Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Er eitthvað að fara að gerast í framtíðarlausnum?

Þessi litla frétt um brauristar á rafknúnum segulbrautum eru smá vísbending um að verið sé að finna lausnir sem eru ekki bundnar við þennan litla, venjulega, kassa sem þankagangur um lausnir í umferðarmálum er yfirleitt bundinn við. Hver veit nema einhvers staðar leynist lausn sem hentar lítilli borg með fullkominn flugvöll í 50 km fjarlægð sem gjarnan vill losa byggingarland undan innanlandsflugvelli án þess að rústa innanlandsflugið? Lausnin þarf að felast í ódýrum, öruggum og hraðskreiðum faratækjum sem taka lítið land undir umferðarmannvirki. Draumurinn væri auðvitað að hægt væri að leigja sér svona brauðrist fyrir sig, fjölskylduna og farangurinn og renna sér eftir ísi lögðum (öruggum) segulbrautum til Keflavíkur. Mér dettur ísinn í hug af því þar væri hægt að ná hraða og nýta sér hálkuna sem hvort sem er angrar alla vegi ótrúlegan stóran hluta ársins. Allar heiðarlegar framtíðarmyndir (nema þessar bölsýnu sem virðast vera í meirihluta) hafa boðið upp á miklu fullkomnari tækni en þá sem við nú búum við. Lýsi eftir fleiri hugmyndum því allt hefst jú á hugmyndum og það þarf ekki nema ein af þúsund að vera raunsæ til að hægt sé að komast áfram á þróunarbrautinni.
mbl.is Á flugvöllinn í fjarstýrðu hylki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forðist pestina og saga af tveimur miðbæjum, grænum og gráum

Þá er það ljóst, pestinni tókst að hafa af mér annað prófið, sem ég þarf þá að taka í janúar. Ekki alveg það sem ég hafði ætlað mér, en úr því sem komið er var það svo sem orðið nokkuð ljóst. Þannig að ég bendi ykkur hinum bara á að vara ykkur á pestinni sem gengur. Trúði því svona mátulega á laugardaginn þegar mér var sagt að fólk væri upp í 14 daga að losna við hana. Trúi því betur núna og finnst frekar lélegt. En alla vega þá fór ég til heimilislæknisins í dag og veit að ég er að gera allt rétt, eftir því sem það er hægt.

Tveir miðbæir eru mér ofarlega í huga núna, sá nýi sem á að fara að byggja hér á Álftanesi, lágreist byggð og grænn miðbær og svo því sem mér sýnist enn og aftur vera að gerast í Reykjavík (ef ekki verður gripið í taumana, leyfi mér að binda vonir við nýja meirihlutann) að það eigi að gera enn eina atlöguna að lágreistu byggðinni þar og þeim sjarma sem Laugavegurinn hefur yfir sér, og reyna að gera hann gráan og háan í staðinn. Þar sem ég er fædd og uppalin til fimm ára aldurs í miðbænum í Reykjavík, þannig að ég lærði þessi orð í réttri röð: Mamma, pabbi og Víííssssiiiiirrr! þá hef ég alltaf taugar til gamla miðbæjarins okkar allra, Íslendinga. Reykjavík er nefnilega höfuðborg okkar allra og eins gott að hún fái að halda sjarma sínum. Þrátt fyrir óhóflegan svefn í þessari pest, þá náði ég brotum úr kvöldfréttum þar sem Íslendingur búsettur í Barcelona er kominn í baráttuna gegn niðurrifi gamalla húsa í Reykjavík. Fór í fyrsta sinn til Barcelona nú í haust og það er borg sem hefur gert mikið úr sínum menningartúrisma, einmitt út á gömul hús. Enginn sálarlaus miðbær þar. 


One með Johnny Cash

Johnny Cash léttir ýmsum lífið og ég á mér ákveðið uppáhaldslag með honum sem hélt mér í góðum gír í próflestrinum (ásamt ýmsu öðru) áður en pestin lagði mig að velli. Leyfi fleirum að njóta, en ekki vænta mikilla tilþrifa myndrænt séð:

 



Kostur að þekkja U2 útgáfuna til samanburðar.

Ótímabært en yndislegt útivistarleyfi

Gaf sjálfri mér ótímabært en yndislegt útivistarleyfi frá pestinni (aðallega) og próflestrinum, sem hefur verið í skötulíki vegna fyrri ástæðunnar. Hafði samt góða ástæðu, verið að skíra litlu, fallegu tvíburana hennar Guðrúnar bróðurdóttur minnar. Svo var ekki seinna vænna að hitta á Nínu systur, sem verður í Ameríku hjá dætrum sínum um jólin, svo ég vildi nú helst sjá framan í hana áður en hún færi. Það er að renna upp fyrir mér það ljós að það er ekki einu sinni víst að ég verði orðin frísk á þriðjudag þegar prófið verður. Ég hélt kannski að ef ég gerði allt sem ég gæti til að losna við pestina þá tæki það viku, en annars sjö daga, en eftir að hafa heyrt læknana tvo, Guðrúnu og Margréti mágkonu hennar, segja frá sinni reynslu af haustpestunum þá er ég ögn efins. Þetta kemur allt í ljós. Alla vega sofnaði ég strax eftir skírnina og hef verið meira og minna dormandi síðan, þannig að morguninn kom allt of snemma þennan daginn. Búin að taka til stærðfræðiblöð til að lesa, og á eftir að finna út hvort ég muni vakna eða sofna yfir þeim.

Skírnin var skemmtileg, ótrúlega afslöppuð og alveg til fyrirmyndar í þeim efnum. Fullt af fólki sem er mislangt síðan ég hitti seinast og ósköp notalegt að hitta. Systkini mín og krakkarnir þeirra eru alveg frábær öll, Kjartan systursonur minn spilaði á klarinett við athöfnina til dæmis! Svo er alltaf svo gaman að sjá hana Jóhönnu fyrrverandi mágkonu mína og hennar fólk, hitti þau allt of sjaldan, en alltaf jafn gaman þegar það gerist. 


Dagurinn þegar ekkert fór eftir áætlun

Í fyrsta lagi var ég búin að ákveða að vakna pestarlaus, sbr. næstu bloggfærslu á undan. Ekki gekk það nú eftir, lítið skárri en í gær. Í öðru lagi þá áttum við von á dótturinni frá Ungverjalandi um hálf fjögur eftir langa og stranga ferð. Þess í stað er hún að lenda núna eftir tæpan hálftíma, rúmlega ellefu stundum á eftir áætlun, og bara hundaheppni að hún skuli yfir höfuð komast tímanlega, því það er skírn í fjölskyldunni á morgun. Í þriðja lagi ætlaði ég að vinna upp lestartap síðustu daga með því að vera rosalega dugleg núna, það gengur varla eftir, þessi pest gerir mig ekkert gáfaða.

Samt er þetta bara fínn dagur, í góðum félagsskap fjölskyldunnar. Síminn og bloggið hafa haldið okkur í sambandi við þreytta ferðalanginn okkar, lestarhesturinn í fjölskyldunni (sonurinn, ekki ég) hefur verið að lesa heima hjá ömmu sinni og svo höfum við dormað og horft á heilalaust sjónvarpsefni, og líka Útsvar, sem er ekki heilalaust. Vonandi að maður fari að komast í almennilegt upplestrarstuð, það er ekki eins og ég hafi ekki reynt ... 


Í fyrramálið ætla ég að vera laus við pestina

Svolítið illgjörn pest (eru þær það ekki allar?). Samt grunar mig, eftir viðbótar engifer-tedrykkju, að á morgun vakni ég og verði orðin ótrúlega hress! Þá sjaldan að pestar finna mig þá eru þær leiðinlegar og niðurdrepandi, en einn morguninn vakna ég og finn að nú er þessi búin, og það er alltaf smá endurfæðing.

Er samt orðin fær um að hlusta og horfa jafnvel á fjölmiðla, eftir hálf máttlausa atlögu að Grey's Anatomy í gærkvöldi hélt ég að ég væri heillum horfin, og mér finnst mál sem-bloggarans sem bloggaði um meðferð bandarískra vegabréfaskoðara á sér, frekar óhugnanlegt. Hvernig ætli manni liði í sömu sporum? Ábyggilega ekki vel. En hún hefur tekið skynsamlega á þessu leiðindamáli og ég heyri ekki betur en Ingibjörg Sólrún standi sig vel í því líka.

Komst ekki í það fyrr en í gærkvöldi að ljúka tveimur vinnutengdum verkefnum, búin að því núna og stórlega létt. Þetta eru mál sem ég ætlaði að klára í fyrrakvöld, en svona er það þegar pestir herja. Í dag hef ég flokkað og prentað út efni fyrir næsta próf og raðað snyrtilega í möppu. Samkvæmt lestraráætlun á ég að vera búin að lesa glósur kennarans áður en dagur líður. Önnur atriði sem krefjast meira úthalds og uppisetu færði ég yfir á næstu daga. Farin að hlakka til jólanna þegar fjölskyldan nær saman, þetta er allt að koma. 


Pest, próf og frábærar fréttir af RRR

Hef verið heldur framlág seinustu þrjá dagana, vegna kvefpestar með hálsbólgu, beinverkjum og öllum fylgihlutum. Tókst þó að koma mér í próf í skelfinum mikla RRR, sem er erfiðasta fagið sem ég hef þurft að glíma við á minni skólagöngu, sem er þó æði fjölbreytt og skrautleg. Þótt ég væri heldur framlág í prófinu, þá fannst mér svona í aðra röndina að ég ætti að hafa náð því, en hinn möguleikinn var auðvitað að ég hefði misskilið nánast hverja einustu spurningu. Elísabet systir orðaði þetta mjög snyrtilega fyrir mig: Já, þú ert sem sagt örugg um að fá einkunn einhvers staðar á bilinu 2-8! Já, það var einmitt tilfinningin. Mitt á milli lá einkunnin sem ég þurfti að fá til að ná. Og ekki er að spyrja að kennaranum okkar, hann var búinn að fara yfir prófin seinni partinn í dag og ég náði, meira að segja ögn skár en ég átti von á. Jibbí, nú er hún gamla RRR-Grýla dauð! Ég hef verið dauðskelfd við þetta fag frá því ég fyrst heyrði um það, enda alltaf talsvert fall í greininni. Hins vegar er kennarinn alveg afbragðsgóður og það hefur sannarlega hjálpað.

Þá er að leggja í próflestur í næsta prófi, sem er léttara, en þarf þarf ég að ná hærri einkunn. Á raunar staðna einkunn í því fagi en þarf að bæta mig talsvert. Ég hef líka sinnt RRR betur í vetur en þessu fagi, enda meira í húfi. Og stóri sigurinn er í höfn. Nú þarf ég bara að finna út hvernig ég les fyrir próf með bullandi pest, eitt praktískt atriði er að byrja á að lesa vikublöð kennarans, sem eru mjög ítarleg, því þau fara betur í rúmi en þriggja kílóa kvartfermetra bækur. Svo skríð ég upp úr þessari pest eins og þeim fyrri, held samt að þetta sé fyrsta pestin sem hrellir mig á þessu ár, og ekki nema eðlilegt að hún komi á próftíma, þá er álagið mikið og varnirnar kannski aðeins rýrari en annars.  


Jóhanna lofar björgun Foreldrahúss! Húrra!

Mér fannst flottust þessi setning í viðtali Sjónvarpsins þegar Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra lofaði að Foreldrahúsinu yrði bjargað. Þegar hún var spurð hvort það væri hægt að bjarga því fyrir áramót, þegar Vímulaus æska missir húsnæði Foreldrahússins, hvort tíminn væri ekki of stuttur, þá svaraði hún: Við látum hann duga!

Þetta var flott umfjöllun í Sjónvarpinu og dásamlegt loforð félagsmálaráðherra og hún er nú yfirleitt þekkt fyrir það að standa við það sem hún lofar. Viðmælendur Sjónvarpsins í gær eiga líka heiður skilinn fyrir öflugan málflutning og allir sem leggja þessari baráttu lið. Það er ekki hægt að spara þegar líf og vellíðan fjölskyldna í vanda er í húfi. 


Foreldrahúsið á leiðinni á götuna - björgum magnaðri starfsemi Vímulausrar æsku!

Nú er Foreldrahúsið á leiðinni á götuna, það er bráðnauðsynlegt að bjarga starfsemi Vímulausrar æsku. Fyrsta frétt í sjónvarpsfréttunum í kvöld hefur vonandi ýtt við fólki og hvatt til að bjarga þessum 10-12 milljónum sem til þarf svo hægt sé að leigja nýtt húsnæði í staðinn fyrir það sem samtökin eru að missa. Það má ekki láta þetta gerast, við hljótum að vera þjóð sem hefur efni á að styrkja samtök sem hafa lagt ómælt til samfélagsins og tekið við mörgum þeim málefnum sem minnstan áhuga og stuðning hafa fengið. Þrátt fyrir fregnir um góðan árangur í vímuvörnum (sem allir vilja heyra um) eru eftir sem áður margar fjölskyldur sem líða kvöl vegna fíklanna sinna, yngri systkini sem þurfa öflugan stuðning og uppbyggingu, foreldrar sem þurfa að hafa stað til að leita til þegar ástandið er óbærilegt og fíklarnir sem koma út í samfélagið á nýjan leik, en fá lítinn félagslegan stuðning, nema hjá Vímlausri æsku í Foreldrahúsinu.

Ekkert feimnismál

Gott að það skuli ekki vera feimnismál í samfélaginu okkar að viðurkenna að fleira sé til en augað sér. Það hefði verið gaman að lenda í úttakinu og sjá hverjar spurningarnar voru, en vonandi kemur það fram í pappírsmogganum mínum. Þekki stálheiðarlegt fólk sem hefur lent í vandræðum út af skyggni, til dæmis sagst hafa mætt fólki á götu, sem síðan reyndist dáið, þannig að ég efast ekki, þótt ég eigi enga persónulega reynslu af því tagi, nema kannski af því ég er afspyrnu ómannglögg. Því miður eru til samfélög sem dæma allt yfirskilvilegt sem villutrú, oft í nafni ofurkristni, og það hlýtur að vera erfitt að hafa einhvern hæfileika af þessu tagi í slíkum samfélögum.

Býst þó við að ég hefði komist á blað í svona rannsókn, ef ég hefði lent í úttaki, útá hagnýta notkun hugskeyta, sem meðal annars urðu til þess að húsbóndi minn í sveitinni byrjaði allnokkrar setningar sínar á eftirfarandi orðum: Ég ætlaði nú að senda ykkur í kartöflugarðinn [úti bylur regnið á gluggunum] en í staðinn ætla ég að senda ykkur upp á þurrkloft/niður í kjallara/út í hænsnahús .... En kannski var það Dúna vinkona mín sem var svona máttug í hugskeytunum, við sendum okkar skeyti venjulega saman og ég man reyndar fleiri og magnaðri tilvik, en látum þetta duga.

 

 


mbl.is Trú á dulræn fyrirbæri liggur djúpt í þjóðarsálinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband