Ótímabært en yndislegt útivistarleyfi

Gaf sjálfri mér ótímabært en yndislegt útivistarleyfi frá pestinni (aðallega) og próflestrinum, sem hefur verið í skötulíki vegna fyrri ástæðunnar. Hafði samt góða ástæðu, verið að skíra litlu, fallegu tvíburana hennar Guðrúnar bróðurdóttur minnar. Svo var ekki seinna vænna að hitta á Nínu systur, sem verður í Ameríku hjá dætrum sínum um jólin, svo ég vildi nú helst sjá framan í hana áður en hún færi. Það er að renna upp fyrir mér það ljós að það er ekki einu sinni víst að ég verði orðin frísk á þriðjudag þegar prófið verður. Ég hélt kannski að ef ég gerði allt sem ég gæti til að losna við pestina þá tæki það viku, en annars sjö daga, en eftir að hafa heyrt læknana tvo, Guðrúnu og Margréti mágkonu hennar, segja frá sinni reynslu af haustpestunum þá er ég ögn efins. Þetta kemur allt í ljós. Alla vega sofnaði ég strax eftir skírnina og hef verið meira og minna dormandi síðan, þannig að morguninn kom allt of snemma þennan daginn. Búin að taka til stærðfræðiblöð til að lesa, og á eftir að finna út hvort ég muni vakna eða sofna yfir þeim.

Skírnin var skemmtileg, ótrúlega afslöppuð og alveg til fyrirmyndar í þeim efnum. Fullt af fólki sem er mislangt síðan ég hitti seinast og ósköp notalegt að hitta. Systkini mín og krakkarnir þeirra eru alveg frábær öll, Kjartan systursonur minn spilaði á klarinett við athöfnina til dæmis! Svo er alltaf svo gaman að sjá hana Jóhönnu fyrrverandi mágkonu mína og hennar fólk, hitti þau allt of sjaldan, en alltaf jafn gaman þegar það gerist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með skírn, en hvaða nöfn fengu börnin svo? Gangi þér vel í prófinu og vonandi rjátlast pestin af þér áður. Eldri mín er í prófum í HÍ og kemur svo hingað norður þegar það síðasta klárast. Þá verður hátíð í bæ - eins og hjá þér eftir þitt 

Anna Ólafsdóttir (anno) 16.12.2007 kl. 13:20

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Aðferðin við nafnavalið var mjög skemmtilegt, útprentun úr Íslendingabók og síðan valin og raðað saman þeim nöfnun úr fjölskyldunni sem foreldrunum fundust falleg. Börnin heita Emil Sölvi og Elín María. Emil er danskur langafi okkar, apótekari á Jótlandi (!) þannig að það er hlutinn sem við eigum sérstaklega ;-) - sammála að það er gaman að fá krakkana sína heim um jólin, skil vel að þú hlakkir til, nafna. Ef ég næ ekki að hrista pestina af mér fyrir próf þá eru sjúkraprófin í janúar í verkfræðideildinni, blótaði því mikið í fyrra en sé ekkert nema kosti við það núna, ef til þess kemur.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.12.2007 kl. 16:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband