heimta aukinn hita með gróðurhúsaveðráttunni vour bara að djóka! og þeir vissu það.


Sprungið á þriðja hjólinu

Grunar að ég hafi verið frekar jákvæð gagnvart Íslandshreyfingunni. Tek það til baka, því mér líst bara ekkert á það sem kemur frá hreyfingunni, því miður. Hafði alltaf séð hana fyrir mér sem þriðja hjólið undir vagninum í góðri stjórn, en bæði fylgið og sumar athugasemdirnar sem hafa komið frá þessu herbúðum hafa gert mig alveg afhuga þeirri hugmynd. Skil ekki alveg hvað hefur gerst, eða kannski var ég bara svona græn ;-) 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband